25.04.1984
Neðri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4857 í B-deild Alþingistíðinda. (4274)

119. mál, tollskrá

Flm. (Gunnar G. Schram):

Hæstv. forseti. Ég tek hér til máls við 3. umr. um frv. til l. um breytingu á lögum um tollskrá. Það eru lög nr. 120/1976. Fyrir nokkru var samþykkt hér í Sþ. till. til þál. um staðfestingu Flórenssáttmála, 118. mál, og hlaut einróma samþykkt. Sú þáttill. var svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að staðfesta aðild Íslands að alþjóðasáttmála um niðurfellingu aðflutningsgjalda af varningi til mennta-, vísinda- og menningarmála, svonefndan Flórens-sáttmála UNESCO, en án viðaukabókunar sáttmálans. Jafnframt þessu verði gerðar nauðsynlegar breytingar á lögum um tollskrá.“

Þannig hljóðaði texti þáltill. Það er í framhaldi af samþykkt hennar í sþ. og til þess að verða við niðurlagsákvæðum þáltill. þessarar sem þetta mál er hér flutt í Nd.

Meginefni aðildar okkar að Flórens-sáttmálanum, sem nú er undirbúin í utanrrn., er það að aðildarríkin skuldbinda sig til þess að fella niður tolla og önnur aðflutningsgjöld á tilteknum menningartækjum sem við gætum svo nefnt. Það er í fyrsta lagi um að ræða bækur og tímarit, í öðru lagi listaverk og safngripi, í þriðja lagi sýningarefni og hvers kyns hljóðritað efni með menntunarlegt, vísindalegt og menningarlegt gildi, í fjórða lagi vísindatæki og búnað og í fimmta lagi vörur til afnota fyrir blinda. Efni þessa frv. sem hér liggur fyrir lýtur að 4. liðum sem ég vék að, þ. e. um er að ræða niðurfellingu tolla á vísindatækjum og búnaði sem notaður er á viðurkenndum vísinda- og rannsóknastofnunum.

Till. um breytingu á tollskrárlögum á þskj. 146 er svohljóðandi:

„Í 3. gr. laganna breytist 39. tölul. og orðist svo: Að fella niður eða endurgreiða gjöld af vísindatækjum og búnaði sem ætlaður er til notkunar hjá viðurkenndum rannsóknaraðilum.“

Þetta frv. er flutt af þeim alþm. í Nd. sem sæti eiga í Rannsóknarráði ríkisins, þ. e. auk mín þeim Birni Dagbjartssyni, Guðrúnu Agnarsdóttur, Guðmundi Bjarnasyni, Hjörleifi Guttormssyni, Jóni Baldvin Hannibalssyni og Pálma Jónssyni.

Það er m. ö. o. nauðsynlegt að afla þessarar lagaheimildar til þess að fylgja á eftir og gera virka niðurfellingu tolla og annarra aðflutningsgjalda sem Flórens-sáttmálinn gerir ráð fyrir. Hér verða þessi tvö mál í raun að verða samferða. Aðildin að Flórenssáttmálanum er í undirbúningi, eins og ég gat um eftir samhljóða samþykkt Sþ., en hér þarf einnig að koma til breyting á tollskránni í þessa veru sem ég hef hér lýst.

Ég vil bæta því við að eins og fram kom þegar ég rakti efni Flórens-sáttmálans er hann allvíðtækur og tekur til fleiri atriða heldur en niðurfellingar aðflutningsgjalda á vísindatækjum og rannsóknatækjum og slíkum búnaði. M. a. er þar einnig nefnt sýningarefni og hvers kyns hljóðritað efni sem hefur menningarlegt, vísindalegt og menntunarlegt gildi. Það frv. sem hér liggur fyrir fjallar einungis um vísindatæki og búnað. En það liggur í hlutarins eðli og mun leiða af aðild Íslands að Flórenssáttmálanum að einnig verður að breyta tollskránni hvað þessi atriði varðar á sama hátt og hér er lagt til varðandi vísindatæki og búnað. Flm. þessa frv. munu hafa forgöngu um að svo verði gert. Hins vegar einskorðast þetta frv. við vísindatæki og búnað enda borið fram, eins og ég sagði áðan, af þeim deildarmönnum sem sæti eiga í Rannsóknaráði ríkisins. En það gefur auga leið að einnig verður að sjá svo um að tollar og aðflutningsgjöld séu niður felld af hljóðrituðu, innfluttu efni, enda er það í fullu samræmi við Flórenssáttmálann og væri raunverulega í algerri andstöðu við hann ef slík gjöld væru áfram á þeim varningi.

Að því er tekur til bóka, tímarita, listaverka og safngripa og margs kyns efnis og vara fyrir blinda hafa aðflutningsgjöld þegar verið felld niður af þeim vöruflokkum þannig að um þá þarf ekki frekar að hugsa eða fjalla í þessu sambandi.

Ég vil aðeins víkja til viðbótar að einu atriði í þessu efni, sem atveg réttilega var á bent í fyrri hluta 3. umr. hér í hv. deild, að í tollskrárlögunum nr. 120/1976 er þess getið í 3. gr. 6. tölul. að fjmrh. sé heimilt að fella niður aðflutningsgjöld af þeim vörum sem falla undir fríverslunar- eða tollfrelsissamninga þá sem Íslendingar gera við aðrar þjóðir. Nú má segja að hér er um góða og ugglaust nytsamlega heimild að ræða, en ég vil undirstrika í þessu sambandi að hér er einungis um heimildarákvæði að ræða fyrir fjmrh. sem liggur algerlega á hans valdi hvort hann notar eða ekki. Það er þess vegna tvímælalaust nauðsynlegt og rétt leið að fá lagaheimild í þessu efni þrátt fyrir þetta heimildarákvæði. Það er engin skylda að fella niður tolla skv. þessu tollskrárlagaákvæði. Það er þess vegna tvímælalaust nauðsynlegt að breyta tollskrárlögunum á formlegan hátt þrátt fyrir þetta heimildarákvæði eins og hér er lagt til að gert verði þannig að það liggi alveg ljóst fyrir og sé vafalaust að aðflutningsgjöld verði felld niður, í þessu tilviki af vísindatækjum og búnaði, eftir að Alþingi hefur fjallað um málið.

Ég held að ég þurfi ekki hér við 3. umr. að rekja fyrir hv. þd. þau rök sem liggja til þess að hér er talin full ástæða og raunar mikil nauðsyn á því að frv. þetta nái fram að ganga að lokinni þessari umr. svo að unnt verði að senda það til Ed. til þóknanlegrar fyrirgreiðslu.

Það er svo að íslenskar vísinda- og rannsóknastofnanir hafa fengið fé til tækjaöflunar frá ríkinu. Það er einnig staðreynd að mjög mikinn hluta þess hefur ríkið tekið aftur í formi tolla og annarra aðflutningsgjalda svo undarlegt sem það kann nú að virðast. Hefur jafnvel gengið svo langt að tekjur ríkissjóðs af innfluttum rannsóknartækjum hafa verið meiri en framlag hans til raunvísinda í gegnum Vísindasjóð á liðnum árum. Það er m. a. til þess að leiðrétta atriði sem þessi sem þetta frv. er borið fram. Ég vil leyfa mér að láta þá von í ljós að það fái greiða og góða afgreiðslu hér í hv. þd.