25.04.1984
Neðri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4880 í B-deild Alþingistíðinda. (4301)

243. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla á þskj. 431, 243. mál Nd. Ég vil taka það fram að alllangt er síðan þetta frv. var lagt fram og hefur einhvern veginn borið þannig að að erfitt hefur verið að fá að hafa framsögu fyrir því. Það hefur alltaf vantað eitthvað af hv. þm. sem hafa áhuga fyrir málinu.

Jafnrétti kvenna og karla er eitt þeirra mála sem oft hefur borið á góma á þessari öld. Barátta kvenna fyrir forræði bús til jafns við maka og rétti til að greiða atkv. í kosningum til Alþingis eru tvö mikilvæg atriði í þessari baráttu. Eftir að konum hafði verið tryggð sama réttarstaða og karlmenn höfðu beindist jafnréttisbaráttan að öðrum þáttum. Sé einungis litið til allra síðustu ára hafa atriði eins og t. d. launamisrétti kynjanna, þ. e. að konur hafi sömu tækifæri til menntunar og þátttöku í atvinnulífinu og karlmenn, vinnuálag útivinnandi húsmæðra, fæðingarorlof o. fl. verið mest áberandi í umræðum.

Löggjafarstarf Alþingis hefur tekið tillit til þessara breyttu viðhorfa á vissan hátt. Ýmis lagaákvæði hafa verið sett til að tryggja jafnan rétt kynjanna. Þannig voru sett lög nr. 60 frá 1961, um launajöfnuð kvenna og karla. Fæðingarorlof hefur smám saman verið lengt, en ég er þó þeirrar skoðunar að þar þurfi að gera verulegar umbætur, m. a. að taka jafnt tillit til kvenna á vinnumarkaði og þeirra sem eru heimavinnandi. Slík lagfæring er nú í undirbúningi og er það í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstj. um endurskoðun fæðingarorlofs.

Þá hefur fjárveitingarvaldið stöðugt aukið framlag sitt til byggingar dagvistarheimila fyrir börn, sem öðrum þræði bætir möguleika beggja foreldra til þátttöku í atvinnulífinu, en á auk þess að stuðla að auknum þroska barnanna.

Jafnréttislögin frá 1976 voru í raun tímanna tákn. Í 1. gr. laganna er slegið föstu að tilgangur þeirra sé að stuðla að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Það lagafrv. sem hér er lagt fram endurspeglar þær breytingar sem hafa átt sér stað síðan lög nr. 78/1976 voru afgreidd frá Alþingi. Lagafrv. sem hér er lagt fram er að stofni til byggt á tillögum endurskoðunarnefndar sem skipuð var í apríl 1981 af fyrrv. félmrh. Skilaði nefndin frv. til ráðh. 12 apríl 1983. Meginverkefni nefndarinnar var tillögugerð um breytingar á jafnréttislögunum, lögum nr. 78/1976, með tilliti til þeirrar reynslu sem fengist hefur frá setningu laganna. Tekið var fram að nefndin skyldi taka mið af jafnréttisáætlun Sameinuðu þjóðanna frá 1980 og samstarfi því sem á sér stað á norrænum vettvangi um

jafnréttismál. Enn fremur átti nefndin í starfi sínu að hafa samráð og samvinnu við Jafnréttisráð, Kvenréttindafélag Íslands, Rauðsokkahreyfinguna, Kvenfélagasamband Íslands og jafnréttisnefndir sveitarfélaga.

