30.04.1984
Neðri deild: 77. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4992 í B-deild Alþingistíðinda. (4419)

243. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Á dagskrá þessa fundar eru tvö mál sem snerta jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Annars vegar er stjfrv. á þskj. 431 og hins vegar frv. til l. um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna sem flutt er af mér ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, Kristínu S. Kvaran, Guðrúnu Helgadóttur, Kjartani Jóhannssyni og Guðmundi Einarssyni. Það hefur orðið að samkomulagi milli mín og forseta að ég reyni í þessu máli mínu að gera nokkra grein fyrir hinu síðarnefnda frv., þannig að þau séu hér bæði til umr. svo sem verið hefur og að menn geti þá í umr. hagað orðum sínum svo, að umr. um síðara dagskrármálið verði þeim mun styttri eða svo að segja engin vegna þess að umr. verði tæmd þegar umr. um fyrra dagskrármálið lýkur.

Í umr. um þessi mál er ég þeirrar skoðunar að mjög nauðsynlegt sé að líta á jafnréttismál í samhengi við aðra þætti í þjóðfélaginu. Ég treysti mér ekki til þess að hefja hér ræðu um þessi mál öðruvísi en að minna á að jafnrétti og jafnir möguleikar kvenna í þjóðfélaginu ráðast ekki einvörðungu af lagasetningu af því tagi sem hér er gerð till. um, heldur af margvíslegum öðrum þáttum í þjóðfélaginu, sem skipta sköpum um hvort það eru móguleikar til þess að sækja þann jafna rétt sem lögin kveða á um að konur skuli hafa á hverjum tíma. Í þessu efni skiptir mjög miklu máli hvernig búið er að margvíslegri félagslegri þjónustu og þá alveg sérstaklega vil ég nefna þar eitt dæmi sem eru dagvistarmál.

Fyrir nokkrum árum var gerð áætlun til tíu ára um byggingu dagvistarheimila árin 1981–1990. Þessi áætlun var gerð í framhaldi af samningum Alþýðusambands Íslands, Vinnuveitendasambands Íslands og ríkisstj. í lok ársins 1980. Og hvernig standa þessi mál núna? Hvernig stendur áætlunin um dagvistarrými fyrir börn, miðað við þau framlög úr ríkissjóði sem nú er um að ræða? Hvenær verður áætlunin komin í framkvæmd? Svarið er: Á árinu 2005 verður þessi áætlun um dagvistarrými fyrir börn komin í framkvæmd. Það er búið með ráðstöfunum á fjárlögum þessa árs að skera svo mikið niður framlög til uppbyggingar dagvistunarstofnana að það er ekki fyrr en á árinu 2005 sem það markmið næst sem sett var í áðurnefndri tíu ára áætlun. Mér finnst að þetta sýni kannske betur en allt annað að ef menn vilja eitthvað aðhafast í jafnréttismálum verður að horfa á alla þessa þætti í senn og heildarstefna ríkisstj. á hverjum tíma ræður úrslitum um hvort jafnréttisumræðan er innantómt blaður eða hvort hún skilar málum eitthvað fram á við.

Ég vil í þessu sambandi minna á að eitt stærsta jafnréttismálið sem ákveðið hefur verið á síðustu árum er ákvörðun um að allar konur skuli hafa rétt til fæðingarorlofs sem eru í fullri atvinnu úti á hinum atmenna vinnumarkaði. Áður var það svo að fjöldi kvenna í hinum almennu verkalýðsfélögum hafði aðeins tólf daga fæðingarorlofsrétt. Með lögum sem sett voru á árunum 1980 og 1981 var þessi tólf daga fæðingarorlofsréttur lengdur í þrjá mánuði. Þetta var stórt skref fram á við í jafnréttisátt. Hið sama var að segja um áætlunina um uppbyggingu dagvistarstofnana.

Ef við lítum aðeins á þróunina í þessum efnum, þ. e. framlög ríkissjóðs til stofnkostnaðar barnaheimila miðað við fast verðtag á nokkru árabili, kemur ýmislegt fróðlegt í ljós. Það kemur fram að langhæsta framtag ríkissjóðs til stofnkostnaðar barnaheimila sem um getur hefur verið á árinu 1981 eða 16 millj. kr. á verðlagi ársins 1982. Á árinu 1982 var þessi tala um 14 millj. kr. Á árinu 1983 hækkaði þessi tala verulega og varð svipað há og hún hafði verið hæst áður. Og hvað gerðist á árinu 1984 í þessu efni? Hver eru framlög ríkisins til stofnkostnaðar barnaheimila á árinu 1984? Þau eru 12.5 millj. kr. miðað við 16.6 á árinu 1983. Það er m. ö. o. um að ræða stórfelldan niðurskurð á framlögum til stofnkostnaðar barnaheimila miðað við fast verðlag. Stjórnarandstaðan lagði þess vegna fram tillögu við afgreiðslu fjárlaga í vetur um að 20 millj. kr. yrði aukalega varið til byggingar barnaheimila á árinu 1984 umfram það sem fjárlög gerðu ráð fyrir. Þessa tillögu felldi stjórnarliðið og hefði hún þó skipt sköpum varðandi þá áætlun til tíu ára sem unnin var upp úr samningum aðila vinnumarkaðarins og ríkisstj. á árinu 1980.

