25.04.1984
Neðri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4903 í B-deild Alþingistíðinda. (4309)

250. mál, málflytjendur

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Frv. það um breytingu á lögum um málflytjendur, sem hér liggur fyrir á þskj. 452, er flutt í þeim tilgangi að taka af öll tvímæli um það hverjir njóta réttinda og beri skyldur héraðsdóms- og hæstaréttarlögmanna skv. málflytjendalögum. Skv. lögunum skulu lögmenn hafa með sér félag, Lögmannafélag Íslands, og skal stjórn þess m. a. hafa eftirlit með að félagsmenn fari að lögum í starfa sínum og ræki skyldur sínar með trúmennsku og samviskusemi. Talið hefur verið að allir þeir sem fengið hafa málflutningsleyfi hafi skylduaðild að Lögmannafélaginu. Ýmis opinber störf eru þess eðlis að málflutningsstarf er ósamrýmanlegt slíku starfi og lögfræðingar er þeim gegna mega ekki stunda málflutningsstarf. Hafi þeir fengið málflutningsleyfi skulu þeir leggja inn málflutningsleyfi sitt meðan svo stendur á. Svo háttar til um þá sem gegna störfum við embætti dómara, lögreglustjóra, tollstjóra, ríkisskattstjóra, ríkissaksóknara og í stjórnarráði. Er um það fjallað í reglugerð frá 1971. Þessir málflytjendur einir eru undanþegnir félagsskyldu, en hins vegar ekki aðrir, jafnvel þótt þeir sinni ekki málflutningsstörfum.

Frv. felur það í sér að þeim sem þess óska og engin málflutningsstörf stunda verði heimilað að afhenda málflutningsleyfi sitt til varðveislu í dómsmrn. Fellur þá niður skylduaðild viðkomandi að Lögmannafélaginu meðan svo stendur á, jafnframt því sem honum er óheimilt að stunda málflutning sem háður er einkaleyfi lögmanna. Með frv. verða þannig skýrari línur að því leyti hverjir séu félagsmenn í Lögmannafélaginu og beri skyldur og réttindi lögmanna. Skapast með þessu betri aðstaða fyrir stjórn Lögmannafélagsins til að gegna skyldum sínum að því er varðar þá sem málflutning stunda. Hefur stjórn Lögmannafélagsins óskað eftir því að breyting þessi komist á og hefur þótt rétt að stuðla að því með flutningi frv.

Frv. gerir jafnframt ráð fyrir því að þeim sem af sjálfsdáðum leggja inn leyfi sitt til varðveislu verði heimiluð aukaaðild að Lögmannafélaginu, svo og að málflytjanda, sem hefur málflutning að aðalstarfi í þágu opinbers aðila, verði heimil full aðild að félaginu.

Hæstv. forseti. Frv. þetta fjallar um afmarkaðan þátt að þvi er varðar starf málflytjanda, þann að taka af tvímæli um hverjir njóti réttinda og beri skyldur lögmanna. Er þess að vænta að breytingin tryggi betur að hafa megi eftirlit með starfi þeirra lögmanna sem málflutning stunda. Ég tel eigi þörf á að víkja frekar að efni frv. og vísa að öðru leyti til aths. með því.

Að svo mæltu legg ég til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.