26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4934 í B-deild Alþingistíðinda. (4340)

230. mál, kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Níelsi Á. Lund að það er sorglegt hversu fámennt er hér í sölum þegar slíkt mál er á dagskrá og gleðilegt að sjá að hæstv. utanrrh. er þó kominn í salinn.

Ég stóð upp til að minna á að á 102. löggjafarþingi, veturinn 1979–1980, var flutt hér till. til þál. um bann við kjarnorkuvopnum á íslensku yfirráðasvæði og voru flutningsmenn hv. þm. Guðrún Helgadóttir, Páll Pétursson, Karvel pálmason, Guðmundur Bjarnason og Geir Gunnarsson. Till. hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa löggjöf um bann við geymslu á hvers konar kjarnorkuvopnum hér á landi. Bannið nái einnig til siglinga með kjarnorkuvopn, flutninga í lofti eða á annan hátt um eða yfir íslenskt yfirráðasvæði. Jafnframt verði kveðið á um eftirlit af Íslands hálfu með því að lögin verði virk.“

Till. svo til orðrétt eins hafði verið flutt áður á 100. löggjafarþingi af þáv. hv. þm. Svövu Jakobsdóttur. Þessi mál eru því ekki að koma í þingsali fyrst núna. Það er hins vegar ánægjulegt að fyrir þinginu liggja nú þrjár till., að ég hygg, sem eru í þessa veru, enda greinilegt að hatrammastir andstæðingar allra slíkra till. eru e. t. v. að beygja sig fyrir mótmælum alþýðumanna sem verða æ háværari gegn kjarnorkuvígbúnaði. En ekkert af þessum till. náði fram að ganga.

Það er hárrétt, sem hér hefur fram komið, að það er beinlínis skylda Norðurlandanna að ganga á undan með góðu fordæmi og lýsa Norðurlöndin kjarnorkuvopnalaus svæði. Nú hefur færeyska lögþingið náð fram slíkri samþykkt og danska þingið einnig. Það hefur auðvitað orðið að leita málamiðlunar, en það hefur þó náðst samstæð meirihlutatill. og mig minnir af Færeyja hálfu einróma. Er það ekki rétt, herra þingmaður? Jú. Það ætti því ekki að vefjast fyrir Íslendingum að samþykkja till. í þessa veru.

Sú sorglega staðreynd hefur verið við lýði að í hinu annars ágæta samstarfi Norðurlandanna hefur um utanríkismálin, sem menn kjósa að kalla varnarmál, en eru auðvitað ekkert annað en það sem kallað er utanríkismál, vart mátt ræða á þingum Norðurlandanna. Eins og gefur að skilja hefur það auðvitað háð allri einlægni í þessu samstarfi. Þetta hefur smám saman verið að þróast í þá átt að að þessum málum er nú a. m. k. ýjað þó að um þau megi ekki álykta.

Í lok friðarviku, sem hér var haldin um páskana, öllum þeim sem að henni stóðu til mikils sóma sem alþýða manna á öllum aldri fjölmennti á og virtist þar ekki vera neitt kynslóðabil, var hæstv. forsrh. afhent undirskriftaskjal sem hann hafði raunar undirritað sjálfur. Í tilefni af því sagði hann nokkur orð á sinn prúða og fallega máta að venju, en talaði eins og hann væri algerlega valdalaus og ráðalaus í þessum efnum. Það vill til að það er hann ekki. Hæstv. utanrrh. Geir Hallgrímsson er nákvæmlega jafnsterkt afl í þessari baráttu í krafti síns embættis og hvaða annar utanrrh. í veröldinni. Ég held að íslenskum ráðherrum hætti til að taka of mikið mark á blessuðu þjóðskáldinu sem orti á svo afdrifaríkan hátt um hvað við værum fáir, fátækir og smáir. Kannske verðum við að fyrirgefa það vegna þess að skáldið var þá að yrkja um annan heim en við lifum í núna. Hver þjóð, hversu smá sem hún er, getur svo sannarlega haft sitt að segja í baráttunni gegn þeirri vitfirringu sem á sér stað í heiminum nú.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Níels Á. Lund sagði áðan um ótta barna á okkar tímum við kjarnorkusprengjuna. Fyrir örfáum árum, tveim, þremur held ég, var haldin norræn samkeppni um teikningar barna. Þessi sýning kom hingað til Íslands m. a. Það var satt að segja ógnvekjandi að sjá að að meðaltali þriðja hver teikning túlkaði ótta barnanna við kjarnorkusprengjuna. Vissulega voru þetta mjög listrænar myndir og ekki síst þær íslensku, sem báru raunar langt af. En bara þessi vitneskja, að vita börnin okkar hugsa svona mikið um þetta og óttast þetta, er satt að segja skelfileg. Það er ekki sá heimur sem við ætluðum að gefa.

