30.04.1984
Neðri deild: 77. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4984 í B-deild Alþingistíðinda. (4418)

243. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. hefur hér á Alþingi lagt fram og mælt fyrir frv. til l. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Réttnefni þessa frv. væri og ætti að vera frv. til l. um staðfestingu á óbreyttu ástandi í jafnréttismálum kynjanna. Ég skal ekki draga í efa góða meiningu hæstv. ráðh., en góð meining er bara ekki nóg til þess að jafna stöðu kvenna og karla í þjóðfélaginu. Ég vil leyfa mér að segja um þetta frv. að það er ekki pappírsins virði í jafnréttisbaráttunni. Frv. er pappírsgagn og mun engu breyta í jafnréttismálum á Íslandi.

Það lýsir litlum skilningi á jafnréttisbaráttunni og ber ekki vott um að að baki búi söguleg þekking á hinni þrotlausu baráttu sem konur hafa þurft að heyja í gegnum árin með sorglega litlum árangri að leggja fram slíkt frv. Af þeim sögulega bakgrunni ættu stjórnvöld að geta dregið réttar ályktanir og út frá því lagt fram raunhæfar tillögur, sem vænta má árangurs af, ef einhver alvara lægi að baki að breyta þeirri stöðu sem er í jafnréttismálum kynjanna hér á landi.

Af öllum þeim lögum og ályktunum sem um nokkra áratugi hafa verið samþykkt hér á hv. Alþingi ættu stjórnvöld að skilja að það frv. sem nú er lagt fram er gersamlega gagnslaust og mun engu breyta. Reynslan sýnir ótvírætt að það duga ekki almennt orðuð ákvæði í lögum til að ná fram raunverulegu jafnrétti kynjanna. Þau eru einskis virði. Það þarf að gera markvissa og róttæka breytingu á jafnréttislögunum til að vænta megi árangurs, til að sýna að stjórnvöldum sé það alvara að ætla að vinna að jafnrétti kynjanna. Ég veit satt að segja ekki hvaða tilgangi það frv. sem hér er lagt fram þjónar. Ég held að stjórnvöld ættu að skilja að gegnum slíkt sýndarmennskufrv. er auðvelt að greina hvað lítið býr að baki.

Þetta frv., eins og það er lagt fram, er lítilsvirðing við jafnréttisbaráttuna og ætti í raun að vísa því frá sem slíku. Af og til á liðnum árum, þegar hávær umræða hefur orðið um stöðu kvenna og réttindaleysi þeirra í þjóðfélaginu, hefur verið skipuð nefnd til að kanna málið. Síðan er samþykkt þáttill., eða fleygt inn á Alþingi frv., eingöngu í þeim tilgangi að sýnast og til að lægja þær öldur sem risið hafa í þjóðfélaginu og kröfur um úrbætur. Þetta frv. er af þeim toga og kannske sérstakt fyrir það að blekkingin í því er svo augljós að það vekur furðu að hæstv. félmrh. skuti hafa geð í sér til að mæla fyrir slíku frv. Ég sagði að það þyrfti róttækar breytingar til að ná árangri. Eða heldur einhver því fram að annað dugi þegar litið er á sögu jafnréttisbaráttunnar undanfarna áratugi? Því til staðfestingar skal ég í örfáum orðum rifja upp nokkur af þeim frv. og þáltill. og fleiru sem lagt hefur verið fram hér á Alþingi og samþykkt í jafnréttismálum. Svo geta hv. þm. borið saman árangurinn og stöðu mála í dag og velt fyrir sér hvaða tilgangi þetta marklausa plagg hæstv. félmrh. þjónar.

Eftir því sem næst verður komist er það fyrst árið 1948 sem frv. er lagt fram á Alþingi sem lýtur að því að uppræta það launamisrétti kynjanna sem upphaflega var á vinnumarkaðinum og fram kom í mismun á launatöxtum kynjanna. Í ár og áratugi höfðu konur þá haft forgöngu um að ná fram launajafnrétti með eðlilegum hætti á vinnumarkaðinum án íhlutunar löggjafans. Árið 1953 er frv. um launajafnrétti kynjanna lagt fram á nýjan leik, síðan 1954 og loks árið 1961 er lagt fram það frv. sem að lögum varð, um að launajafnrétti skyldi nást fram í áföngum á sex árum. Áður hafði orðið að lögum frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, sem m. a. kvað á um að konur og karlar hjá hinu opinbera skyldu hafa jafnan rétt til opinberra starfa og til sömu launa fyrir sömu störf.

