25.04.1984
Efri deild: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4835 í B-deild Alþingistíðinda. (4251)

149. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Hér er til umr. frv. til l. um breyt. um lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Þetta frv. var afgreitt héðan frá þessari hv. deild fyrr á þingtímanum, en við 2. umr. í Nd. hefur verið gerð till. um breytingu við það. Bætt verði við nýrri l. gr., þ. e. aftan við 4. málsgr. 23. gr. laganna frá 1980, með svofelldum texta:

„Hafi eftirlaun eða launatekjur skert tekjutryggingu almannatrygginga hjá elli- eða örorkulífeyrisþega skal enn fremur draga frá útsvarsskyldum tekjum viðbótarfjárhæð sem svarar til þeirrar skerðingar.“

Félmn. Ed. hefur fjallað um þetta mál aftur og er sammála og mælir með breytingunni sem þarna er lögð til. Um er að ræða að verið hafa nokkur brögð að því og valdið nokkurri óánægju og oft misskilningi hjá aðilum að hafi menn haft einhvern lífeyri annan en sín ellilaun og tekjutryggingu hefur hann verið dreginn frá tekjutryggingarupphæðinni þegar til útsvarsálagningar kemur. Það sem felst í þessari breytingu er að ávallt fái ellilífeyrisþegar ellilaunin sín og tekjutrygginguna frádregin áður en til útsvarsálagningar kemur. Á sama hátt er gert ráð fyrir því hjá örorkulífeyrisþegum og er þar átt við þá örorkulífeyrisþega sem njóta fullra bóta eða 75%.

Þetta er gert til áréttingar og framkvæmdavaldinu til auðveldunar þegar til framkvæmda kemur. Það er skoðun félmn. að svona verði að þessu staðið.

Ég þarf ekki að hafa fleiri orð hér um, en n. leggur til að þetta verði samþykkt.