26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4952 í B-deild Alþingistíðinda. (4349)

244. mál, lífeyrisréttindi húsmæðra

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umr. mikið. Ég vil byrja á því að taka undir síðustu orð hv. þm. Páls Péturssonar. Það segir mikið um hugafar og hugsunarhátt í hverju samfélagi hvernig það samfélag kemur fram við þá sem lokið hafa starfsdegi í þágu þess.

Mig langar aðeins til að drepa hér á þrjú atriði sem hv. þm. minntist á. Það fyrsta var varðandi þá aths. mína að ekki sé hægt að ætlast til þess að þeir sem engin laun þiggja í krónum borgi greiðslur í krónum. Lét hv. þm. þau orð falla, ef ég heyrði rétt, að hann vonaði að heimavinnandi húsmæður hefðu einhver fjárráð og gætu þá tekið þátt í að greiða í þennan sjóð. Það er náttúrlega þetta stóra vandamál fyrir þá sem heimavinnandi eru, spurningin um eignarréttinn á þeim fjárráðum sem heimilið hefur yfir að ráða. Mér finnst það með öllu ófært að réttindi þeirra til lífeyris eigi að vera undir því komin hvort velvilja gætir hjá þeim aðila sem peninganna aflar. Hvað er t. d. með þær konur sem eiga fyrirvinnu sem segist ekki kæra sig um að spandera aurum í slíkan óþarfa eins og lífeyrissjóð? Kannske eru það einmitt þær konur sem þurfa mest á því að halda. Slíkt fyrirkomulag gengur yfirleitt alls ekki upp þegar í húfi eru réttindi og möguleikar á réttindum sem eru jafnmikilvæg og lífeyrisréttindi, eins og ég minntist á hér í upphafi máls míns og hv. þm. í lok síns máls áðan.

Flm. taldi mig einblína of mikið á þær konur sem útivinnandi væru. Ég vil mótmæla þessu. Líklegt er að þær bjargist sem eru bæði útivinnandi og heimavinnandi. Það er alveg rétt. Það er líklegt að þær sem eru hvort tveggja bjargist fremur lífeyrislega heldur en þær sem eingöngu eru heimavinnandi. En spurningin snýst ekki um það hver á í hlut, heldur kannske ekki síður um það hver vinnur störfin, hvaða störf er verið að meta, spurningin, snýst um það að meta ákveðin störf en ekki hver vinnur störfin. Mér finnst sjálfsagt mál að sú kona sem er útivinnandi, vinnur hálft starf með heimavinnu hljóti einhverja viðurkenningu fyrir hið tvöfalda vinnuálag sem hún ber. Þær konur sem ekki komast til að vinna fullan vinnudag úti, þótt þær jafnvel þyrftu þess af fjárhagsástæðum heimilisins, njóta þá engrar viðurkenningar fyrir það starf sem þær vinna innan heimilis.

Hv. 2. landsk. þm. hafði eitthvað á móti því orðafari að tala um heimavinnandi húsfreyjur. Ég hef ekkert á móti því og spyr einfaldlega: Því skyldu karlar ekki geta heitið húsfreyjur ef þeir eru heimavinnandi, rétt eins og konur sem gengið hafa í hefðbundin karlastörf hafa tekið sér karlkyns starfsheiti eins og lögfræðingar, smiðir, póstmenn, eitthvað þess háttar? Ég skal ekki hafa þessi orð lengri í bili.