26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4919 í B-deild Alþingistíðinda. (4328)

Umræður utan dagskrár

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin slík sem þau voru. Hann spurði hvort ég teldi að þessi svör væru fullnægjandi. Ekki get ég sagt það. Það væri fullmikið sagt. Þetta voru býsna margar spurningar. Engu að síður var mjög til bóta að fá yfirlýsingu hæstv. ráðh. um að hann væri einfær um að framfylgja lögum um innheimtu söluskatts, í þessu tilfelli af þessu umrædda fyrirtæki, og hann væri ekki reiðubúinn til samninga um að fella þá innheimtu niður og væri ekki til viðræðu um það, að því er mér skildist, við aðra ráðh. Þá er hins vegar orðin spurning um hvers vegna þessi stóra og merkilega nefnd er á laggirnar sett. Í fyrsta lagi liggur fyrir að ýmsir helstu þm. Framsfl. hafa lagt fram frv. til l. á þessu þingi um að fetla niður söluskatt eftir því sem best er vitað, stutt af öllum þm. Framsfl. Það er auðheyrt á þeim ræðumönnum sem hér tala úr framsóknararmi Alþb. að þetta er einnig stutt af þeim og mér er tjáð að einhverjir menn úr framsóknararmi Sjálfstfl., að vísu ekki ýkjamargir, — þeir gæta þess mjög vel í þessum umr. að láta ekki til sín heyra — muni jafnvel styðja þetta. Þannig er ástæða til að ætla að þrátt fyrir allt verði hart að hæstv. fjmrh. sótt. Það er annars vegar tangarsókn í ríkisstj. af hálfu ráðh. og stuðningsflokks ríkisstj., framsóknarmönnum, og ef það dugar ekki hafa þeir flutt hér frv. til l. og þá reynir á afstöðu þings í þessu efni.

Það var ekki að ástæðulausu að ég spurði hvort hæstv. ráðh. væri undir þrýstingi í þessu efni. Það er nefnilega ástæða til að líta nánar á það mál. Ég vek athygli á að í grg. í frv. þeirra framsóknarmanna er komist svo að orði að skattyfirvöld hafi ekki krafið um þessi gjöld af mjólkurvörum og verði því að álíta að yfirvöld hafi talið ótvírætt að ákvæði laga um skattfrelsi mjólkurvara næðu til áðurnefndra mjólkurdrykkja. Nú byggist ákvörðun fjmrh. um innheimtu, þótt seint sé tekin, á ákvæðum tollskrár (nomenklatura) Brüsselsáttmála þar sem ekkert fer milli mála að forsendan er sú að skv. þeim tollskrárflokki sem umræddar vörur eru í ber að innheimta vörugjald og vörugjaldskyldar vörur eru um leið söluskattsskyldar. En það eru til lög í landinu þrátt fyrir allt, lög frá árinu 1933, sem að vísu eru svo dularfull að þau finnast ekki í Lagasafni Íslands, sem kveða á um að Mjólkursamsalan í Reykjavík skuli líka undanþegin öðrum sköttum. Hún er nefnilega undanþegin aðstöðugjaldi. Að vísu eru þessi lög ævaforn. Þau voru þá um það að Mjólkursamsalan skyldi vera undanþegin útsvari hér í Reykjavík. Skv. hæstaréttardómi síðar, þar sem á það var látið reyna fyrir dómstólum hvort þessu fyrirtæki væri skylt að borga skatta af rjómaísframleiðslu sinni, var úrskurðað að svo væri ekki vegna þess að þar væri um mjólkurafurð að ræða. Niðurstaðan er því sú að þetta umrædda fyrirtæki er undanþegið aðstöðugjaldi, en samkeppnisfyrirtæki t. d. í framleiðslu á rjómaís eru það ekki.

