26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4918 í B-deild Alþingistíðinda. (4327)

Umræður utan dagskrár

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. Ég taldi mér bara skylt, vegna þess sem fram kom í máli hv. 2. þm. Norðurl. v., að leiðrétta það eilítið að hér sé á ferðinni bændaandúð, sem er gagnrýni sem oft er gripið til þegar rædd eru mál sem landbúnaðinn varða. Ég tel þetta mál ekki í sjálfu sér vera landbúnaðarmál, heldur fyrst og fremst spurningu um lög og skattheimtu, og það sé ekki með nokkru móti hægt að túlka þetta þannig að verið sé að lýsa yfir einhvers konar andúð á bændum og landbúnaði. Réttilega benti hv. 2. þm. Norðurl. v. á það að þetta er skattur á neyslu en ekki á fyrirtæki. Þó ber að taka til greina aths. hæstv. fjmrh., þegar þetta mál var eilítið nefnt hér fyrir nokkrum dögum, þar sem hann tók mjög skýrt fram að hann mundi ekki leyfa verðhækkanir sem af þessari skattheimtu leiddu. Ég treysti því að þau orð hans standi enn þá. Verðmyndun var að hans mati það gölluð á þessari söluvöru að hann taldi ekki nauðsynlegt, í ljósi þeirrar vitneskju sem hann hafði þá, að verð vörunnar hækkaði þótt þessi skattheimta færi fram. Höfðaði hann þá einmitt til þess máls sem hv. 10. landsk. þm. minntist á áðan, að það fyrirtæki sem einkum kemur við sögu hefur getað lagt út ansi mikla fjármuni á s. l. ári til fjárfestingar án lántöku. Það eru ekki neinar smáupphæðir. Ég tel miklu frekar að þar sé á ferðinni einhver mesta bændaandúð sem um ræðir í okkar þjóðfélagi. Afurðin, þ. e. mjólkin, er keypt tiltölulega mjög lágu verði og það er ríkissjóður sem greiðir í raun og veru þann verðmismun sem talið er þurfa að bæta. Síðan eru afurðir unnar úr þessari mjólk, sem fengin er á þetta lágu verði, og þær eru síðan seldar á rokháu verði. Það er um það að ræða að mjólk til neytenda hér á Íslandi er seld á nokkuð lægra verði en mjólk til neytenda annars staðar á Norðurlöndunum, en afurðirnar, sem unnar eru úr þessari niðurgreiddu mjólk, eru seldar á 150–200% hærra verði en gert er í nágrannalöndunum. Þarna er á ferðinni miklu meiri bændaandúð, tel ég, heldur en í nokkurri annarri gagnrýni sem fram hefur komið á þetta kerfi. Og að menn skuli enn þá berja hausnum við steininn og neita því sem mögulegri aðferð til verðmyndunar á þessu sviði að markaðurinn, þ. e. neyslan, ráði því hversu mikið er framleitt og hversu mikið er selt af hráefni til framleiðenda og að það sé samningsatriði milli framleiðendanna og þeirra sem hráefninu skila, það get ég ekki skilið og kem ekki til með að skilja, hversu lengi sem þessi umr. á sér stað.