Mér er satt að segja óskiljanlegt hversu stjórnmálamenn, jafnt íslenskir sem annarra þjóða, ætla að þrjóskast við að horfast í augu við þessa staðreynd. Eru hv. þm. orðnir svona gamlir og kærulausir? Halda þeir að þetta gerist ekki á þeirra tímum eða hugsa þeir eins og Íslendingar hugsuðu fyrir 50 árum: Við erum svo langt í burtu, þetta nær ekki okkur? Ég minnist þess að einhvern tíma í miðri Víetnamstyrjöldinni sagði bílstjóri einn við mig, sem raunar var að keyra undirritaða heim örþreytta úr göngu gegn Víetnamstyrjöldinni: Þið eruð eins og vitlaust fólk. Hvað kemur ykkur við það sem er að gerast austur í Asíu? Ég ætlast til að þeir menn sem kjörnir hafa verið á Alþingi Íslendinga hafi þroskast upp úr þessum hugsunarhætti. Þó ég verði að játa að sennilega kann ég svarið utan að sem hæstv. utanrrh. gæfi hér langar mig samt enn einu sinni að spyrja hvað sé á móti því að Íslendingar taki af skarið og lýsi andúð sinni við það vígbúnaðarkapphlaup sem á sér stað í heiminum. Mér finnst hann geta gert það þó það sé auðvitað yfirborðslegt á sama tíma og hann styður með ráðum og dáð veru erlends herliðs á Íslandi. Um þá gömlu sögu höfum við haldið svo margar ræður og kunnum rök hvers annars svo gersamlega á fingrum annarrar handar að það er e. t. v. ekki í þessari umr. ástæða til að endurtaka það allt saman sem hefur átt sér stað á hverju einasta þingi s. l. 35 ár.

Barátta Alþb.-manna, íslenskra sósíalista og íslenskra hernámsandstæðinga hefur auðvitað breyst líka. Við vorum að berjast fyrir öðru þegar við stofnuðum Samtök hernámsandstæðinga. Við vorum þá kannske jafnbláeyg og íslenskir hægri menn eru nú. Við vorum þá fyrst og fremst að óttast um afdrif íslenskrar menningar, íslenskrar tungu. Við töldum okkur stafa hætta af hinni menningarlegu innrás sem vera erlends herliðs í landinu kynni að leiða af sér. Auðvitað gerðum við okkur ekki ljóst hvernig þróun hernaðaruppbyggingar í heiminum yrði. Við höfum hins vegar allan tímann verið tilbúin að fylgjast með þessum málum og bregðast við þeim eins og þau þróast á hverjum tíma. Það var ekki síst fyrir baráttu þm. Alþb. að stofnuð var öryggismálanefnd sem hefur vissulega unnið gagnmerkt verk, m. a. með útgáfu upplýsingarita hinna ágætustu marina sem þm. vænti ég hafi lesið, a. m. k. hafa þeir allir fengið þau. Upplýsingarnar sem með þessum ritum hafa komið inn í þingið ættu svo sannarlega að opna huga þeirra manna sem virtust hafa getað lokað augum og eyrum áratugum saman fyrir því sem hefur verið að gerast í heiminum.

Það er auðvitað barnaskapur umfram það sem maður hefur leyfi til að hafa til að bera að gera sér ekki grein fyrir stöðu Íslands sem miðstöðvar kjarnorkuhernaðar á Norður-Atlantshafssvæðinu. Það er beinlínis óskiljanlegt að fullvaxnir margreyndir stjórnmálamenn skuli ekki horfast í augu við að af þessu stafar miklu meiri hætta en að af veru herliðsins sé nokkur vernd. Það getur vel verið að þeir hafi einlæglega haldið það fyrir 30 árum, en það er óleyfilegur barnaskapur að halda það lengur.

Það er hægt að halda áfram að tala um þessi mál endalaust. En það hlýtur að vera krafa okkar allra hér inni að hv. Alþingi taki sig nú saman og nái einhverju samkomulagi um þær þrjár till. sem hér liggja fyrir. Mér er alveg ljóst af biturri reynslu í samstarfi við hægri öflin í friðarhreyfingu íslenskra kvenna að vera herliðsins í Keflavík og aðild okkar að NATO stendur eins og þverbiti í hálsinum á þessu fólki. Tilvist herliðsins og aðild okkar að NATO háir því auðvitað að við getum átt nokkra vitræna umræðu um þessi mál. Ég held að við svo búið megi ekki standa. Ég held að íslenska alþingið verði að komast að niðurstöðu, og hefur nú raunar verið að gera einhverjar tilraunir til þess, sjálfsagt ekki með miklum hraða, en von væri til að úr slíkri vinnu gæti orðið þáltill. sem við kynnum að geta samþykkt hér öll saman kinnroðalaust. Það er svo sannarlega von mín.

Ég held að við hljótum að fara að dæmi bræðra okkar í Færeyjum og koma frá okkur sómasamlegri till. gegn því að kjarnorkuvopn verði nokkru sinni sett niður á íslenska jörð. Ég trúi því ekki eitt augnablik að einn einasti Íslendingur, þingmaður, óski þess, þó að við sjáum þess dæmi í öðrum löndum að svo virðist sem þm. geri það virkilega. Þar nægir að nefna Bretland og Þýskaland. Ég held að það væri góður endir og réttlætanlegur á heldur ömurlegu Alþingi Íslendinga, sem hér hefur staðið í vetur, að við kæmum nú frá okkur þáltill. um bann við kjarnorkuvopnum á íslensku yfirráðasvæði og loforði um að vinna að því að gerast þar með hlekkur í kjarnorkuvopnalausum Norðurlöndum. Ég treysti hv. þm. og hæstv. ríkisstj. til að vinna að því. Þá yrði þeim margt fyrirgefið.