Hv. þm. Páll Pétursson beitti þeirri röksemd að hér væri um að ræða skattlagningu á neysluvöru, þ .e. hann var að lýsa því sjónarmiði sínu að ef þetta væri lagt á Mjólkursamsöluna væri hún aðeins orðin innheimtuaðili ríkissjóðs. Vissulega er það rétt. Þau fyrirtæki sem innheimta og skila söluskatti eru innheimtuaðilar ríkissjóðs og eiga ekki þetta fé. spurning númer eitt er þess vegna sú: Er þessi framleiðsla söluskatts- og vörugjaldsskyld eins og aðrar? Og þar er kjarni málsins sá: Hver er aðstaða samkeppnisaðila sem keppa við þá sem samkv. sérstökum lögum eru undanþegnir aðstöðugjaldi sem öll önnur fyrirtæki eiga að greiða og síðan eru lögð fram sérstök lög á Alþingi um að undanþiggja þá líka vörugjaldi og söluskatti og lagður á pólitískur stórþrýstingur á hæstv. fjmrh. að láta ekki til þess koma, heldur að beygja sig fyrir þrýstingi um að gera þetta? Það eru önnur fyrirtæki í landinu sem njóta ekki þessara sérstöku kjara. Við erum að tala hér um söluskatt upp á 23.5%. Gera menn sér ekki grein fyrir að ákvörðunarvaldið í þessu efni getur ráðið lífi eða dauða fyrirtækja vegna þess að þessi skattur kemur inn í afurðaverðið og ræður þannig úrslitum um hver staða fyrirtækja er á markaði? Það fyrirtæki sem nýtur þess í skjóli pólitískra áhrifa að vera undanþegið bæði aðstöðugjöldum, söluskatti og vörugjaldi er auðvitað að tryggja sér fyrir pólitíska náð aðstöðu á markaðnum sem önnur fyrirtæki njóta ekki. Og þar eru menn að beita pólitísku valdi sínu til að koma í veg fyrir að lögum sé framfylgt. Menn eru að mismuna aðilum í landinu. Menn eru að gera upp á milli fyrirtækja. Menn eru að gera upp á milli framleiðsluvara. Menn eru að beita pólitísku valdi sínu til að ráða því hvaða fyrirtæki megi framleiða hvað og hver ekki.

Nú vil ég beina máli mínu til hæstv. fjmrh., sem lýsti því yfir að hann væri einfær um að leysa það mál að halda innheimtunni til streitu og léti ekki aðra kúga sig til að falla frá því að framfylgja lögum. Mér er tjáð að hæstv. ráðh. hafi í haust lagt fram frv. til l. innan hæstv. ríkisstj. þess efnis að forréttindi umrædds framsóknarfyrirtækis í því efni að það skuli vera undanþegið aðstöðugjaldi skyldu vera felld niður, en hann hafi þá í því máli verið beittur slíkum þrýstingi af kollegum sínum í Framsfl. að hann hafi horfið frá því að láta á þetta reyna. Nú spyr ég hæstv. fjmrh.: Er það rétt að samstarfsaðilar í ríkisstj. hafi kúgað hæstv. fjmrh. frá því að fylgja fram svo sjálfsögðu réttlætismáli? Er það rétt að þetta frv. hafi verið samið? Er það rétt að það hafi verið lagt fram? Er það rétt að ástæðan fyrir því að það hefur ekki verið lagt fyrir Alþingi sé sú að framsóknarráðh. og þingflokkur Framsfl. hafi hótað því að slíkt varðaði við stjórnarslit? Er með öðrum orðum komið á daginn hver eru skilyrðin fyrir því að stjórna landi með Framsfl.? Ætli það sé ekki alveg á hreinu orðið hver þau lágmarksskilyrði eru? (Gripið fram í.) Hæstv. fjmrh. svarar því til að hann vonist til þess að störf Mangó-nefndarinnar, hinna tólf postula, verði fyrsta skrefið til þess að skoða sérstaklega ekki aðeins verðmyndun þessa fyrirtækis heldur allt heila verðmyndunarkerfið í landbúnaðinum. Guð láti gott á vita, en ég spyr: Ef það er rétt að hæstv. ráðh. hafi látið framsóknarmenn kúga sig í því sjálfsagða réttlætismáli að þetta umrædda fyrirtæki skuli greiða aðstöðugjöld eins og önnur gjöld, má þá treysta því að hæstv. ráðh. bogni ekki að lokum, eins og litli maðurinn sjálfur, undan farginu frá þessu kerfi?

