25.04.1984
Efri deild: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4849 í B-deild Alþingistíðinda. (4259)

321. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Það verður ekki við það unað að þau ummæli sem hv. 3. þm. Norðurl. v. lét hér falla standi skráð í þingtíðindum án þess að þeim sé mótmælt. Ég sé að hann hefur nú vikið úr salnum, en vildi gjarnan að hann mætti heyra þau orð sem ég ætlaði einkum að beina til hans vegna ummæla hans áðan. (Forseti: Það er verið að leita að hv. þm. Ragnari Arnalds.)

Virðulegi forseti. Hafi hv. 3. þm. Norðurt. v. annaðhvort kosið eða þurft að víkja af vettvangi skal ég ekki tefja störf þessarar hv. deildar með því að bíða hans hér þótt ég hefði gjarnan kosið að hann mætti heyra mál mitt.

Hv. þm. lét svo um mælt að ég hefði talið það kjarna þessa máls að önnur og meiri fjárfestingarmistök hefðu verið gerð en bygging Grundartangaverksmiðjunar. Það er langt frá því að vera rétt. Það er enginn kjarni þessa máls. Það var bara vinsamleg ábending til hv. þm. að ef hann teldi byggingu verksmiðjunnar á Grundartanga hafa verið fjárfestingarmistök mætti þar ýmislegt fleira til taka og við bæta. Raunar er Kröfluvirkjun kóróna þess sköpunarverks, ef svo mætti segja.

Hv. þm. vék þannig orðum að ég hefði talað um verksmiðjuna á Grundartanga og verksmiðjuna sem fyrirhuguð er á Reyðarfirði með þeim hætti að ég gerði ekki ráð fyrir að þm. hefðu mikla þekkingu, kunnáttu, vit eða greind til að skilja þau mál. Það er algjör útúrsnúningur og örgustu rangfærslur. Ég hygg hins vegar að flestir þm. viti að hér er um mjög skylda starfsemi að ræða, svo skylda að það er vandalítið og ekki mjög kostnaðarsamt að breyta verksmiðjunni á Grundartanga í þá veru að hún geti framleitt sömu afurð og gert er ráð fyrir að framleiða á Reyðarfirði. Og ef Reyðarfjarðarverksmiðjan er svo mjög hagkvæm sem hv. 3. þm. Norðurl. v. lét í ljós og ég skal ekkert í efa draga, hversu hagkvæm hefði sú verksmiðja þá ekki orðið ef hún hefði verið reist á Grundartanga? Ég hygg að þar hefði miklu munað. — Mér hefur nú borist vitneskja um að hv. 3. þm. Norðurl. v. sé farinn héðan úr húsinu að sinni, en ég mun engu að síður rekja þau atriði sem ég tel ástæðu til.

Hann gat þess að Alþfl. hefði greitt atkv. á sínum tíma með lögum um jarðgufuvirkjun við Kröflu. Þetta var árið 1974. Ég átti ekki sæti á hinu háa Alþingi þá, en áreiðanlega er þetta rétt hjá honum. Þau lög fjölluðu um jarðgufuvirkjun við Kröflu eða við Námafjall í Suður-Þingeyjarsýslu og voru heimildarlög. Þau gerðu ráð fyrir að fela væntanlegri Norðurlandsvirkjun, sameignarfélagi ríkis og sveitarfélaga á Norðurlandi, eða öðrum aðila að reisa og reka, eins og segir, með leyfi forseta, í þessum lögum, „jarðgufuaflstöð við Kröflu eða austanvert Námafjall með allt að 55 mw. afli til framleiðslu á raforku og leggja þaðan aðalorkuveitu til tengingar“ o. s. frv.

Var það þetta sem var gert? Nei, það er ekki þetta sem var gert. Það var sett á laggirnar svokölluð Kröflunefnd þriggja flokka. Það voru Alþb., Sjálfstfl. og Framsfl. sem áttu fulltrúa í þeirri nefnd. — Það er miður, virðulegi forseti, að það skuli vera nauðsynlegt að rekja þetta hér, en það er óhjákvæmilegt að leiðrétta þær rangfærslur sem komu fram á máli hv. 3. þm. Norðurl. v. — Það var allt öðruvísi að þessu máli staðið en heimildarlögin gerðu ráð fyrir. Hér er talað um allt að 55 mw. afl. Ég veit ekki betur en að þær túrbínur sem keyptar voru til orkuframleiðslu hafi verið langt um öflugri eða áttu að geta afkastað miklu meiru en þetta, allt að 35 mw. hvor ef ég man rétt. (Gripið fram í: Þrjátíu.) Þrjátíu hvor, alla vega meira en heimildarlögin segja til um. Það var sem sagt ekki að þessu staðið eins og efni stóðu til og það var gagnrýni vert hvernig staðið var að framkvæmd þarna, en ég ætla ekkert að fara að rekja þá sögu hér, það er búið að rekja hana svo oft og hún er öllum þm. kunn. En því mótmæli ég og það er umsnúningur staðreynda og rangfærsla, að þá fyrst þegar Kröflueldar hinir síðari hófust hafi Alþfl. farið að gagnrýna þessa framkvæmd. Þetta er alrangt og það er þetta sem ég vildi fyrst og fremst mótmæla. Þarna fór hv. þm. alrangt með staðreyndir og því vil ég ekki láta hér ómótmælt.

Ég læt þá, virðulegi forseti, þessum útúrdúr lokið, sem var óhjákvæmilegur vegna þeirra ummæla sem hér höfðu fallið, en að öðru leyti kemur þetta ekki því máli við sem hér er til umræðu.

Ég sé nú að hv. 3. þm. Norðurl. v. er kominn í salinn að nýju og skal nú ekki þreyta hv. deild með því að endurtaka hér allt sem ég hef sagt, en í örfáum setningum kjarna þess máls. — Í fyrsta lagi: Það er rétt að Alþfl. studdi heimildarlögin um virkjun við Kröflu eða við Námafjall, en það var ekki að framkvæmdum staðið eins og þau lög gerðu ráð fyrir. Þetta veit hv. þm. mætavel því að í þeim lögum er ríkisstj. heimilað að fela væntanlegri Norðurlandsvirkjun, sameignarfélagi ríkis og sveitarfélaga... (RA: Eða öðrum.) Já, eða öðrum aðila, það er rétt. Sömuleiðis voru keyptar öflugri túrbínur til þessa verks en heimildarlögin gerðu ráð fyrir. Það er staðreynd sem ekki verður á móti mælt. Og það er meginatriði, sem ég vil mótmæla hér og ítreka enn einu sinni að það var ekki fyrst eftir að eldsumbrot hófust á Kröflusvæðinu sem Alþfl. gagnrýndi þessa framkvæmd. Það var löngu áður. Þetta veit hv. 3. þm. Norðurl. v. mætavel og þess vegna er það ekki aðeins ósanngjarnt, óréttmætt, það er raunar vil ég segja ódrengilegt að halda því fram að Alþfl. hafi þá fyrst farið að gagnrýna þetta mál þegar jarðeldar voru uppi á Kröflusvæðinu. Þetta er rangt. (RA: En svona er það nú samt. )