02.05.1984
Neðri deild: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5066 í B-deild Alþingistíðinda. (4491)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. 1. minni hl. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Í annað sinn með fárra ára millibili standa alþm. frammi fyrir því að vera að afgreiða frá Alþingi breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, sem að nafninu til fela í sér ákvæði um bætt lánakjör til íbúðakaupenda og húsbyggjenda, að efla eigi félagslegar íbúðabyggingar o. s. frv., en síðan er ekkert hugsað um það hvernig hægt sé að standa við þessi fyrirheit eða byggja upp þá sjóði sem standa eiga undir útlánum í húsnæðislánakerfinu. Í þessu frv., sem og því sem var samþykkt í maí 1980, er öllum vandanum vísað yfir á framtíðina með sífellt aukinni lántökuþörf og minna ríkisframlagi sem ekki getur endað nema á einn veg: með gjaldþroti sjóðanna og að svikin eru loforð við íbúðakaupendur og húsbyggjendur.

Þegar frv. til l. um Húsnæðisstofnun ríkisins var síðast til meðferðar hér á hv. Alþingi, en það var á 102. löggjafarþingi, en frv. var afgreitt sem lög í maí 1980, kom fram hjá þm. Alþfl. og í nál. 1. minni hl. félmn. að með því framlagi sem Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna væri ætlað á fjárlögum væri stefnt í gífurlega mikla lántökuþörf sem sjóðirnir gætu ekki staðið undir. Í nál. kom fram að á árinu 1990 yrði lántökuþörf beggja sjóðanna um 200 milljarðar á verðlagi ársins 1980 eða tveir milljarðar nýkr. Margir urðu til þess að reyna að hrekja þessar tölur Alþfl. á sínum tíma og töldu þær marklausar. En eins og fram kemur nú í nál. 1. minni hl. á þskj. 688 staðfestir reynslan ótvírætt að þessar aðvaranir Alþfl. um gífurlega lántökuþörf á komandi árum voru á rökum reistar og nýir útreikningar Þjóðhagsstofnunar staðfesta raunar að lántökuþörfin geti vaxið mun hraðar á næstu árum en Alþfl. setti fram á sínum tíma. Það er því ljóst að stjórnvöld hafa ekkert lært og engu gleymt frá því að síðustu lög um Húsnæðisstofnun voru samþykkt á Alþingi árið 1980. Enn á ný á að afgreiða marklaust húsnæðisfrv. héðan frá Alþingi. Fjármögnun þess er í molum, fjárhagslega stendur það á brauðfótum með þeim afleiðingum að við blasir stórfelldur samdráttur í lánveitingum, hrikalegar lántökur og gjaldþrot húsnæðiskerfisins innan fárra ára verði ekkert að gert.

Öll fyrirheit um bætt lánakjör og lengingu lánstíma o. s. frv., sem í þessu frv. felast, svo og að opna möguleika til lánveitinga fyrir nýjan valkost í húsnæðiskerfinu, eins og húsnæðissamvinnufélagið Búseta, eru því gylliboð og tálvonir einar ef ekki næst pólitísk samstaða um að koma fjárhagsstöðu húsnæðiskerfisins á traustan grundvöll.

Í ítarlegu nál. 1. minni hl., sem fram kemur á þskj. 688, eru því rækilega gerð skil hvert stefnir í fjármögnun húsnæðiskerfisins á komandi árum ef menn ætla áfram að neita að horfast í augu við raunveruleikann í þessum efnum. Það er löngu kominn tími til að alþm. átti sig á því hvert stefnir í húsnæðismálum ef það er virkilega meiningin að loka augunum fyrir því sem er að ske í fjármögnun húsnæðiskerfisins. Það er löngu kominn tími til að þeir sem ferðinni ráða hér í þjóðfélaginu í þessum efnum taki sér tak og reyni að ná pólitískri samstöðu á Alþingi um raunhæfa fjármögnun húsnæðiskerfisins.

Í síðustu kosningum höfðu allir stjórnmálaflokkar húsnæðismál efst á blaði í sínum kosningaloforðum. Allt átti að gera fyrir húsbyggjendur, efla félagslega íbúðakerfið, bæta lánakjörin, hækka lánahlutfallið í 80%. Sumir flokkar sögðu strax, sumir eftir fimm ár. Við stöndum frammi fyrir því í dag að þetta voru allt tómar blekkingar hjá stjórnarflokkunum því að aldrei hefur verið eins mikil óvissa í húsnæðismálum landsmanna og einmitt nú. Loforð um að efla félagslega kerfið hefur breyst í samdrátt frá því sem var í félagslega kerfinu og ekki verður séð að á næstu fimm árum, tíu eða fimmtán árum verði hægt að standa við 80% lánahlutfallið með því framlagi sem ríkissjóður ætlar Byggingarsjóði ríkisins. Gífurlegur samdráttur blasir einnig við á þessu ári í nýbyggingarlánum í almenna húsnæðiskerfinu. Það sem hér hefur verið haldið fram er allt rökstutt ítarlega í því nál. sem fram kemur á þskj. 688 — rökstutt ýmist með gögnum og útreikningum frá Þjóðhagsstofnun eða Húsnæðisstofnun.

Ég tel, herra forseti, nauðsynlegt að rekja nokkra meginþættina í fjármögnun Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna og samdráttinn sem við stöndum frammi fyrir í útlánum til íbúðakaupenda og húsbyggjenda, þá gífurlegu greiðslubyrði sem ungu fólki er ætlað að bera, sem er í raun óviðráðanleg fólki sem er að byrja að koma sér þaki yfir höfuðið, og loks mun ég greina frá tillögum Alþfl. um að efla félagslega kerfið, byggja upp sjóði húsnæðislánakerfisins og hvernig á að fjármagna húsnæðiskerfið og mæta þeim fjárhagsvanda sem skapast samhliða því að byggingarsjóðirnir eru efldir.

Á 1. síðu í nál. 1. minni hl. kemur fram tafla frá Húsnæðisstofnun ríkisins um innstreymi Byggingarsjóðs ríkisins 1971–1983. Í þeirri töflu kemur skýrt fram afleiðing þess að Byggingarsjóður ríkisins var sviptur sínum fasta tekjustofni af launaskatti, en frá þeim tíma hefur sífellt sigið á ógæfuhliðina í fjármögnun Byggingarsjóðs ríkisins. Ég hef dregið saman niðurstöðuna í nál., hvernig dæmið lítur úr, hver þróunin hefur verið frá 1978 í þessu efni.

Frá árinu 1978 hefur framlag ríkissjóðs sífellt farið minnkandi, en að sama skapi hafa lántökur orðið uppistaðan í útlánum sjóðanna. Á árinu 1978 var framlag ríkisins 44.3% af heildarinnstreymi sjóðsins, en lántökur rúm 23%. Á árinu 1980 snýst dæmið algerlega við, ríkisframlagið er 12.7% og lántökurnar 52.3%. Á árinu 1984 er ríkisframlagið 12.9% af heildarinnstreymi sjóðsins, en lántökur rúm 54%.

9. gr. frv. er ein mikilvægasta greinin varðandi Byggingarsjóð ríkisins, en á framkvæmd hennar veltur hvort hægt er að standa við önnur ákvæði frv. að því er varðar útlán og lánakjör. Till. meiri hl. er að þetta frv. taki þegar gildi. Það er því ljóst af því framlagi úr ríkissjóði sem sjóðnum er ætlað skv. fjárlögum á yfirstandandi ári að stjórnarflokkarnir eru staðráðnir í því að brjóta þegar á fyrsta ári þetta mikilvæga ákvæði frv. með þeim afleiðingum að önnur mikilvæg ákvæði um lánakjör og útlán í frv. verða marklaus.

Í 9. gr. 2. tölul. kemur fram að fjármögnun Byggingarsjóðs ríkisins eigi m. a. að vera með þeim hætti að ríkissjóður eigi að leggja sjóðnum til skv. fjárlögum fjárhæð sem nemi eigi lægri upphæð en 40% af samþykktri útlánaáætlun sjóðsins viðkomandi ár. Ljóst er að þetta framlag verður ekki 40% á yfirstandandi ári, heldur 17%. Félmn. hefur fengið yfirlit frá Þjóðhagsstofnun um fjárflæði Byggingarsjóðs ríkisins. Í því kemur fram að miðað við 17% framlag úr ríkissjóði, eins og ætlað er í sjóðinn á þessu ári, mun sjóðnum í raun stefnt beint í gjaldþrot. Það er einnig athyglisvert að miðað við 17% framlag úr ríkissjóði á yfirstandandi ári er lántökuþörfin 748 millj. úr lífeyrissjóðunum, en á lánsfjárlögum er aðeins gert ráð fyrir 525.4 millj., en það staðfestir ótvírætt að mikill samdráttur verði í nýbyggingum og kaupum á eldra húsnæði frá því því sem nú er gert ráð fyrir, jafnvel þó að forsendur í fjárlögum og lánsfjárlögum um fjármögnun úr Atvinnuleysistryggingasjóði og af skyldusparnaði standist.