Ég held að það sé mjög nauðsynlegt, herra forseti, að þetta sé rækilega haft í huga þegar menn eru að velta fyrir sér jafnréttismálum. Og það er auðvitað rétt að skoða það og gera sér grein fyrir því að dagvistarrými á Íslandi hefur verið að aukast mjög verulega á síðustu árum. Á árunum 1981–1982 bættust t. d. við hvorki meira né minna en 40 dagheimili, skóladagheimili og leikskólar, á þessum tveimur árum, en til samanburðar skal þess getið að á öllu landinu voru aðeins til 70 dagheimili og leikskólar á árinu 1973. Á tveimur árum bætast þarna við 40 heimili, sem er meira en helmingur þess sem alls var til í landinu á árinu 1973. Ég held að það sé alveg ótvírætt að sú stefna sem núverandi ríkisstj. fylgir í félagslegri þjónustu er andstæð öllum jafnréttissjónarmiðum bæði í dagheimilismálum, að því er varðar heilbrigðisþjónustu og að því er varðar aðra þætti mála. Það er grundvallaratriði þegar menn nálgast jafnréttismál að það sé tekið mið af heildarstefnumótun.

Í umr. um þessi mál er það einnig mikilvægt að menn geri sér grein fyrir hvað það er sem ræður úrslitum um það verðmætamat sem er að baki ákvörðunum um laun kvenna og stöðu t. d. á hinum almenna vinnumarkaði. Ég held að nauðsynlegt sé að gera sér það ljóst að enn þá er það svo í íslenska þjóðfélaginu að konur eru láglaunahópur og varavinnuafl í útflutningsatvinnugreinunum alveg sérstaklega. Og ég held að það sé nauðsynlegt að gera sér ljóst að því aðeins verður ráðin bót á þessu að menn þori að leggja til atlögu við þau markaðssjónarmið sem eru ráðandi í þjóðfélaginu. Eins og sakir standa í þessum efnum t. d. í sjávarútveginum er það auðvitað þannig að konur eru yfirgnæfandi meiri hluti þess fólks sem skapar þau verðmæti sem þar ráða úrslitum. Ef þær sameinuðust og sýndu sitt afl gæti það á mjög skömmum tíma, að mínu mati, skipt sköpum um lífskjör þessa fólks. Ég held að það sé eitt brýnasta verkefni kvenna að þær átti sig á því afli sem felst í sameiningu þeirra t. d. á hinum almenna vinnumarkaði og alveg sérstaklega í útflutningsgreinunum. Markaðsöflin vanmeta vinnuafl konunnar og henda því út þegar ekki er hráefni, þegar ekki er fiskur eða þegar ekki er önnur aðstaða. Markaðsöflin eru á móti því að það séu gerðar félagslegar ráðstafanir til að verja konur fyrir þessu ástandi t. d. í okkar atvinnulífi. Vinnuveitendasamband Íslands hefur alltaf verið á móti því að settar væru reglur um að þrengja enn frekar möguleika atvinnurekenda til að reka konur út úr frystihúsunum þegar þar vantar hráefni með því að breyta lögum um uppsagnir og rétt fólks í veikinda- og vinnuslysatilvikum. Það hefur sem sagt bersýnilega verið þannig, að þarna hafa rekist á annars vegar félagsleg sjónarmið og hins vegar sjónarmið fjármagnsins. Það er nauðsynlegt að þetta sé haft í huga því að krafan um breytt verðmætamat og annað mat á vinnuframlagi konunnar verður ekki borin fram af neinum þrótti öðruvísi en að menn geri sér um leið grein fyrir því að þá eru menn að hafna lögmálum gróðans og markaðsþjóðfélagsins.

Það er athyglisvert að einmitt núna á þessum vetri skuli það gerast að gerður er kjarasamningur um tekjutryggingu láglaunafólks 21. febrúar s. l. sem er með þeim hætti að konur eru að jafnaði án þess að hafa bónus í fiskvinnslu fjórðu hverja viku. Fjórðu hverja viku er ekki borgaður neinn bónus vegna þess að þá eru konurnar að vinna sig upp í tekjutrygginguna. Þetta gerðist núna í vetur, eftir þá miklu umræðu sem fram hefur farið um kjaramál og réttindi kvenna í þjóðfélagi okkar. Ég verð að segja alveg eins og er að ég tel að þarna hafi brostið mjög mikilvægur strengur og mjög mikilvægur hlekkur. Ég held að þarna hefði það þurft að gerast að einmitt þessar konur, sem ráða úrslitum í útflutningsatvinnuvegunum, hefðu risið upp og neitað þessu.

