24.04.1984
Sameinað þing: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4812 í B-deild Alþingistíðinda. (4233)

309. mál, vaxtakjör viðskiptabankanna

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Það er greinilegt að hæstv. viðskrh. leggur fulla blessun sína yfir þetta kapphlaup, sem Seðlabankinn hefur í raun og veru stofnað til með vaxtaauglýsingu sinni frá því í janúar í vetur, og gerði það í fullu samráði við hæstv. ríkisstj. að því er hæstv. viðskrh. upplýsti. Ég vara hins vegar við þeirri bjartsýni að hér verði um það að ræða að nýtt sparifé myndist hjá bönkunum. Ég held að breytingin sé aðallega í því fólgin að menn breyta um innlánsform og færa það fé sem þegar er í bönkunum og ekki er bundið inn á þessa hagstæðu vexti. Ég hef því ekki trú á að útlánageta bankanna aukist að sama skapi eftir því sem líður á árið, allra síst í ljósi þeirrar afkomu sem almennt er hjá fólki í landinu.

Í ljósi yfirlýsingar seðlabankastjóra og samþykkis hæstv. viðskrh. við þá stefnu að útlánsvextir verði ekki hækkaðir verður sannarlega gaman að sjá afkomutölur bankanna um næstu áramót. Það verður sannarlega skemmtilegt að sjá þær afkomutölur, a. m. k. hjá þeim sem ekki hafa sýnt þær of góðar til þessa. Miðað við þessa yfirlýsingu verður það býsna mikill fróðleikur sem menn komast þá að. Þá hugsa ég að bankarnir þurfi ekki einu sinni að nota þær löglegu reikningskúnstir sem þeir nota í dag til að fela gróða sinn sér í lagi vegna þess að ríkisstj. verður þá sennilega komin langleiðina að afnema skattskyldu þeirra í þokkabót.