26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4914 í B-deild Alþingistíðinda. (4323)

Umræður utan dagskrár

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að koma með neitt innlegg hér í þá miklu spurningu hvort Kakómjólk eða Mangósopi séu hollir drykkir, né heldur hvort þetta sé matvara yfirleitt. Það sem mér finnst menn leiða hjá sér hér er sú meginspurning sem margir landsmenn velta fyrir sér þessa dagana: Hvernig má það vera að fyrirtæki eins og Mjólkursamsalan er í standi til að leggja fram án þess að blikna eða blána 130 millj. í nýtt stórhýsi af hreinum gróða fyrirtækisins? Mér er það spurning og hún nokkuð stór, hvernig þessir peningar eru fengnir. Hér tala menn með grátstafinn í kverkunum um að verið sé að skattleggja borgarana ef greiða á söluskatt af þessari vöru. En það skyldi nú aldrei vera að það væri ærinn skattur á skattborgarana þessar 130 millj. sem hægt er að reiða fram í nýtt stórhýsi án þess að taka lán. Ég hefði áhuga á því að heyra frá hæstv. landbrh. hvort fyrirtæki sem stendur svo vel þarf að vera að emja yfir þessum margumrædda söluskatti. Ég hlýt að spyrja að því.