Ég segi fyrir mína parta að umr. hefur farið meira og minna út um víðan völl. Hún snýst ekki um barnagæslu, hún snýst ekki um hollustuhætti og hún snýst ekki um það hvort sykur í framsóknarvöru er hollari eða óhollari en í einhverri annarri. Menn skulu ekki láta sér detta í hug að þetta glundur sé neitt sérstök hollustuvara. Svo er að sjálfsögðu ekki. Spurningin er ekki um þetta glundur. Spurningin er um pólitískt glundur. Spurningin er um hvort menn ætla að framfylgja hér lögum. Spurningin er hvort sjálfstæðismenn ætla að láta kúga sig rétt einu sinni enn af hinu margrómaða SÍS-framsóknarvaldi. Spurningin er hvort þeir ætla að standa á því að almenningur í landinu og fyrirtæki í landinu og framleiðsluvörur í landinu eigi að vera jöfn fyrir lögum. Um það er spurningin.

Og þá má minna á annað. Það eru til fleiri fyrirtæki sem njóta alveg sérstakra fríðinda. Ég vil t. d. minna á að sama máli mun gegna um fyrirtæki sem heitir Grænmetisverslun ríkisins. Hvað er um það fyrirtæki að segja? Stundum er það kallað ríkisfyrirtæki, en sjálfir mega stjórnendur þess ekki heyra á það minnst og segja að þeir stjórni sjálfseignarfyrirtæki. Sem slíkir eiga þeir líka að greiða aðstöðugjald og sem slíkir eiga þeir líka að greiða söluskatt og vörugjald af sínum söluvörum. Þeir eru undanþegnir. Það mætti nefna fleiri stofnanir og fyrirtæki. T. d. er Brunabótafélag Íslands, sem er almennt tryggingafyrirtæki, skráð inn í fjárlög sem ríkisfyrirtæki. Auðvitað er þetta eins og hver annar „bissness“ og á að greiða skatta og gjöld eins og önnur fyrirtæki. Hvers vegna ekki? Hvers vegna er það ekki gert?

Og það er fleira um þetta mál að segja. Við erum að tala um fjárlagagat, sem samstarfsaðilar hæstv. fjmrh. nefna yfirleitt fjármálagatið hans Alberts, upp á rúma tvo milljarða króna. Það er merkilegt að sama daginn og þessi umr. fer hér fram birtir hið frjálsa og óháða blað DV frétt undir fyrirsögninni „Eru að guggna á nýju sköttunum. Enginn sem berst fyrir þeim, segir Ólafur G. Einarsson, formaður þingflokks Sjálfstfl.“

Vikum saman, mánuðum saman eru þeir búnir að velkjast í þessum vanda, hvernig eigi að rimpa í þetta gat sem þeir kenna við hæstv. fjmrh. Engin ráð eru komin enn. Margsinnis er búið að lýsa því yfir að þetta verði leyst fyrir páska, þetta verði leyst strax daginn eftir páska. Nú liggur fyrir að það verður ekki leyst í dag og ekki leyst á morgun. Það verður ekki leyst fyrr en eftir helgi. Guð má vita hvenær það verður leyst. En kjarni málsins er sá: Framsfl. er að vísu búinn að samþykka tillögur um auknar álögur á almenning í landinu, en Ólafur G. Einarsson, formaður þingflokks Sjálfstfl., segir: „Það er enginn í mínum flokki sem er búinn að samþykkja það og enginn sem berst fyrir því.“ Ég ætla ekki að rifja upp í löngu máli að það liggja fyrir yfirlýsingar hæstv. fjmrh. um hver er afstaða hans í þeim málum. Hann hefur lýst því yfir nógu oft. Meðan hann er fjmrh. verða ekki lagðar auknar álögur á fólkið í landinu. Að vísu stendur e. t. v. til að auka erlendar lántökur um svo sem eins og 800 millj. kr., en ein aðferðin er sú, að þó á samkvæmt þessum tillögum að fella niður áður gefnar undanþágur frá söluskatti. Það á m. ö. o. að loka fyrir smugur í söluskattinum, gera þar með kleift að ganga harðar fram í innheimtu á söluskatti. Þar erum við að tala um að það eigi kannske að skila einum litlum 200 millj. í viðbót inn í ríkissjóð á þessu ári ef þetta væri gert. M. ö. o.: báðir armar ríkisstj., framsóknararmurinn og hinn armurinn, eru sammála um að þetta verði að gera, það verði að taka upp nýja stefnu, auka og herða innheimtu á söluskatti með því að fella niður undanþágur. T. d. af hverju? Jú, jú, það á að fella niður undanþágu á lögmönnum, endurskoðendum, tannlæknum, ráðgjafarverkfræðingum og öðrum slíkum aðilum. Þeir mótmæla auðvitað. Auðvitað dettur engum í hug að það eigi ekki eftir að vefjast fyrir ríkisstj. marga daga, ef ekki vikur, hvort hún rennur á rassinn undan hótunum frá lögmönnum og endurskoðendum og öðrum slíkum, en þetta er samt sem áður stefnan. Hvernig á það að ganga upp að á sama tíma og ríkisstj. er að guggna á öllu „rimperíinu“ í fjárlagagatinu, lýsir því yfir að þetta sé leiðin sem hún ætlar að fara gagnvart söluskatti, eru gerðar kröfur um það af hálfu annars samstarfsflokksins í ríkisstj. að fyrirtæki, sem sá flokkur hefur sérstaklega undir sínum verndarvæng, skuli hvað sem tautar og raular, hvað sem líður lögum, undanþegin söluskatti, þannig að ríkissjóður sé sviptur tugum milljóna í skatttekjum á ári hverju?