Ég hef rætt við mikinn fjölda kvenna í frystihúsum í landinu á þessum vetri. Það er bersýnilegt að þar er gífurleg óánægja með þennan samning; en þar er líka bersýnilegt að þar er mikil óánægja með að þau miklu funda- og ráðstefnuhöld sem verið hafa um stöðu kvenna á þessu ári skuli ekki hafa skilað meiri árangri en raun ber vitni um. Ég held að það megi vera okkur öllum til umhugsunar.

Ég vil líka segja það almennt, áður en ég kem að frv. sjálfum, að ég er þeirrar skoðunar hvað sem hver segir að konur hafi á liðnum árum sótt mjög fram til jafnréttis og jafnréttissjónarmið hafi unnið á í íslenska þjóðfélaginu. Það er enginn vafi á að það hefur orðið veruleg breyting í þeim efnum á síðustu 10–15 árum. Við skulum gera okkur grein fyrir því að hluti skýringarinnar á þessu er auðvitað sá, að konur hafa í stórauknum mæli farið út á vinnumarkaðinn á síðustu áratugum og hafa í rauninni borið uppi stærri hluta hagvaxtarins í íslenska þjóðfélaginu en nokkur annar hópur á síðustu 10–20 árum. Meginhluti þeirrar nýju verðmætasköpunar sem um er að ræða og þess aukna hagvaxtar sem um er að ræða á rætur að rekja til þess að konur hafa lagt á sig stóraukið vinnuframlag frá því sem áður hafði verið.

Áður en ég kem að frv. sjálfu vil ég líka taka eitt almennt atriði fram að lokum. Það er stundum látið að því liggja, einkum í málflutningi Samtaka um kvennalista, t. d. í ræðu hv. 3. landsk. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur hér á dögunum, að í þessu frv. mínu og annarra þm. og hæstv. félmrh. í rauninni líka væri verið að hafna sérstöðu kvenna, að jafnréttiskrafa þessara frv. væri sú ein að konur ættu í öllum tilvikum að troðast inn í samfélagið á forsendum karlmannanna í einu og öllu. Ég vil segja eins og er: Sú jafnréttisbarátta sem ber ekki fulla virðingu fyrir sérstöðu kvenna og karla í okkar samfélagi er dæmd til að mistakast. Ég held að við eigum í þessari jafnréttisumræðu að viðurkenna sérstöðu kvenna og þá möguleika fyrir samfélagið í heild sem í þeirri sérstöðu felast um leið og við segjum: Við viljum að konur og karlar hafi jafnan rétt hlið við hlið þar sem um er að ræða umræðu eða átök um verkefni, laun eða annað sem er að öllu leyti sambærilegt. Ég held að það sé alveg fráleitt að setja dæmið þannig upp, við sem erum að tala fyrir jafnréttisfrv., hvort sem þau eru góð eða vond, að þar séu menn að hafna þessari sérstöðu. Það ber að viðurkenna hana og ég segi: Tilraun til umbóta í jafnréttismálum sem ekki viðurkennir þessa sérstöðu mistekst. Og ég er sannfærður um að það er alveg sama hvort um er að ræða frv. mitt og fleiri þm. eða frv. hæstv. félmrh. Það er ekki uppi sú hugmynd á bak við flutning þessara mála að slá striki yfir þá sérstöðu sem hér er og ber að virða þó að krafist sé jafnréttis.

Ég vil áður en ég lýk þessum almenna þætti svo láta það koma fram að ég fagna því sérstaklega að Alþingi hefur samþykkt till. til þál. sem nokkrir þm., ég og fleiri, hafa flutt um samfelldan skólatíma og skólamáltíðir því ég er sannfærður um að það skiptir mjög miklu máli í að skapa jarðveg fyrir jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla að á öllum stigum sé sem best búið að börnunum, hvort sem það er á dagvistarstofnunum eða dagheimilum eða í skólunum sjálfum.

Ég vík þessu næst, herra forseti, aðeins að því frv. sem hér liggur fyrir og er 243. mál þingsins. Ég held að þetta frv. sé ekki mjög mikils virði. Það eru að vísu í því vissar lagtæringar, sem mér finnst alveg ástæðulaust annað en að viðurkenna, en það er engu að síður svo að ég tel að það sé mikil eftirsjón að ýmsum ákvæðum úr nefndarniðurstöðunni sem felld hafa verið út í meðferð málsins í ríkisstj.

