07.11.1983
Efri deild: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

18. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Flm. (Stefán Benediktsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. sem er 18. málið á þessu 106. löggjafarþingi. Þetta er frv. til l. um breytingu á lögum nr. 80, útgefnum 11. júní 1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Flm. ásamt mér er hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir.

Eins og hv. þm. er kunnugt hefur frv. í þessa veru verið flutt á 103. löggjafarþingi og hinu 104., en á 105. löggjafarþingi var frv. flutt í nokkuð annarri mynd en áður. Það er nú í svipaðri mynd og á síðasta þingi.

Þetta frv. gerir ráð fyrir því að á eftir 2. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur komi ný gr., sem orðist svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laganna geta launþegar (vinnuseljendur), sem taka laun hjá sama atvinnurekanda (vinnukaupanda) stofnað félag á vinnustað sem hafi með samninga að gera og taki í einu og öllu við réttindum og skyldum stéttarfélaga. Þetta getur gerst að undangenginni skriflegri og leynilegri atkvgr., þar sem 2/3 hlutar þátttakenda hafa lýst sig samþykka þessu fyrirkomulagi, enda starfi fleiri en 25 launþegar á vinnustaðnum.

Félmrn. skal setja reglugerð um framkvæmd atkvgr. 2. gr. Þar sem í lögum þessum eru nefnd stéttarfélög komi: stéttarfélög og vinnustaðafélög.

Þegar lög þessi hafa verið staðfest skulu lög nr. 80 11. júní 1938, um stéttarfélög og vinnudeilur með áorðnum breytingum, gefin út með fyrirsögninni: Lög um stéttarfélög, vinnustaðafélög og vinnudeilur.“

Virðulegi forseti. Á þingum undanfarinna ára hafa farið fram um þetta mál miklar umr. og á það hefur verið varpað nokkuð skýru ljósi bæði af andstæðingum þess og fylgjendum. Ég ætla því að takmarka mína umfjöllun hér við þau efnisatriði sem ég tel nauðsynlegt að minna á og eru að mati okkar flm. aðalefnisatriði þeirrar umr. sem þetta frv. hugsanlega vekur.

Þá er fyrst til að taka að við 1. gr. frv. er talað um fjölda launþega á vinnustað þar sem til greina kæmi að stofnað yrði vinnustaðafélag. Nefnd er talan 25 en vitanlega er sú tala ekki fengin með neinum vísindalegum hætti, enda er hún eingöngu orðuð þarna sem tala sem tengist meðalfjölda starfsmanna á vinnustöðum vítt og breitt um landið. Ekkert er því til fyrirstöðu að mati flm. að sú tala sé annaðhvort lægri eða hærri, allt eftir því hvað mönnum sýnist. Við viljum aðeins biðja um það að þessi tala verði ekki látin standa í vegi fyrir því að menn skoði þetta frv. með það fyrir augum að það geti náð fram að ganga þótt á því verði einhverjar breytingar hvað tölulegar viðmiðanir snertir.

Þegar lög eru sett sprettur eðlilega upp sú umr. hvort lögin hefti eða rýmki athafnafrelsi fólks. Eitt af því sem þetta frv. hefur sætt gagnrýni fyrir er að menn hafa talið í því felast lögþvingun. Nú er ég ekki lögfróður maður, en ég álít að ekki þurfi mikla lagaþekkingu til að geta fullyrt að þetta frv. þvingar ekki fólk heldur rýmkar það frekar athafnafrelsi þess og vald yfir eigin athöfnum.

Það má líka með réttu spyrja: Hvers vegna að vera að setja lög um hluti sem rýmka frelsi fólks? Getur fólk ekki látið sér nægja að taka sér þann rétt sem lög ekki banna? Þá stöndum við frammi fyrir þeirri staðreynd að þau lög sem sett voru um stéttarfélög og vinnudeilur 11. júní 1938 hafa verið túlkuð þannig, að það sem hér er áformað að breyta er talið fyrirmunað samkv. þeim lögum.

