02.05.1984
Efri deild: 87. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5040 í B-deild Alþingistíðinda. (4459)

319. mál, kvikmyndamál

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil ekki lengja þessar umr. Ég vil einungis lýsa ánægju minni með þetta frv. Ég tel að þar sé stigið mjög merkilegt og heillavænlegt skref í kvikmyndamálum á Íslandi. Ég vil einnig undirstrika hið mikla starf sem Kvikmyndasafn Íslands hefur þegar unnið, frábært starf að því að varðveita gamlar myndir. Væntanlega á sú starfsemi öll eftir að hafa mikla þýðingu fyrir framtíðina. Ég ætla alls ekki að ræða einstök atriði frv. Ég tel eins og hv. síðasti ræðumaður að það sé æskilegt ef ríkissjóður treystir sér til að leggja allt fram og styð það að 100% söluskattur af kvikmyndum renni til sjóðsins. Ég gæti einnig stutt aðra tillögu um það ef fram kæmi en meginatriði málsins er það að Kvikmyndasjóður hafi því fjármagni yfir að ráða sem virkilega verði til stuðnings við kvikmyndagerð á Íslandi. Ég mun eindregið mæla með samþykki þessa frv. og ef Framsfl. getur eitthvað stuðlað að því að hraða því í gegnum þingið þá tel ég það mjög vel.