30.04.1984
Neðri deild: 77. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4983 í B-deild Alþingistíðinda. (4417)

243. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég vil svara hæstv. félmrh. með nokkrum orðum vegna athugasemda hans hér á þingi þann 25. apríl s. l. í umr. um frv. til l. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Hæstv. ráðh. segir, með leyfi forseta:

„Þar kemur m. a. fram skýring á 1. gr. frv. sem aðallega hefur verið gagnrýnd. Hér hefur verið fellt út úr frv. endurskoðunarnefndarinnar, eftir að búið er að taka fram í aðalgrein frv. að tilgangur laganna sé að „koma á“ jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum, að sérstaklega skuli bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði.“

Ráðh. segir enn fremur, með leyfi forseta:

„1. mgr. 1. gr. stjfrv. og frv. stjórnarandstöðuþingmanna hljóðar svo:

„Tilgangur laga þessara er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum aldri.“ Er hægt að kveða skýrar að orði um vilja til að koma á jafnrétti í jafnréttislögum? Ég er þess fullviss að yfirgnæfandi meiri hluti Íslendinga, sem leggur til grundvallar vestrænan skilning á hugtakinu jafnrétti, mundi svara þessari spurningu neitandi. Endurskoðunarnefndin og nokkrir stjórnarandstöðuþingmenn, sem hafa látið teyma sig blindandi í þessu máli, telja þetta ekki fullnægjandi. Þessir aðilar virðast vera þeirrar skoðunar að í jafnréttislögum þurfi endilega að taka fram að sérstaklega skuli bæta stöðu annars aðilans umfram hinn. M. ö. o., hér er á ferðinni sú tegund jafnréttishugmynda sem byggir á því að allir séu jafnir en sumir séu jafnari en aðrir.“

En hæstv. félmrh.: Til hvers er verið að setja lög um jafnrétti? Hver er að knýja á? Á hvern hallar? Hver hefur ekki jafnan rétt? Hver hefur minni menntun, lægri laun? Hver á ógreiðari aðgang að stefnumótun þess samfélags sem við búum í? Hverjir vinna 2/3 hluta allra vinnustunda sem unnar eru í heiminum en fá 1/10 hluta af þeim launum sem greidd eru og eiga minna en 1% af eignum jarðarinnar? Hæstv. félmrh.: Það eru konur. Þess vegna þarf að kveða sérstaklega á um leiðir til að bæta hag kvenna. Hvað varðar refsiákvæði voru það ekki mín orð að refsiákvæði væru engin heldur sagði ég, með leyfi forseta: „Möguleikar til að beita refsiákvæðum og viðurlögum vegna brota á jafnréttislögum hafa verið rýrðir og þar með verksvið Jafnréttisráðs.“

Ég sagði enn fremur: „Æskilegast væri ef jafnrétti mætti koma á með jákvæðu hugarfari og án refsingar. Hér er þó verið að setja lög til að vernda réttindi og reynslan sýnir að lög verða oft áhrifalítil ef ekki eru nein viðurlög við broti.“ Þá tók ég dæmi um lög um notkun bílbelta sem ég ætla ekki að vitna í frekar nú. Annað er það að trúlegt er að fræðsla sé mun notadrýgri til þess að knýja fram þá hugarfarsbyltingu sem er nauðsynlegur jarðvegur fyrir jafnrétti kvenna og karla. Þess vegna teldi ég það brýnt að hafa betri ákvæði um fræðslu og hvernig ætti að framkvæma hana í báðum frv. Enn fremur að Alþingi þyrfti að styðja allar þær aðgerðir aðrar sem auðvelda það að jafnrétti kynjanna komist á í raun. T. d. er svo um bætta félagslega þjónustu á ýmsum sviðum sem tekur tillit til þarfa fjölskyldunnar og þar með kvenna.