26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4926 í B-deild Alþingistíðinda. (4330)

Umræður utan dagskrár

Páll Pétursson:

Herra forseti. Út af fyrir sig var ég ekki hissa á síðustu yfirlýsingu hv. formanns Alþb. um fögnuð hans og stuðning við þessar sérstæðu aðgerðir fjmrh. Ég fellst ekki á túlkun hæstv. fjmrh. á þessum lögum og það gerum við ekki, þm. Framsfl. Við teljum að mjólkurvörur eigi að vera jafnar fyrir lögum eins og þegnarnir í landinu eiga að vera jafnir fyrir lögum og þess vegna eigi það sama að ganga yfir Kakómjólk og mjólk sem unnin er með öðrum hætti.

Hæstv. fjmrh. talaði fjálglega um það að hann mundi lækka vöruverð. Hann lækkar ekki vöruverð með því að setja vörugjald og söluskatt á Kakómjólk. Hins vegar vil ég lýsa undrun minni á hæstv. forseta að hann skuli leyfa þessar umr. Mér finnst það umhugsunarefni hvort það sé þinglegt að láta þessa umr. þróast eins og hún gerði þar sem í annarri deild þingsins, í Nd., liggja fyrir á tveimur þskj., 653 og 654, frv. sem bíða umr. í deild og eru um það mál sem hér hefur verið um fjallað í bráðum sjö stundarfjórðunga.