Hvert mannsbarn hlýtur að sjá að framlög úr ríkissjóði hljóti að skipta sköpum um viðgang Byggingarsjóðs ríkisins á næstu árum, þó að ríkisstjórnarflokkarnir virðist ekki skilja það og neiti að horfast í augu við raunveruleikann. Á bls. 3 í nál. hef ég tekið saman töflu byggða á útreikningum Þjóðhagsstofnunar um fjárflæði Byggingarsjóðs ríkisins. Í þeirri töflu hef ég tekið saman hvert stefnir miðað við mismunandi ríkisframlög, þ. e. 17% eins og ráð er fyrir gert í fjárlögum eða 40% eins og frv. gerir ráð fyrir. Tekin eru dæmi af óbreyttu lánshlutfalli eða 29% af staðalíbúð ef lánahlutföll eru hækkuð í 80% á átta árum og ef lánshlutföll hækkar í 80% á fimmtán árum. Þessi tafla gefur vísbendingu um hvert stefnir í lántökum úr lífeyrissjóðunum miðað við mismunandi ríkisframlög.

Þessi tafla talar sínu máli og þarf því í raun ekki mikilla skýringa við. Hún nær fram til næstu aldamóta og staðfestir í raun tvennt:

Útilokað verður að standa við 80% lánsfjárhlutfall á næstu árum að óbreyttu. Þau orð ríkisstjórnarflokkanna eru gersamlega marklaus, miðað við það fjármagn sem þeir leggja til við sjóðinn á yfirstandandi ári.

Í öðru lagi er lántökuþörfin slík að gersamlega óraunhæft getur talist, sem kannske sést best á því að áætlað er að allt ráðstöfunarfé lífeyrissjóða á árinu 1984 sé 2 500 millj. kr. Hefur Þjóðhagsstofnun reiknað út að það geti numið röskum 3 000 millj. eftir 20 ár. Ef lánshlutfallið hækkar í 80% á næstu árum og framlag ríkissjóðs verður svipað á yfirstandandi ári mun byggingarsjóður ríkisins þurfa á að halda öllu ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna á árinu 1992, þegar 80% lánahlutfalli verður náð, og á árinu 2000 um 600 millj. umfram allt ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna. Ef miðað er við að 80% lánshlutfall náist á næstu 15 árum og ríkisframlag verði svipað og á yfirstandandi ári má sjá að á árinu 1998 þarf Byggingarsjóður ríkisins á að halda öllu ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna. Jafnvel þótt lánshlutfallið yrði óbreytt til næstu aldamóta, eða 29% af staðalióúð, yrði lántökuþörfin samt of mikil eða flest árin um nær 1 milljarður kr. eða um 30% af öllu ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna.

Fjárhagsstaða þúsunda heimila í landinu mun velta á því á komandi árum að hin pólitísku öfl í landinu komi sér saman um skynsamlega fjármögnun í húsnæðislánakerfinu og að lánshlutfall til húsbygginga og íbúðakaupa hækki jafnt og þétt á komandi árum og að því verði stefnt að 80% lánshlutfalli verði náð á næstu árum. Sú óvissa sem nú er í lánveitingum til húsnæðismála og um hvað framtíðin ber í skauti sér í því efni gerir allar áætlanir fólks í húsnæðismálum marklausar og getur raunar valdið þeim sem standa í íbúðakaupum og húsbyggingum miklu fjárhagslegu tjóni. Ungt fólk, sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið, verður að geta gert fjárhagsáætlanir fram í tímann og séð af nokkru öryggi fyrir um lánamöguleika og lánakjör á húsnæðismarkaðinum.

Í frv. eins og það liggur fyrir er ekki að finna neina áætlun eða stefnu sem vísar veginn um hvers vænta má í uppbyggingu húsnæðislánakerfisins eða um lánakjör á næstu árum. Þvert á móti hefur óvissan aldrei verið meiri en nú. Greiðslubyrði af lánum hjá fjölda heimila í landinu er slík nú að maður veigrar sér við að hugsa til enda afleiðingar þess fyrir þann fjölda ungmenna sem er að byggja sína framtíð og koma sér þaki yfir höfuðið.

Það væri hollt fyrir okkur alþm., sem flestir hverjir höfum byggt upp okkar húsnæði og komið okkur þaki yfir höfuðið með niðurgreiddum lánakjörum á kostnað framtíðarinnar, að huga að þeim afleiðingum hvert stefnir fyrir þúsundir heimila í landinu ef áfram verður látið reka á reiðanum í þessum málum og fjármögnun húsnæðiskerfisins verði ekki tekin skynsamlegum tökum, auknir valkostir á húsnæðismarkaðinum og að greiðslubyrðin verði viðráðanleg fyrir fólk sem stendur í íbúðabyggingum og í íbúðakaupum. Okkar er ábyrgðin. Það hlýtur að vera höfuðskylda okkar alþm. og kannske eitt það mikilvægasta sem við eigum við að glíma í dag að með raunhæfum og markvissum aðgerðum í húsnæðismálum verði því fólki, sem nú er að stíga sín fyrstu skref til að koma sér þaki yfir höfuðið, tryggt öryggi í húsnæðismálum og að allar áætlanir stjórnvalda verði með þeim hætti að íbúðakaupendur og húsbyggjendur geti með sæmilegu öryggi gert sínar áætlanir í þessum málum.

Ef við ætlum áfram að sigla sofandi að feigðarósi í þessu máli berum við ábyrgð á gjaldþroti margra heimila í landinu með þeim ófyrirsjáanlegu félagslegu afleiðingum sem það gæti haft í för með sér fyrir fjölda fólks. Kannske er það dýrara fyrir þjóðfélagið á næstu árum, þegar upp er staðið, ef við finnum ekki nú þegar leiðir til raunhæfrar fjármögnunar, en veltum vandanum yfir á framtíðina og heimilin í landinu af því að við þorum ekki að taka þær pólitísku ákvarðanir sem eru nauðsynlegar til að koma húsnæðismálum og lánakjörum landsmanna á heilbrigðan grundvöll.

Þjóðhagsstofnun hefur gert útreikninga á hve gífurleg greiðslubyrði þetta er fyrir marga í dag. Þjóðhagsstofnun tekur dæmi af núverandi lánsfjármögnun íbúðabygginga og miðar við 80% lánsfjármögnun, þannig að tekið sé 620 þús. kr. húsnæðisstjórnarlán, lífeyrissjóðslán 260 þús. kr. og bankalán sem nemi því sem á vantar eða 820 þús. kr. Þá lítur dæmið þannig út að greiðslubyrði yrði 210–225 þús. kr. á ári fyrstu fimm árin a. m. k. eða tæplega 20 þús. kr. greiðslubyrði á mánuði næstu fimm árin. Greiðslubyrði af 80% láni — 1700 þús. kr. — og með 2.25% ársvöxtum yrði til samanburðar 6700 kr. á mánuði í 29 ár. Þar yrði um viðráðanlega greiðslubyrði að ræða. En getum við skapað þær aðstæður að greiðslubyrðin verði ekki meiri en 6–7 þús. kr. á mánuði? Forsendan fyrir því að það geti tekist er í okkar höndum. Okkar er ábyrgðin og við skulum reyna að standa undir henni.

Í nál. kemur fram hve gífurlega mikill samdráttur verður í íbúðabyggingum og útlánum hjá Byggingarsjóði ríkisins á yfirstandandi ári. Eins og fram kemur á bls. 5 í nál. var fjöldi íbúða sem veitt var lán til á árinu 1983 1087 nýbyggingalán. Ég óskaði upplýsinga hjá Húsnæðisstofnun um áætlun stofnunarinnar um útlán á yfirstandandi ári. Í bréfi Húsnæðisstofnunar, dags. 18. apríl, sem fram kemur á fskj. VIII með nál. kemur fram að einungis er gert ráð fyrir frumlánum vegna 760 íbúða á þessu ári, öðrum umsóknum verði frestað til næsta árs. Hér er um 30% samdrátt að ræða milli ára. Ef tekið er dæmi af fjölda íbúða sem veitt var lán til á árinu 1978 og til samanburðar á yfirstandandi ári kemur í ljós að á árinu 1978 var veitt frumlán til 1833 íbúða, en eins og áður sagði á þessu ári einungis til 760 og er um að ræða tæplega 60% samdrátt frá árinu 1978 ef miðað er við fjölda íbúða sem veitt var lán til á árinu 1978 og til samanburðar á yfirstandandi ári.

Samdráttur er líka í lánveitingum til eldri íbúða. Fjöldi eldri íbúða sem veitt var lán til á s. l. ári var 1895, en í bréfi Húsnæðisstofnunar 18. apríl kemur fram að á yfirstandandi ári er einungis gert ráð fyrir lánum til 1820 eldri íbúða, en einnig þar verður um frestun að ræða fram á næsta ár. Hér er um að ræða að veitt verði lán til 75 færri eldri íbúða en á árinu 1983 eða um 4% samdrátt. Ef árið 1979 er skoðað og gerður samanburður á fjölda eldri íbúða sem veitt var lán til á því ári og yfirstandandi ári kemur í ljós að veitt er á þessu ári lán til 588 færri eldri íbúða en á árinu 1979 og er þar um að ræða 25% samdrátt frá því sem veitt var lán til á árinu 1979.

