07.11.1983
Efri deild: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

49. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Frv. það sem hér hefur verið lagt fram um breyt. á tollskrárlögum felur í sér framlengingu á svonefndu jöfnunarálagi, sem lagt er á innflutt hús og húshluta.

Jöfnunarálag á innflutt hús og húshluta var fyrst lagt á árið 1982 samkv. heimild í lögum nr. 83 frá 1981. Gjaldtaka þessi var ákveðin til að rétta hlut innlendrar húsagerðar gagnvart aukinni samkeppni erlendis frá, sem til var komin fyrst og fremst vegna tollfrjáls innflutnings á vörum frá EFTA og EBE. Í innlendri framleiðslu þessara vara á sér stað uppsöfnun ýmissa gjalda sem lögð eru enn á ýmsar vörur til bygginga, en þessar sömu byggingarvörur njóta hins vegar tollfrelsis við innflutning þegar þær eru fluttar inn sem hluti fullbúins húss eða húshluta.

Til að eyða þessum uppsöfnunaráhrifum á innlenda framleiðslu hefur 12% jöfnunarálag almennt verið lagt á innflutt hús og húshluta með þeirri undantekningu að 6% jöfnunarálag hefur verið lagt á innflutt stálgrindahús. Við endurskoðun tollskrárlaganna er ljóst að reyna verður eftir föngum að leysa þetta vandamál innlends iðnaðar þannig að helst sé ekki þörf á slíkri gjaldtöku, en á meðan unnið er að lausn þessa máls er óhjákvæmilegt annað en að leggja gjald þetta á nefndan innflutning. Er því lagt til með frv. að gjaldtakan verði framlengd um eitt ár eða til loka ársins 1984.

Ég mun ekki orðlengja þetta frekar og vonast til þess að menn fallist á þetta réttlætismál, en legg jafnframt til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.