Í grg. endurskoðunarnefndarinnar, sem fylgdi tillögum hennar um breytingar á jafnréttislögunum, kemur fram að hún hafi kynnt sér og rætt ítarlega framkvæmd jafnréttislaga hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum. Nefndin hefur farið yfir starfsáætlun sameinuðu þjóðanna um jafnréttismál, sem samþykkt var á ráðstefnu í Kaupmannahöfn 1980, einkum þann kafla sem fjallar um aðgerðir á þessu sviði í einstökum löndum. Enn fremur hefur nefndin fjallað um kannanir sem gerðar hafa verið um jafnréttismál á vegum ýmissa aðila og gerði úttekt á hlutdeild kvenna í opinberum stjórnum, nefndum og ráðum. Jafnframt var aflað upplýsinga frá öllum starfandi stjórnmálaflokkum um skipan aðalstjórna þeirra, framkvæmdastjórna, miðstjórna og annarra trúnaðarstaða með tilliti til hlutdeildar kynjanna í þeim.

Álit endurskoðunarnefndarinnar er að enn sé alllangt í land að jafnrétti ríki á milli kynjanna þrátt fyrir gildandi lög um jafnrétti kvenna og karla frá 1976 og þar áður lög um Jafnlaunaráð frá 1973 og starf Jafnréttisráðs frá sama tíma. Nefndin telur að lögin hafi komið að gagni og reynst betri en ekki, en að þau hafi ekki verið það haldreipi í jafnréttisstarfi sem vænst hafði verið. Enn fremur að þau hafi ekki reynst nógu vel í framkvæmd þannig að breytingar hafi ekki orðið afgerandi, hvorki varðandi stöðumun karla og kvenna né viðhorf til jafnréttis.

Eins og áður sagði byggir lagafrv. það sem hér er lagt fram á tillögum áðurnefndrar endurskoðunarnefndar. Aðdragandi þeirra breytinga sem hafa orðið á tillögum nefndarinnar er sá, að eftir ríkisstjórnarskiptin í maí 1983 ákvað félmrh. að leggja fram frv. að nýjum jafnréttislögum. Í framhaldi af því hefur frv. endurskoðunarnefndarinnar verið til athugunar í félmrn. Niðurstaðan hefur orðið sú að gera nokkrar breytingar á tillögum nefndarinnar. Þær eru gerðar að höfðu samráði við stuðningsflokka ríkisstj. á Alþingi. Hér er bæði um að ræða formlegar og efnislegar breytingar.

Hvað áhrærir hið fyrrnefnda þykir rétt að ýmsar orðskýringar í tillögunum eigi betur heima í aths. við einstakar greinar frv., t. d. skýringar á orðunum „mismunun“ í 3. gr. frv. og „laun“ í 4. gr.

Efnislegar breytingar eru af tvennum toga spunnar. Annars vegar hafa verið felld brott ákvæði í tillögum endurskoðunarnefndarinnar sem vafasamt er talið að samrýmist íslenskri réttarvenju. Sem dæmi má nefna ákvæði sem fjallaði um frávik frá þeirri meginreglu íslensks réttar að sá sanni sök sem brotið er á.

Einnig hefur verið felld niður tillaga um sjálfstæðan málshöfðunarrétt Jafnréttisráðs. Hins vegar ákvæði sem varða sjálfstæði sveitarfélaga. Þannig hefur ekki verið talið rétt að skylda allar sveitarstjórnir til að skipa jafnréttisnefndir. Í 15. gr. 9. tl. er þó gert ráð fyrir að Jafnréttisráð hafi samband við slíkar nefndir séu þær starfandi.

Nokkrar aðrar breytingar hafa verið gerðar á tillögum endurskoðunarnefndarinnar.

Í 1. gr. tillagnanna hefur verið felld niður mgr. um að sérstaklega skuli bæta stöðu kvenna til að ná markmiðum frv. Ákvæði í 3. gr. var breytt til samræmis við þá breytingu. Ekki er talin ástæða til þess í jafnréttislögum að beinlínis þurfi að taka fram að sérstaklega skuli bæta stöðu annars kynsins.

Þá hefur verið fellt niður ákvæði í tillögum endurskoðunarnefndarinnar um skyldu ríkis og sveitarfélaga um að nefna karl og konu þegar óskað er tilnefningar í opinberar nefndir og ráð. I 12. gr. frv. er kveðið á um það að leitast skuli við að hafa sem jafnasta tölu kynjanna í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka, þar sem því verður við komið.

