30.04.1984
Neðri deild: 77. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5006 í B-deild Alþingistíðinda. (4427)

240. mál, ábyrgð á láni fyrir Arnarflug

Fjmrn. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hélt satt að segja að ég væri að gera hv. þm., síðasta ræðumanni nokkurn greiða með því að vera stuttorður og að sjálfsögðu þingheimi öllum en ég skal með glöðu geði lesa sömu ræðuna aftur, þ. e. þá ræðu sem hv. þm. Garðar Sigurðsson óskaði eftir að ég læsi og er sú sem ég flutti í Ed. Annars er þetta frv. búið að liggja nokkurn tíma hér í Alþingi í báðum deildum og lítið annað kemur fram í ræðu minni en er í athugasemdum við lagafrv. En ég skal byrja, með leyfi forseta:

„Með því frv. sem hér hefur verið lagt fram óskar ríkisstj. heimildar Alþingis til að veita Arnarflugi hf. ríkisábyrgð vegna láns sem tekið verður til að bæta rekstrarfjárstöðu félagsins og getur numið allt að 1.5 millj. dollara. Áætlun Arnarflugs miðar að því að greiða lausaskuldir fyrirtækisins með hinu nýja láni sem væntanlega verður tekið til 5 ára. Þessar lausaskuldir eru að langmestu leyti erlendar skuldir og eru vegna viðhalds- og varahlutakostnaðar og eldsneytiskaupa.

Þetta mál var fyrst borið undir stjórnvöld í bréfi Arnarflugs hf. til samgrn. og fjmrn. hinn 25. jan. s. l. Í þessu bréfi kemur fram að hallarekstur s. l. tveggja ára knýi félagið til að leita þessarar aðstoðar stjórnvalda til að gera því kleift að komast yfir erfiðleika.

Ástæður þessa tapreksturs eru skýrðar í athugasemdum með frv. og vísast þangað um þá hlið málsins. Til frekari skýringar má geta þess að innanlandsflug fyrirtækisins hefur gengið erfiðlega. Ástæður þess eru þær að ýmsir þeir staðir sem flogið er til eru litlir og aðstæður erfiðar, m. a. vegna snjóþyngsla og aurbleytu á flugvöllum.

Stjórn Arnarflugs hf. hefur upplýst að í athugun sé að endurnýja að hluta til flugvélakost í innanlandsfluginu og með hagkvæmari flugvélum eigi að vera unnt að breyta þessari erfiðu afkomu í innanlandsfluginu mjög til hins betra.

Um millilandaflugið er það að segja að félagið varð fyrir því áfalli að vél félagsins af gerðinni Boeing 720-B var úrskurðuð óhæf til reksturs vegna tæringar. Þá hefur fé félagsins farið í að byggja nánast frá grunni allt markaðsstarf á þeim stöðum í Evrópu sem því var úthlutað flugleyfum til, þ. e. Amsterdam, Düsseldorf og Zürich. Allt þetta gerir að verkum að fyrirtækið þarf tíma til að vinna sig út úr erfiðleikunum.

Ég vil geta þess að lokum að forráðamenn Arnarflugs hf. telja að rekstraráætlunin sýni að taprekstri verði snúið við á næstu árum. Þessar áætlanir hafa þeir sent samgrn. Forráðamenn Arnarflugs hf. telja að á næstu vikum og mánuðum geti fyrirtækið sett þær tryggingar sem setja þarf Ríkisábyrgðasjóði til þess að ríkisábyrgð komi til greina skv. almennum reglum. Fallist hv. Alþingi á frv. þetta mun venjulega athugun fara fram á eignum fyrirtækisins og þeirri athugun hraðað sem föng eru á.“

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn. og þá til 2. umr. að sjálfsögðu.

Ég hef nú flutt þá ræðu sem ég var beðinn um að flytja, en ég vil fullvissa hv. 4. þm. Suðurl. um að áður en nokkur ríkisábyrgð verður veitt mun það að sjálfsögðu kannað í þessu tilfelli eins og í öðrum að farið verið að lögum og ekki veitt ríkisábyrgð nema veð og tryggingar séu nægar bak við þær. Mér er kærkomið að bjóða að hv. þm. fylgist þar vel með. Meira hef ég ekki að segja og ég þakka fyrir. En ég veit að þau veð sem losna næstu mánuði — ég held innan tveggja mánaða — fara langleiðina með að dekka a. m. k. helming eða rúmlega það af þeirri upphæð sem hér er farið fram á.