26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4931 í B-deild Alþingistíðinda. (4337)

230. mál, kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd

Níels Á. Lund:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða, þegar svona stórt mál kemur hér á borð Alþingis þann stutta tíma sem ég á þess kost að sitja hér inni, að standa upp og segja eilítið mína skoðun á þessu máli. Ég hef ekki átt þess kost að sjá þá þáltill. sem þarna liggur frammi en fljótt á litið sýnist mér hún alla vega þess virði að þingheimur ætti ekki síður að sjá til þess ástæðu að sitja hér inni á meðan hún er flutt en að rífast um Mangósopa eða eitthvað þvíumlíkt sem var til umr. áðan.

Þetta mál, kjarnorkuvopn og annað slíkt, stendur okkur nefnilega miklu nær en margt annað. Síðast í hádegisfréttum í gær var rætt um það að sérstök milliþinganefnd Alþingis um öryggismál, sem starfaði s. l. sumar, væri búin að láta frá sér till. þar sem hún leggur m. a. til, skildist mér, að sérstök nefnd verði látin skoða þessi mál betur. Í till. nefndarinnar var m. a. rætt um að nánast á öðru hverju heimili landsins í öllum fjölbýlishúsum, í húsum þar sem fleiri en fjórar íbúðir eru, í opinberum byggingum, ætti að búa til sérstakt byrgi fyrir okkur Íslendinga, frjálsa þjóð, til að skríða ofan í þegar þessum háu herrum dettur í hug að ýta á þann stóra hnapp.

Þetta er það sem ég vil ekki búa við og vil ekki að börnin mín þurfi að búa við. Ég vil nota þær mínútur sem ég hef hér inni á Alþingi til að koma þessum vilja mínum á framfæri. Ég vil áfram segja það að ég er ekki viss um hvort þessi till. ein og sér hnígur að réttu marki. En alla vega vil ég ítreka það að mér finnst að við ættum, hv. alþm., að gefa þessu stóra máli meiri gaum en við höfum gert hingað til. Þegar verið er að tala um það við mann í raun og sannleika að lítil börn — og þar á ég ekki við mjög lítil börn heldur kannske börn um fermingu — þori jafnvel ekki að sofa ein eða vakna upp af ótta við að kjarnorkusprengja spryngi og þau deyi þar með, þá er ekki við hæfi að alþm. séu í burtu þegar um þessi mál er talað hér á Alþingi.

Ég held að við þurfum að sinna þessum kjarnorkumálum á þann hátt að menn viti að á Íslandi búa menn sem vilja þessi vopn ekki nálægt sér. Við viljum fá að búa í friði, við viljum ekki láta menn úti í heimi ráða því hvort heimurinn splundrast og þar með við og okkar aðstandendur deyjum eða fáum að lifa í hinni mestu örbirgð og eymd. Ég vildi koma þessu á framfæri við þessar umr. Ég gat ekki látið hjá líða að láta mína skoðun í ljós hér á hv. Alþingi.