Samkv. upplýsingum frá Húsnæðisstofnun liggur fyrir gífurlegur fjöldi umsókna, en þær eru eftirfarandi: Umsóknir liggja fyrir um 2150 nýbyggingalán, 2400 lán til kaupa á eldri íbúðum, 480 umsóknir vegna meiri háttar viðgerða og 180 lánsumsóknir liggja fyrir um orkusparandi aðgerðir eða samtals 5210 umsóknir.

Ýmsum tölum hefur verið slegið fram um fjárvöntun á yfirstandandi ári, en ljóst er að hún er gífurleg. Í fskj. VIII með nál. kemur fram áætlun Byggingarsjóðs ríkisins á árinu 1984, en hún er dagsett 14. mars s. l. Það er sú áætlun sem ég hef upplýsingar um að unnið sé eftir, en endanlega samþykkt útlánaáætlun liggur ekki enn fyrir. Samkvæmt þeirri áætlun er miðað við að hægt sé að veita frumlán vegna 760 nýbygginga og um 1820 lán vegna kaupa á eldri íbúðum. Er þá gert ráð fyrir að allir tekjustofnar, sem gert er ráð fyrir á fjárlögum og lánsfjárlögum, skiti sér að undanskildum skyldusparnaðinum. Það er þá deginum ljósara að þessir tekjustofnar muni ekki allir skila sér og að um enn frekari samdrátt verður að ræða í lánveitingum en ég hef hér lýst. Í því sambandi verður að hafa í huga að mikil óvissa ríkir um ýmsa fjármögnunarþætti og skal ég gera grein fyrir þeim helstu.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að úr Atvinnuleysistryggingasjóði komi 115 millj. Það er ekki hægt að búast við að nokkurt fjármagn komi úr Atvinnuleysistryggingasjóði þegar haft er í huga að ekkert fjármagn kom úr Atvinnuleysistryggingasjóði á s. l. ári og fyrir liggur bréf, sem Húsnæðisstofnun hefur borist frá Atvinnuleysistryggingasjóði, þess efnis að ekki sé að vænta neinna skuldabréfakaupa af hálfu Byggingarsjóðs ríkisins á yfirstandandi ári. Á árinu 1983 keypti Atvinnuleysistryggingasjóður heldur engin skuldabréf af Byggingarsjóði ríkisins.

Í öðru lagi er áætlað að af skyldusparnaði komi 45 millj. í Byggingarsjóð ríkisins. Ljóst er að samkv. bréfi Húsnæðisstofnunar verður skyldusparnaður neikvæður á þessu ári. Skyldusparnaðurinn var neikvæður um 8 millj. á árinu 1983 og á fyrstu þrem mánuðum þessa árs var hann neikvæður um 88 millj. samkv. því bréfi sem mér hefur borist frá Húsnæðisstofnun, dags. þann 18. apríl s. l. Í áætlun Húsnæðisstofnunar dags. 14. mars er hann áætlaður neikvæður um 40 millj. um næstu áramót. Fjárvöntun samkv. þessum lið er því 85 millj. á þessu ári.

Í þriðja lagi má ætla einnig að ofreiknað sé það fjármagn sem koma á frá lífeyrissjóðunum. Áætlað er að með lántökum frá lífeyrissjóðunum til Byggingarsjóðs ríkisins komi 525,4 millj. kr. og er það 96.3% hækkun milli ára. Engu að síður er í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. fyrir árið 1984 gert ráð fyrir að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna aukist einungis um 6.4% milli áranna 1983 og 1984. En á sama tíma er gert ráð fyrir 35.8% aukningu á lífeyrisgreiðslum sjóðanna! Skv. þeim upplýsingum sem ég hef fengið í bréfi Húsnæðisstofnunar dags. 18. apríl kemur fram að frá lífeyrissjóðunum hafa fengist samtals liðlega 119 millj. fyrstu þrjá mánuði ársins, en samtals verið greidd í afborganir, vexti og verðtryggingu frá Húsnæðisstofnun til lífeyrissjóðanna svipuð upphæð eða rúmar 119 millj. kr. Skv. bréfi Húsnæðisstofnunar, dags. 18. apríl, er nettóútkoma vegna lífeyrissjóðslána fyrstu tvo mánuði ársins neikvæð um 9.2%. Það er því ljóst að mjög óvarlegt er að áætla að á lántökum frá lífeyrissjóðunum verði meira en 50% hækkun milli áranna. Skv. því yrði fjárvöntun á þeim lið um 125 millj. kr.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að af sérstakri fjáröflun ríkissjóðs komi 200 millj. kr. Af þeirri fjáröflun hefur Byggingarsjóður móttekið 68 millj. kr. Hér er um mjög óvissar tekjur að ræða og er óvarlegt að áætla að það skili sér nema í mesta lagi að 3/4 hlutum. Skv. þessu yrði fjárvöntun í Byggingarsjóð ríkisins um 420.4 millj. kr. Af því leiddi, eins og áður er getið, að samdráttur í nýbyggingum á milli ára yrði enn meiri en 30%, svo og lánum til kaupa á eldra húsnæði. En í áætlun Húsnæðisstofnunar um 760 nýbyggingar og 1820 íbúðir vegna kaupa á eldra húsnæði er miðað við að allir tekjustofnar skv. fjárlögum og lánsfjárlögum skili sér að fullu nema skyldusparnaðurinn. Og í áætlun Húsnæðisstofnunar frá 14. mars er ekki gert ráð fyrir neinum lánum vegna nýrra framkvæmda vegna leiguíbúða aldraðra eða heimila aldraðra og engum nýjum samningum við framkvæmdaaðila.

Hæstv. félmrh. hefur hvað eftir annað í umr. um húsnæðismál á þessum vetri haldið því fram að þeir tekjustofnar sem ráð er fyrir gert í fjárlögum og lánsfjárlögum muni skila sér að fullu. Ég tel að það hafi sannast á síðustu dögum að svo sé ekki, enda er nú áformuð erlend lántaka, eftir því sem manni skilst, til þess að fjármagna húsnæðiskerfið. Og ég vil spyrja hæstv. félmrh. að því hvort hann sé enn þeirrar skoðunar að tekjustofnar sem ráð er fyrir gert í lánsfjárlögum og fjárlögum muni skila sér að fullu og hvort hæstv. ráðh. hafi gert sér grein fyrir því að jafnvel þótt þeir skili sér að fullu verður samdráttur í nýbyggingarlánum um 30% á milli ára og einungis hægt að veita nýbyggingarlán til 760 íbúða.

Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðh., vegna þeirra miklu lántaka sem fyrirhugaðar eru, hvort ráðh. telji þessar miklu lántökur, sem á þarf að halda í Byggingarsjóð ríkisins og Byggingarsjóð verkamanna, forsvaranlegar. Í Byggingarsjóði ríkisins einum er af 1167 millj., sem útlán sjóðsins eru áætluð, áætlað að 885 millj. eða tæp 76% sé aflað með lántökum. Hefur hæstv. félmrh. gert sér grein fyrir hvert stefnir í uppbyggingu sjóðanna með þessu móti?

Ég mun þá næst snúa mér að því að gera grein fyrir fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs verkamanna og þeim samdrætti sem blasir þar við.

Í nál. er gerð grein fyrir fjárhagsstreymi Byggingarsjóðs verkamanna árin 1982–1983, en þessar upplýsingar komu fram í því nál. sem Þjóðhagsstofnun sendi félmn. um fjárflæði Byggingarsjóðs verkamanna. Ég hef til samanburðar bætt við þessa töflu áætluðu fjárstreymi til Byggingarsjóðs verkamanna á yfirstandandi ári eins og það birtist í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Séu þessar tölur bornar saman milli ára 1982 og 1983 hefur fjármagn til útlána aukist um 43.5% milli áranna 1982 og 1983 eða í 178.3 millj., en milli áranna 1983 og 1984 minnkar fjármagn til útlána um tæpar 4 millj. eða um tæplega 1%.

Það er ljóst að verulegur samdráttur verður einnig í lánveitingum úr Byggingarsjóði verkamanna til félagslegra íbúðabygginga. Í bréfi sem félmn. barst frá Húsnæðisstofnun, dags. 10. apríl s. l., kemur fram fjöldi íbúða sem veitt var lán til úr Byggingarsjóði verkamanna, þ. e. til nýbygginga og endursölu íbúða. Á þeirri töflu kemur fram að á árinu 1983 voru veitt lán til 326 íbúða. Skv. þeim upplýsingum sem ég hef frá Húsnæðisstofnun voru af þeim fjölda gerðir 158 nýir samningar þar sem lán var veitt til kaupa á fokheldu og um 168 samningar sem samþykktir voru, en fresta átti fram á þetta ár að veita lán til. Í áætlun Húsnæðisstofnunar um Byggingarsjóð verkamanna, sem fram kemur í þessu nál., er byggt á þeim forsendum að fjöldi endursöluíbúða verði sá sami og árinu 1983. Yrði þá um að ræða lánveitingar til 156 endursöluíbúða skv. bréfi Húsnæðisstofnunar, dags. 10. apríl s. l. Forsendurnar byggja á að engar nýframkvæmdir verði á árinu 1984, ekki ein einasta ný lánveiting til félagslegra íbúða, og forsendurnar byggja einnig á því að skuld sjóðsins um áramót við Seðlabanka Íslands verði endurgreidd á árinu. Áætlunin byggir því á að af 405 millj. rúmum, sem ætlaðar voru til útlána skv. lánsfjáráætlun, renni 382 millj. til útlána.