Ég spurði hæstv. félmrh. um þessi mál í þinginu 25. okt. s. l. Ég spurði hann: Ætlarðu að flytja jafnréttisfrv.? Hæstv. ráðh. sagði þá að málið væri til meðferðar í stjórnarflokkunum. Hann væri mjög hlynntur þessu frv. óbreyttu og málið væri alveg að koma frá flokkunum. Það kom svo þremur mánuðum seinna. Ýmsir þm., þ. á m. hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, skildu hæstv. félmrh. þannig, að frv. væri að koma óbreytt eða lítið breytt því þá sagði hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, með leyfi forseta:

„Erindi mitt hingað var fyrst og fremst að fagna því að hæstv. núverandi jafnréttisráðherra ætlar að hafa snarari handtök í þessum málum en fyrirrennari hans“.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var á því að frv. væri að koma lítið breytt frá nefndinni þegar umr. fór hér fram 25. okt. s. l.

Í svarræðu minni eftir að hæstv. félmrh. hafði svarað minni fsp. komst ég svo að orði, með leyfi forseta: „Það er greinilegt að þetta mál er nú til meðferðar í þingflokkum ríkisstj. og samkvæmt yfirlýsingum ráðh. er við því að búast að það komi hingað inn í þingið mjög lítið breytt frá þeim búningi sem það var í þegar málið var afgreitt frá nefnd og lagt fyrir fyrrv. félmrh. 12. apríl s. 1.“

Ég er alveg sannfærður um að það voru fleiri þm. en ég sem skildu það svo að frv. kæmi mjög lítið breytt hér inn í þingið.

Síðan gerðist það að haldinn var fundur með ýmsum þm. konum hér á Alþingi og tveimur karlþm. mér og hv. þm. Stefáni Valgeirssyni. Sá fundur var haldinn inn í Borgartúni með pomp og prakt. Það var ekki nokkur leið að skilja þann fund öðruvísi en svo að frv. kæmi óbreytt og stjórnarliðið væri því velviljað að koma frv. óbreyttu eða lítið breyttu hið fyrsta fyrir þingið.

Hv. þm. Salome Þorkelsdóttir, 4. þm. Reykn., sagði um þessi mál 25. október s. l., með leyfi forseta: „Það hefur tekið tvö ár að endurskoða og vinna þetta mál svo að það er greinilega vel undirbúið“.

Ég fyrir mitt leyti var því alveg sannfærður um að næstu daga eftir þetta, 25. október, kæmi málið fyrir Alþingi. En svo ber eitthvað annað við. Eitthvað hefur gerst í stjórnarliðinu. Frv. er gjörbreytt. Ég get þá ekki annað en spurt — og ég spyr hv. þm. Friðrik Sophusson sem er hérna einn af þm. Sjálfstfl. í salnum og var á mælendaskrá áðan og var í félmn. í fyrra: Var það Sjálfstfl. sem strikaði allar þessar lagtæringar út úr frv.? (Gripið fram í.) Var það Sjálfstfl. sem breytti frv.? Það hlýtur að vera svo, ef marka má orð hæstv. félmrh., að það hafi verið Sjálfstfl. sem sallaði niður fyrir honum frv. Það væri fróðlegt að vita hvernig það hefur gengið fyrir sig hjá Sjálfstfl. að rífa út úr frv. þau atriði sem hæstv. félmrh. vildi hafa inni í því. Svo mikið er víst að það tók langan tíma fyrir ríkisstj. að koma þessu máli inn í þingið og þegar það kom var það með þeim hætti sem hér hefur rækilega verið lýst og ég tek undir mjög margt af því sem hér hefur verið sagt í þeim efnum.

1. gr. þessa frv., sem við flytjum sem þskj. 478, er í rauninni afgerandi grein í þessu efni því þar segir: „Tilgangur laga þessara er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði“. Þetta atriði er fellt út. Eins og hér hefur verið rakið er það eðlilegt og sjálfsagt, ef menn eru að rétta stöðu kvenna t. d. á hinum almenna vinnumarkaði, að gerðar séu sérstakar ráðstafanir í því skyni. Hér er um að ræða vísi að því sem kallað hefur verið „jákvæð mismunun“. Nú er rétt að taka fram til að fyrirbyggja allan misskilning að þetta orðalag er samkomulagsorðalag. Í nefndinni sem undirbjó þetta frv. voru einir tíu nm. og þeir höfðu mismunandi skoðanir á þessu atriði. Sumir vildu ganga þarna miklu lengra, eins og t. d. hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir rakti hér áðan. Aðrir vildu ganga þarna eitthvað skemmra. Þetta var samkomulag, en þetta allsherjarsamkomulag allra jafnréttissamtaka sem þarna áttu fulltrúa er brotið niður og gert að engu þegar Sjálfstfl. fer að leiðrétta frv. sem hæstv. ráðh. Alexander Stefánsson lagði fyrir í stjórnarsamstarfinu. Ég tel að þessi breyt. á frv. sé almesta og alvarlegasta breytingin vegna þess að í þessu lagaákvæði er fólgin stefnuyfirlýsing um að löggjafinn segi: Það á að bæta stöðu kvenna með sérstökum ráðstöfunum. Og það er tekið fram í frv. með hvaða ráðstöfunum það á að gerast. Það er nefnilega rangt sem hefur verið haldið fram að það sé látið liggja á milli hluta.

