24.04.1984
Sameinað þing: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4815 í B-deild Alþingistíðinda. (4237)

312. mál, lækkun húshitunarkostnaðar

Fyrirspyrjandi (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Það er víst til siðs að þakka hæstv. ráðh. fyrir veitt svör hvernig svo sem þau hafa verið. Af öllum loðnum svörum held ég að við höfum sjaldan heyrt þau loðnari en í þetta sinn. Nákvæmlega ekkert var í raun og veru á því að græða sem hæstv. ráðh. sagði. Tel ég mjög vítavert að koma sér með þessum hætti undan þeirri ótvíræðu upplýsingaskyldu sem á ráðh. hvílir. Það er ekki nóg með það að ekki sé svarað, heldur er einnig snúið út úr því sem svara á.

Um fyrsta lið spurningarinnar, hvort Alþingi verði kynnt hvernig valinu verður háttað, erum við nú upplýstir. Nefndin var spurð: Á að kaupa þyrlu eða ekki, já eða nei? Enginn þarf að ganga lengi að því gruflandi hvernig svarið hlaut að verða. Menn eru mjög jákvæðir, það hefur verið fengin jákvæð afstaða til till. um að þyrlur skuli keyptar, hvað sem það svo þýðir. Mér skilst af svari ráðh. að Landhelgisgæslan hafi fengið leyfi til að leigja þyrlur. Og þá er manni náttúrlega spurn: Hvers vegna í ósköpunum var það ekki gert strax, úr því að það var vitað löngu fyrir fram að það tæki langan tíma að afhenda þyrlurnar, og síðan með einhverjum hætti undirbúin betur þau kaup sem hugsanlega kynnu að verða ákveðin, eða þannig sko, heyrðist mér hæstv. ráðh. vera að reyna að svara.

Um annan lið þessarar spurningar: Verða Alþingi kynntar umsagnir slysavarnafétags Íslands, Flugbjörgunarsveitarinnar, Hjálparsveitar skáta, þ. e. þeirra stofnana sem hér starfa að björgunarmálum auk Landhelgisgæslunnar, var ekkert sagt annað en það að birst hefðu áskoranir í blöðum undanfarið. Og hvers vegna er þetta svar svohljóðandi? Það er auðvitað vegna þess að aldrei hefur verið leitað umsagna þessara aðila. Enginn þessara aðila hefur haft umsögn um þetta mál. Og manni er þá næst að spyrja: Hvernig í ósköpunum ætla menn að taka þessa ákvörðun svona gersamlega yfir höfuðið á öllum þeim aðilum sem hér starfa, bæði sjálfboðaliðar og aðrir að björgunarstörfum, á ekki að ætla þeim einu sinni þann rétt að hafa umsögn um verkefni þessarar þyrlu sem öðrum þræði á að sinna björgunarstörfum?

Hæstv. dómsmrh. reyndi að gera lítið úr þeirri frétt sem ég nefndi hér í blaðinu Flight International frá 10. febrúar s. l. Ég hefði svo sem alveg eins getað tekið undir það ef hér hefði verið um frétt í einhverju íslensku dagblaði að ræða, en Flight International er mjög virt og útbreitt tímarit og yfirleitt ekki þekkt að því að fara með fleipur, þannig að þegar menn lesa þessa frétt erlendis þá taka þeir mark á henni á svipaðan hátt eins og þegar þeir lesa þá frétt í Aviation Week and Space Technology að það fyrirtæki sem helst er horft á í þyrlukaupahugmyndum Íslendinga er nánast á hausnum þessa dagana, alla vega í það miklum kröggum að framleiðsla þess hefur dregist saman um tugi prósenta og mjög óvíst um að þeir geti afhent þau tæki sem þeir hafa samið um sölu á nema með eins eða tveggja ára drætti á afhendingu. Og ég vil taka undir óskir hv. 4. þm. Suðurl. að ekki einungis sú nefnd sem skipuð var á sínum tíma fái að ræða þau mál sem hér um ræðir, heldur líka að þm. fái síðan að skoða þá umr. og reyna að skapa sér afstöðu til hennar og að menn sjái sóma sinn í því hér framvegis að fara ekki með mál eins og þessi, jafnalvarleg eins og þau eru, í þá launkofa sem það hefur verið í s. l. tvo mánuði.