26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4933 í B-deild Alþingistíðinda. (4339)

230. mál, kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Það hefði að óreyndu mátt búast við því að þetta mál, sem hér er flutt till. um, hefði hlotið meiri athygli hv. Sþ. en raun ber vitni og fleiri hefðu treyst sér til að vera viðstaddir og hlýða á þessa umr., en úr því sem komið er verður ekki frekar að því vikið. Ég vil þó taka undir orð hv. 1. þm. Norðurl. e. um að ýmislegt léttvægara hafa menn leyft sér að ræða hér og eyða nokkrum tíma í en þetta mál.

Ég vil minna hv. þm., þá sem hér eru a. m. k., á að hér er einungis gerð till. um að Ísland verði með þegar og ef Norðurlöndin taka sín á milli að ræða kjarnorkufriðlýsingu Norðurlanda. Ríkisstjórn Íslands er, eins og segir í tillgr., falið að vinna að því í samráði við ríkisstjórnir annarra Norðurlanda að reyna að koma á slíkri kjarnorkufriðlýsingu. Í því sambandi vil ég aftur minna á að það er ríkisstjórnarstefna á tveimur af Norðurlöndunum, þ. e. í Svíþjóð og í Finnlandi, að koma slíku á. Ég vil enn fremur minn á það að stærstu stjórnmálaflokkar í Noregi og Danmörku hafa það á sinni stefnuskrá og till.-flutningur svipaður þeim sem hér er á ferðinni er einnig á ferðinni á hinum Norðurlöndunum.

Ég vil biðja hv. þm. að hugleiða hvað það gæti þýtt ef Norðurlöndin að Íslandi undanskildu lýstu lönd sín, láð og lög friðhelg fyrir kjarnorkuvopnum og umferð þeirra, hvað það gæti þýtt fyrir Ísland og svæðið í kringum okkur. Þess vegna undirstrika ég að það er höfuðnauðsyn að við Íslendingar verðum með í öllum umræðum og öllum aðgerðum á þessu sviði. Og ég tel að við stöndum í þakkarskuld við þá menn sem tókst með mikilli vinnu að koma því þannig fyrir að friðarhreyfingar hinna Norðurlandanna samþykktu að hafa Ísland með í þessari tillögugerð og það er nú inni í þeim till. sem fluttar eru á hinum Norðurlöndunum. Þar tel ég að mikið hafi áunnist og við stöndum í þakkarskuld við þá menn sem komu því þannig fyrir.

Ég þakka hv. 1. þm. Norðurl. e. stuðninginn og ég vona að slíks stuðnings sé að vænta víðar frá þm., helst úr öllum flokkum því þetta er í eðli sínu þannig mál að ég held að hver og einn eigi að geta undir það tekið. Ég minni á samþykkt nýliðinna friðarpáska, sem var mjög í þeim anda sem þessi till. gerir ráð fyrir. Það var sérstök ánægja að heyra og sjá að hæstv. forsrh. hafði skrifað undir þá ályktun sem þar lá frammi. Ég held að þeir menn sem undir þá ályktun skrifuðu ættu í flestum tilfellum að geta tekið undir þann málatilbúnað sem hér er á ferð. Ef menn á annað borð vilja stefna að kjarnorkuafvopnun er einhver vænlegasta leiðin að koma á kjarnorkuvopnalausum svæðum og færa þau síðan út og stefna að því að í framtíðinni komist allur heimurinn undir slík lög. Vegna eðlis málsins telja þeir sem til þekkja að Norðurlöndin sem slík séu e. t. v. einhver vænlegasti kosturinn til að hefja slíka útbreiðslu kjarnorkuvopnalausra svæða til viðbótar þeim sem þegar eru fyrir í heiminum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég tek undir það með hv. 3. þm. Reykv. að það væri mjög svo ánægjulegt ef hv. utanrmn. og hv. Alþingi treystu sér til að afgreiða þessa till. á yfirstandandi þingi.