Í 2. gr. er einnig nýmæli, sem stjfrv. hefur með, en það er að konum og körlum skuli með stjórnvaldsaðgerðum tryggðir jafnir möguleikar til atvinnu og menntunar. Þessi orð, „með stjórnvaldsaðgerðum“, í þessari grein eru ný. Það er sem sagt lögð þarna alveg ákveðin skylda á ríkisstjórn, Alþingi og sveitarstjórnir í þessum efnum. Ég tel að þess vegna sé ákaflega mikilvægt að ríkisstj. skuli hafa fallist á að hafa þetta orðalag inni í 2. gr. og ég tel það til bóta frá því sem verið hefur.

3. gr. hefur skemmst mjög verulega að mínu mati í meðferð ríkisstj. því þar eru felld út skýringaratriði sem þurfa að vera í lögunum. Í greininni segir:

„Hvers kyns mismunun eftir kynferði er óheimil. Það telst ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar eða barnsburðar“.

Nú má ýmislegt um þetta orðalag segja „að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar eða barnsburðar“, eins og hv. þm. Kristín H. Tryggvadóttir gat um á kvöldfundi fyrir nokkrum dögum þegar málið var til umr. Ríkisstj. hefur fellt út úr þessari grein þessar setningar:

„Með mismunun í lögum þessum er átt við athöfn eða athafnaleysi, hvers konar greinarmun, útilokun eða forréttindi sem skapar mismunandi stöðu kvenna og karla í raun vegna kynferðis eða atriða tengdum því.

Aðgerðir, sem eru sérstaklega ætlaðar til að bæta stöðu kvenna skv. 1. gr. 2. málsl., teljast ekki ganga gegn lögum þessum“.

Ég tel að greinin hafi verið mikið fyllri með þessu ákvæði eins og það var inni og ég tel skaða að ríkisstj. skuli hafa fellt það út.

Einnig tel ég það mjög alvarlegt að það skuli hafa verið fellt út varðandi skilgreiningu á launum í 4. gr. þessa frv. hvað þar er átt við. Eins og fram hefur komið hér í þinginu í svari við fsp. er greinilegt að konur eiga miklu erfiðari aðgang að ýmsum sérgreiðslum í launakerfinu en karlar. Það er bersýnilegt að karlar taka sérstakar greiðslur langt umfram það sem konur hafa haft möguleika til. Þess vegna var 2. mgr. 4. gr. mjög nauðsynleg, en hún er svo orðuð:

„Með launum í lögum þessum er átt við hið venjulega grunn- eða lágmarkskaup og hvers konar frekari þóknun sem greidd er beint eða óbeint, hvort heldur er í fé eða fríðu, og vinnuveitandi veitir starfsmanni fyrir vinnu hans.“

Með þessari upptalningu er verið að taka allar launagreiðslur, hvers konar fríðindi sem veitt eru í fyrirtækjum og konur hafa bersýnilega átt erfiðari aðgang að en karlar á liðnum árum, m. a. í ríkiskerfinu, skv. svörum við fsp. sem hér hafa verið bornar fram. Ég vil næst, herra forseti, víkja að 10. gr. frv., en þar er um að ræða sérstaka tegund sönnunarbyrði atvinnurekenda, sem menn telja að sé ekki í samræmi við venjur í okkar löggjöf. Í stjfrv. er þetta ákvæði fellt út með þeim rökum sem hæstv. ráðh. hefur rakið. Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir hefur svarað rökum ráðh. í þeim efnum og tek ég undir rök hennar í þessu máli í einu og öllu. Í grg. samkomulagsfrv. segir svo:

„10. gr. er ný af nálinni, en svipuð ákvæði eru í sænsku lögunum um jafnrétti í atvinnulífinu og finnska frv. að lögum um jafnrétti kynjanna.