Skv. þeim upplýsingum sem fyrir liggja og þeim áætlunum sem nú er unnið eftir er því ljóst að ekki verða gerðir neinir nýir samningar á yfirstandandi ári og að þegar gerðum samningum, þ. e. þeim 158 sem veitt var lán til á s. l. ári, verður að fresta að 1/4 hluta fram á næsta ár. Það er einnig nauðsynlegt að fram komi hér í umr. hjá hæstv. félmrh. að hann staðfesti, sem liggur fyrir í þessari áætlun, að ekki sé gert ráð fyrir því að veitt séu lán til nýrra íbúðabygginga. Það er ekki hægt að blekkja fólk og láta það halda að það fái lán á yfirstandandi ári þegar fyrir liggja aðrar tölur. Þess vegna verðum við að fá það á hreint í þessum umr. hvað ráð er fyrir gert að veita mikið fé úr Byggingarsjóði verkamanna á þessu ári. Er það svo að það verði einungis staðið við og þó aðeins að hluta til þá samninga sem voru gerðir á síðasta ári og það þurfi að fresta a. m. k. 1/4 hluta þeirra yfir á næsta ár? Ég óska eftir því að hæstv. ráðh. gefi skýr svör við þessum spurningum í þessum umr. — Ég sé að hæstv. ráðh. hristir höfuðið svo að það getur vel verið að það sé eitthvað annað uppi á borðinu. Þá er auðvitað nauðsynlegt að fá það upplýst hér í umr. Því til viðbótar er ljóst að af þeim 168 lánveitingum sem samþykktar voru á s. l. ári, en ekki var veitt neitt fjármagn til á því ári, verður verulegum fjölda eða a. m. k. helmingi að fresta fram á næsta ár, en ekki liggja endanlegar tölur fyrir um það hjá Húsnæðisstofnun.

Að þessu gefnu hlýt ég að spyrja: Hvað um markmiðið að fjármögnun Byggingarsjóðs verkamanna verði með þeim hætti að sjóðurinn geti fjármagnað a. m. k. 1/3 hluta af árlegri íbúðaþörf landsmanna þegar fyrir liggur að ekki ein einasta ný íbúð fer af stað á þessu ári? Yrði markmiði því sem fram kemur í ákvæðum 34. gr. fullnægt ætti að byggja hér a. m. k. 600–700 nýjar íbúðir á þessu ári. Samkv. því sem fyrir liggur á ekki að veita lán til einnar einustu nýbyggingar á þessu ári. Það er ljóst að eigi að standa við það markmið þarf að auka verulega framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs verkamanna.

Þjóðhagsstofnun hefur gert útreikninga um lánsfjárþörf miðað við 300 íbúðir í félagslegum íbúðabyggingum annars vegar og hins vegar miðað við 600 íbúðir árlega eða 1/3 hluta af árlegri íbúðaþörf. Niðurstöðu Þjóðhagsstofnunar má finna á bls. 9 í nál. Í dæmi Þjóðhagsstofnunar er gert ráð fyrir að sjóðurinn njóti 1% launaskatts eða 30% af fjármagnsþörf að lágmarki í framlögum frá ríkissjóði. Eins og sést í útreikningum Þjóðhagsstofnunar er lánsfjárþörfin, ef miðað er við 600 íbúðir á ári, langt umfram það sem eðlilegt getur talist eða flest árin um helmingur af öllu ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna og þar yfir.

Herra forseti. Samkv. því sem ég hef hér greint frá og byggt er á útreikningum Þjóðhagsstofnunar hlýtur öllum alþm. að vera ljóst að með þeim lántökum sem nú stefnir í er ekki boðið upp á neitt annað en gjaldþrot beggja byggingarsjóðanna. Samanlagt mundu Byggingarsjóður verkamanna og Byggingarsjóður ríkisins þurfa á að halda í lántökum á næstu árum um 5 milljörðum kr. Þá er miðað við óbreytt ríkisframlag, 600 íbúðir í félagslegum íbúðabyggingum árlega og að 80% lánshlutfall úr Byggingarsjóði ríkisins verði náð á næstu átta árum. Það er því deginum ljósara að endurskoða þarf allan fjármögnunargrundvöll beggja sjóðanna og hækka verulega framlag ríkissjóðs frá því sem ráð er fyrir gert í frv., að ekki sé talað um frá því sem samþykkt hefur verið á fjárlögum yfirstandandi árs og lánsfjárlögum.

Á þskj. 689 flytur 1. minni hl. félmn. 26 brtt. við frv. Í þeim felst eftirfarandi:

Í fyrsta lagi að efla félagslegar íbúðabyggingar og tryggja að lánskjör rýrni ekki frá því sem nú er.

Í öðru lagi að endurskoða skipulag á fjármögnun félagslegra íbúðabygginga og skapa nýja valkosti í húsnæðismálum landsmanna.

Í þriðja lagi að jafna lánakjör milli kaupa á nýjum og notuðum íbúðum.

Í fjórða lagi að vaxtakjörin verði ekki í höndum ríkisstj., heldur að hámark vaxtastigs verði ákveðið í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins eins og verið hefur.

Í fimmta lagi að tryggja Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna fastan tekjustofn og aukið framlag úr ríkissjóði. Markmiðið er að ryðja braut til þess að hægt verði að hækka lánshlutfallið í áföngum á næstu árum í 80% af byggingarkostnaði og að Byggingarsjóður verkamanna geti fjármagnað a. m. k. 1/3 hluta af árlegri íbúðaþörf landsmanna án þess að fjárhagsstöðu sjóðsins sé stefnt í gjaldþrot með stórfelldum lántökum.

Í sjötta lagi að tryggt verði að lánshlutar fylgi breytingum á lánskjaravísitölu, þannig að lánveitingar rýrni ekki þegar lánin eru greidd út í tvennu eða þrennu lagi.

Í sjöunda lagi að viðskiptabankar og sparisjóðir auki til muna lánveitingar til húsnæðismála.

Skal nú gerð nánari grein fyrir þeim brtt. sem 1. minni hl. félmn. flytur við frv., en þær koma fram á þskj. 689.

Lagt er til að við 1. gr. frv. komi fram, í markmiðsgreininni, sú stefna að einnig verði komið til móts við þá sem velja vilja sér annan kost í húsnæðismálum en að eignast eigið húsnæði. Það er ljóst að þeirri húsnæðisstefnu sem rekin hefur verið hér á landi, þar sem fólki er þröngvað nauðugu viljugu til að eignast eigið húsnæði, verður að breyta, ekki síst á meðan lánakjörin eru svo slæm, sem raun ber vitni, að greiðslubyrði vegna húsbygginga er flestum ofviða.

Búseturéttaríbúðir eru fýsilegur valkostur til að auka fjölbreytni í húsnæðismálum. Nauðsynlegt er að stjórnvöld tryggi á ótvíræðan hátt réttarstöðu búseturéttaróúða og aðild að húsnæðislánakerfinu og aðgang að fjármögnun á viðráðanlegum kjörum.

Það er ljóst að mjög mikil óvissa virðist ríkja um réttarstöðu búseturéttaríbúða í félagslega kerfinu. Það kom ljóst fram hér í dag hjá frsm. meiri hl. félmn. að vísa á húsnæðissamvinnufélaginu Búseta á Byggingarsjóð ríkisins. Kom það fram í máli frsm. meiri hl. að þeim er vísað á fyrirgreiðslu samkv. 11. gr. 1. tölul. Hér stangast mjög á sú yfirlýsing sem kemur frá meiri hl. félmn. og þær yfirlýsingar og loforð sem hæstv. félmrh. hefur gefið varðandi búseturéttaríbúðir.

Ég vil, með leyfi forseta, vitna í málgagn húsnæðissamvinnufélagsins Búseta þar sem kemur fram hjá hæstv. félmrh. að hann telji að búseturéttaríbúðir eigi að fá lánafyrirgreiðslu úr Byggingarsjóði verkamanna. Þar segir, með leyfi forseta:

„„Ég tel nauðsynlegt að tekinn sé af allur vafi á því hver sé skilgreining félagslegs húsnæðis í lögum um Húsnæðisstofnun,“ sagði Alexander Stefánsson. „Ég hef fram til þessa lagt þann skilning í frv. til breytinga á þessum lögum að Búseti tilheyri Byggingarsjóði verkamanna, að með c-lið 33. gr. frv. sé m. a. átt við Búseta, þ. e. félagssamtök sem ætla að byggja leiguíbúðir fyrir félagsmenn sína sem ekki hafa möguleika á að byggja eigin íbúðir. Ég vil á engan hátt draga úr mikilvægi verkamannabústaða, en ég lit ekki á búseturéttaríbúðir sem ógnun við það kerfi. Það fyrirkomulag er alveg nýtt og þarfnast sérstakrar löggjafar til viðbótar því að það sé tekið inn í húsnæðislánalöggjöfina. En ég vil endurtaka að ég álít nauðsynlegt að áður en frv. verði tekið til lokaumræðu á Alþingi liggi fyrir,“ sagði hæstv. félmrh., „ótvíræð túlkun á félagslegum byggingum og stöðu húsnæðissamvinnufélaga með hliðsjón af þeirri túlkun“. `

Hér kemur skýrt og greinilega fram að hæstv. ráðh. telur að búseturéttaríbúðir eigi að fá fyrirgreiðslu úr Byggingarsjóði verkamanna. Allt önnur skoðun og allt annað álit kom fram hjá frsm. meiri hl. í dag.

