26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4927 í B-deild Alþingistíðinda. (4334)

Umræður utan dagskrár

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég skal reyna að forðast það að fara allt of langt þó að hér hafi verið drepið á margt sem ástæða væri til að ræða. Vegna þessara spurninga, sem síðast var beint til mín, vil ég taka það fram að ég hef ekki séð þessa skýrslu. Það getur vel verið að hún sé til í landbrn. þó að ég hafi ekki séð hana. Hins vegar hef ég það í huga að af hálfu opinberra aðila verði gerð úttekt á verðmyndun landbúnaðarvara þannig að það liggi ljóst fyrir hvernig henni er háttað. Ég held að það sé engum til góðs og allra síst bændum og fyrirtækjum þeirra að litið sé á þetta sem eitthvert leyndarmál. Bændur hafa þar ekkert að fela.

Hvað varðar Mjólkursamsöluna þá finnst mér að mönnum gleymist það hér mörgum að hér er um að ræða stærsta þjónustufyrirtæki mikils meiri hluta landsmanna sem sér um sölu og dreifingu á þýðingarmestu neysluvöru sem við þurfum á að halda, vöru sem við getum ekki án verið og veldur algeru neyðarástandi ef dreifing bregst þó ekki sé nema stuttan tíma. Þetta er sem sagt þjónustufyrirtæki neytendanna fyrst og fremst sem dreifir þessari framleiðsluvöru landbúnaðarins á eins hagkvæman hátt og kostur er.

Talað hefur verið um að það þyrfti að rífa niður þetta skipulag en ekki hefur verið minnst einu orði á hvað eigi þá að koma í staðinn. Er það þannig að hver bóndi eigi að fara að flytja vöruna til neytandans eins og var mjög títt áður en þetta fyrirtæki var stofnað? Halda menn virkilega að það væri í samræmi við nútímann að fara að snúa þannig til baka? Og þó að við gengjum ekki svo langt, halda hv. alþm. virkilega að það væri hagkvæmara að láta 10–20 aðila koma upp svona sérhæfðri vinnslu og dreifingu — eða hvað er það sem menn meina þegar verið er að tala um að það þurfi að leggja þetta skiputag niður og koma einhverju öðru á?

Ég vil svo að lokum undirstrika það sem hæstv. fjmrh. sagði áðan að nægar heimildir eru til í lögum fyrir fjmrh. að undanskilja vörur söluskatti. Þegar koma upp skiptar skoðanir um það hvort skv. lögum sé skylda að leggja vörugjald og söluskatt á er það engin spurning að heimildir eru fyrir því að það sé ekki gert, enda held ég að engum detti í hug að allir þeir fjmrh., sem á undan hafa verið, hafi verið að brjóta lög. Mér finnst það ákaflega langsótt að ætla að halda því fram. Ég skal svo ekki tefja tímann frekar.