25.04.1984
Neðri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4900 í B-deild Alþingistíðinda. (4307)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Steingrímur J. Sigfússon:

Virðulegi forseti. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá þá hér í kvöld báða hæstv. ráðh. landbúnaðarmála og félagsmála, því að ég ætla að það mál sem nú er til umr. megi á nokkurn hátt með sanni tengja þeirra rn. þó formlega séð sé þetta fyrst og fremst mál hæstv. utanrrh. sem þó er hér ekki staddur í augnablikinu. En hann hefur áður hlýtt á umr., þ. á m. mínar, um þetta mál og gengur nú hér í salinn.

Í fyrsta lagi vil ég lýsa því að ég er alfarið á móti því frv. sem hér liggur fyrir, hef reyndar áður lýst þeirri skoðun minni og þyrfti í raun og veru ekki að rökstyðja hana frekar en ég hef þegar gert. Þó held ég að ég láti ekki þetta tækifæri ónotað frekar en önnur til að ítreka enn þá skoðun mína að hér sé mjög vafasamur málatilbúnaður á ferðinni og betur heima setið en af stað farið.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að efnahagsástandið í blessuðu þjóðarbúinu er ekki upp á allt of marga fiska þessa dagana. Sérstaklega er hart á dalnum hjá hæstv. fjmrh. og ríkiskassinn illa tómur. Einnig er það kunnara en frá þurfi að segja að erlendar skuldir þjóðarinnar eru allmiklar að vöxtum og hafa nú nýlega farið, mældar í löngum lánum, yfir hið fræga 60% mark sem var þó hér í eina tíð heilög víglína hæstv. ríkisstj. Samt er í þessu frv. gerð till. um lántökur að jafnvirði 22 milljarða Bandaríkjadollara sem eru núna u. þ. b. 616 millj. ísl. kr. og þó frekar rúmlega en tæplega. Í erlendum skuldum mundi þetta þýða í dag talsvert á annað prósent og yrðu þá skuldir þjóðarbúsins komnar nær 63% bæti maður þeirri lántöku sem hér er fyrirhuguð, að vísu á nokkrum næstu árum, við. Þannig er nú það og læt ég þetta duga um fjárhagslega hlið þessara mála hvað varðar skuldastöðu þjóðarbúsins og ástand ríkiskassans og væri þó margt hægt um hana að segja.

Ég hef áður gert grein fyrir því hversu ranga ég tel þá framkvæmdaröð í íslenskum flugmálum sem hér er gerð till. um og ætla ekki að bæta miklu við það. Ég vil þó segja í sambandi við þá miklu upphæð sem hér er á ferðinni að næðist fram í þessu mannvirki sparnaður, eins og hv. þm. Guðmundur Einarsson gerði hér grein fyrir að hægt væri með breyttri hönnun á mannvirkinu, mundi það nema ekki eins árs heldur tveggja til þriggja ára framkvæmdafé til flugmála á Íslandi að frádreginni þessari flugstöðvarbyggingu. Svo miklar upphæðir eru hér á ferðinni. Lántakan á því ári sem nú er að liða er áætluð milli 30 og 40 millj. kr. meiri til þessa eina mannvirkis en allt framkvæmdafé til flugmála innanlands á þessu ári.

Ég ætla ekki að fara á þessum kvöldfundi ítarlega út í ástand einstakra flugvalla vítt og breitt um landið, og er þá Reykjavíkurflugvöllur ekki undanskilinn. En það má öllum ljóst vera í hvað hér er ráðist og hversu mikið hefði mátt gera í flugvallarmálum okkar, og í, samgöngumálum yfirleitt, ef þessu fé hefði verið varið á þeim vettvangi. Og af því að það vill nú svo vel til, virðulegi forseti, að hæstv. landbrh. er hér í salnum, ætla ég nú að spyrja hann og síðan kannske hæstv. utanrrh. einnig, hvernig það verði með gróðurhúsið, sem reisa á í þessari byggingu, hvort það eigi að heyra undir utanrrn. eða hvort það sé samstarfsverkefni hæstv. landbrh. og hæstv. utanrrh., þetta ylræktarver sem þarna á að reisa suður á Keflavíkurflugvelli. Ef utanrrn. á áfram eitt og sér að fara með þessi mál, þá sé ég ekki annað en það verði að ráða sér sérstakan garðyrkjustjóra og stofna sérstaka garðyrkjudeild í utanrrn., því að þarna er á ferðinni langsamlega stærsta gróðurhús landsins og það verður auðvitað ekki við það unað að það verði ekki sómasamlega ræktað og því sinnt af fagmönnum.