Ég vil spyrja hæstv. félmrh. að því, hvort hann sé ekki enn sömu skoðunar og fram kemur í þessu viðtali, að áður en þetta frv. verður afgreitt frá Alþingi verði að taka af öll tvímæli um það og tryggja að búseturéttaríbúar fái aðgang að hinu félagslega kerfi og aðgang að Byggingarsjóði verkamanna. Þar talar hæstv. ráðh. um að búseturéttaríbúðir eigi að vera háðar sömu tekjumörkum, að mér skilst og Byggingarsjóður verkamanna. (Gripið fram í.) Ég gat ekki betur skilið á frsm. meiri hl. en að það ætti að vísa búseturéttaríbúðum alfarið yfir á Byggingarsjóð ríkisins.

Það kom fram í sjónvarpinu í kvöld í viðtali við hæstv. ráðh. að hann telur að ef þarna leiki einhver vafi á þurfi að flytja sérstakt frv. um það. Af hverju þarf að flytja sérstakt frv. um það? Við höfum húsnæðislöggjöfina hér til umr. Það liggja fyrir brtt. frá 1. minni hl. og frá 2. minni hl. um að tryggja ótvíræða aðild búseturéttaríbúa að félagslegum íbúðabyggingum. En meiri hl. félmn. treystir sér ekki til að flytja slíkar till. Þá er það einfatt mál fyrir hæstv. félmrh. að styðja till. minni hl. í þessu efni og reyna að vinna því fylgi hér á hv. Alþingi, áður en málið verður afgreitt, að það verði tekinn af allur vafi í þessu efni. Það gengur auðvitað ekki að afgreiða málið hér frá Alþingi með þeim hætti að allt sé í óvissu um réttarstöðu búseturéttaríbúa.

Ég tel líka að kaupleigufyrirkomulag sé annar valkostur í félagslegum íbúðabyggingum sem í grannlöndum okkar hefur reynst vel, en ekki hefur verið gefinn gaumur hér á landi. Það er skoðun Alþfl. að þennan valkost beri að kanna. Því er lagt til í ákvæði til bráðabirgða að við endurskoðun á skipulagi hins félagslega húsnæðislánakerfis verði þessi valkostur einnig tekinn með í myndina.

2. brtt. kveður á um að tryggja Byggingarsjóði ríkisins fastan tekjustofn sem nemur 2/3 af innheimtum launaskatti. Eins og fram hefur komið er afleiðing þess hve framlag ríkissjóðs er lágt að verulegur samdráttur verður í íbúðabyggingum. Erfitt er um vik að hækka lánshlutfall til íbúðabygginga og lántökuþörf sjóðsins er hrikaleg og stefnir fjárhagsstöðu sjóðsins í mikla tvísýnu á komandi árum svo að ekki sé meira sagt.

2. brtt. á þskj. 689 hefur tvíþætt markmið. Í fyrsta lagi að tryggja Byggingarsjóði ríkisins fastan tekjustofn og þar með óafturkræft framlag til að tryggja viðgang og uppbyggingu sjóðsins á komandi árum, svo að dregið verði úr þeim stórfelldu lántökum sem nú stefnir í. Lagt er til að Byggingarsjóður ríkisins fái 2/3 af launaskatti, sem mundi tryggja honum, miðað við yfirstandandi ár, 540 millj. kr., en á fjárlögum eru honum eingöngu ætlaðar 200 millj. kr. Það er aðeins 17% þess sem ákvæði 9. gr. frv. kveður á um, eins og fram hefur komið. Með því að tryggja sjóðnum fastan tekjustofn eru frekar líkur á að ná 80% lánshlutfallinu og ekki ósennilegt að ætla að það geti gerst á 8 árum. Í 3. brtt. á þskj. 689 er lagt til að aftan við 4. mgr. 13. gr. bætist: sbr. 1. tl. A og B 17. gr. laga nr. 91/1982, um málefni aldraðra. 4. mgr. 13. gr. kveður á um að veita lán til þeirra sem byggja sérhannaðar íbúðir fyrir aldraða til einkaeignar. Hér er lagt til að tekið sé mið af ákvæðum frv. um málefni aldraðra, þar sem kveðið er á um íbúðir sérhannaðar fyrir þarfir aldraðra, en þær geta verið tvenns konar. Í fyrsta lagi þjónustuíbúðir, þar sem er húsvarsla og afnot af sameiginlegu rými, en engin önnur þjónusta. Í öðru lagi verndaðar þjónustuíbúðir, þar sem er húsvarsla og afnot af sameiginlegu rými, íbúðirnar skulu búnar kallkerfi með vörslu allan sólarhringinn og veitt skal sameiginleg þjónusta, svo sem máltíðir og ræsting. Í lögum um málefni aldraðra hefur verið mörkuð skýr stefna um hvernig byggja eigi upp sérhannaðar íbúðir fyrir aldraða og verður að telja eðlilegt að lánveitingar úr Húsnæðisstofnun til þess að byggja sérhannaðar íbúðir fyrir aldraða verði skv. því sem kveðið er á um í þeim lögum.

6., 7. og 8. brtt. eru af sama toga. Í 15. og 16. gr. frv. er talað um að heimilt sé að veita lán þeim sem byggja leiguíbúðir, hjúkrunarheimili eða dagvistarstofnanir handa börnum eða öldruðum. Hér er lagt til að hægt verði að byggja leiguíbúðir, þar með taldar sérhannaðar íbúðir fyrir aldraða, og þar vitnað til laga nr. 91/1982, um málefni aldraðra.

4. brtt. lýtur að lánum til kaupa á notuðum íbúðum. Í núgildandi lögum er talað um að lánsfjárhæðin skuli vera visst hlutfall af lánum til nýbygginga og skal hlutfallið ákveðið til eins árs í senn af félmrh. að fengnum tillögum húsnæðismálastjórnar, sbr. og ákvæði 13. gr. Í því ákvæði 14. gr. frv. hefur verið bætt við nýrri mgr., sem getur skert töluvert lánveitingar til kaupa á notuðum íbúðum, þar sem áhvílandi lán á notuðum íbúðum úr Byggingarsjóði ríkisins verða uppfærð og mega aldrei nema hærri fjárhæð en nýbyggingarlán eru á hverjum tíma. Þetta gæti þýtt að þegar keyptar eru nýlegar, notaðar íbúðir gætu fylgt þeim svo mikil lán að lítið sem ekkert nýtt lán fengist úr Húsnæðisstofnun. En þar sem fólk stendur frammi fyrir því að borga kannske hátt í 70% út á fyrsta ári, þegar það kaupir notaðar íbúðir, þá gefur auga leið að það þarf að hafa töluvert mikla peninga umleikis til þess að geta slíkt.

Í umsögn húsnæðismálastjórnar var lagt til að gefið yrði aukið svigrúm frá því sem ákvæði frv. segja til um, að því er varðar fyrstu íbúð, ef um væri að ræða mjög erfiðar félagslegar aðstæður. Ég tel eðlilegt að fallast á þessa sjálfsögðu brtt., sem húsnæðismálastjórn leggur til, og um það fjallar 3. brtt. Hljóðar þá mgr. svo með þeirri breytingu sem hér er lögð til, með leyfi forseta: „Þó má lán, sem veitt er skv. þessari grein, að viðbættum áhvílandi lánum, uppfærðum, úr Byggingarsjóði ríkisins ekki nema hærri fjárhæð en nýbyggingarlán eru á hverjum tíma nema um fyrstu íbúðarkaup sé að ræða eða mjög erfiðar félagslegar aðstæður.“

Skv. ákvæðum frv. er einnig um verulega skemmri lánstíma að ræða vegna lána til kaupa á notuðum íbúðum heldur en til flestra annarra lánaflokka í frv. Má í því sambandi nefna að nýbyggingarlán eru til 31 árs en lánstími til kaupa á notuðum íbúðum er aðeins til 21 árs. Ég tel þetta óeðlilegt og get tekið undir það sem fram kom í umsögnum t. a. m. Félagsstofnunar stúdenta um þetta efni, en þar segir með leyfi forseta:

„Ákvæði frv. um styttri lánstíma til þeirra sem kaupa eldra húsnæði er ekki í takt við tímann. Fólk sækist nú mjög eftir húsnæði í eldri hverfum og einnig er mikilvægt að halda eldri hverfum í stöðugri endurnýjun og stuðla að því að þar búi fólk á öllum aldri, í stað þeirrar kynslóðaskiptingar sem núverandi kerfi ýtir undir og gerir f. d. það að verkum að skólar tæmast í einu hverfi meðan þeir eru yfirfullir í öðrum. Allt ræðst þetta af þeirri húsnæðispólitík sem rekin er hverju sinni og ber að athuga það þegar hugað er að framtíðarstefnu.“

Í 5. brtt. er lagt til að í stað þess að lánstími verði 21 ár verði hann 26 ár, sem er þó 5 árum skemmri tími en tími nýbyggingarlána.

