25.04.1984
Efri deild: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4855 í B-deild Alþingistíðinda. (4266)

181. mál, sala jarðarinnar Bæjarstæðis í Seyðisfjarðarhreppi

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ekki er ástæða til þess að setja á langar tölur um þetta enda menn óvenju stuttorðir nú og ég skal vera það einnig. Aðalatriðið er að þegar slík jörð er seld einstaklingi, eins og hér er um að ræða, er það vegna búrekstrarins og þess sem honum tengist sem nýr eigandi fær umráða- og eignarrétt. Eins og kom fram í máli hv. frsm., 11. landsk. þm., getur þetta einmitt haft þau áhrif að viðkomandi jörð er sýndur meiri sómi, meiri umhirða og betur að henni gætt. Það er þannig a. m. k. í flestum tilfellum þar sem ég þekki til að slíkar jarðir hafa verið seldar einstaklingum.

Það kom einnig fram að skv. jarðalögum eru skýr ákvæði um það að undanskilin séu námaréttindi og annað það sem nýr eigandi kynni að öðrum kosti að auðgast á óeðlilega. Þannig fer ekkert á milli mála að það er eingöngu til búskaparnytja sem landið nýtist hinum nýja eiganda skv. þeim lögum. Um slíkar jarðasölur er hins vegar ævinlega nokkur spurning í mínum huga hversu með skuli fara.

Ekki leikur vafi á réttmæti þessarar jarðarsölu þó ég taki fyllilega undir almenna ábendingu hv. 11. þm. Reykv. um nauðsyn þess að þess sé vel gætt að þar séu ekki neinar náttúruminjar sem hætta sé á að fari til spillis eða verði eyðilagðar vegna þess að ríkið eigi ekki lengur þar aðild að. En þrátt fyrir Austdalinn, sem hv. 4. þm. Austurl. hefur af miklum kunnugleika leiðrétt að heiti svo, er jörðin sem slík þess eðlis að fullkomlega ástæðulaust er að hafa af því áhyggjur. Enda hefur hæstv. landbrh. tekið þar af öll tvímæli ef svo kynni að fara, sem gæti verið út af fyrir sig skemmtilegt fyrir okkur Austfirðinga, að á þessum slóðum, eins og svo víða þar austur frá, leyndust einhver slík dýrmæti. Við eigum reyndar nóg af þeim og kæmi okkur hv. 4. þm. Austurl. kannske ekki á óvart þó að jafnvel þarna væru einhver slík dýrmæti fólgin.