02.05.1984
Efri deild: 87. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5039 í B-deild Alþingistíðinda. (4458)

319. mál, kvikmyndamál

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa eindregnum stuðningi mínum við það frv. til l. um kvikmyndamál sem hér er lagt fram. Það er hins vegar ágalli á þessu frv. hvað það er seint á ferðinni. Nú eru aðeins rúmar tvær vikur eftir af þingstörfum að því er talið er og óneitanlega er það mjög tvísýnt hvort frv. nær afgreiðslu á þessu þingi á þeim stutta tíma sem eftir er til þingloka. En ég tek það skýrt fram að ekki mun standa á mér að styðja þetta mál og hvetja til þess að það verði afgreitt á þessu þingi. En mér er hins vegar nokkur ráðgáta hvers vegna málið er svona seint á ferðinni, hvers vegna það hefur ekki verið flutt í þinginu fyrr á vetrinum ef ætlunin var að afgreiða það því að eins og kunnugt er skilaði nefndin, sem gerði fyrstu drög að frv., af sér fyrir alllöngu, þ. e. á árinu 1982. Þetta frv. var því tilbúið til flutnings þegar þessi ríkisstj. tók við.

Það vill svo til að í fskj. þessa frv. er það sérstaklega tekið fram á bls. 8 að haft hafi verið samband við þáv. fjmrh. Ragnar Arnalds og hann lýst fullum stuðningi við frv., enda hafi verið haft samráð við hann þegar frv. var samið, eins og segir hér í bréfi frá Þorsteini Jónssyni ritara nefndarinnar. Það er einmitt staðreynd að ég var því mjög hlynntur að kvikmyndalöggjöfin yrði endurskoðuð og stóraukin yrðu framlög í Kvikmyndasjóð. Ég vil hins vegar taka það fram að ég gat alveg fallist á niðurstöðu meiri hl. nefndarinnar sem lagði það til að 60% af innheimtum söluskatti af kvikmyndum yrði lagður í Kvikmyndasjóð en 40% af innheimtum söluskatti eða upphæð sem því svaraði yrði á ábyrgð sjóðsins en fengin að láni í lánastofnunum. Þetta var niðurstaða meiri hl. nefndarinnar, allra nm. nema hv. þm. Halldórs Blöndal sem lagði það til að öll upphæðin, 100%, yrði tekin úr ríkissjóði. Ég vil taka það fram í þessu sambandi að ekki geri ég hér ágreining ef núv. ríkisstj. vill gera betur og leggja fram hærri fjárhæð en meiri hl. nefndarinnar lagði til að gert væri, þ. e. að öll upphæðin, 100%, væri tekin úr ríkissjóði. Þá styð ég það eindregið, það vantar ekki minn stuðning í þeim efnum.

En ég get sem sagt alveg fallist á hvora tilhögunina sem er og legg fyrst og fremst áherslu á það að málið fái afgreiðslu á þessu þingi. Ég sé enga ástæðu til að draga dul á það að ég hef verið mikill áhugamaður um eflingu Kvikmyndasjóðs og flutti raunar fyrsta frv. hér í þinginu um Kvikmyndasjóð. Það frv. var flutt á þremur þingum og var síðan vísað til ríkisstj. og varð tilefni þess að ríkisstj. lagði síðan fram frv. til laga um Kvikmyndasjóð sem síðar urðu að lögum.

En gallinn á því frv. sem samþykkt var í þinginu 1978 var einmitt sá sem hæstv. menntmrh. var að benda á að sjóðurinn hafði engan fastan tekjustofn. Úr því þurfti að bæta. Þetta var gagnrýnt á sínum tíma því að þetta var ekki þannig í frv. sem ég flutti fyrst á árinu 1972. Þar var gert ráð fyrir föstum tekjustofnum fyrir Kvikmyndasjóð en í frv. sem svo loks varð að lögum var bara gert ráð fyrir ákveðinni upphæð og síðan endurskoðun hennar við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni og sú upphæð var mjög lág.

Vissulega urðu verulegar breytingar til batnaðar í þessum efnum á árunum 1980–1983 vegna þess að framlögin til Kvikmyndasjóðs margfölduðust. Ég hygg að fyrsta upphæðin sem ákveðin var til Kvikmyndasjóðs hafi verið í kringum 500 þús. kr. og er þá átt við nýjar kr. en framlagið á árinu 1983 til Kvikmyndasjóðs var komið upp í 5 millj. eins og hæstv. menntrh. rakti áðan.

Það er sem sagt eitt það mikilvægasta við þetta frv. að hér er stigið mikilvægt spor í þá átt að efla fjárhag Kvikmyndasjóðs en bersýnilega nokkur galli á allri málsmeðferð hversu frv. er seint á ferðinni og hversu lítil von er til þess nema með nokkuð snöggu, sameiginlegu átaki að takist að afgreiða málið fyrir þinglok. Ég vil vissulega vonast til að svo geti farið að frv. nái fram að ganga áður en þingi lýkur, en vissulega væri forvitnilegt að vita hvaða ástæða var til þess að svo lengi hefur dregist að frv. væri lagt fram.