Þrátt fyrir að meginregla íslensks réttar sé sú að sá sanni sök sem brotið er á finnast þó undantekningartilfelli frá þeirri reglu, svo sem í áfengislöggjöfinni, 2. málsl. 17. gr. laga nr. 82/1979. Hér er öfugri sönnunarbyrði komið á þar sem mun auðveldara virðist fyrir atvinnurekanda að sanna að ekki hafi verið um mismunun á kynjum að ræða heldur en er fyrir aðila að sýna fram á hið gagnstæða.“

Nú endurtek ég það sem ég sagði áðan, herra forseti, að þetta frv. og þessi texti, sem ég var að enda við að lesa, er samkomulagstexti. Það eru margir búnir að skoða þetta mjög vandlega. Mér finnst það satt að segja hálfgerð meinbægni af ríkisstj. að leyfa þessu máli ekki að fljóta með hér inn í þingið. Ég bendi á að í nefndinni sem undirbjó þetta frv. var fólk eins og Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Arndís Björnsdóttir kaupmaður, Berglind Ásgeirsdóttir, Bergþóra Sigmundsdóttir, Guðríður Þorsteinsdóttir, formaður Jafnréttisráðs, lögfræðingur, Ingibjörg Hafstað, María Pétursdóttir, Sigríður Thorlacius og að störfum í nefndinni komu auk þess ýmsir fleiri. M. a. kom við sögu í tengslum við störf nefndarinnar Guðrún Erlendsdóttir lögfræðingur, sem er sá lögfræðingur hér í landinu sem þekkir best allra til jafnréttislaga og umræðna um þau, ekki bara á Íslandi heldur í grannlöndum okkar. Ég bið menn um að hugsa það með fullri vinsemd: Er það endilega nauðsynlegt að henda þessu ákvæði út með skírskotun til þess að það sé óvenjulegt, þegar við höfum það fyrir okkur að fjöldinn allur af einstaklingum, m. a. ýmsir lögfræðingar eins og Guðrún Erlendsdóttir, telur að hér þurfi ekki að vera um neitt óeðlilegt ákvæði að ræða?

Ég held að sumt af breytingunum sem ríkisstj. gerði á þessu frv. hafi verið gert með hálfgerðri fljótaskrift. Ég held að menn ættu að athuga aðeins betur hvort ákvæði 10. gr. í frv. þm. geta ekki fengið að halda sér, hvort það er nokkur áhætta tekin með því þó að tekin sé upp sönnunarbyrði á atvinnurekanda eins og þar er gert ráð fyrir. Það er alveg óþarfi fyrir hæstv. félmrh. að vera að vitna í stjórnarfar í vondum löndum til þess að hrekja þessa grein. Það er alveg óþarfi að vera að benda á önnur lönd. Því miður er það nú svo, að í mörgum löndum eru jafnréttislög kannske til, en þau eru jafnvel verri en ekki neitt og framkvæmdin öll á skjön. Við þurfum ekkert að vera að hlaupa í önnur lönd. Ég veit að þeir nm. sem stóðu að till. um þetta, eins og María Pétursdóttir, Berglind Ásgeirsdóttir og Arndís Björnsdóttir, voru ekki að gera tillögu um að koma upp stjórnarfari eins og í Sovétríkjunum eða öðrum slíkum löndum, eins og hæstv. félmrh. var að ýja að í sinni svarræðu fyrir nokkrum dögum.

Ég vil þá víkja að 13. gr. frv. þm., en þar er um að ræða ákvæði sem eru felld út í frv. ríkisstj. og þó fæ ég ekki séð að séu nein rök fyrir því. Ég bið menn í þessu efni að virða fyrir sér framtíðarnefnd forsrh., en það er nefnd sem hefur verið skipuð eins og kunnugt er og á að ákveða framtíðina fyrir ríkisstj. undir forustu Jóns Sigurðssonar. Hann er frægur að því að sjá mjög langt fram í tímann eins og kunnugt er, alveg sérstaklega í efnahagsmálum. (Gripið fram í.) Ja, það er víst meiningin að nefndin skili áliti um að ríkisstj. starfi næstu 25 árin, en það veit ég að tekst ekki frekar en ýmislegt annað sem komið hefur frá Þjóðhagsstofnun. En það var svo sem eftir ríkisstj. að leita til Þjóðhagsstofnunar um spá varðandi sína framtíð. En í þeirri nefnd er bersýnilega ekkert tillit tekið til jafnréttissjónarmiða. Og þar eru stórir hópar fólks sem fá enga fulltrúa að eiga inni, eins og t. d. listamenn svo að ég nefni dæmi. En það breytir ekki öllu, heldur vík ég að 13. gr. þmfrv. þar sem segir:

„Þegar beðið er um tilnefningu í stjórnir, nefndir og ráð á vegum ríkis og sveitarfélaga skal nefna karl og konu. Sé það ekki gert skal veita Jafnréttisráði skriflega rökstudda grg. um ástæður þess. Við skipun skal þess síðan gætt að hlutfall kynjanna verði sem jafnast.“

Menn segja sem svo gagnvart greinum af þessu tagi: Við skulum ekki að vera að taka konur inn í nefndina bara vegna þess að þær séu konur, heldur eigum við að dæma þær á almennum hæfileikum þeirra til að gegna þeim störfum sem um er að ræða hverju sinni. Þetta er rullan sem maður heyrir alltaf í þeim efnum.

