25.04.1984
Neðri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4904 í B-deild Alþingistíðinda. (4311)

320. mál, sóknargjöld

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Á þskj. 651 er frv. til l. um sóknargjöld. Frv. samdi kirkjulaganefnd að meginstofni til. Þetta frv. var lagt fyrir Kirkjuþing 1982 og gerði það á því smávægilegar breytingar. Frá gerð frv. eins og kirkjuþing afgreiddi það hefur verið gerð ein breyting. Felld hefur verið niður grein um svokallað kirkjubyggingargjald. Skv. þeirri grein gat kirkjumálaráðh. heimilað sóknarnefndum, að fengnu samþykki safnaðarfundar, að leggja á þá sem sóknargjald eiga að greiða sérstakt kirkjubyggingargjald til að standa straum af kostnaði vegna byggingar eða endurbyggingar kirkju eða safnaðarheimilis svo og vegna meiri háttar viðgerðar á slíkum byggingum. Mátti gjald þetta nema allt að þreföldu sóknargjaldi. Skv. þessu gat gjald þetta hæst numið 2.4% af útsvarsstofni, ef heimildin væri að fullu nýtt.

Það var nokkuð augljóst að þetta ákvæði hefði haft í för með sér að tvísýnna var um framgang frv. Þess vegna var ákveðið að fella þessa grein niður. En meginbreytingin sem felst í frv. er sú, að sóknargjaldið er ekki lengur lagt á sem nefskattur, þ. e. sama skattfjárhæð án tillits til tekna manna eða gjaldþols, heldur verði gjaldið tiltekinn hundraðshluti af útsvarsstofni hvers gjaldskylds manns.

Í nokkur ár hefur sóknargjaldið verið eini nefskatturinn sem er lagður á. Veldur þetta óhagræði og auknum kostnaði við framkvæmd álagningar og innheimtu opinberra gjalda, m. a. í þeim tilfellum þar sem sóknargjaldið er eini skatturinn sem gjaldandi greiðir. Helsti kosturinn við þær álagningarreglur sem í frv. eru er sá, að þær tryggja sjálfkrafa aðlögun að hækkandi verðlagi og tekjum og þar með útgjöldum safnaðanna. Auk þess er í verulegum atriðum sniðinn af sá vankantur sem áður greinir um álagningu og innheimtu gjaldsins.

Rétt er að benda á ákvæði 8. gr. frv., þar sem héraðsfundi er heimilað að ákveða að allt að 5% sóknargjalda renni í sérstakan sjóð, héraðssjóð, sem ætlað er að standa undir sameiginlegum útgjöldum prófastsdæmisins. Er þetta nýmæli. Gæti þetta orðið til þess að örva kirkjulegt starf innan hvers prófastsdæmis.

Í nokkur ár hefur verið rætt um þörf á því að breyta gildandi ákvæðum um álagningu sóknargjaldsins. Mál þetta hefur komið til umfjöllunar á Kirkjuþingi nokkrum sinnum, m. a. 1974, 1978 og 1982. Á Alþingi 1974–1975 var flutt frv. til l. um sóknargjöld og síðan aftur 1975. Frv. þessi náðu eigi fram að ganga. Í þeim frv. var álagning gjaldsins tengd útsvari. Í frv. því sem hér liggur fyrir er gjaldið tengt útsvarsstofni. Samkv. 1. gr. skal gjaldið vera 0.2–0.4% af útsvarsstofni samkv. II. kafla laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Sóknarnefnd ákveður gjaldið innan greindra marka. Ef tekjur sóknarkirkju hrökkva eigi fyrir nauðsynlegum útgjöldum að dómi sóknarnefndar og sóknarprests þá er heimilt skv. 3. gr. frv., með samþykki safnaðarfundar, að hækka sóknargjaldið allt að tvöföldu, enda komi til samþykkis kirkjumrh.

Á síðasta ári var gerð könnun á því hvernig innheimta gjaldsins hefði komið út í samanburði við gildandi reglur. Miðað var við gjaldárið 1982 og náði könnunin til sóknanna í Reykjavík. Kom þá í ljós að núverandi gjald var innan þeirra marka sem gert er ráð fyrir í frv. Gögn um þetta getur n. sú sem fær málið til meðferðar fengið til afnota.

Rétt er að geta um erindi og ábendingar er borist hafa rn. og varða frv. þetta. Frá ríkisskattstjóra hafa borist nokkrar athugasemdir varðandi álagningu gjaldsins. Frá fjmrn. bréf þar sem m. a. er vakin athygli á því að ekki er gert ráð fyrir því að greiðslan fyrir álagningu gjaldsins komi til ríkissjóðs. Frá biskupi Íslands bréf þar sem farið er þess á leit við dóms- og kirkjumrn. að það hlutist til um að innheimtuþóknun, sem greidd er fyrir innheimtu sóknargjalds, lækki frá því sem nú er. Öll þessi gögn fær hv. menntmn. sem ég legg til að fjalli um frv. að lokinni þessari umr.

Ég legg til, hæstv. forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.