26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4966 í B-deild Alþingistíðinda. (4360)

297. mál, ný tækni í vinnubrögðum á Alþingi

Flm (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Gerist nú áliðið dags og ég skal vera stuttorður, enda hér ekki um langt mál að ræða. Till. sú sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 576 hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela forsetum þingsins að láta þegar í stað kanna hvernig hagkvæmast sé að koma við nýrri tækni að því er varðar ræðuritun og skráningu, ritun og vörslu þingskjala.“

Skemmst er frá því að segja að á þessu sviði hafa orðið miklar framfarir í vinnutækni núna á örfáum undanförnum árum. Ég held að þegar Alþingi Íslendinga tók upp þann hátt að láta hljóðrita ræður þm. og skrifa þær síðan upp hafi það verið meðal fyrstu þjóðþinga í Evrópu sem notaði þá tækni. Nú ætti Alþingi að bæta um betur og taka upp þá nýju tækni sem er á boðstólum í þessu efni. Tölvutækni er nú öllum tiltæk á heimilum og í fyrirtækjum. Alþingi er býsna stórt fyrirtæki ef þannig er litið á málið og mér finnst satt að segja furðu gegna að menn skuli ekki nota þessa tækni hér til að auðvelda störfin og draga úr pappírsflóðinu sem hér er á öllum borðum og um allan sal. Það væri einfalt mál og væntanlega mundu þá færri tré falla, náttúruverndarmönnum til óblandinnar gleði.

Það er einfalt mál að beita nútímatækni við skráningu og vörslu þingskjala þannig að þar sé hver hlutur jafn aðgengilegur með mjög einföldum hætti. Ég rak mig á það nú fyrir skömmu — og hef raunar oft gert — þegar ég þurfti að leita að nokkurra ára gamalli till. á sviði landbúnaðarmála. Ég vissi hverjir höfðu flutt hana. Ég vissi ekki nákvæmlega hvaða ár hún hafði verið flutt. Ég vissi hvaða lögum henni væri ætlað að breyta en ég vissi ekki hvernig hún hafði verið skráð í bækur í skjalasafni þingsins þar sem notast er við penna og innbundnar línubækur til þess að skrá þskj. Það tók langan tíma og mikla leit að finna þetta þskj. Ef hér hefði verið í notkun bara einfalt skráningarkerfi, sem hægt er að kaupa á kasettu fyrir tiltölulega lítið, hefði verið hægt að leita að þessari till. eftir sex eða sjö mismunandi leiðum, árið, efnið, flm. o. s. frv. Í rauninni gæti hér orðið um svo stórkostlega hagræðingu að ræða að ég held að menn átti sig hreinlega ekki á því hverju þetta mundi breyta í störfum okkar hér á þinginu.

Nú geri ég mér fyllilega grein fyrir því að í þessu máli verða stigin skref, það verða ekki tekin nein stökk. Það væri tiltölulega mjög einfalt að byrja á því að skrá þskj. í tölvukerfi svo að þau væru aðgengileg þannig. Alþingi hlýtur að hafa ráð á því að gera slíka tilraun. Ótal fyrirtæki, stór og ekki síður smá, hafa tekið þessa nýju tækni í þjónustu sína með ágætum árangri.

Svo má auðvitað hugsa þetta mál lengra. Það má beita þessari tækni til enn meiri og ítarlegri hagræðingar í störfum þingsins. T. d. má hugsa sér að hætt verði að vélrita upp ræður þm. með þeim hætti sem nú er gert heldur verði þetta allt saman sett inn í tölvu og sent síðan beint í prentsmiðjuna þegar menn hafa haft aðstæður til að lesa þetta yfir á tölvuskjá.

Það er á ótrúlega mörgum sviðum í þessu efni sem koma mætti við mikilli einföldun og mikilli hagræðingu. Menn eiga ekkert að vera hræddir við þessa nýju tækni. Menn eiga að taka hana í þjónustu sína og menn eiga að beita henni. Ég efast ekki um að hún getur haft í för með sér mjög verulegan vinnusparnað og hagræðingu. Sá tími kemur að hver þm. hefur tölvuskjá á sinni skrifstofu, getur kallað þar fram ekki aðeins ræður heldur öll þskj., skoðað á skjá og látið tölvuna prenta það sem hann kýs. Ég nefni breytingar á lögum, allar þær endurprentanir sem hér eru settar fram og breytingar. Allt þetta er kjörið til þess að vinna með hinni nýju tækni.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa þessi orð fleiri þó að vissulega mætti um þetta tala langt mál. Það gerast þunnskipaðir þingbekkir enda engin furða, komið langt fram í matmálstíma. En ég þakka samt hæstv. forseta fyrir að koma þessu máli hér að þannig að það megi komast til n. Raunar orkar það nokkuð tvímælis í mínum huga hvort í rauninni er nauðsynlegt að senda þessa till. til n. En í samræmi við þingvenju geri ég till. um það að þegar þessum þætti umr. lýkur fái allshn. Sþ. .þetta mál til meðferðar.