Það er ákaflega einfalt mál að reka fyrirtæki ef þannig er um hnútana búið að það þarf ekki að greiða nein opinber gjöld af framleiðslunni. Það er ákaflega auðvelt að stunda samkeppni við aðra aðila á markaðnum ef ekki þarf að greiða nein slík opinber gjöld. Einhvern tímann hefði sú rulla heyrst í þessum umr. af hálfu þeirra sjálfstæðismanna að það væri hlutverk þess flokks og hugmyndafræðilegt keppikefli að tryggja að einkafyrirtæki í landinu fái a. m. k. að njóta þess í samkeppni við önnur fyrirtæki að þeim sé ekki mismunað að því er varðar skattheimtu og það sé ekki kippt fótunum algjörlega undan starfsemi þeirra með því að þau keppi við fyrirtæki sem eru undanþegin hvorki meira né minna en 23.5% söluskatti plús vörugjaldi plús aðstöðugjaldi. Ef svo er komið að þeir sjálfstæðismenn beygja sig í slíkum málum fer að kárna gamanið í þeim flokki, er ég hræddur um. Þá fara margir að spyrja: Hver er tilgangurinn með þessu samstarfi öllu saman ef það er allt á þá bókina lært? Sjálfstæðismenn skulu beygja sig fyrir því þegar framsóknarmenn setja hnefann í borðið að því er varðar þeirra eigin skjólstæðinga og fjandinn hirði hina. Það fer ekkert milli mála að því er varðar þau rök hv. þm. Páls Péturssonar að það varðar ekki litlu hvort um er að ræða að fyrirtæki eru undanþegin þessu eða ekki. Að sjálfsögðu verður ekki deilt við þá framsóknarmenn lengur um það hver lögin í landinu eru. Það fer ekkert milli mála. Um leið og þeir lögðu fram sín frv. um að lögum um söluskatt skuli breytt til þess að staðfesta undanþágu þessa fyrirtækis voru þeir auðvitað um leið að staðfesta það svo ótvírætt er að þeir telja að lagaheimild skorti.

Það er ein spurning enn: Er það alveg gefið mál að þótt þetta umrædda fyrirtæki, sem Framsfl. gerir sér svo annt um, yrði látið sæta því að sitja við sama borð og önnur fyrirtæki í landinu að lögum með því að greiða söluskatt, vörugjald og aðstöðugjald, er þá alveg gefið mál að fyrirtækið hljóti að velta þeirri skattheimtu af herðum sér yfir í verðlag í landinu? Hv. þm. Guðrún Helgadóttir spurði hvernig stæði á því að þetta fyrirtæki er bært til þess og hefur aðstöðu til að nota hundruð milljóna króna í nýjar fjárfestingar, í nýjum höllum og musterum, án þess svo mikið sem það þurfi að leita eftir einni krónu í láni. Skýringin er ósköp einföld. Það fyrirtæki sem nýtur þeirrar aðstöðu að þurfa ekki að greiða nein opinber gjöld í samkeppni við aðra aðila er þannig í stakk búið að það þarf ekki að leita til annarra. Reyndar mætti rifja upp svar Morgunblaðsins, höfuðmálgagns ríkisstj., til hv. þm. Páls Péturssonar, en Morgunblaðið segir í leiðara þann 15. apríl s. 1.:

„Væru framsóknarmenn sjálfum sér samkvæmir ættu þeir að beita sér fyrir verulegri verðlækkun á kakómjólkinni. Eins og málum er háttað nú ætti auðveldlega að vera unnt að greiða opinber gjöld af henni án þess að hún hækkaði um einn eyri í verði.“

Það er verðugt viðfangsefni fyrir ráðherranefndina, sem er nú að kanna verðmyndunina í þessu kerfi, hvort þessi rök Morgunblaðsins standast.