Þá vil ég minna á að umr. um þessi mál hefur staðið yfir mjög lengi t. d. innan stjórnmálaflokkanna. Og ég vil skýra frá því að á síðasta landsfundi Alþb. urðu talsverðar umr. um hvort hægt væri að taka upp reglu sem hljóðaði svo: Það kynið sem er fámennara skal a. m. k. hafa 40% aðild að stofnunum flokksins, enda komi fram nægilega mörg framboð í viðkomandi stofnun. — Auðvitað sögðu margir til að byrja með: Þetta er óframkvæmanlegt, þetta er erfitt og það er tóm vitleysa að vera að setja hlutina svona upp. Þetta hefur núna verið í framkvæmd um nokkurra mánaða skeið og það hefur verið algerlega vandalaust að framkvæma þetta um leið og alveg bersýnilegt er að það hefur tryggt aukinn fjölda kvenna í virku, almennu starfi frá því sem áður var um að ræða. Ég held því að ákvæði af þessu tagi, sem felur auðvitað í sér vissa jákvæða mismunun, — það er rétt, það gerir það, — sé fullkomlega framkvæmanlegt og það séu ekki nein rök til að víkja því til hliðar af þeirri ástæðu, að svo sé ekki, en það er sú ástæða sem alltaf er notuð í þessu efni.

Í 14. gr. segir:

„Í kaupstöðum og annars staðar, sem því verður við komið, skal skipa jafnréttisnefndir og skulu þær hafa með höndum jafnréttismál innan síns sveitarfélags.

Leitast skal við að skipa aðila sem hafa sérstakan áhuga og þekkingu á jafnréttismálum.“

Þetta er fellt út hjá ríkisstj. Af hverju má ekki vera ákvæði um jafnréttisnefndir sveitarfélaga í þessu frv.? Hæstv. félmrh. segir: Það er verið að svipta sveitarfélögin sjálfræði. Hvað er nú þetta? Það er ákvæði í fjöldanum öllum af lögum um það að sveitarstjórnir skuli gera þetta og skuli gera hitt og er ekkert óeðlilegt við slíkt. Hugsanlegt væri að orða þetta aðeins öðruvísi en gert er í þessari tillögu nefndarinnar. Ég held að allavega hafi komið í ljós að jafnréttisnefndir sveitarfélaganna hafa haft mjög mikla þýðingu. Þær hafa haft kannanir, þær hafa efnt til umræðna og þær hafa jákvæð áhrif á þróun mála í viðkomandi sveitarfélögum.

Ég vil næst víkja aðeins að kaflanum um framkvæmd laganna. Þá vil ég byrja á að biðjast afsökunar á því að í frv. þm. hefur einn tilnefningaraðilinn fallið niður fyrir vangá. Það er prentvilla, pennaglöp eða hvaða orð á að nota yfir það að í 15. gr. þmfrv. vantar einn tilnefningaraðilann sem á að vera Vinnuveitendasamband Íslands. Það er gert ráð fyrir því í frv. hjá ríkisstj. og það er tekið þar upp að Kvenréttindafélag Íslands og Kvenfélagasamband Íslands komi þarna inn í Jafnréttisráð. Ég tek undir það sjónarmið. Mér finnst skynsamlegt að þessir aðilar séu með. Að þessu leytinu til tel ég að frv. ríkisstj. sé til bóta frá því sem verið hefur.

Í 15. gr., um framkvæmd laganna, segir einnig að kostnaður við Jafnréttisráð greiðist úr ríkissjóði og skal áætla nægjanlegt fé á fjárlögum hvers árs til að Jafnréttisráð geti sinnt þeim verkefnum sem því eru falin í lögum þessum. Ég vil spyrja hæstv. félmrh.: Hvernig stendur á því að þetta er fellt niður? Hvernig stendur á því að þetta ákvæði um fjármagn til starfsemi Jafnréttisráðs er fellt út frá því sem var í upphaflegum tillögum nefndarinnar? Hvað á það að þýða? Hvaða hugsun er á bak við þetta að fella þetta alveg sérstaklega niður? Er með þessu verið að segja að starfsemi þessarar stofnunar eigi að vera í 2., 3. eða 4. sæti þegar verið er að raða upp verkefnum í forgangsröð í ríkiskerfinu? Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að skýrt fáist fram hvað það á að þýða að fella niður þennan málslið 15. gr. þmfrv.

