07.11.1983
Efri deild: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

19. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Flm. (Kolbrún Jónsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 81 23. júlí 1974, um Verðlagsráð sjávarútvegsins. Flm. er ásamt mér Stefán Benediktsson, hv. 8. þm. Reykv. Þetta er 19. mál 106. löggjafarþings og endurflutt óbreytt frá 105. löggjafarþingi.

Með grg. fylgja þrjú fskj.: grein eftir Jón Sigurðsson um starfsemi Verðlagsráðs sjávarútvegsins, grein eftir Friðrik Pálsson um starfshætti Verðlagsráðs sjávarútvegsins og grein eftir Vilmund Gylfason um frjálst fiskverð úr Nýju landi frá 1981. Vilmundur Gylfason lagði þetta frv. fyrir 105. löggjafarþing.

Þetta frv. um breyt. á lögum um Verðlagsráð sjávarútvegsins felur í sér eina breytingu þess efnis, að 10. gr. laganna falli niður, en í stuttu máli fjallar 10. gr. laganna um sérstaka yfirnefnd Verðlagsráðs með oddamanni frá Þjóðhagsstofnun, en með slíku fyrirkomulagi hefur ríkið bein afskipti af ákvörðunum um fiskverð.

Þegar útflutningsbótakerfið var lagt niður í ársbyrjun 1960 var ákveðið að opinberum afskiptum af fiskverðsákvörðunum skyldi hætt og teknir upp frjálsir samningar um verð milli fiskseljenda og fiskkaupenda. Þessi tilhögun reyndi á þolrif samningsaðila, því komið var nær vertíðarlokum áður en samningar tókust um fiskverð. en ekki kom samt til verkfalla.

Í upphafi ársins 1961 voru gerðir nýir kjarasamningar milli sjómanna og útvegsmanna. Meginefni hinna nýju samninga var gagnger breyting á hlutaskiptareglum, sem miðaðist við það m.a. að sjómenn tækju sinn hlut af sama verði og útgerðarmenn fengju fyrir fiskinn, en það hafði ekki áður verið. Framvegis skyldi því hvorki samið um sérstakt skiptaverð, eins og áður hafði verið gert, né um frádrag frá fiskverðinu áður en til hlutar væri reiknað. Með þessari breytingu urðu hagsmunir sjómanna við fiskverðsákvörðun enn skýrari en áður og sjómenn gerðu vitaskuld þá kröfu að eiga beina hlutdeild að öllum fiskverðsákvörðunum.

Árið 1961 lá nærri að til verkfalla kæmi á síldveiðiflotanum vegna þess að ekki hafði tekist að ákveða verð á síld. Skipaði þá þáv. sjútvrh. Emil Jónsson nefnd átta manna, einn frá hverju hagsmunasambandi. Á vegum þessarar nefndar var samið frv. til l. sem varð stofn að lögum nr. 97 18. des. 1961, um Verðlagsráð sjávarútvegsins. Með þessum lögum var gert ráð fyrir að hagsmunaaðilar semdu um verð á sjávarafurðum óháðir ríkisafskiptum. Breyting var gerð á þessum lögum í des. 1964 á skipun yfirnefndar, sem fól í sér að forstöðumaður Efnahagsstofnunar eða fulltrúi hans varð sjálfkjörinn oddamaður yfirnefndar. Þetta ákvæði er enn óbreytt nema hvað Þjóðhagsstofnun er komin í stað Efnahagsstofnunar. Þar með tekur ríkisvaldið sér stöðu á milli samningsaðila. Þessi tilhögun hefur leitt það af sér að ójafnvægi hefur skapast á milli fiskkaupenda og fiskseljenda. Vil ég í framhaldi af því fá að lesa hér upp smákafla úr ræðu Kristjáns Ragnarssonar, formanns LÍÚ sem birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 3. nóv. s. l., með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar haft er í huga að Verðlagsráði sjávarútvegsins ber að taka jafnt tillit til veiða og vinnslu við ákvarðanir sínar veldur það undrun að heyra og sjá, hve mikill mismunur er á afkomu þessara greina. Svo virðist, að oddamaður yfirnefndar ráðsins hafi ekki gengið þann gullna meðalveg sem honum er ætlað að ganga.“ m.ö.o. að það eru ákvarðanir oddamanns sem vega þyngst um skiptingu á milli útgerðarmanna og sjómanna.

