24.04.1984
Sameinað þing: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4813 í B-deild Alþingistíðinda. (4235)

312. mál, lækkun húshitunarkostnaðar

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 618 hefur hv. 8. þm. Reykv. borið fram nokkrar spurningar til mín um þyrlukaup til landhelgisgæslu og björgunarstarfa. Eins og hv. þm. er kunnugt hefur ríkisstj. nú tekið jákvæða afstöðu til tillögu sem ég flutti um að þyrlur skyldu keyptar en hins vegar talið eðlilegt að skoða betur þessi mál áður en þau kaup verða afráðin og þá m. a. þau atriði sem hv. fyrirspyrjandi minntist á. Það lá ljóst fyrir þegar farið var að ræða um þyrlukaup að afgreiðslufrestur á þyrlum er nokkuð langur en hins vegar eru möguleikar á að fá leigðar þyrlur með miklu styttri fyrirvara. Ég lagði því áherslu á að reynt yrði að gera slíkt sem fyrst. Á það hefur ríkisstj. nú fallist og Landhelgisgæslunni verið heimilað að leita eftir leigu á þyrlu þar sem það er hagkvæmast og heppilegast. Vonast ég til þess að niðurstaða í því fáist fljótlega.

Um samráð við Alþingi vil ég geta þess að Alþingi kaus fyrir nokkru nefnd til þess að fjalla um málefni Landhelgisgæslunnar og því var talið eðlilegt að sú nefnd fengi þetta mál til skoðunar. Það var til hennar sent og frá henni bárust umsagnir um málið og tillögur um að tekin yrði ákvörðun um kaup eða útvegun á þyrlu sem fyrst.

Það hefur áður komið fram að flugrekstur á vegum ríkisins er í athugun og spurning um flugvéla- og þyrlukost til gæslu- og björgunarstarfa tengist vitanlega þeirri athugun. Á meðan niðurstöður í því liggja ekki fyrir er ekki hægt að fullyrða hvort keyptar verða ein eða tvær þyrlur.

Áskoranir ýmsar hafa borist dómsmrn. um að útvega sem fyrst þyrlur til þessara starfa og ég hygg að mjög margar þeirra hafi birst opinberlega í fjölmiðlum enda eru þær ekkert leyndarmál. Því held ég að óhætt sé að segja að ekki þurfi neitt að spyrjast fyrir um slíkt.

Samstarfshópur um undirbúning að þyrlukaupunum mun hafa rætt við mjög marga aðila og aflað upplýsinga víða að. Ég hef ekki óskað eftir sérstökum lista um það en ég hygg að leitað hafi verið upplýsinga um starfsemi Björgunarsveitar varnarliðsins í þeim málum.

Um fjórðu spurninguna, hvaða skýringu ég get gefið á þeirri frétt sem birtist í erlendu blaði, verð ég að viðurkenna að mér er ekki kunnugt um það hvernig fréttamenn eða blaðamenn afla sér sinna upplýsinga. Við höfum svo mörg dæmi um það að bæði í innlendum og erlendum fjölmiðlum birtist atriði sem ekki hafa verið ætluð til birtingar.

En ég vil að lokum ítreka það að ég lagði áherslu á að sem fyrst yrði fengin þyrla til afnota fyrir Landhelgisgæsluna. Ég vænti þess að það takist áður en langt um líður með því að leita eftir leigu á henni og síðan verði kaupin endanlega afráðin að fenginni reynslu og eftir nánari athugun.