25.04.1984
Neðri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4878 í B-deild Alþingistíðinda. (4297)

256. mál, hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Frsm. minni hl. (Guðrún Helgadóttir):

Virðulegi forseti. Ég lýsi því yfir, eins og fram kemur á því nál. sem hér liggur fyrir á þskj. 644, að ég treysti mér ekki til þess að standa að því nál. sem meiri hl. hv. heilbr.- og trn. hefur skilað þó ég telji vissulega að þær breytingar sem gerðar hafa verið séu heldur til bóta. Ástæður mínar fyrir því að geta ekki stutt þetta nál. eru þær í meginatriðum að í fyrsta lagi eru lögin um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit ekki eldri en frá árinu 1981 og þau ber að endurskoða innan 5 ára. Þau hafa alls ekki alls staðar komist til framkvæmda. Ég held því að það sé nokkurt fljótræði að fara að gera þær meginbreytingar sem hér eru gerðar svo skjótt eftir gildistöku laganna.

Sveitarfélögin hafa borið sig illa. Ein meginástæðan fyrir því að lögin hafa ekki komist í framkvæmd er fjárskortur sveitarfélaganna sem á er hlaðið í sífellu meiri kostnaði án þess að tekjustofnar þeirra séu tryggðir. Þessu á síðan að bjarga núna með því að heimila gjaldtöku fyrir heilbrigðiseftirlit. Ég held að þarna sé verið að stoppa í göt sem skipta í raun og veru ekki miklu máli og bjarga svo til engu. Ég held að það sé mikið meira en kominn tími til að endurskoða fyrst af öllu lögin um tekjustofna sveitarfélaga og reyna að tryggja sveitarfélögunum rekstrarfé fyrir þeim brýnustu þjónustustörfum sem þeim ber að inna af hendi lögum samkvæmt.

Afgreiðsla þessa máls var nokkuð skjót. Sem dæmi má nefna að ekki er fyrirliggjandi neitt álit Vinnuveitendasambandsins. Ég held að komið hafi skýrt í ljós þegar n. kallaði á sinn fund starfsmenn hollustustofnana að þeir telja að gjaldtaka muni síður en svo bæta sambúð þeirra fyrirtækja sem þessa þjónustu þiggja og þeirra sem hana veita. Það er kannske meginástæðan fyrir því að ég treysti mér ekki til að styðja þetta nál. að ég held að um leið sé stefnt í hættu samvinnu fyrirtækjanna, framleiðslufyrirtækjanna og starfsmanna, sem annast skulu hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, og um leið og því samstarfi er stefnt í hættu tel ég að sé kippt fæti undan þeirri meginbreytingu sem ætlast var til að yrði með lögunum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Ég get því ekki og mun ekki greiða þessu frv., sem liggur fyrir á þskj. 473, atkvæði mitt.