Þessi tilhögun hefur leitt það af sér að ójafnvægi hefur skapast á milli fiskkaupenda og fiskseljenda, eins og ég áður nefndi. Hefur því ríkisvaldið vegna afskipta sinna af fiskverðssamningum gripið til ýmissa hliðarráðstafana, svo sem gengisfellinga eða uppbóta úr verðjöfnunarsjóðum. Þessar ráðstafanir hafa sjaldnast dugað lengur en þrjá mánuði með tilsvarandi verðbólguhækkun og þörf á endurtekningu vegna hækkunar á rekstrarkostnaði.

Í fskj. II. með þessu frv. segir í grein eftir Friðrik Pálsson, framkvæmdastjóra Sölusambands ísl. fiskframleiðenda, sem birt var í tímaritinu Ægi 1978, með leyfi hæstv. forseta:

„Á því er enginn vafi, að stofnun Verðlagsráðs sjávarútvegsins á sínum tíma og svo stofnun Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins voru spor í rétta átt, en því miður er svo komið, að hvorug þessara stofnana stendur lengur undir nafni. Það gerist æ algengara í störfum beggja þessara stofnana, að forstjóri Þjóðhagsstofnunar og aðrir embættismenn í krafti ríkisstjórnar ákveða bæði fiskverð í yfirnefnd Verðlagsráðs og viðmiðunarverð í Verðjöfnunarsjóði. Þær ákvarðanir eru sjálfsagt ekkert verri fyrir það. En við erum komin langt frá upphaflegum tilgangi með stofnun Verðlagsráðs, sem var að koma á frjálsum samningum milli kaupenda og seljenda án beinna afskipta ríkisstjórnar.“

Við könnumst öll mætavel við aðgerðir ríkisstjórna til þess að leysa vanda sjávarútvegs eða fiskvinnslu. Gengisfellingar, gengissig, erlendar lántökur til að styrkja fjárfestingarsjóði sjávarútvegsins o. fl. Allar þessar aðgerðir hafa miðað að því að velta vandanum á undan sér líkt og snjóbolta sem hleður stanslaust utan á sig þar til hann er orðinn svo stór að enginn fær við ráðið. Slíkum boltum verður ekki endalaust velt yfir á samfélagið. Ef tap er á sjávarútvegi er tap á öllu þjóðfélaginu. Þetta er undirstöðuatvinnugrein Íslendinga með um 70% af útflutningsverðmætum landsins. Það verður því að teljast réttlát krafa að þeir menn sem þessum starfsgreinum stjórna beri ábyrgð á fjárfestingu og rekstri þessara fyrirtækja. Án ábyrgðar hlutaðeigandi aðila verður ekki hagkvæmni náð.

Á árunum frá 1961–82 hafa verið teknar 273 ákvarðanir um fiskverð af yfirnefnd Verðlagsráðs. Þar af hefur samkomulag náðst 65 sinnum. Ákvarðanir um fiskverð þar sem atkvæði oddamanns var notað með seljendum gegn kaupendum voru 110. en með kaupendum gegn seljendum 71. 23 ákvarðanir um fiskverð hafa verið teknar með atkvæði oddamanns og annarra fulltrúa á víxl eða með hjásetu. Oddamaður hefur fjórum sinnum úrskurðað fiskverð einn.

