26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4927 í B-deild Alþingistíðinda. (4333)

Umræður utan dagskrár

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Nú væri fróðlegt að vita hvort einhver treystir sér til að gefa sams konar yfirlýsingu hér fyrir hönd Mjólkursamsölunnar, einhver af talsmönnum þess virðulega fyrirtækis, en þess er áreiðanlega ekki að vænta.

Mig langar til að beina örstuttri spurningu til hæstv. landbrh. Ég hef ástæðu til að ætla að fyrir 3–4 árum hafi rekstrarráðgjafarfyrirtæki hér í bæ verið fengið til að gera könnun á verðmyndun og verðlagningu ýmissa framleiðsluvara Mjólkursamsölunnar. Mér skilst að skýrsla um þetta efni sé til í landbrn. Nú beini ég þeirri spurningu til hæstv. landbrh. hvort honum sé kunnugt um þetta. Mér er mætavel ljóst að það var fyrir hans tíð sem þetta gerðist en vil spyrja hann hvort honum sé kunnugt um þessa skýrslu í landbrn. Ef þessi skýrsla er þar til staðar, sem mun vera, eftir því sem mér er tjáð, ítarleg úttekt á þessari verðlagningu og þeim reglum sem þar er beitt, er þá ekki sjálfsagt mál að alþm. fái þessa skýrslu hér til athugunar í framhaldi af þeim umr. sem hér hafa orðið? Ég vildi beina því til hæstv. ráðh. hvort hann sjái sér ekki fært að beita sér fyrir því, sé þessi skýrsla til, að þm. fái hana til lestrar.