02.05.1984
Efri deild: 87. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5030 í B-deild Alþingistíðinda. (4442)

330. mál, jöfnun hitunarkostnaðar

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég tók svo eftir að hér hefði komið fram í umr. athugasemd frá bæjarstjórn Akraness vegna gjaldskrár viðkomandi hitaveitu og að talað hefði verið um Hitaveitu Akureyrar í sömu andrá. Ég sé að hv. þm. Valdimar Indriðason horfir mikið á mig þessa stundina. Ég verð nú að segja það alveg eins og er að ég mundi ekki vorkenna sveitungum mínum að borga húshitun sína með sama hætti og gerist uppi á Akranesi því að hitaveitan þar er sannarlega mikið og gott fyrirtæki. Kannske er ein aðalástæðan fyrir því að orkuverð er ekki lægra hjá þeirri hitaveitu að það selst minna vatn þar en áætlanir gerðu ráð fyrir, verulega miklu minna vatn, og án þess að ég geti tilfært hér tölur úr samanburði sem tekinn hefur verið saman að tilhlutan iðnrn. á raunkostnaði við húshitun þá er það niðurstaðan úr þeirri athugun að miðað við raunkostnað sé hann mjög verulega miklu lægri á Akureyri og Akranesi, eða sem nemur um 25%, heldur en gerist í þessum venjulega hefðbundna taxtasamanburði, og það ætla ég að biðja menn að athuga. Þessi taxtasamanburður hefur orðið til þess að auðvelda mönnum að forsvara hátt raforkuverð til húshitunar úti á landi, en ef á að bera saman hitaveitur og raforkuhitun, þá verður að gera það með réttum hætti. Það verður að vera sannur og réttur samanburður, en hann hefur verið rangur í allri þessari umr. Það er alveg nauðsynlegt að menn viti. Ég sagði áðan að ég mundi ekki vorkenna sveitungum mínum ef þeir ættu fyrirtæki á borð við Hitaveitu Akraness. Ég hygg að það muni vera sannmæli að þar sé til staðar þegar í stað hitaorka sem muni nægja þeim vaxandi bæ fram að næstu aldamótum, þannig að ekki þurfi annað en að tengja þar við nýjar veitur. Og til viðbótar við þetta er vissulega mikil ástæða til að athuga hvað þessi bæjarfélög hafa lagt mikið fjármagn fram í þessi sín annars ágætu fyrirtæki. Sveitarfélögin sjálf, bæjarstjórnirnar sjálfar, hafa möguleika til þess að beina sínu fjármagni með ýmsum hætti og það er spurning með jafngóðu fyrirtæki og hitaveiturnar eru hvort það er ekki fyllilega forsvaranlegt að sveitarfélögin greiði niður stofnkostnað á fyrri stigum þeirra. En það er út af fyrir sig annað mál. Það sem skiptir meginmáli í þessum efnum er að þessi viðmiðun er ekki rétt og að hún hefur orðið til þess að skekkja þennan samanburð. Hún hefur orðið til þess að halda uppi raforkuokrinu til húsahitunar úti á landi og það eitt út af fyrir sig, án tillits til alls annars, er ólíðandi.