En það verður fylgst með þessu máli. Hér hafa orðið á þessum vetri og núna á seinustu vikum nokkrar umræður um skattsvik og skattundandrátt í landinu. Þar hafa verið nefndar háar tölur. Ég minnist þess að forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar kom í sjónvarp fyrir skömmu og var þar spurður um sitt mat á því. Hann tók það skýrt og skilmerkilega fram að hann mundi fara mjög varlega með tölur í því efni og að opinberar tölur í þeim efnum væru áreiðanlega það íhaldssamasta sem nefnt væri. Þó sagði hann að ekki væri ósennilegt að um þrír milljarðar króna væru dregnir undan skatti að því er varðar tekjuskatt og eignarskatt og vegna þess að þær tekjur væru yfirleitt í hæstu álagningarflokkum mætti ætla að þetta væru um 1500 millj. kr. Jafnframt tók hann margsinnis fram að þetta væru áreiðanlega íhaldssömustu áætlanir sem um getur. Aðrir aðilar sem hafa kannað slík mál telja að hér sé um algjörar lágmarkstölur að ræða og telja eðlilegt að nefna hærri tölur.

Alþingi Íslendinga hefur verið á hvolfi, eða a. m. k. ríkisstj., á undanförnum vikum til að ræða fjárlagagat, vöntun á tekjum til að standa undir þeim útgjöldum sem ríkisstj. er búin að fá samþykkt eða ætlar að beita sér fyrir. Það verður að gera þá kröfu að það sé samræmi í því sem hæstv. ríkisstj. gerir. Hún getur ekki ætlast til þess að henni verði hælt endalaust fyrir þá hreinskilni að skýra frá því að hún er með allt niður um sig í ríkisfjármálum. Það verður ekki beðið endalaust vikum saman og mánuðum saman eftir því að kaupin gangi saman á eyrinni innan ríkisstj. og milli flokkanna um það hvernig þeir ætla að stoppa í þetta gat. Þegar hún boðar þá stefnu að ein leiðin sé að snúa sér nú að vanskilunum í skattheimtukerfinu, m. a. með því að afnema undanþágur að því er varðar söluskatt, er það ekki beinlínis traustvekjandi, þegar þau mál koma upp, að það verða stærstu ágreiningsefnin milli Framsfl. og Sjálfstfl. hvort framsóknarfyrirtæki af þessu tagi skuli njóta þeirra forréttinda á sama tíma og þetta er að gerast að það verði staðfest með sérstökum aukalögum nú eða með pólitískum samningum innan ríkisstj. að um þau skuli gilda allt önnur lög en aðra.

Herra forseti. Ég ítreka spurningu mína til hæstv. fjmrh.: Er það rétt að hann hafi látið semja frv. til l. um að afnema skattundanþágu að því er varðar þetta fyrirtæki og varðar aðstöðugjöld? Er það rétt hermt að það frv. hafi verið lagt fram í ríkisstj.? Og ég spyr enn: Hver urðu örlög þess frv.? Megum við vænta þess, herra fjmrh., að fá að sjá þetta frv. og taka afstöðu til þess? Er ekki réttlætismál að fyrirtæki í landinu séu jöfn fyrir lögum að því er varðar skattheimtu til opinberra aðila? Er ekki tími til kominn að Alþingi fái að sjá þetta frv? Ég vænti svara við þeim spurningum.