Af þessari upptalningu má sjá að um 20 ár líða frá því að málinu er fyrst hreyft á Alþingi þar til löggjafinn sér ástæðu til að taka af skarið og samþykkja lög sem kveða á um launajafnrétti kynjanna. Á þeim tíma sem liðinn er frá því að þau lög voru sett, sem að fullu komu til framkvæmda 1967, hafa síðan verið sett lög um Jafnlaunaráð frá 1973, fullgildingu á alþjóðasamþykkt um jöfn laun kvenna og karla fyrir jafnverðmæt störf og lög um jafnrétti kvenna og karla frá 1976. Árið 1980 er síðan samþykkt þáttill. um úttekt á tekjuskiptingu í þjóðfélaginu, en nokkrir liðir hennar fjölluðu um launakjör kvenna og karla sérstaklega. Og hver er staðan í dag eftir öll þau lög sem samþykkt hafa verið, allar þáltill. og aðrar samþykktir? Um þá stöðu mætti auðvitað hafa mörg orð og leggja fram óteljandi rök því til staðfestingar að enn er langt í land að jafnrétti sé náð. Og það er furðulegt, sem fram kom í máli hæstv. félmrh. í síðustu viku, miðað við hvað langan tíma þetta virðist taka og lítið virðist þokast, að ekki er talin ástæða til að taka það fram í jafnréttislögum að sérstaklega skuli bæta stöðu annars kynsins.

Eins og allir vita ríkir enn mikill launamismunur og misrétti milli kvenna og karla. Örfá dæmi skal ég nefna því til staðfestingar. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í bækling sem gefinn hefur verið út af framkvæmdanefnd um launamál kvenna. Þar segir m. a.:

„Árið 1982 var meðaltímakaup í dagvinnu hjá ófaglærðum verkamanni við trésmíðar 42% hærra en meðaltímakaup kvenna í dagvinnu við fatasaum. Meðaldagvinnutímakaup karla við afgreiðslu í bifreiðavarahlutaverslunum var 32% hærra en meðaldagvinnutímakaup kvenna við afgreiðslu í vefnaðarvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu á öðrum ársfjórðungi 1983. Meðallaun karla á ársverk er allt að 100% hærra en meðallaun kvenna eftir atvinnugreinum.“

Og áfram segir með leyfi forseta: „Meðallaun kvenna á ársverk eru hæst hjá ógiftum konum 25–44 ára og samsvara þau meðallaunum 15–19 ára pilta, 65–69 ára ókvæntra karla og 70–74 ára kvæntra karla. Árið 1982 voru verkamenn með 7% hærra meðaltímakaup en verkakonur, en sé eingöngu miðað við tímakaup í dagvinnu var munurinn 14% . Árið 1982 voru karlar við afgreiðslustörf með 24% hærra meðaltímakaup en konur, en sé eingöngu miðað við tímakaup í dagvinnu var munurinn 26%. Á öðrum ársfjórðungi 1983 voru karlar við skrifstofustörf með 35% hærra meðaltímakaup en konur, en sé eingöngu miðað við tímakaup í dagvinnu er munurinn 33%.“

Að því er varðar stöður og stöðuveitingar í þjóðfélaginu í störfum þar sem ákvarðanir eru teknar og sem gefa möguleika á góðum tekjum gætir lítið áhrifa kvenna. Við búum við mikla tvískiptingu á vinnumarkaðinum. Störf flokkast enn í miklum mæli í kvenna- og karlastörf.

Á árinu 1980 lagði ég fram frv. til l. um breytingu á lögum um jafnrétti kvenna og karla. Það frv. tók mið af stöðunni eins og hún blasti við og af þeirri reynslu sem fengist hafði af þeirri lagasetningu og ályktunum sem samþykktar höfðu verið á Alþingi, sem litlum árangri höfðu skilað. Niðurstaða mín var þá og er enn að róttækra breytinga sé þörf í lagasetningu til þess að ná árangri. Frv. olli miklum deilum og mjög skiptar skoðanir voru um það. Menn létu sig ekki muna um að mistúlka og rangfæra það sem í frv. fólst. Talað var um misréttindafrv., forréttindafrv. og brot á stjórnarskránni. Þó að annað stæði í frv. var því hiklaust haldið fram hér á Alþingi sem annars staðar að með þessu frv. ætti skilyrðislaust að ráða konur í störf, sem karlar höfðu frekar valist til, án tillits til þess hvort konur hefðu menntun og hæfileika til að bera. Þetta var auðvitað alrangt og mun ég koma að því síðar í mínu máli.