Ég hef þegar lýst 6., 7. og 8. brtt.

Í 9. brtt. er lagt til að þak verði sett á hámark vaxtastigs í frv. en að það verði ekki í höndum ríkisstj. á hverjum tíma að ákveða vaxtakjör húsnæðislána. Í því felst vissulega sú hætta að vaxtahækkanir, sem ákveðnar yrðu eftir að Alþingi hefur afgreitt frv., gerðu að engu þá bót sem þó er að finna í frv. um lengingu lánstíma og greiðslubyrði yrði þyngri en skv. ákvæðum núgildandi laga. Ég vil undirstrika að með þessari brtt: er ekki verið að leggja til að vextir hjá Byggingarsjóði ríkisins hækki úr 2.25% í 3%. Hér er einungis um að ræða að sett er þak á vextina en að öðru leyti skulu þeir vera breytilegir skv. ákvörðun ráðh. og þó aldrei hærri en 3% á ári. Einnig er lagt til að lán skv. 6. tl. 11. gr., en það eru sérstök lán til einstaklinga með sérþarfir, verði vaxtalaus.

10. brtt. felur í sér að gjalddagar lána skv. 1.–7. tl. 11. gr. skuli eigi vera færri en sex á ári. Mikilvægt er að greiðslubyrði lána dreifist á nokkra gjalddaga yfir árið. Því er lagt til að í 30. gr. komi í stað þess að gjalddagar skuli eigi vera færri en fjórir á ári, að gjalddagar lána skuli eigi vera færri en sex á ári.

11. brtt. er mikilvæg. Hún felur í sér að lánahlutfallið skuli aldrei vera ákveðið lægra en 40% af byggingarkostnaði staðalíbúðar frá og með 1. jan. 1985. Þarna er sett fram ákveðið markmið um að frá og með næstu áramótum verði lánahlutfallið hækkað úr 29% rúmum, sem það er í dag, í 40% af byggingarkostnaði staðalíbúðar. Eins og áður hefur komið fram í mínu máli hafa flestir ef ekki allir stjórnmálaflokkar á stefnuskrá sinni og boðuðu það í síðustu kosningum að ná 80% lánahlutfalli. Langt er í land enn og tímabært að sett séu niður ákveðin markmið í því sambandi. Eðlilegt var að hugsa sér að ná þessu á átta árum og fyrsta skrefið yrði stigið um næstu áramót, þannig að þá yrði náð helmingi af lánahlutfallinu.

Í 12. brtt. er kveðið á um að upphæð hvers útborgaðs lánshluta skuli fylgja breytingum á lánskjaravísitölu frá samþykkt láns til greiðsludags. Það segir sig sjálft að þegar lán eru greidd í tvennu eða þrennu lagi og 12 eða 18 mánuðir líða á milli fyrsta og síðasta lánshluta, þá rýrna lánshlutarnir verulega ef um mikla verðbólgu er að ræða. Íbúðakaupendur og húsbyggjendur verða að geta treyst á að það lán sem þeir fá í upphafi og ákveðið er haldi verðgildi sínu. Í þeim tilgangi er þessi brtt. flutt.

13. brtt. kveður á um að eyða þeirri óvissu sem ríkir í ákvæðum frv. um réttarstöðu húsnæðissamvinnufélaga eins og Búseta í félagslega kerfinu. Það hefur þegar komið fram í mínu máli að ekki er vanþörf á að eyða þeirri óvissu sem ríkir um réttarstöðu búseturéttar íbúða. Ég ítreka þá ósk mína til hæstv. félmrh. að hann stígi hér í ræðustól og skoðun hans komi ótvírætt fram í þessu máli og hvað hann ætlar að gera til þess að málið verði ekki afgreitt héðan frá Alþingi án þess að þetta atriði liggi skýrt fyrir.

Með tilkomu fleiri valkosta í félagslegum íbúðabyggingum þarf að auka framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs verkamanna verulega, þannig að nýir valkostir skerði ekki fjármagn til uppbyggingar íbúða í verkamannabústaðakerfinu. Á það legg ég mikla áherslu. 13. brtt. á að tryggja rétt búseturéttaríbúða, eins og ég hef áður greint frá. Hún er við 33. gr. og hljóðar svo: „Aftan við e-lið bætist nýr málsliður svohljóðandi: Einnig búseturéttaríbúðir sem byggðar eru eða keyptar af húsnæðissamvinnufélögum til ótímabundinna afnota félagsmanna.“

14. brtt. fjallar um framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs verkamanna. Í 34. gr. frv. er ákvæði um að fjármögnun félagslegra íbúðabygginga eigi m. a. að vera þannig háttað, að sjóðurinn fái 1% af launaskatti til að framtag sjóðsins ár hvert nemi 30% af fjármagnsþörf sjóðsins. Áætlað er að 1% af launaskatti nemi 270 millj. kr. Svo gífurlegur niðurskurður er á fjármagni til sjóðsins að hann nýtur ekki einu sinni óskerts framlags af launaskatti sem honum ber skv. ákvæðum frv. og fær aðeins 200 millj. en afgangurinn er tekinn í ríkissjóð. Ljóst er að það fjármagn sem sjóðnum er ætlað sem framlag ríkissjóðs til uppbyggingar hins félagslega íbúðakerfis er allt of lítið, ef meiningin er að standa við það markmið, sem felst í 34. gr., að fjármögnun Byggingarsjóðs verkamanna verði með þeim hætti að sjóðurinn geti fjármagnað a. m. k. 1/3 hluta af árlegri íbúðaþörf landsmanna.

Ég hef þegar lýst hver lántökuþörfin yrði ef einungis á að miða við 30% ríkisframlag af útlánum. Ef miðað er við 600 íbúðir á ári þýddi það að á áttunda ári eða árið 1992 yrði lántökuþörfin 1258 millj. Árið 2000 eða á 16. ári héðan í frá yrði lántökuþörfin 1834 millj. einungis til Byggingarsjóðs verkamanna. Á sama tíma yrði lántökuþörf í Byggingarsjóð ríkisins, miðað við það ríkisframlag sem nú er áætlað í sjóðinn og að 80% lánahlutföllum verði náð á 8 árum, um 3.5 milljarðar. Þetta þýðir að eftir 16 ár eða á árinu 2000 yrði lántökuþörfin 5336 millj. í báða sjóðina eða rúmlega tvöfalt allt ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna í dag. Það segir sig því sjálft að nauðsynlegt er að horfast í augu við það, að auka verður verulega framlag ríkisins til Byggingarsjóðs verkamanna svo og Byggingarsjóðs ríkisins, ef takast á að byggja upp þessa sjóði og koma einhverri skynsemi í fjármögnun húsnæðislánakerfisins. Stjórnvöld standa hreinlega frammi fyrir þeirri ákvörðun hvort draga eigi verulega úr útlánum beggja þessara sjóða og að lánakjör breytist ekkert á næstu árum frá því sem nú er, eða standa við ákvæði þessa frv. sem allt bendir til að samþykkt verði, en þá hlýtur það að krefjast verulegs fjárframlags úr ríkissjóði.

Í útreikningum Þjóðhagsstofnunar kemur einmitt fram staðfesting á því sem ég hef hér sagt. Ég vil vitna til þess sem fram kemur hjá Þjóðhagsstofnun, en það er samandregin niðurstaða Þjóðhagsstofnunar þar sem gerð er grein fyrir fjárflæði Byggingarsjóðs ríkisins. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Greiðslubyrði í heildarlánum, sem nú eru tekin í byggingarsjóði, lífeyrissjóði og í bönkum til að fjármagna íbúðarkaup, er nú sennilega nær þrefalt þyngri fyrstu árin en verða mundi ef húsnæðisstjórnarlán yrðu hækkuð í 80% af byggingarkostnaði. Hækkun lánshlutfalls er því án efa áhrifaríkasta leiðin til að lækka greiðslubyrði fyrstu áranna og jafna henni yfir tímann. Að frátalinni hækkun útlánsvaxta til að auka útlánagetu byggingarsjóðs sýnist valið standa milli þess að auka framlag ríkissjóðs til muna til að fjármagna hækkun lána eða slaka verulega á markmiðum um útlánaaukningu.“

Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Hvort ætlar hann að gera, að auka verulega framlag ríkissjóðs til að fjármagna hækkun lána og þau loforð sem standa í hans frv. og uppfylla þau ákvæði sem þar koma fram, eða ætlar hann að slaka verulega á markmiðum um útlánaaukningu? Það kemur fram hjá Þjóðhagsstofnun að þessir eru valkostirnir. Annaðhvort verður að velja: að slaka verulega á markmiðunum um útlánaaukningu eða auka framlag ríkissjóðs. Ég hef lagt hér til sem 1. minni hl. fyrir hönd Alþfl. að við förum fyrri leiðina og aukum verulega framlag ríkissjóðs. Ég tel að það sé rétta leiðin og við verðum hér á hv. Alþingi að reyna að ná samstöðu um það að byggja upp þessa sjóði. Þetta gengur ekki svona lengur, eins og verið hefur undanfarin ár, og ekki virðist nein breyting í augsýn á því ástandi sem verið hefur og því að vísa alltaf öllu yfir á framtíðina með sífellt aukinni lántökuþörf. Það hlýtur að vera einfalt skólabókardæmi að það fer ekki saman að bæta lánakjörin og auka útlán sjóðanna á næstu árum en halda jafnframt svo í með ríkisframlagið til sjóðanna eins og gert hefur verið.