Auðvitað þarf ég ekki að segja þeim mönnum sem hérna sitja inni að þegar lögin um stéttarfélög og vinnudeilur voru samin og sett árið 1938 var ástandið í þjóðfélaginu allnokkuð annað en það sem við búum við í dag. Það var nýafstaðin kreppa, menn voru endanlega að melta til fullnustu kenningar um stéttir og stéttaskiptingu, og þar af leiðandi var það nokkuð eðlilegt miðað við þeirra tíma aðstæður að menn skylduðu launþegafólk til að flokka sín félög samkv. stéttaskilgreiningu. Staðreynd er að það eru líklega ekki mörg lönd vestan járntjalds þar sem hugtakið stétt er lögbundið og í raun lögverndað með svipuðum hætti og á Íslandi. Hugmyndir manna um skipan verkalýðshreyfingar tóku eðlilega líka nokkurt mið af þeim aðstæðum sem þegar höfðu skapast í skipulagsmálum félaga iðnaðarmanna, þar sem hagsmunavarsla var bundin við ákveðna stétt iðnaðarmanna, og innan ramma sveitarfélagaskiptingar.

Því hefur verið haldið fram að þetta frv. gangi gegn hagsmunum verkalýðshreyfingarinnar. Þegar menn fullyrða slíkt þá hefur sú hin sama fullyrðing í raun tvöfalda merkingu. Verkalýðshreyfingin berst fyrir það fólk sem að henni stendur og þegar menn segja: Þetta gengur gegn hagsmunum verkalýðshreyfingarinnar, þá eru þeir að gefa í skyn að það gangi gegn hagsmunum þess fólks sem verkalýðshreyfingin samanstendur af. Það vil ég fullyrða að er alrangt. Það að rýmka rétt fólks til að hafa áhrif á kjör sín getur ekki gengið gegn hagsmunum þess. Aftur á móti er hugsanlegt að þetta gangi að einhverju leyti gegn hagsmunum verkalýðshreyfingarinnar sem stofnunar, ekki vegna þess að frv. sé ætlað það í sjálfu sér, heldur vegna þess að frv. gerir ráð fyrir ákveðnum breytingum.

Við urðum vitni að því áðan að hér kom í stólinn verkalýðsforingi og talaði svo sem það væri virkilega af hinu illa að fólk þyrfti að berjast fyrir kaupi sínu og kjörum. Og það versta sem fyrir gæti komið væri að fólk yrði að fara í verkfall til þess að ná fram kröfum sínum. (Gripið fram í: Það sagði ég ekki.) Það fólst náttúrlega í orðum hans þegar hann leggur blessun sína yfir aðgerðir þar sem sjómenn eru tengdir verðlagsákvörðunum beint og það er hægt að rúlla yfir þá fram og til baka allt eftir því hvernig vindurinn blæs. Og að halda því fram að það sé af hinu góða vegna þess að þá losni menn við að fara í verkföll, það tel ég mjög undarlega skoðun hjá manni sem stendur í forustu verkalýðsfélags.

Þetta frv. gerir ráð fyrir ákveðnum breytingum eða nýjum leiðum í kjarabaráttu og verkalýðshreyfingin þyrfti þá hugsanlega að taka aðra afstöðu, endurskoða að einhverju leyti starfshætti sína og skipulag með tilliti til þessara nýja möguleika. Ef þetta gengur gegn hagsmunum verkalýðshreyfingarinnar sem stofnunar, það að gera ráð fyrir því að hún taki breytingum með tilliti til aðstæðna, þá vil ég halda því fram að slíkt væri af hinu góða, því að hlutir sem ekki geta tekið breytingum staðna, tréna og verða endanlega að steingervingum. En ég endurtek: það er ekki ætlan þessa frv. að skipta sér af skipulagi launþegasamtakanna sjálfra, heldur aðeins að opna nýja leið, bæta við einu baráttutæki fyrir launþega.

Á árunum 1960–1962 var fjallað mjög ítarlega í Alþýðusambandi Íslands um tillögur sem þá komu fram um starfsgreinasambönd þ.e. sambönd launþega í skyldum atvinnugreinum, svo sem allra þeirra er störfuðu í fataiðnaði eða matvælaiðnaði svo að dæmi séu tekin. Þetta frv. gengur í raun skrefi lengra. Það gerir ráð fyrir því að minnsta eining í kjarabaráttu sé vinnustaðurinn. Síðan er ekkert sem bannar að vinnustaður eða vinnustaðafélög myndi með sér sambönd innan skyldra starfsgreina eða einhvers annars, sem menn telja eðlilegt að miða við, og þannig verði til samtök sem í raun ganga þversum á núverandi skipulagshugmynd ASÍ.

