07.11.1983
Efri deild: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (440)

18. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Flm. (Stefán Benediktsson):

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Við erum greinilega dálítið þreyttir í dag. Örstutt svar til hv. 6. landsk. þm., bara til að leggja enn og aftur áherslu á mín fyrri orð. Það frv. sem hér er fjallað um er ekki fyrirskipun heldur rýmkun eða heimild. Það getur vel verið að menn geti haft skiptar skoðanir um ágæti slíkrar aðgerðar út af fyrir sig og telji að hún komi kannske ekki að miklu gagni fyrir einn eða neinn. En hún vekur þó ákveðnar spurningar. Hvers vegna eru menn, alþm. eða aðrir, á móti lagaákvæði sem gerir einfaldlega ekkert annað en að rýmka örlítið rétt manna í þessu landi?

Hvað hinu atriðinu viðvíkur, um verkföllin, þá var ég náttúrlega ekki að gera lítið úr þeim nauðum og þeim þrengingum sem ganga yfir fólk þegar það þarf að fara í verkföll. En ég get aftur á móti ekki séð að það sé nokkur lausn, hvorki fyrir verkafólk né verkalýðsforustuna, að velta einfaldlega vandanum af þeirri ákvörðun til einhvers oddamanns í einhverju ráði, sem tekur ákvarðanir í raun og veru án minnsta tillits til annarra hagsmuna en þeirra sem hann er sjálfur að verja, sem sé ríkisins í heild. Ég bendi aðeins á þá verðlagsákvörðun sem átti sér stað í gær þegar loðnuskipin sigldu úr höfn. Þar tók oddamaður afstöðu með kaupendum á móti seljendum.