25.04.1984
Efri deild: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4848 í B-deild Alþingistíðinda. (4258)

321. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Auðvitað getur ekki nokkur maður með góðri samvisku a. m. k. verið á móti þessu frv. og þeim aðgerðum sem stefnt er að með framlagningu þessa frv. Það virðist þó, eftir því sem ég fæ best séð, að eftir á gildi hið sama og stundum er viðhaft í orðbragði læknastéttarinnar, að uppskurðurinn hafi tekist, sjúklingurinn sé samt sem áður dauður, en kannske von til þess að hann hjarni við ef utanaðkomandi aðstæður breytist og þá e. t. v. ekki endilega fyrir tilstilli læknisaðgerðarinnar þó að hún geri ástandið alla vega ekki neitt verra. Og ekki finnst mér nein ástæða til að setja fyrir sig þó að, eins og segir einhvers staðar hér í grg., stjórnun félagsins verði eitthvað flóknari fyrir það að til komi einn aðill til viðbótar.

En það er eitt í þessu máli sem mig langaði til að benda á og kannske aðallega með tilliti til eftirbreytninnar. Hv. 5. landsk., þm. minntist á það að rekstur þessa fyrirtækis væri til fyrirmyndar. Ég held að menn séu allir sammála um að erfiðleikar fyrirtækisins séu af utanaðkomandi aðstæðum, en að rekstur fyrirtækisins í sjálfu sér sé til fyrirmyndar. Við vitum líka að járnblendiverksmiðjan greiðir árlega allstóra upphæð, mjög stóra upphæð, til Elkem fyrir veitta aðstoð og tækniþekkingu, þ. e. Elkem hefur selt járnblendiverksmiðjunni sína tækniþekkingu. Hún er náttúrlega grundvöllur þessa góða rekstrar sem þarna á sér stað og af því hafa Íslendingar lært. Ég tel að það, sem er fátítt á Íslandi, að menn meta það sem kallað er á útlensku slangri “know how“, þ. e. þekkingu, til einhvers fjár og gera sér grein fyrir verðgildi hennar þó að það skili því miður ekki í þessu tilviki þeim árangri að fyrirtækið beri hagnað. Menn horfa til þess að í þessu þjóðfélagi höfum við náð ákveðnu takmarki í bættri rekstrarstöðu eða rekstrarmöguleikum fyrirtækja, en við eigum enn þá gífurlega stóran áfanga fram undan til að ná aftur upp þeim hagvexti hér á Íslandi að við getum rutt af okkur þeim skuldum og þeim erfiðleikum sem við glímum við í dag. Þá þurfa menn að gera sér grein fyrir tvennu, þ. e. að ekkert það sem við gerum í framtíðinni leiði til þess að við eigum ekki þá þekkingu og það “know how“ sem til þarf til að standa að uppbyggingu atvinnulífs, og þá á ég einkum og sér í lagi við öll þau mál sem víkja að menntun og námi, og svo hins vegar að við förum yfir smærri gjár í fyrstu, en leggjum ekki sífellt til atlögu við stærstu gjárnar með þeim afleiðingum, sem orðið hafa á undanförnum árum, að við liggjum síðar meira eða minna beinbrotnir á botni þeirra og sjáum ekki fyrir hvernig við getum með sjálfshjálp komist upp úr þeim. Við þurfum í framtíðinni að leggja meiri áherslu á smærri atvinnutækifæri og fleiri með það fyrst og fremst í huga að áhættan verði í hverju tilviki minni og afleiðingarnar ekki eins atvarlegar þegar illa tekst til.