30.04.1984
Efri deild: 85. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4969 í B-deild Alþingistíðinda. (4368)

318. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins á þskj. 643. Frv. samhljóða þessu að undanskildu gildistökuákvæði 9. gr. var lagt fyrir síðasta þing en hlaut eigi afgreiðslu.

Um það mun hafa orðið samkomulag milli forvera míns í starfi fjmrh. og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Bandalags háskólamanna að nokkrar breytingar yrðu gerðar á lögunum um lífeyrissjóðinn þótt ljóst sé að brýn nauðsyn er að endurskoða lögin í heild sinni.

Frv. það sem hæstv. fráfarandi fjmrh. lagði fram var samið af stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins en í þeirri stjórn sitja fulltrúar fjmrh. og launþegasamtakanna. Atriðið sem mestu máli skiptir í þessu sambandi er það ákvæði 1. gr. frv. að ellilífeyrir, örorkulífeyrir og makalífeyrir skuli miðaður við starfshlutfall sjóðfélaga þegar á ævina er litið í heild en ekki þegar hann lætur af störfum eins og nú er. Nú er það svo að maður, sem er búinn að vera í fullu starfi nær allan sinn starfstíma en fer svo í hálft starf seinustu ár ævinnar, fær ekki nema hálfan lífeyri meðan aftur á móti maður, sem hefur verið í hálfu starfi kannske nær alla ævi en fer svo í fullt starf seinustu árin, eða bara seinasta árið, fær fullan lífeyri. Auðvitað sjá allir að þetta er ekki réttlátt og því er hér gert ráð fyrir að miðað sé við starfshlutfallið í heildina tekið. Þetta er meginbreytingin sem í frv. felst, langsamlega veigamesta breytingin. Þetta er sanngirnismál. Vissulega felst í þessu að menn geta ekki lengur notað sér að sveigja hjá anda laganna með því að vera í hálfu starfi mestalla ævi og afla sér svo óskerts lífeyris með fullu starfi á síðustu árunum. Mér sýnist hitt þó mikilsverðara, að menn geti minnkað við sig starf á seinustu starfsárum sínum án þess að þurfa að gjalda fyrir það í lífeyri. Það er það sem opinberir starfsmenn leggja að sjálfsögðu mesta áherslu á.

Ég vil geta hér strax ákvæða til bráðabirgða, en þar segir að þeir sjóðfélagar sem þegar hafa lokið greiðslu iðgjalda í 32 ár og enn eru í starfi eiga rétt á því að kaupa sér lífeyrisrétt vegna hlutastarfs fyrir liðinn tíma sem ekki hafa verið greidd iðgjöld fyrir í samræmi við 4. mgr. 10. gr. Tilkynningar um slík réttindakaup skulu hafa borist stjórn lífeyrissjóðsins fyrir árslok 1984, ella fellur réttur þessi niður. Ákvæðið til bráðabirgða er breyting frá fyrra frumvarpi.

Margar greinar laganna, er fjalla um bótaákvæði, breytast í samræmi við þær breytingar er ég gat um. Vísa ég til greinargerðar með frv. til nánari skýringar. Sú breyting er gerð skv. 7. gr. frv. að menn njóta verðtryggðs lífeyris eftir að þeir hafa verið 3 ár í störfum hjá ríkissjóði eða ríkisstofnunum. Nú geta menn verið allt að 15 ár í störfum hjá ríkinu án þess að njóta verðtryggðs lífeyris. 7. gr. er því veruleg réttarbót fyrir sjóðfélaga, enda er ekki hægt að sjá nokkra sanngirni í því að menn þurfi að hafa verið 15 ár í starfi hjá ríkinu til þess að njóta verðtryggðs lífeyris. Ég vil þó vekja sérstaka athygli á að sú réttarbót sem hér um ræðir nær ekki að fullu til makalífeyris, enda hafa hugmyndir manna um makalífeyri breyst mjög á síðari árum.

Að lokum vil ég benda á 8. gr. frv. sem er ákaflega mikilvæg grein frá sjónarmiði ríkisins, en þar segir með leyfi forseta:

„Lífeyrissjóður skal ávaxta a. m. k. 40% af heildarútlánum sínum í verðtryggðum skuldabréfum ríkissjóðs, enda ábyrgist og greiði ríkissjóður og aðrir þeir launagreiðendur, sem aðilar eru að sjóðnum skv. 4. gr. laganna, einungis þann hluta hækkunar lífeyrisins sem lífeyrissjóðurinn getur ekki risið undir með tekjum sínum af vöxtum og verðbótum af þessum 40% af verðtryggðum heildarúttánum.“

Hér er sem sagt verið að skuldbinda lífeyrissjóðinn til að ávaxta eigi minna en 40% af heildarútlánum sínum í verðtryggðum skuldabréfum ríkissjóðs. Það hefur tíðkast um nokkurra ára skeið að lífeyrissjóðurinn taki á sig þá kvöð að ávaxta hluta af útlánum sínum í verðtryggðum skuldabréfum ríkissjóðs, en með þessu frv. er sú kvöð aukin. Hins vegar er ótvírætt að ekki er þetta lakari ávöxtun en sú áð lána sjóðfélögum fé sjóðsins. Þetta er að sjálfsögðu heldur hagstæðari ávöxtun, enda eru verðtryggð skuldabréf ríkissjóðs með allra hagstæðustu lánakjörum sem tíðkast á markaðinum. Það er hins vegar samdóma álit stjórnarinnar að mæla með því að á þetta verði fallist.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. þessu verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr. að lokinni þessari umr.