30.04.1984
Efri deild: 85. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4971 í B-deild Alþingistíðinda. (4370)

329. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til 1. um breytingu á lögum nr. 44 frá 25. maí 1976 um Fiskveiðasjóð Íslands með síðari breytingum. Ástæðan til þess að frv. þetta er flutt í framhaldi af ákvörðun um stjórn botnfiskveiða fyrir árið 1984 er að nauðsynlegt þótti að gera ýmsar ráðstafanir í fjárhagsmálum sjávarútvegsins og hafa þau mál áður komið hér til umr. T. d. var allítarlega gerð grein fyrir því máli í frv. til l. um breytingu á lögum um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins. Hins vegar er Fiskveiðasjóði heimilt í lögum að veita lán sem nemur allt að 3/4 hlutum kostnaðar eða matsverðs. Ein af forsendum þeirrar skuldbreytingar sem nú er verið að vinna að á vegum Fiskveiðasjóðs er sú að lán megi nema allt að 90% af húftryggingarverðmæti skipanna. Eins og áður hefur komið fram er gert ráð fyrir því að lánalengingin verði allt upp í 25 ár.

Það mun að sjálfsögðu taka nokkurn tíma að ganga frá málum þessum en Fiskveiðasjóður hefur tekið að sér forustu málsins og er þegar hafin vinna við það fyrir nokkru. Þar er ekki aðeins um lán Fiskveiðasjóðs að ræða heldur hefur sjóðurinn einnig samstarf við aðra aðila eins og Ríkisábyrgðasjóð, Byggðasjóð og bankastofnanir. Gert er ráð fyrir því að kjör þessara skipa verði samræmd eftir því sem nokkur kostur er.

Ég ætla ekki að rekja þá erfiðleika sem steðja að útgerðaraðilum vegna skulda og greiðslubyrðar en ég tel rétt og nauðsynlegt að hv. sjútvn. kalli til þá aðila hjá Fiskveiðasjóði sem vinna nú að þessum málum til að fá sem best yfirlit yfir þá vinnu. Ég tel vart mögulegt að gera viðhlítandi grein fyrir máli þessu í þessari framsögu og tel það eðlilegri vinnubrögð að til þessara aðila verði leitað til þess að nefndin geti gert sér sem best grein fyrir því hvernig mál þetta stendur en það er nú á vinnslustigi.

Ég vil leggja til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.