26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4912 í B-deild Alþingistíðinda. (4321)

Umræður utan dagskrár

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Einhverjir þm. heyrðust hér í gær smásöngla: Allir dansa tangó, mangó, mangó. Menn lýsa því reyndar yfir að þetta sé ekki gamanmál og svo er auðvitað ekki. Ég fagna þeirri yfirlýsingu sem kom hér frá hæstv. fjmrh. Það er traustvekjandi að heyra að hann sé einfær um að sinna sínum störfum og þurfi ekki aðstoð. Það er líka traustvekjandi að heyra hann lofa því að ekki komi til greina að semja um það hvort innheimta eigi lögboðin gjöld eða ekki. Því að sú umr. sem í gangi er — a. m. k. ef marka má túlkun blaðanna — meðal ráðh. er um það hvort framkvæmdavaldsaðilar, þ. e. ráðh., geti einfaldlega samið um það innbyrðis hvort framfylgja eigi lögum eða ekki. Að löggjafinn geti í raun og veru þolað slíka umr. er útilokað því að það er hans að segja fyrir verkum og hinna að framkvæma það sem fyrir þá er lagt, þ. e. að framfylgja lögum.

Hvað þessu sérstaka máli viðvíkur þá blandast hér mjög margt saman. Menn greinir á um það hverslags tegund drykkja hér um ræðir, hvort þetta eru hollustudrykkir eða svaladrykkir. Og menn hafa á því misjafnar skoðanir að hvað miklu leyti þetta er burðarás íslenskrar landbúnaðarframleiðslu. Menn hafa líka á því misjafnar skoðanir hvaða áhrif núv. stefna ríkisstj. í þessu máli og öðrum hugsanlegum málum sem því tengjast, eins og spurningunni um minnkandi niðurgreiðslur, hafi endanlega á þjóðarbúið og afkomu þess.

Erfitt er að halda því fram að hollusta þessara drykkja sem hér um ræðir sé algerlega einhlít. Kakó er t. d. jurtategund sem hefur afskaplega lík áhrif og kaffi og te og álíka mikla hollustu eða hollustuleysi og í því er fólgið. Hvað hinum drykkjunum viðvíkur, sem eru mjólkursýrudrykkir eða mysudrykkir, þá hef ég einfaldlega ekki þá efnafræðiþekkingu að geta gert mér grein fyrir hvað þau bragðefni gera sem í þá er bætt. En skrýtið þætti mér ekki ef þar væri hvítasykur með í ferðinni og hollusta hans er eins og allir vita tvíræð mjög. Þar af leiðandi tel ég túlkun þessara laga ótvíræða og að réttmætt sé að framfylgja þeirri skattheimtu sem þarna er talað um. Menn geta reyndar breytt lögum ef þeir svo vilja en það er þá ekki framkvæmdavaldsaðilans að gera það heldur löggjafans ef vilji er fyrir hendi að gera slíkt. En á meðan lögunum er ekki breytt tel ég ótvírætt að þessi skattheimta skuli fara fram.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. hafði áhyggjur af áhrifum þessa máls og annarra á afkomu landbúnaðarins. Hann talaði um útflutningsuppbætur, offramleiðslu, kjarasamninga og fleiri atriði í samhengi við þessa umr. Verður að segjast að þá sé farið að blanda ansi mörgum hlutum saman því að hér er fyrst og fremst um það að ræða hvort túlka eigi lög með þessum hætti eða öðrum. Það er okkar að segja fyrir um það, þ. e. löggjafans en ekki ráðh., hvernig túlka eigi þessi lög og engan annan að spyrja en löggjafann um það.

Aftur á móti varpa þessar athugasemdir hv. 4. þm. Norðurl. e. upp síendurteknum spurningum um stöðu landbúnaðarframleiðslu í íslensku efnahagskerfi og þjóðlífi. Þá undarlegu hugsun að útflutningsuppbætur, þ. e. að greiða niður útflutning á vöru sem ekki nær því verðgildi sem hún er talin hafa, séu nauðsynlegar og eðlilegar er erfitt að skilja og skynja. Að tala um það að offramleiðsla mjólkur hafi svo og svo mikil áhrif á þjóðarbúið, að það skuli ekki vera hlutverk þeirra sem selja og þeirra sem vinna úr mjólkinni að ákveða hversu mikið eigi að framleiða og setja á markað, að sjálfsagt sé að borga og kaupa hvern einasta mjólkurlítra sem framleiddur er, hversu margir lítrar sem eru framleiddir fram yfir það sem nauðsynlegt er, það er skilningsatriði sem líka er mjög erfitt að sannfæra menn um. Að spá því að allt þetta endi síðan í einhverskonar útsölu á grænu kjöti þegar upp er staðið, það höfum við reyndar upplifað en eiginlega er dálítið undarlegt að heyra að menn tali um slíkt sem einfalt og sjálfsagt í tengslum við skiputag þessara mála og að þarna megi alls ekki um breyta.

Að tengja þetta síðan kjarasamningum segir okkur aftur einungis það að íhlutun ríkisvalds í kjarasamninga er stórgölluð og gagnrýnisverð vegna þess að ríkisvaldið hlýtur alltaf að þurfa að hafa ákveðið svigrúm til þess að bregðast við þeim vandamálum sem við þarf að bregðast hverju sinni og þá er afskaplega erfitt að vera búinn að binda sig svo í báða skó við hagsmunaaðila að hún sé siðferðilega skuldbundin til þess að taka rangar ákvarðanir frekar en réttar.

Nú á maður eftir að heyra það hvort samráðh. hæstv. fjmrh. eru sammála honum um það að ekki komi til greina að semja um það hvort innheimta eigi lögboðið gjald eða ekki. Væri reyndar mjög forvitnilegt að fá að heyra álit þeirra á því ef einhverjir þeirra eru reiðubúnir til þess að svara því, t. d. hæstv. landbrh. En mér er ekki grunlaust um á meðan annað kemur ekki fram að hæstv. fjmrh. standi nokkuð einn uppi í ríkisstj. með þetta álit sitt á framkvæmd laga að þessu sinni og að við eigum eftir að upplifa það að hann verði að sætta sig við það að fara þá leiðina að framfylgja ekki lögum. Hann stendur þá reyndar frammi fyrir afskaplega alvarlegu vandamáli skv. þeim yfirlýsingum sem hann er búinn að gefa því að þá er hann nánast orðinn lögbrotamaður.