Annað meginefni frv. var að á fjárlögum ár hvert skyldi veita framlag sem gerði Jafnréttisráði kleift að standa fyrir könnunum á launakjörum kvenna og karla. Þar sem einsýnt var að ekki mundi nást samkomulag um þá leið sem lögð var til í frv. á því þingi né aðra, sem næði sama markmiði, taldi ég rétt að standa að þeirri rökstuddu dagskrá, sem félmn. lagði þá til, þar sem sá þáttur sem snýr að könnunum á launakjörum kvenna og karla fékk ákveðna afgreiðslu. Á þá málsmeðferð féllst ég þar sem ekki varð lengra komist að sinni og ekki óeðlilegt, miðað við hve skiptar skoðanir voru um frv., að frekari umr. ættu sér stað í þjóðfélaginu um þessi mál áður en Alþingi tæki ákvörðun í málinu.

Margt bendir til að nú séu margir komnir inn á þá skoðun og fallist á þau rök sem ég hafði uppi þá og því sé nú grundvöllur til að lögfesta það ákvæði sem ég lagði til eða a. m. k. efnislega samhljóða því.

Í upphafi míns máls, herra forseti, lét ég í ljós þá skoðun mína að hér væri á ferðinni frv. sem væri ekki pappírsins virði. Lítill skilningur væri í raun á jafnréttisbaráttunni o oft gætti tvískinnungs í gerðum alþm. í þessu efni. Ég skal taka dæmi máli mínu til stuðnings sem er mér enn í fersku minni. Í þessari jafnréttisbaráttu vantar nefnilega ekki að hæstv. alþm. séu fúsir að lýsa yfir vilja sínum til að uppræta launamisrétti, með samþykkt laga, með samþykkt tillagna, með samþykkt rökstuddrar dagskrár og með yfirlýsingum í nál. og yfirleitt í öllum þeim búningi sem þingsköp leyfa. En þegar á herðir, þegar til þess kemur að standa við öll loforðin, þá er oft annað uppi á teningnum. Þetta kom bersýnilega í ljós eftir að frv. sem ég lagði fram fyrir 3–4 árum fékk afgreiðslu með rökstuddri dagskrá, en til þess vil ég vitna.

Ég vil með leyfi forseta fyrst fá að vitna í nál. félmn. sem um málið fjallaði:

Félmn. hefur haft til meðferðar frv. um breyting á lögum um jafnrétti kvenna og karla, nr. 78/1976. Með tilliti til athugasemda, sem fram komu í umsögnum um málið, telur nefndin ekki tímabært á þessu stigi að taka afstöðu til annarra ákvæða frv. en 4. gr. sem felur í sér að framlög skuli veitt til að standa fyrir könnunum á launakjörum kvenna og karla.

Nefndin telur brýnt að þessar kannanir verði gerðar til þess að Jafnréttisráði sé unnt að fylgjast með því að virt sé 2. gr. jafnréttislaganna sem m. a. kveður á um að greidd séu jöfn laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.

Samkvæmt 10. gr. jafnréttislaganna frá 1976 kemur fram að eitt af verkefnum Jafnréttisráðs sé að taka til rannsóknar af sjálfsdáðum hver brögð kunni að vera að misrétti í jafnréttismálum.

Í þessu ákvæði felst að Jafnréttisráð, sem skipað er skv. 9. gr. laga nr. 78/1976, rannsaki þessi mál. Framkvæmdaaðili þessarar könnunar gæti þó verið Kjararannsóknarnefnd sé það talið hagkvæmara. Leggja verður þó áherslu á að samráð verði haft við Jafnréttisráð um alla framkvæmd og undirbúning á þessum könnunum.

Nefndin hefur því orðið sammála um að leggja til að frv. verði afgreitt með eftirfarandi rökstuddri dagskrá: Í trausti þess, að ríkisstj. beiti sér fyrir því nú þegar, að kannanir verði gerðar á raunverulegum launakjörum kvenna og karla, svo og að kannanir þessar verði gerðar reglulega og Kjararannsóknarnefnd, Jafnréttisráði eða öðrum aðila verði gert kleift með fjárframlögum eða á annan hátt að standa fyrir þeim, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Fyrir þessu nál. og rökstuddri dagskrá mælti þáverandi formaður félmn. og núverandi hæstv. félmrh., Alexander Stefánsson. Þarna kom ótvírætt fram að brýnt væri að gera kannanir á launakjörum kvenna og karla og að fjárframlög yrðu veitt til þess að standa fyrir þeim.