Helstu nýmæli þessa lagafrv. frá núgildandi lögum er að finna í 1. gr. frv. Þar segir að tilgangur laganna sé að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Í núgildandi lögum er kveðið á um að „stuðla að“ jafnrétti. Á þessu er mikill meginmunur.

Mikilvæg breyting er gerð á skipan Jafnréttisráðs. Skv. 13. gr. frv. er gert ráð fyrir að félagasamtök sem hafa jafnréttisbaráttu á dagskrá tilnefni fulltrúa í ráðið. Þessi breyting ætti að stuðla að því að í ráðinu sitji fulltrúar sem hafa sérstakan áhuga á að vinna farsællega að jafnréttismálum.

Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á 10. gr. núgildandi jafnréttislaga sem efnislega er 15. gr. frv. Mikilvægasta breytingin kemur fram í 2. tl. greinarinnar, en skv. henni skal Jafnréttisráð vinna að framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn þar sem kveðið skal á um aðgerðir til að koma á jafnrétti kynjanna. Þessa áætlun skal leggja fyrir félmrh. sem síðan skal undirbúa stefnu ríkisstj. í þessum málaflokki, sbr. 22. gr. frv., en þar stendur:

„Félmrh. skal leggja fyrir ríkisstj. framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn. Þar skal kveðið á um aðgerðir sem fyrirhugaðar eru til að ná fram jafnrétti kynjanna. Við gerð hennar skal höfð hliðsjón af áætlun Jafnréttisráðs, sbr. 2. tl. 15. gr.

Ákvæði 11. gr. frv. fjallar um sama efni og 8. gr. núgildandi laga. Hins vegar eru fleiri aðilar dregnir til ábyrgðar skv. ákvæðum frv. en nú er vegna brota á ákvæðum laga nr. 78/1976, en eins og kunnugt er, þá er hér aðallega um að ræða auglýsingar. 11. gr. frv. hljóðar þannig:

„Auglýsandi og sá sem hannar eða birtir auglýsingu skal sjá til þess að auglýsingin sé öðru kyninu ekki til minnkunar, lítilsvirðingar eða stríði gegn jafnri stöðu og jafnrétti kynjanna á nokkurn hátt.“

Að lokum má benda á að viðurlög vegna brota á ákvæðum frv. eru ákveðnari en áður. Auk þess er gert ráð fyrir endurskoðun laganna eftir 5 ár frá setningu nái frv. fram að ganga.

Herra forseti. Þótt þetta lagafrv. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nái fram að ganga er ekki þar með sagt að sigurinn sé í höfn. Það sem skiptir höfuðmáli er að sjálfsögðu framkvæmdin. Skv. frv. eru miklar vonir bundnar við þátt Jafnréttisráðs. Eins og ég gat um fyrr í ræðu minni er hlutur Jafnréttisráðs í framkvæmdinni tvenns konar: Annars vegar að sjá um að ákveðnum greinum frv. sé framfylgt og hins vegar að vinna framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn, sem skal lögð fyrir félmrh., sem undirbýr stefnu ríkisstj. í jafnréttismálum. Þessi ákvæði og mörg fleiri í íslenskri löggjöf skapa konum grundvöll til að sækja rétt sinn. Þær sjálfar verða að sýna mun meira frumkvæði og áræði en fram til þessa hefur komið fram.

Á síðustu árum hafa þó sífellt fleiri konur valist til forustu í félagasamtökum og til að gegna mikilvægum embættum í stjórnkerfinu. Sú staðreynd á að vera konum frekari hvatning til aðgerða á þessu sviði. Verði þetta frv. að lögum er rétturinn ekki síður þeirra en karla.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að rekja þetta frv. Ég vísa að öðru leyti til þess og þeirrar grg. og skýringa sem fylgja frv. og legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og félmn.