25.04.1984
Efri deild: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4856 í B-deild Alþingistíðinda. (4270)

182. mál, umferðarlög

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. á þskj. 625. Hún er flutt af sömu flm. og standa að því frv. sem hér er til umr. og afgreiðslu, um breytingu á umferðarlögunum. Í framhaldi af þeim umr. sem hér fóru fram fyrir páska um þetta frv. og þá fyrst og fremst varðandi ljósanotkun ökutækja allan sólarhringinn allan ársins hring, þar sem hv. 3. þm. Vesturl. mælti hér fyrir brtt. um að ljósatíminn gilti ekki yfir sumartímann, varð það að samkomulagi flm. frv. að betur athuguðu máli að leggja fram brtt. varðandi það atriði að fresta gildistöku laganna, þannig að þau taki ekki gildi fyrr en 1. sept. 1984 í stað þess að í frv. er gert ráð fyrir að lögin öðlist þegar gildi. Ég held að þetta sé heppileg ráðstöfun. Með þessu móti veitist þarna aðlögunartími, ekki síst með tilliti til þeirra sem eru enn þá í nokkrum vafa um gildistöku laganna með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir, að ljósatíminn sé allan ársins hring allan sólarhringinn.

Ég held, herra forseti, að ég þurfi ekki að orðlengja þetta frekar. Það væri mjög æskilegt að hægt væri að ganga til atkv. um frv. núna og afgreiða það til 3. umr. Ég vænti þess að hv. þdm. hafi skilning á þessari brtt. og líti á hana sem nokkurs konar samkomulag í átt til þess sem þeir sem eru í vafa um þetta mál geti sætt sig við.