S. l. ár er sýnishorn af aðgerðum af hálfu stjórnvalda, bæði hvað varðar fiskverð og inngrip í gerða samninga. Eins og kemur fram í skýrslu frá Verðlagsráði sjávarútvegsins fyrir árið 1982–83 voru ákvarðanir um almennt fiskverð fjórum sinnum til umræðu. Verðlagsákvörðun 1. des. var bundin við hámarksverðlagshækkun samkv. ákvæði 3. mgr. 1. gr. brbl. nr. 79 frá 21. ágúst 1982, sem ekki mátti nema meira en hækkun verðbóta á laun eftir 1. sept. 1982. Samkomulag var um að fiskverð skyldi hækka að meðaltali um 7.72%, sem var það sama og hækkun verðhóta á laun þann 1. des. Ákveðið var að hækkun kæmi jafnt á allar tegundir. Gildistími var ákveðinn einn mánuður, þar til 31. des. 1982. Ákvörðun um almennt fiskverð frá 1. jan. til 31. maí var vísað til yfirnefndar.

2. gr. brbl. nr. 58 27. maí 1983 hljóðar svo: „Almennt fiskverð samkv, tilkynningu Verðlagsráðs sjávarútvegsins nr. 4/1983, annað en verð á skarkola, skal hækka um 8% 1. júní 1983 og það verð síðan um 4% 1. okt. 1983, og skal það verð, sem er ákveðið, gilda til 31. jan. 1984.“

Í samræmi við þessar ákvarðanir var samþykki á fundi deildarinnar þann 30. maí að 8% hækkun kæmi jafnt á allar fisktegundir. Á fundi deildarinnar þann 15. sept. 1983 var samþykkt að 4% hækkun kæmi einnig jafnt á allar tegundir. Af þessu er því ljóst að fiskverð hefur verið bundið með lögum mestallt s.l. ár.

Verðlagningu á tímabilinu 1/1 til 28/2 lauk þann 31. des. Tillaga oddamanns fól í sér 14% meðalfiskverðshækkun. Var till. samþykkt með atkvæði oddamanns og fulltrúa útgerðarmanna gegn atkvæðum fulltrúa sjómanna, en fulltrúar kaupenda sátu hjá.

Almennt fiskverð frá 1/3–31/5 var ákveðið þann 27. febr. Ákveðin var 14.74% hækkun, jafnt á allar fisktegundir, en hækkun þessi er sú sama og verðbætur á laun frá 1. mars. Verðið var ákveðið af oddamanni og fulltrúum seljenda gegn atkvæðum annars fulltrúa kaupenda og hinn fulltrúi kaupenda sat hjá.

Fiskverð hefur því tekið mið af almennum verðhækkunum í landinu og vísitölubindingu launa, og er því ekki óeðlilegt að ætla að samfara afnámi vísitölubindingar á almenn laun í landinu verði gerð gagnger breyting á Verðlagsráði sjávarútvegsins til samræmis við frjálsa kjarasamninga. Máli mínu til stuðnings nægir að nefna ákvörðun um fiskverð frá 1. jan. s.l. Tillaga oddamanns fól í sér 14% fiskverðshækkun og náði fram að ganga. En þessi 14% fiskverðshækkun þýddi í reynd að 4% af óskiptum afla runnu beint í olíusjóð og gengisfellingu um tæp 10%. Þetta er bara ein af þeim mörgu björgunaraðgerðum ríkisstjórna sem leysa engan vanda, aðeins fresta þær vandanum um skamman tíma. Vandi útgerðarinnar virðist vera sífellt meiri. Ef marka má ummæli útgerðarmanna í dagblöðum undanfarið stöðvast flotinn ef ekkert verður að gert.

Ef tekið er mið af ástandi í sjávarútvegi eins og það blasir við í dag með tilliti til þess að afskipti ríkisvalds af fiskverðsákvörðunum í 19 ár hafa ekki dregið úr vandanum. heldur þvert á móti aukið vandann með miðstýringu og þeirri núllreglu sem er hvað mest í tísku í dag verður að telja það rökrétta áskorun til hæstv. ríkisstj. að hún hætti afskiptum af fiskverðssamningum, enda verði samningsaðilum frjálst að velja sér oddamann eða leita til sáttasemjara náist ekki samningar. Með þessu fyrirkomulagi er gerð sú krafa til útgerðar- og fiskvinnslumanna að þeir sniði sér stakk eftir vexti, enda er það í samræmi við þá kröfu sem gerð er til annarra landsmanna.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum leggja til að frv. verði afgreitt til 2. umr. og sjútvn.