14. brtt. kveður á um að 1. mgr. b-liðar 34. gr. orðist svo: „Með árlegu framlagi sem nemi 1/3 af innheimtum launaskatti.“ Eins og áður er getið fer ekki einu sinni þessi 1/3 eða 1% af launaskatti nú inn í byggingarsjóðinn. 70 millj. af honum eru á yfirstandandi ári teknar beint í ríkissjóð. Með þessu ákvæði er verið að reyna að tryggja að Byggingarsjóður verkamanna hafi þennan fasta tekjustofn. Í 2. tölul. brtt., c-lið 34. gr., segir einnig að sjóðurinn eigi að hafa árlegt framlag úr ríkissjóði sem á vantar til að samanlagt framlag af launaskatti og skv. fjárlögum ár hvert nemi 60% af fjármagnsþörf sjóðsins. Greinin mundi því hljóða svo, með leyfi forseta: „Á eftir b-lið 1. mgr. bætist nýr liður er verði c-liður og orðist svo: Með árlegum framlögum úr ríkissjóði skv. fjárlögum sem nemi eigi lægri fjárhæð en á vantar til að samanlagt framlag af launaskatti og skv. fjárlögum ár hvert, nemi 60% af fjármagnsþörf sjóðsins.“

Skv. þessum brtt. ætti sjóðurinn að hafa yfir að ráða á yfirstandandi ári næstum 200 millj. meira en ráð er fyrir gert nú. Það liggur í augum uppi að aukið framlag ríkissjóðs, eins og hér er gert ráð fyrir, mundi draga verulega úr lántökuþörf og tryggja að hægt væri að standa við markmið ákvæða þessa frv. sem nú er verið að samþykkja hér frá hv. Alþingi.

Í 34. gr. frv. er einnig talað um að stefnt skuli að því að fjármögnun Byggingarsjóðs verkamanna verði með þeim hætti að sjóðurinn geti fjármagnað a. m. k. 1/3 hluta af árlegri íbúðaþörf landsmanna. Hér er auðvitað bara um fróma ósk að ræða, sem einungis er til þess fallin að vekja tálvonir hjá fólki í landinu, þegar til þess er litið að ekki verða veitt lán til einnar einustu nýbyggingar á þessu ári í félagslega kerfinu. Í 15. brtt. er kveðið á um að þessu markmiði verði náð á þremur árum og það verði að fullu komið til framkvæmda að Byggingarsjóður verkamanna geti á árinu 1986 fjármagnað a. m. k. 1/3 hluta af árlegri íbúðaþörf landsmanna í félagslegum íbúðabyggingum.

Ég held að menn verði að setja sér slík markmið og haga fjármögnun til sjóðsins þannig að við það ákvæði sé hægt að standa. Ég tel ekki óraunhæft að taka þetta í þremur áföngum og að því verði náð á árinu 1986. Ég tel raunhæft að ætla sér að ná þessu markmiði með því að auka svo framlagið til félagslegra íbúða eins og ráð er fyrir gert í 14. tölulið þessara brtt. Að vísu hafa menn áður sett sér slík markmið en ekki náð þeim fram. En skýringa er þá að leita í því að ekki hefur verið veitt aukið framlag úr ríkissjóði til sjóðsins. Árið 1980, þegar hæstv. núv. félmrh. mælti fyrir meirihlutaáliti félmn. um breytingu á húsnæðislöggjöfinni, vitnaði hann í yfirlýsingu ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar: „Með þeirri yfirlýsingu var því heitið, að ríkisstj. beitti sér fyrir því að hraðað væri íbúðarbyggingum fyrir efnalítið fólk í stéttarfélögum innan Alþýðusambands Íslands og að stefnt skyldi að því, að eigi minna en þriðjungur af íbúðaþörf þjóðarinnar skyldi leystur á félagslegum grundvelli. Þessi yfirlýsing var síðan áréttuð af ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar 26. febr. 1976.“

Í máli núv. félmrh. kom fram við þá umr. eftirfarandi með leyfi forseta:

„Með hliðsjón af stöðu þessara mála mun ríkisstj. vinna að lausn á húsnæðismálum láglaunafólks í landinu í samræmi við óskir verkalýðshreyfingarinnar og leggja áherslu á eftirfarandi:

1. Að lánveitingar á þessu ári (þ. e. árinu 1980) til húsnæðismála fari fram með sama hætti og undanfarin ár, en jafnframt verði þegar á þessu ári hafinn undirbúningur að framkvæmdum við byggingu verkamannabústaða á næsta ári.

2. Ríkisstj. mun beita sér fyrir því að frv. um Húsnæðisstofnun ríkisins verði samþykkt.

3. Tekjur ríkissjóðs af 1% launaskatti renni frá næstu áramótum óskertar til Byggingarsjóðs verkamanna. Með þessum hætti mun ríkisstj. beita sér fyrir því að unnt verði að hefja byggingar á 400 íbúðum í verkamannabústöðum á árinu 1981 og síðan 500 íbúðum á árinu 1982 og 600 íbúðum á árinu 1983.“

Þarna kemur fram hjá frsm. meiri hl. á árinu 1980, sem þá var hæstv. núv. félmrh. Alexander Stefánsson, að þessu markmiði yrði náð í þremur áföngum og að á árinu 1983 yrðu fjármagnaðar 600 íbúðir úr Byggingarsjóði verkamanna. Ég tel engu að síður að raunsætt sé að ná þessu markmiði með því að úr ríkissjóði komi það sem á vantar til að samanlagt framlag af launaskatti og af fjárlögum ár hvert nemi 60% af fjármagnsþörf sjóðsins.

16. brtt. felur í sér að síðasti málsl. 4. mgr. 34. gr. falli niður. Í 4. mgr. segir svo, með leyfi forseta: „Afgreiðsla lána úr sjóðnum og innheimta þeirra fari fram í almennum lánastofnunum, sem Húsnæðisstofnun semur við um þá þjónustu.“ Og síðan kemur sá liður sem 1. minni hl. leggur til að falli niður: „Þóknun fyrir slík störf greiðist skv. fyrirframgerðu samkomulagi.“ Meiri hl. félmn. hefur lagt til að sambærilegt ákvæði falli niður varðandi Byggingarsjóð ríkisins og ég sé ekki nein rök fyrir því að þetta ákvæði um þóknun eigi frekar rétt á sér varðandi Byggingarsjóð verkamanna en Byggingarsjóð ríkisins. Því er lagt til að þessi málsl. falli brott. Í ákvæði 39. gr. frv. er kveðið á um að íbúðir í verkamannabústöðum megi ekki vera stærri en staðalíbúðir skv. 32. gr. þessara laga miðað við fjölskyldustærð. Húsnæðismálastjórn hefur lagt til að þessi mgr. breytist þannig að kostnaðarverð íbúða í verkamannabústöðum megi ekki vera hærra en verð staðalíbúða skv. 32. gr. þessara laga. Ég tel eðlilegt að taka tillit til þessarar umsagnar stjórnar Húsnæðisstofnunar og er sú till. tekin upp í 16. brtt.

Í 43. gr. frv. er kveðið á um að framkvæmdalán skuli vera verðtryggð miðað við lánskjaravísitölu. Verðbætur teljist til byggingarkostnaðar en vextir fari síðan eftir ákvæðum 49. gr., en í 49. gr. er kveðið á um lánskjör almennt úr Byggingarsjóði verkamanna. Ég tel eðlilegra að lánskjör vegna framkvæmdalána falli undir 57. gr., en í þeirri grein er einmitt fjallað um lánakjör vegna framkvæmdalánasamninga. Því er lagt til að í stað tilvitnunar í 49. gr. í síðasta málsl. 1. mgr. verði vitnað í 57. gr.

Í 49. gr. frv. er ákvæði um að lækka lánshlutfall útlána úr Byggingarsjóði verkamanna úr 90% í 80% af kostnaðarverði staðalibúðar. Þetta ákvæði hefur þá þýðingu að lán til kaupa á félagslegum íbúðum lækkar um 223 þús. kr. eða úr 2 millj. og 7 þús. niður í 1 millj. 784 þús. Hér er um verulega lækkun að ræða og veruleg aukning greiðslubyrðar lántakenda er því samfara að brúa þarf þetta bil með lánum úr bankakerfinu. Því er lagt til í 19. brtt. að þetta ákvæði breytist ekki frá núgildandi lögum og lánshlutfallið verði 90% af kostnaðarverði staðalíbúðar.