Ég tel einnig að þær breytingar sem gerðar eru á 19. og 21. gr. séu mjög gallaðar varðandi málshöfðun og rétt til málshöfðunar. Það eru engin rök komin fram frá félmrh. eða einhverjum úr stjórnarliðinu um það af hverju þetta er fellt niður, heldur er þessu slengt hér á borðin og flutt mjög almenn losaraleg framsöguræða, en engin grein gerð fyrir því hvað í rauninni er hér verið að gera. Það er auðvitað greinilegt að það er verið að veikja Jafnréttisráð vegna þess að það er verið að svipta Jafnréttisráð möguleikum á sjálfstæðum málshöfðunarrétti þegar ríkissaksóknari t. d. telur ekki ástæðu til sérstakrar málshöfðunar af sinni hálfu. Ég held að það sé í rauninni mjög slæmt atriði að þetta skuli hafa verið fellt niður, um sjálfstæðan málshöfðunarrétt Jafnréttisráðs.

Það var 12. apríl 1983 að nefnd sem ég skipaði á árinu 1981 skilaði áliti um jafnréttismál. Þetta álit var frv. grein fyrir grein með grg. lið fyrir lið. Í grg. var það m. a. tekið fram að það hefði verið sérstaklega gott samstarf á milli þeirra aðila sem undirbjuggu málið. Ríkisstj. er svo vinsamleg að taka þetta upp úr grg. nefndarinnar. Það gæti nú verið að mönnum hafi sést yfir það á stjórnarheimilinu þegar þeir voru að setja saman þessa grg., en þeir taka dálítið upp úr gömlu grg. og m. a. jafnvel atriði sem þeir hefðu kannske ekki endilega viljað láta vera þar. Þarna stendur: Og tryggði sú skipan, þ. e. nefndarinnar, enn frekar gott samstarf þessara aðila. — Í grg. ríkisstj., sem til er orðin og liggur hér fyrir á formlegu þskj., er því viðurkennt að það hafi verið mjög gott samstarf í þeirri nefnd sem undirbjó þetta frv. Þess vegna er það auðvitað þeim mun undarlegra að ríkisstj. skuli hafa gerbreytt frv. eins og gert er ráð fyrir og gert er hér, auk þess sem hv. þm.

Salome Þorkelsdóttir, sem því miður er í Ed. svo ég get ekki átt orðastað við hana hér í Nd., hefur lýst því yfir að frv. væri alveg sérstaklega vel undirbúið.

Það er bersýnilegt, herra forseti, að frv. er mjög gallað frá því sem var í meðförum nefndarinnar. Það er greinilegt að samkomulagið innan ríkisstj. hefur skemmt frv. mjög verulega. Skv. yfirlýsingu félmrh. má ætla að það hafi verið Sjálfstfl. sem eyðilagði þetta frv. fyrir honum. Ég hef því beðið hv. þm. Friðrik Sophusson, sem hefur hlýtt hér á þessa umr., að gera grein fyrir því hvaða atriði það voru sem fóru svona í taugarnar á Sjálfstfl. og þurfti alveg sérstaklega að eyðileggja í þessu frv.

Áður en ég lýk máli mínu, herra forseti, vil ég undirstrika það, sem ég sagði í upphafi, að jafnréttislög geta verið góð, en framkvæmd stefnunnar í efnahagsog atvinnumálum á hverjum tíma er það sem ræður úrslitum stefnunnar í félagsmálum, heilbrigðismálum og menntamálum. Það er útilokað að horfa á jafnréttismál og jafnréttisfrv. sem einhvern afmarkaðan, einangraðan þátt frá öllum hinum. Þess vegna verður að skoða þessi mál í samhengi. Dæmið sem ég nefndi í upphafi, um að dagheimilaáætlunin yrði komin í framkvæmd í fyrsta lagi árið 2004 ef fylgt er stefnu núv. ríkisstj., sýnir hvað hún er í raun að gera þrátt fyrir fögur orð ýmissa ráðh. um jafnréttismál.

Ég tel að í stefnu sinni í jafnréttismálum á öllum sviðum, jafnrétti til menntunar, jafnrétti kynjanna, jafnrétti til heilbrigðisþjónustunnar, jafnrétti til þjónustu við aldraða, jafnrétti á öllum sviðum, hafi núv. ríkisstj. fært tímann mörg ár aftur. Það hefur verið brotið niður félagslegt jafnréttiskerfi sem hefur verið byggt upp á liðnum árum en er núna í stórfelldri hættu því miður. Þess vegna eru fögur almenn orð einstakra ráðh. um jafnréttismál hér fullkomlega á skjön við þá efnahagslegu, félagslegu og pólitísku stefnu sem núv. ríkisstj. beitir sér fyrir.

Og að lokum þetta: Jafnréttisumræða sem ekki tekur fullt tillit til þessa er gagnslítil og jafnréttisumræða og jafnréttisbarátta sem um leið viðurkennir ekki sérstöðu kynjanna er einnig til lítils.