26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4910 í B-deild Alþingistíðinda. (4320)

Umræður utan dagskrár

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það hefur lengi vafist fyrir þjóðinni hver hann væri þessi litli maður sem þeir í ríkisstj. eru alltaf að tala um og ég held að það liggi ekki á hreinu enn þá, en það hefur þó

komið fram hér á hverju hann lifir, þessi litli maður. Hann drekkur gosdrykki og étur sælgæti og þar með er það mál afgreitt og í hans þágu hafa þessar aðgerðir hæstv. fjmrh. Alberts Guðmundssonar verið.

Ég vil, herra forseti, fyrst lýsa því yfir sem minni skoðun að nýjustu ráðstafanir hæstv. fjmrh. í þágu litla mannsins hafi verið misráðnar og ákaflega óheppilegar og þessi stórfellda verðhækkun á þessum innlendu „hollustudrykkjum“ sé fráleit þegar tillit er tekið til þess að hér eru á ferðinni hollir drykkir í handhægum pakkningum, m. a. til nota í nestispökkum skólabarna, og á sama tíma er verð lækkað á gosdrykkjum og sælgæti, helstu sjáanlegu samkeppnisvörunum við þessa innlendu framleiðslu. Að þessu sögðu er ég ekki þar með að segja að ég sé að verja og réttlæta á allan hátt verðlagningarpólitík Mjólkursamsölunnar. Það er annað mál og óskylt og ég hef ekki til þess haldbærar upplýsingar að dæma þar um, enda skilst mér að slíkar upplýsingar liggi ekki aldeilis á lausu þó eftir sé leitað. Ég vil því ekki að þessu tvennu sé ruglað saman. Ég tel að það sé óheppileg verðlagningarstefna að stórhækka þessar vörur á sama tíma og gosdrykkir og sælgæti eru lækkaðir engum til gleði, nema þá ef vera skyldi tannlæknum.

En í framhaldi af þessu vil ég nota þetta tækifæri, herra forseti, til að beina nokkrum spurningum til hæstv. ráðh. ríkisstj., hver þeirra sem nú vill verða fyrir svörum, varðandi skylt mál sem fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarið, að standi til að lækka niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum um einar 150 til 200 millj. kr. Það er alveg ljóst að þetta eykur stórlega á þau vandamál sem fyrir eru í sambandi við landbúnaðarframleiðsluna. Það liggur fyrir ef lesin eru fyrstu fjárlög hæstv. ráðh. Alberts Guðmundssonar að það vantar miklar fjárhæðir til að standa við útflutningsuppbótarétt á þessu ári, ýmiss konar söluvandamál gera vart við sig og fyrir liggur að á fyrstu mánuðum þessa árs hefur verið óvenjumikil framleiðsla á mjólk og mjólkurvörum. Allt þetta eykur á þann vanda sem er að hlaðast upp í landbúnaðinum. Það má segja að einhver versta og óheppilegasta ráðstöfun sem hugsast gæti í þessari stöðu sé stórfelld lækkun á niðurgreiðslum, eins og heyrst hefur um og hæstv. forsrh. hefur reyndar lýst yfir í fjölmiðlum að til standi. Því vil ég spyrja þá ágætu hæstv. ráðh. sem staddir eru á hv. Alþingi í dag í fyrsta lagi hvernig þessi lækkun á niðurgreiðslum eigi að skiptast á milli vöruflokka innan þeirra vara sem niður eru greiddar. Samkv. útreikningum landbrn. mundi afnám niðurgreiðslna valda hækkun á smásöluverði landbúnaðarafurða á bilinu 10 til 40%. Ég vil spyrja í framhaldi af því hvort væntanlegar séu lækkanir á niðurgreiðslum til vinnslustöðvanna eða á niðurgreiðslum á hráefni frá landbúnaðinum og hvernig þessi mikla lækkun á að deilast út innan landbúnaðarvaranna. Það er ljóst að svona mikill niðurskurður kemur til með að valda umtalsverðri hækkun ef hann á að koma allur niður á vöruverði á síðari hluta þessa árs. Og þá má spyrja hvort aðgerðir hæstv. fjmrh. undanfarna daga og vikur, hinar skörulegu aðgerðir hans í Mangómálinu, séu forsmekkurinn af því sem væntanlegt er á öðrum sviðum. Þá er ástæða til að spyrja hvort hér sé ekki á ferðinni, ef af verður, skýlaust brot — ég bið verkalýðsleiðtoga þá sem staddir eru hér í fundarsalnum að taka vel eftir — skýlaust brot á þeim loforðum sem hæstv. ríkisstj. gaf verkalýðshreyfingunni og öðrum til að greiða fyrir kjarasamningum þeim er nýlega hafa verið gerðir. Þá væri einnig fróðlegt að fá frá t. d. hæstv. landbrh. einhver svör við því hvort í tengslum við þetta allt saman eigi að mæta landbúnaðinum 43.5% hækkun á áburðarverði á þessu vori eða hvort hæstv. ríkisstj. sé einhvers staðar í einhverju litlu gati að hugsa um að breyta þeirri hækkun eitthvað.

Því verður ekki á móti mælt að hollar og nógar landbúnaðarvörur, mjólk, kjöt, grænmeti og drykkir, t. d. úr mjólkurvörum, eru undirstaða hollrar og góðrar fæðu og það er brýnt hagsmunamál neytenda að þeir geti með hóflegum kjörum aflað sér þessarar fæðu og það í ríkum mæli. Það er einnig ljóst að lækkun á niðurgreiðslum býr til vanda í framtíðinni, hún býr til gat sem síðan mun rúlla á undan ríkisstj. og fara stækkandi og mæta henni fyrr eða síðar þegar lengra er komið upp í brekkuna. Ég spái því að það verði ekki útsala heldur stórútsala á kjöti næsta haust ef svo fer sem horfir með áætlanir ríkisstj. Maður vonar í lengstu lög að til þess komi ekki að fleygja þurfi matvælum, en þó vildi ég ekki taka fyrir að svo kunni að fara ef aðgerðir ríkisstj. verða allar að veruleika.

Víkjum þá aftur, herra forseti, lítillega að því sem ég hóf mál mitt á, sem er spurningin um skattlagningu eða ekki skattlagningu á þessum hollustudrykkjum. Ég vil að það komi fram sem mín skoðun að hér séu á ferðinni mjólkurvörur, matvæli, sem eigi að njóta þeirra undanþága sem aðrar hliðstæðar vörur njóta. Ég vil ekki flokka þessa drykki sem sælgæti eða gosdrykki. Ég held að það þurfi ekki flókna lagaskýringu til til að komast að niðurstöðu í þessu máli.