Hér er ég ekki að tala um eitthvað sem er gripið algerlega úr lausu lofti. Ég vil minna á útvarpsviðtal við Guðmund J. Guðmundsson á fyrsta degi þings Verkamannasambandsins í Vestmannaeyjum núna fyrir skömmu. Þar lagði hann mjög mikla áherslu á nýja skipulagningu í baráttu fyrir kjörum launafólks og talaði um starfsgreinaskipta baráttu. Þegar blaðamaður beindi því svo til hans hvort hugsanlegt væri að menn færu að berjast fyrir kjörum sínum hver á sínum vinnustað, þá svaraði Guðmundur því til að það væri allt til í því. S. l. laugardag hafði ég tækifæri til að spyrja forseta ASÍ þessarar sömu spurningar og hann staðfesti að það væri ekki óeðlilegt að hans mati að þessi leið yrði reynd í komandi kjarabaráttu.

Einnig segja menn að það sé óeðlilegt að breyta einhverju á þessu vettvangi nema sú breyting eða hugmyndir að henni komi frá verkalýðshreyfingunni sjálfri. Því tel ég mjög einfalt að svara. Lögin um stéttarfélög og vinnudeilur, sett af Alþingi Íslendinga 1938, eru sá grundvöllur sem núverandi verkalýðsbarátta byggist á. Með þeirri löggjöf var skapaður starfsvettvangur fyrir núverandi verkalýðssamtök og við sem hér sitjum, fulltrúar þess fólks sem hefur falið verkalýðshreyfingunni ákveðin verkefni í kjaramálum, erum þess fullkomlega umkomnir að setja önnur lög um aðstöðu þessa fólks eða réttindi til að berjast fyrir sínum kjörum. Launþegasamtökin eru ekki frjáls félagasamtök í þeim skilningi orðsins að um þau hafi verið sett lög. Fólki er alls ekki heimilt að vinna að samningum um laun og kjör öðruvísi en í gegnum þessi lögformlega skipuðu verkalýðsfélög.

Ef horft er til þeirrar umræðu sem nú fer fram í landinu um kjör láglaunafólks held ég að því verði ekki á móti mælt að það skipulag í verkalýðsbaráttunni sem þetta fólk býr við hefur ekki dugað. Ég ætla mér ekki það hlutverk að leggja hér fram þá einu og algildu lausn sem fáanleg er í málefnum verkalýðsbaráttunnar. Aftur á móti held ég að ég geti fullyrt ómótmælanlega að það sem hér er lagt fram verður ekki til þess að draga úr möguleikum fólks til að semja um sín launakjör heldur hið gagnstæða.

Annað atriði, sem kannske er hægt að halda fram að sé frekar tilfinningalegs eðlis, er að að áliti okkar flm. ætti þetta frv. að geta orðið brú yfir þær gjár sem í dag hafa myndast milli mismunandi atvinnustétta, þ.e. verkafólks, skrifstofufólks, faglærðra og hvaða nafni sem nefnast hinar ýmsu atvinnustéttir. Þessi breyting á lögunum um stéttarfélög og vinnudellur gæti orðið til að draga úr áhrifum þess ástands sem þessi gömlu lög hafa í raun og veru skapað. þ.e. stéttaskiptingu fólks eftir vinnugreinum. Það getur ekki verið eðlilegt lengur að ganga út frá aðskilnaði fólks sem vinnur hlið við hlið í mismunandi atvinnugreinum, t.d. framleiðslu, skrifstofustörfum. stjórnunarstörfum o.s.frv., heldur hlýtur að vera eðlilegt að taka mið af breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu.

Að lokum virðulegi forseti, vil ég aðeins draga saman í fáum orðum aðalinnihald míns máls. Í fyrsta lagi: Þessu frv. er ætlað að rýmka aðstöðu fólks en ekki þrengja, því er ætlað að sameina fólk í smáum einingum en ekki sundra, og því er ætlað að taka mið af ástandi nútíðar en ekki fortíðar. Í frv. eru ákveðnar tölulegar viðmiðanir eins og lágmarksfjöldi vinnandi fólks á vinnustað þar sem stofnun vinnustaðafélaga kemur til greina. Það er spurning um hlutfall þátttakenda í atkvgr. og það er spurning um reglugerð sem sett yrði um framkvæmd atkvgr. Allt þetta eru atriði sem móta þarf og breyta síðan ef þurfa þykir, en hafa ekki nein úrslitaáhrif á eðli og markmið frv. sjálfs.

Að lokum, virðulegi forseti, geri ég till. um að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.