Af þessari rökstuddu dagskrá hefði mátt ætla að þegar á fjárlögum þess árs yrði veitt framlag til að standa við það fyrirheit sem fólst í þessari rökstuddu dagskrá. En því var ekki að heilsa. Tvær tilraunir, sem gerðar voru á því þingi til þess að leggja til lítið fjárframlag til að hrinda af stað umræddri könnun, voru felldar við þá fjárlagaafgreiðslu. Þær till. fengu aðeins örfá atkvæði. Þetta sýnir auðvitað ljóslega hvað erfitt er um vik að framkvæma jafnrétti kynjanna í reynd, þegar á reynir að standa við það sem stendur í lögum og samþykktum sem frá Alþingi koma.

Þau nýmæli sem talað er um í grg. með þessu frv. tel ég lítils virði. Í fyrsta lagi er sagt að í 1. gr. fellst nýmæli, sem sé að í stað þess „að stuðla að jafnrétti“, eins og segir í núgildandi lögum, sé tilgangur laganna að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Út af fyrir sig er þetta ákveðnara orðalag en í núgildandi lögum. Og í réttu framhaldi af því hefði maður haldið að hægt væri að finna ákvæði í frv. sem fæli í sér einhverja breytingu frá núgildandi lögum um hvernig koma ætti á þessu jafnrétti. En í þessu frv. er nákvæmlega ekkert að finna sem gefur minnstu von um að breyting kunni að fylgja í kjölfar samþykktar þess.

Auk þessarar breytingar sem ég hef getið er talað um breytingu á skipan Jafnréttisráðs. Þar er talað um að Kvenréttindafélag Íslands og Kvenfélagasamband Íslands eigi fulltrúa í Jafnréttisráði.

Talað er um að mikilvægasta nýmælið í frv. sé að finna í 2. tölul. 15. gr., en skv. henni skal Jafnréttisráð vinna framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn þar sem kveðið skal á um aðgerðir til að koma á jafnrétti kynjanna. Út af fyrir sig legg ég ekki lítið upp úr þessu ákvæði. Jafnréttisráð hefur í sínu starfi gert ýmsar áætlanir, sem reynt hefur verið að vinna eftir, og lagt fram áætlanir við gerð fjárlaga um það að fá aukið starfslið til þess að Jafnréttisráð geti sinnt hlutverki sínu. En fæstar þeirra hafa verið teknar til greina.

Hæstv. félmrh. gerði mikið úr því ákvæði í frv. að auka ætti hlutverk og verkefni Jafnréttisráðs. Það er auðvitað ekki nægjanlegt að skrá slíkt í frv. Það verður að sýna viljann í verki og veita fjármagn til þess að Jafnréttisráð geti unnið að þeim verkefnum sem því er ætlað í lögunum. Ég sé því ekki fyrir mér neina breytingu þó að í ákvæði frv. komi að auka eigi verkefni Jafnréttisráðs nema jafnframt fylgi því að Jafnréttisráð fái aukið fjármagn.

Ákvæði 12. gr., um að leitast skuli við að hafa sem jafnasta tölu kynjanna í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum ríkisins, sveitarfélaga og samtaka þar sem því verður við komið, tel ég algjörlega máttlaust nema því fylgi frekari skilgreining á með hvaða hætti það skuli gert.

Í sumum ákvæðum frv., t. d. 2. og 4. gr., tel ég að beinlínis sé um þrengingu að ræða frá gildandi lögum. Í 2. gr. núgildandi laga er talað um að konum og körlum skuli veittir jafnir möguleikar til atvinnu og menntunar og greidd jöfn laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Í 2. gr. frv. nú er einungis talað.um að konum og körlum skuli með stjórnvaldsaðgerðum tryggðir jafnir möguleikar til atvinnu og menntunar. Sá þáttur sem snýr að laununum, um greiðslu jafnra launa fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf, er þar felldur út. Að hluta til er þetta ákvæði þó sett inn í 4. gr., en þar stendur:

„Konum og körlum skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.“

Skilgreininguna á því hvað séu jöfn laun og jöfn kjör, sem fram kemur í 2. og 3. málsgr. 4. gr., tel ég alls ófullnægjandi, einkum þó ákvæði 3. málsgr. 4. gr. frv. þar sem talað er um að með „kjörum“ í lögum þessum sé átt við lífeyris-, orlofs- og veikindaréttindi og hvers konar önnur samningsréttindi. Ég tel nauðsynlegt að í þessari gr. komi frekari skilgreining á kjörum þar sem vitnað er til hlunninda og hvers konar yfirborgana en einmitt til þeirra kjaraþátta tel ég að megi oft og tíðum rekja misrétti í launamálum kvenna og karla.

Þegar ég lagði fram frv. sem ég greindi frá fyrir fjórum árum síðan var við þá umr. tilkynnt að þáverandi félmrh. hygðist skipa nefnd til að kanna stöðu jafnréttismála og semja breytingar á núgildandi lögum. Þessi nefnd skilaði fyrir allnokkru drögum að frv. sem, eins og fram hefur komið, hæstv. félmrh. hafði til meðferðar. Þó ég telji að þau frumvarpsdrög gangi ekki nógu langt að því er einstök ákvæði þess frv. varðar þá tel ég þó að í því frv. komi fram töluverð viðleitni til raunhæfra aðgerða til að koma á jafnrétti kynjanna. Þó ekki næðist samkomulag um stærri áfanga í jafnréttisbaráttunni en fram kemur í því frv. tel ég það þó vera skref í rétta átt og með ákveðnum breytingum get ég fellt mig við það frv. Ég tilkynnti hv. þm. Svavari Gestssyni, 1. flm. frv. endurskoðunarnefndarinnar, sem lagt hefur verið fram, þegar ég féllst á ásamt nokkrum öðrum þm. að gerast meðflm. með honum, að ég mundi flytja brtt. við það frv. og gæti sætt mig við það með ákveðinni breytingu.

Í þeim frumvarpsdrögum kemur fram ákvæði um jákvæða mismunun, hliðstætt ákvæði og er í norsku jafnréttislögunum, en á það mátti ekki minnast þegar frv. það sem ég lagði fram á sínum tíma var til umr. Drögin fela í sér að í markmiðslýsingu er sérstaklega kveðið á um að bæta aðstöðu kvenna til að ná því markmiði. Og þó að í 3. gr. komi fram að hvers kyns mismunun eftir kynferði sé óheimil þá kemur einnig fram að aðgerðir, sem eru sérstaklega ætlaðar til að bæta stöðu kvenna, teljist ekki ganga gegn lögunum. Ég fagna því sérstaklega að samkomulag náðist um þetta í nefndinni sem var skipuð fulltrúum kvennasamtaka, Jafnréttisráðs og stjórnmálaflokka. Þetta ákvæði sýnir ótvírætt að ýmsir þeir sem voru á móti því ákvæði sem ég lagði fram á sínum tíma, um ákveðnar tímabundnar aðgerðir til að koma á jafnrétti kynjanna, eru farnir að sjá að þetta er eina raunhæfa leiðin til að ná árangri.

Reyndar benti ég á í umr. um þetta mál á Alþingi fyrir fjórum árum, þegar það frv. var til meðferðar, að ég væri tilbúin til að skoða aðrar leiðir en það ákvæði sem ég lagði til í frv. ef þær skiluðu raunverulegum árangri. Benti ég m. a. á og lagði fram í félmn. till. sem var hliðstæð ákvæðum norsku jafnréttislaganna og fól í sér að sé talið nauðsynlegt til að afnema raunverulegt misrétti kynjanna sé það ekki andstætt lögunum þó að kynjunum sé mismunað ef það er í samræmi við tilgang laganna sem er að stuðla að jafnrétti. Ekki ósvipað ákvæði var einnig í dönskum og sænskum jafnréttislögum. Nú virðist sú nefnd sem setið hefur á rökstólum um þessi mál að ég hygg í eitt og hálft til tvö ár vera komin að þeirri niðurstöðu og lagði til í sínum frumvarpsdrögum jákvæða mismunun. Í frv. vantar engu að síður ákvæði sem felur í sér tímabundnar aðgerðir eins og heimilað er í 3. gr. frv.