Ég held að niðurstöðurnar í þessu máli séu fljótuppdregnar. Málið snýst ekki um hollustuhætti og það snýst ekki um mataræði. Það snýst um það hvort menn eigi að vera jafnir fyrir lögum. Við erum að tála hér um helsta tekjustofn ríkisins. Við erum að tala um söluskatt upp á rúm 23%. Þetta er stærsti tekjustofn ríkisins. Þetta er skattur sem getur skipt sköpum um hverjir eiginlega hafa heimild til að stunda atvinnurekstur í landinu. Þeim sem eru undanþegnir því án lagaheimilda en í skjóli einhverra pólitískra fríðinda er skenkt slík aðstaða að ég hygg að það væri erfitt að réttlæta slíkt eftir á. Ég held að pólitískt séð sé þetta á hinn bóginn annars konar stórmál. Það staðfestir einn ganginn enn að tilraun Sjálfstfl. til stjórnarmyndunar með framsókn er þessa dagana að renna út í sandinn. Sú tilraun er að mistakast fyrir augunum á okkur. Árangur þessarar ríkisstj. var skjótur að svo miklu leyti sem hann var eingöngu kominn undir þeirri einu aðgerð sem snertir afnám vísitölukerfis launa, sem gat vissulega átt rétt á sér, og ég fyrir mína parta t. d. tek fram og hef ekki dregið neina dul á að ég styð það, en því aðeins gat hún skilað einhverjum árangri til frambúðar að annað kæmi á eftir. Og nú reynir á það. Það reynir á hvort þessu er fylgt eftir með einhverri raunverulegri hreingerningu í fjármála- og fjárfestingarkerfi þjóðarinnar, uppstokkun á sjóðakerfi, breyttri fjárfestingarpólitík o. s. frv. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Þegar komið er að þeim heilögu kúm framsóknarkerfisins, þá er allt stopp, þá er engum árangri frekar að ná.

Í Dagblaðinu í dag, hinu frjálsa og óháða, er líka sérstök frétt sem þetta varðar: Sjóðanefndin er sprungin, engin samstaða um alvörutök á sjóðakerfinu né um að leggja Framkvæmdastofnun niður. Nánari greinargerð er sú, að nefndin hafi sprungið þannig að fulltrúar Framsfl. leggi til að allt sé látið vera óbreytt; Framkvæmdastofnun sé óbreytt, sjóðakerfi óbreytt, pólitíska skömmtunarkerfið óbreytt. Látið það bara í friðil Mér er sagt frá því að einn af ritstjórum þessa blaðs, þm. Sjálfstfl., að vísu í vetrarleyfi skilst mér, sé sá eini sem skili séráliti og vilji að fyrirheit stjórnarsáttmálans um uppstokkun á þessu kerfi verði nú efnd. — Sjóðakerfið óbreytt. Framsókn segir nei. Verðmyndunarkerfi landbúnaðarins óbreytt. (Forseti: Ég vil vekja athygli hv. þm. á því að þessar umr. utan dagskrár hafa nú staðið nálega einn og hálfan klukkutíma. Það er búið að halda tíu ræður með þeirri sem verið er að halda, en hv. ræðumaður hefur talað að mér virðist jafnmikið og allir aðrir til samans. Nú vil ég mælast til við hv. þm., vegna þess að það virðist ekki hilla undir enda á ræðu hans, að hann stytti nú mál sitt. Þessi ósk er borin fram í öruggri vissu þess að það hefur verið ætlaður nægur tími til að skýra spurningar til fjmrh. Ég vænti þess að hv. þm. taki þessu vel vegna þess að þetta form, að hafa umr. utan dagskrár, getur ekki gengið nema við hjálpumst öll að því að hafa það innan vissra marka.)

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að forseti hafi hér gripið inn í ræðu mína alveg á réttu augnabliki, nefnilega nærri því við endapunktinn því það er ekki langt í hann. Ég ætla m. ö. o. að draga þær niðurstöður af þessari mjög svo fróðlegu pólitísku umr., þær eru nefnilega eins og segir í þessari merku frétt, að þegar á reynir í raunverulegum hreingerningaraðgerðum í efnahagskerfinu, hvort heldur snýr að sjóðakerfi, afurðalánakerfi eða verðmyndun í landbúnaði, sem margt er hægt að segja um og ég hafði reyndar ætlað að víkja aðeins að, þá er ljóst að Framsfl. segir stopp.

Ég lýk þessum orðum mínum með því að vænta þess að hæstv. ráðh. svari þeirri spurningu sem ég beindi til hans að auki og votta honum um leið samúð mína vegna þessa ástands sem í ríkisstj. er, en um leið stuðning í því máli að menn skuli vera jafnir fyrir lögum á Íslandi.