26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4953 í B-deild Alþingistíðinda. (4350)

244. mál, lífeyrisréttindi húsmæðra

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Aðeins örstutt aths. út af orðum síðasta ræðumanns. Ég vona að fáar húsfreyjur séu svo óheppnar með maka eða sambýlismenn að þeir séu þeir svíðingar að ómögulegt sé fyrir þær að koma fyrir þá vitinu um það að eftirlaunaréttur þeirra þurfi að vera tryggður með einhverjum hætti. Það getur skeð að það séu einhver undantekningartilfetli og þá mætti hugsa sér að líta á það með einhverju öðru móti.

En að endingu vil ég ekki viðurkenna að kona, sem vinnur á heimili sínu allan daginn, vinni minna eða ómerkilegra starf en aðrir þegnar þjóðfélagsins. Það skulu verða mín lokaorð í þessari umr.

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir: Herra forseti. Aðeins örstutt aths. Ég vil heldur ekki viðurkenna, hv. þm., að kona, sem vinnur eingöngu heimilisstörf, vinni ómerkilegri störf en aðrar konur. Það er einmitt málið, að meta heimilisstörfin alltaf, sama hversu mörg og fjölbreytileg störf konan annars hefur með höndum. Geri hún eitthvað úti á vinnumarkaðinum, þá sé ekki einungis það metið heldur líka það sem hún gerir heima fyrir.

Hv. þm. vonaði að eiginmenn væru ekki slíkir svíðingar að þeir neiti konum sínum um lífeyrisréttindi. Ég vona það svo sannarlega með hv. þm., en ég treysti því hins vegar ekki. Og ég held að öll löggjöf, sem varðar réttindi einstaklinga, eigi að miðast við þá einstaklinga, þ. e. við konurnar í þessu tilfelli en ekki við eiginmenn þeirra. Annað telst varla löggjöf um þær.