Í framsöguræðu minni fyrir þessu frv. fyrir fjórum árum síðan benti ég líka á aðra leið sem næði raunverulega sama marki og það ákvæði sem ég lagði til og vil ég með leyfi forseta fá að lýsa því sérstaklega vegna þess að það er það ákvæði sem ég tel nauðsynlegt að komi til viðbótar þeim frumvarpsdrögum sem nefndin hefur skilað. Ég lýsti því í upphafi míns máls að margir hefðu gert sér sérstakt far um að mistúlka og rangtúlka það ákvæði sem ég lagði fram á sínum tíma, gefa af því villandi mynd og hafa villandi túlkun uppi í umræðunni. Það lýsir kannske best hve reynt var að gera málið tortryggilegt að þeir sömu og voru hvað háværastir og töluðu um misréttinda- og forréttindaákvæði í því frv. sem ég lagði fram voru hlynntir ákveðinni túlkun á jafnréttislögunum sem fram hafði komið á norrænu lögfræðingaþingi í Kaupmannahöfn í ágúst 1978 í erindi sem Guðrún Erlendsdóttir lögfræðingur flutti. Það ákvæði er þó efnislega alveg samhljóða því ákvæði sem ég lagði fram á sínum tíma og ég margbenti á að ég gæti sætt mig við sem breytingu á jafnréttislögunum. En allt kom fyrir ekki. Menn héldu áfram sínu striki og töluðu um forréttindafrv.

Þess vegna er nauðsynlegt, herra forseti, að bera saman þessi tvö ákvæði. Út hefur verið gefinn bæklingur með erindi Guðrúnar Erlendsdóttur, lögfræðings, og er hann sérprentaður úr tímariti lögfræðinga. Þar segir m. a. með leyfi forseta:

„Ég tel það óheppilegt, að jafnréttislög innihaldi ákvæði um mismunun kynjanna og tel það andstætt jafnréttishugsjóninni að veita öðru kyninu forréttindaaðstöðu.“

En síðar í erindi sínu segir Guðrún Erlendsdóttir og bið ég nú hv. þdm. að taka vel eftir:

„Þegar sett hafa verið lög um jafnrétti kynjanna eins og gert hefur verið á Íslandi, þar sem tilgangur laganna er að stuðla að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla, þá hafa stjórnvöld þar með tekið að sér að stuðla að þessu jafnrétti. Stjórnvöldum ber þá skylda til að sjá svo um, að konur og karlar hafi sömu möguleika til menntunar og starfa.“ Síðan kemur túlkunin sem ég vil fá að vitna til og er efnislega samhljóða því ákvæði sem ég lagði til og mest var um deilt á sínum tíma, en Guðrún Erlendsdóttir segir orðrétt:

„Ef sú staða kemur upp, að karl og kona sæki um starf í starfsgrein þar sem annað kynið er allsráðandi, og bæði tvö hafa sömu hæfileika og menntun til að bera, þá skal veita þeim aðila starfið, sem er af því kynferði, sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein.“

Guðrún Erlendsdóttir lögfræðingur túlkar jafnréttislögin — (FrS: Lestu framhaldið, næstu setningu við eftir Guðrúnu Erlendsdóttur.) „Ég tel sem sagt, að konur verði að vera sömu hæfileikum búnar og karlar, til þess að fá starf, og að ekki eigi að veita þau forréttindi eingöngu vegna kynferðis þeirra.“ (Gripið fram í: Þakka fyrir.)

Það kom fram í mínu frv. á sínum tíma að konur ættu að hafa sömu menntun og hæfileika til að bera til þess að veita þeim starfið og þetta er nákvæmlega túlkun Guðrúnar Erlendsdóttur á þessu ákvæði. Hún túlkar jafnréttislögin sem eru í gildi í dag þannig, hv. þm., orðrétt:

„Ef sú staða kemur upp, að karl og kona sækja um starf í starfsgrein þar sem annað kynið er allsráðandi, og bæði tvö hafa sömu hæfileika og menntun til að bera þá skal veita þeim aðila starfið, sem er af því kynferði, sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein.“ Ég hef þegar lesið framhaldið og það kveður einungis á um það að ekki eigi að veita konum starf nema þær séu sömu hæfileikum búnar og karlmenn, enda var í því ákvæði sem ég var með í mínu frv. ekki um nein forréttindi að ræða. Í því frv. kom fram að ef konur sæktu um starf þar sem þær væru í minni hluta en þær hefðu sömu hæfileika og menntun til að bera þá ættu þær að fá starfið. Það er því nákvæmlega sama túlkun hjá Guðrúnu Erlendsdóttur og er í því frv. sem ég lagði fram á sínum tíma þó að það þjónaði lund margra að vera að mistúlka það frv.