Af því að hæstv. félmrh. er hér einnig í salnum og undir hann heyra byggingarmálefni þjóðarinnar að miklu leyti, þá hefur það ábyggilega verið fróðlegt fyrir hann að heyra þá ágætu úttekt á þessu mannvirki sem hv. þm. Guðmundur Einarsson flutti okkur hér áðan og gerði mikla grein fyrir. Það er mjög sláandi og mjög lærdómsríkt ef þessi bygging á að kosta pr. fermetra eða pr. rúmmetra, allt eftir því hvernig það er nú mælt, meira en dýrustu mannvirki sem við finnum dæmi um á Íslandi í dag, t. d. K-bygging Landspítalans, þar sem koma á fyrir skurðstofum og öðrum flóknasta búnaði sem eitt sjúkrahús má prýða. Það er með miklum ólíkindum ef þetta gróðurhús og það sem á utan á því hangir á að verða dýrara en sjálf K-bygging Landspítalans pr. rúmmetra. Það er ýmislegt fleira í þessari byggingu allri og hönnun hennar sem er með slíkum endemum að þegar maður fer að lesa um það og skoða það, þá þarf maður ekki að lesa einu sinni eða tvílesa, heldur þrílesa eða láta segja sér þrisvar, eins og maðurinn gerði hér forðum, til að trúa. Og nýtnitölurnar sem við manni blasa, að af 114 þús. rúmmetrum, þegar allt rými í nýju flugstöðinni er talið og eru þá kjallarar og þakrými og annað innifalið, nýtast ekki nema um 60 þús., þ. e. rétt um helmingur. Þetta eru lélegri nýtingarhlutföll en ég þekki í nokkurri byggingu á Íslandi og nokkurs staðar yfirleitt á byggðu bóli. Ég minnist þess að í ákveðinni byggingu hér í vesturbænum, fjölbýlishúsi sem ekki þótti mjög til fyrirmyndar um nýtni, nýttust til íbúðar um 65%, en afgangurinn, 35%, fór undir ganga og stigapalla og annað slíkt. Þetta þótti með eindæmum léleg nýting, en hún er þó miklum mun meiri en gert er ráð fyrir í þessari byggingu. Og eins og ég hef reyndar áður bent á er það staðreynd að þetta mikla húsnæði, gróðurhúsið og allt saman, er ekki í notkun nema örfáar klukkustundir á sólarhring eins og staða málanna er í dag. Og fari nú svo, sem við skulum út af fyrir sig vona að verði ekki, að þeir hlutir gerist í flugmálum okkar Íslendinga að þar verði verulegur samdráttur frá því sem var þegar mest voru umsvifin, þá gæti svo farið að verulegur hluti þessarar byggingar stæði ónotaður allan sólarhringinn, allan sólarhringinn árið um kring. Og hvað halda menn þá að þetta þýði fyrir reksturinn á þessari byggingu? Hvað halda menn að það þýði, í fyrsta lagi þessi lélegu nýtingarhlutföll byggingarinnar sjálfrar og síðan léleg nýting þess rýmis sem á annað borð er hægt að nota meiri hluta sólarhringsins og hugsanlega allt árið.

Ég vil áður en ég fer úr þessum ræðustól, virðulegi forseti, mótmæla harðlega, eins og ég mun alltaf gera hvar sem er og hvenær sem er, allri samþættingu íslensks atvinnulífs og íslenskra samgangna við veru erlends hers í landinu. Það tel ég með öllu ósamboðið sjálfstæðri þjóð, sem svo vill kalla sig, að sjá ekki sjálf þörfum sínum borgið í þessum efnum sem öðrum. Ég hef orðað það svo, að hversu mikið glæsivirki sem þetta hús verði, þá verði það aldrei annað en aumur kofi í mínum augum eins og að fjármögnun þess er staðið. Þar fyrir utan er það enn eitt dæmið um þann blygðunarlausa flottræfilshátt sem ákveðnir aðilar í núverandi hæstv. ríkisstj. hafa iðulega gert sig seka um, að fara nú á þessum tímum samdráttar og rýrnandi kjara alls þorra almennings á Íslandi út í svona mannvirki, sýndarmennsku í arkitektúr og flottræfilshátt í byggingarstíl, sem hvorki við né í raun og veru nokkur þjóð önnur getur réttlætt. Þar er á ferðinni sóun á fjármunum, sóun á hráefnum, sóun á tíma og peningum þeirra sem við þetta vinna og að þessu standa. Ég held að sá flottræfilsháttur sé undir öllum kringumstæðum og alltaf óréttlætanlegur, en hann er sérstaklega vítaverður þegar hann er framkvæmdur á tímum eins og þessum. Og þeim fjármunum sem sannarlega væri hægt að verja betur á ýmsan hátt, eins og ég hef gert grein fyrir og aðrir hv. þm., er að mínu mati sérstaklega illa varið í svona yfirsjónir og svona mistök, þegar ástandið er eins og raun ber vitni. Ég held að það væri öllum fyrir bestu, þeim sem vilja nýja flugstöð á Keflavíkurflugvelli, sem út af fyrir sig hefur ekki verið deilt um að þörf sé á, sem og hinum, sem endilega vilja þar þiggja þetta ameríska fé, að þessar áætlanir væru teknar til endurskoðunar, menn fengjust til þess að viðurkenna mistök sín, væru menn til þess, því að hvaða afstöðu sem menn hafa til þessa máls, þá held ég að enginn geti réttlætt slík mistök sem hér virðist stefnt í með byggingu og síðar rekstri þess illa hannaða og vitlausa mannvirkis sem hér er flutt frv. um lántöku til.