Ég tel sem sagt að Guðrún Erlendsdóttir lögfræðingur túlki jafnréttislögin — en hún er höfundur þeirra — sem eru í gildi í dag þannig að þegar tveir aðilar með sömu hæfileika og menntun sækja um starf skuli veita þeim aðila starfið sem er í minni hluta í viðkomandi starfsgrein. Þetta ákvæði og túlkun Guðrúnar Erlendsdóttur get ég mjög vel fellt mig við og ég vil undirstrika og ítreka að ég er sammála þessu ákvæði og ég gæti vel fellt mig við að þetta ákvæði og túlkun Guðrúnar Erlendsdóttur kæmi til viðbótar og yrði tekið upp sem ákvæði til brb. í það frv. sem samþykkt yrði héðan frá Alþingi.

Ég tel sem sagt að það ákvæði nægi ekki sem fram kom í frumvarpsdrögum nefndarinnar og kveður á um að aðgerðir sem eru sérstaklega ætlaðar til að bæta stöðu kvenna teljist ekki ganga gegn lögum þessum. Ég tel að við eigum að stíga það skref að ákveða ákveðnar tímabundnar aðgerðir sem nái því markmiði sem er í 1. gr. frumvarpsdraga nefndarinnar um að sérstaklega skuli bæta stöðu kvenna til þess að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Verði slíkt ákvæði samþykkt ásamt öðrum þeim ákvæðum, sem lögð voru til af þeirri nefnd sem fjallað hefur um þessi mál á undanförnum tveimur árum, tel ég að við séum að stíga raunverulegt skref í átt til jafnréttis kynjanna. Með slíkum ákvæðum væru stjórnvöld og Alþingi að sýna fram á raunverulegan vilja til þess að bæta stöðu kvenna í þjóðfélaginu og koma í veg fyrir það misrétti og mismunun sem átt hefur sér stað.

Að vísu þarf meira að ske og þá á ég við að uppræta þá mismunun og misrétti sem ríkir í launamálum. Því hef ég einnig viljað sjá í nýjum lögum sem samþykkt væru frá Alþingi markviss ákvæði um það að stjórnvöldum væri alvara að taka á því máli. Ég gæti hugsað mér það ákvæði á þann hátt að fastsett væri í þessum lögum ákvæði um að þegar í stað yrði framkvæmd könnun á launakjörum kvenna og karla. Ég vil fagna því sem fram hefur komið nýlega á Alþingi að hæstv. forsrh. hefur slíkt í huga en slíkar kannanir þyrftu að vera reglulega í gangi og ekki er nægjanlegt að koma á einni slíkri könnun.

Herra forseti. Ég skora á hæstv. félmrh. að endurskoða afstöðu sína til þessa frv. sem hann hefur lagt fram og mælt fyrir og beita sér fyrir því að í meðförum hér á Alþingi taki frv. verulegum breytingum. Ég trúi því ekki að hæstv. félmrh. eða ríkisstj. hafi minnstu trú á því í raun og sannleik að þetta frv. skili nokkrum árangri í jafnréttisbaráttinni. Ég tel að það ættu þeir að viðurkenna með því að taka undir það frv. sem lagt hefur verið fram hér á Alþingi. Með samþykkt þess frv. kæmi fram raunveruleg viðleitni hér á hv. Alþingi til þess að breyta þeirri stöðu sem uppi er í dag í þessum málum. Félmrh. væri maður að meiri viðurkenndi hann gagnsleysi þessa frv., sem við fjöllum um og lýsti sig reiðubúinn til að taka raunhæft á þessum málum. Ég tel að annað sé lítilsvirðing við jafnréttisbaráttuna, staðfesting á óbreyttu ástandi og viljaleysi stjórnvalda til að taka á þessu máli sem ég trúi ekki að hæstv. félmrh. vilji láta kenna sig við. Ég vil leggja áherslu á það, herra forseti, hér í lokin að þetta frv. nái fram að ganga fyrir þinglok með þeim breytingum vitaskuld sem ég hef hér lýst og tel að þurfi að gera á þessu frv. til þess að það skili einhverjum árangri í jafnréttisbaráttunni.