20. brtt. kveður á um að ársvextir af lánum úr Byggingarsjóði verkamanna skuli vera 0.5% á ári, eins og nú er, en að ákvörðun um vextina verði ekki í höndum ríkisstj. eins og kveðið er á um í frv.

Í 53. gr. frv. er að finna ákvæði um sölu íbúðar, sem byggð hefur verið skv. lögum um verkamannabústaði, á nauðungaruppboði. Þar er kveðið á um að sveitarstjórn skuli þá neyta forkaupsréttar síns og krefjast þess á uppboðsþingi að eignin verði lögð henni úf til eignar á því verði sem hæst hefur verið boðið í eignina eða söluverði skv. 51. gr. Í 21. brtt. á þskj. 689 er lagt til að út falli orðin „því verði sem hæst hefur verið boðið í eignina.“ Eins og ákvæði 53. gr. í frv. er fram sett getur það þýtt að sá sem þarf að setja eign sína á uppboð fær miklu minna út úr henni en endursöluákvæði frv. kveða á um. Því er lagt til að sveitarstjórnin sé skyldug til að kaupa til sín eignina á því verði sem kveðið er á um í endursöluákvæðum frv.

Í 62. gr. frv. er kveðið á um að þegar eigandi íbúðar í verkamannabústað hyggst selja íbúð sína skal hann senda tilkynningu þess efnis til stjórnar verkamannabústaða. Stjórnin skal tilkynna eiganda afstöðu sína innan 30 daga, ella telst forkaupsrétti hafnað og gilda þá ákvæði 3. málsl. 50. gr. Ég tel að þessi tímamörk, sem stjórn verkamannabústaða eru sett til að tilkynna eiganda afstöðu sína, 30 dagar, séu allt of þröng og að stjórnir verkamannabústaða verði að hafa meira svigrúm til þess að fjalla um slík mál, og það gæti þá orðið til þess að íbúðirnar haldist frekar inni í verkamannabústaðakerfinu. Því er lagt til að í stað 30 daga komi 45 dagar.

Í 22. brtt., þar sem fjallað er um lán úr Byggingarsjóði verkamanna til leiguíbúða skv. b- og c-lið 33. gr., er lagt til að lánshlutfallið verði 90% af áætluðum byggingarkostnaði í stað 80%, eins og ákvæði frv. kveða á um. Er það með sömu rökum og ég hef áður lýst varðandi 49. gr., að ekki séu nein rök fyrir því að lækka lánshlutfallið frá því sem nú er í félagslegum íbúðabyggingum.

Í 61. gr. frv. er kveðið á um að óheimilt sé að selja leiguíbúðir sem byggðar eru skv. lögum þessum meðan á þeim hvíla lán úr Byggingarsjóði verkamanna. Í 23. brtt. er lagt til að búseturéttaríbúðir falli ótvírætt einnig undir þetta ákvæði og því orðist 61. gr. þannig, með leyfi forseta:

„Óheimilt er að selja leiguíbúðir eða breyta leiguíbúðum eða búseturéttaríbúðum, sem byggðar eru skv. lögum þessum, í eignaríbúðir meðan á þeim hvílir lán frá Byggingarsjóði verkamanna.“

Í 26. brtt. er lagt til að komi tvö ný ákvæði til bráðabirgða. Í fyrsta lagi að stjórn Húsnæðisstofnunar skuli beita sér fyrir því í samvinnu við viðskiptabanka og sparisjóði að komið verði á nýju sparnaðarformi tengdu rétti til viðbótarlána til lengri tíma úr bankakerfinu vegna húsnæðisöflunar. Með þessu ákvæði er verið að leggja til að viðskiptabankar og sparisjóðir komi miklu meira inn í fjármögnun húsnæðismála landsmanna en verið hefur til þessa. Um það hafa þm. Alþfl. lagt fram tillögur á Alþingi á undanförnum þingum. Hugsa mætti sér að slíkt sparnaðarform, sem tengt væri rétti til viðbótarlána til lengri tíma úr bankakerfinu vegna húsnæðisöflunar, gæti að einhverju leyti komið í stað skyldusparnaðar, en með öllum þeim undanþágum sem leyfðar eru í skyldusparnaði og þeim kostnaði sem Húsnæðisstofnun hefur af framkvæmdinni við skyldusparnaðinn liggur það fyrir að skyldusparnaðurinn hefur einungis í för með sér kostnað fyrir Húsnæðisstofnun. Sést það best í fskj. með frv., þar sem fram koma hreyfingar skyldusparnaðar árin 1979–1983, en öll árin er brúttóinnstreymi Byggingarsjóðs ríkisins miklu hærra en útstreymið.

Í 26. tölulið b. er lagt til eftirfarandi ákvæði til bráðabirgða:

„Félmrh. skal þegar í stað skipa þriggja manna nefnd er í eigi sæti einn fulltrúi ASÍ, einum frá húsnæðissamvinnufélaginu Búseta og einn fulltrúi sem félmrh. tilnefnir úr stjórn Húsnæðisstofnunar og skal hann vera formaður nefndarinnar.

Nefndin hafi það verkefni að endurskoða ákvæði gildandi laga um fjármögnun og skipulag hins félagslega húsnæðislánakerfis. Nefndin miði tillögur sínar um fjármögnun við það að unnt verði að standa við yfirlýst markmið um að 1/3 hluti íbúða á ári hverju verði byggður á vegum hins félagslega kerfis og að tryggja félagasamtökum, eins og t. d. búseturéttarfélögum, ótvíræða aðild að kerfinu, bæði fjármögnun þess og stjórn, í því skyni að koma frambúðarskipulagi á leigumarkaðinn.“

Það er ljóst að ef skapa á nýja valkosti í húsnæðismálum landsmanna í félagslegum íbúðabyggingum verður að endurskoða bæði uppbyggingu og skipulag á félagslega kerfinu og taka til endurskoðunar kaflann um félagslegar íbúðabyggingar, en flest ákvæði kaflans um félagslegar íbúðabyggingar fjalla um stjórnun og aðild stjórnar verkamannabústaða í félagslegum íbúðabyggingum. Nauðsynlegt er einnig að tryggja aðild húsnæðissamvinnufélaga að félagslega kerfinu svo og að kanna þann kost sem kaupleigufyrirkomulag félagslegra íbúðabygginga er, sem mikið hefur verið farið inn á á hinum Norðurlöndunum.

Að lokum er í nál. gerð grein fyrir tillögum Alþfl. um fjármögnun húsnæðislánakerfisins og hvernig brúa eigi það bil fjárhagslega sem skapast með þeim brtt. sem hér eru lagðar til. Er á það bent í nál. í fimm töluliðum á bls. 12 hvernig mæta eigi þeim fjárhagslega vanda sem skapast ef samstaða næst um þá brtt. sem ég hef hér lýst, en um er að ræða rúmar 500 millj. til viðbótarframlaga í sjóðina báða. Það er bent á ákveðna fjárlagaliði sem Alþfl. lýsir sig reiðubúinn til viðræðu og samkomulags um við aðra flokka, náist meiri hluti fyrir því á Alþingi að fara þá leið sem hér er mörkuð með því að auka óafturkræf framlög til húsnæðislánakerfisins og draga þar með úr lántökum.

Í fyrsta lagi er bent á að á s. l. sex árum hefur verið veitt um 13 milljörðum á fjárlögum til landbúnaðarins í formi niðurgreiðslna á vöruverði og lánakostnaði, auk úrflutningsbóta. Samsvarar það um 440 þús. á ári s. l. sex ár frá skattgreiðendum á hvert bú í landinu. Bent er á í nál. að veittar eru 1290 millj. í þessu skyni á árinu 1984. Hluta af þessu fé er lagt til að verði varið til húsnæðismála.

Í öðru lagi er á fjárlögum 1984 gert ráð fyrir styrkjum til ríkisstofnana, sem geta aflað eigin tekna að upphæð 570 millj. Hér má nefna stofnanir eins og Húsameistara ríkisins, Rannsóknaráð landbúnaðarins, Fasteignamat ríkisins, Flugmálastjórn og fleiri aðila. Sértekjur þessara stofnana nema um 232 millj. kr. Spara mætti töluverða fjárhæð ef sértekjur þessara stofnana væru auknar, en þessir aðilar selja flestir þjónustu sína til annarra fyrirtækja. Við teljum að hluta af þessu fé, sem varið er til að styrkja ríkisstofnanir sem geta aflað eigin tekna, sé betur varið til húsnæðismála.

Á fjárlögum 1984 er gert ráð fyrir framlögum til fyrirtækja að upphæð ca. 100 millj. kr. — og utan fjárlaga að upphæð 322 millj. kr. — alls 422 millj. Innan fjárlaga má nefna Bifreiðaeftirlit ríkisins, Skipaútgerð ríkisins og Ríkisábyrgðasjóð, utan fjárlaga má nefna Þormóð ramma, Steinullarverksmiðju, Saltvinnslu og Stálbræðslu.

Á fjárlögum 1984 er einnig gert ráð fyrir styrkjum til atvinnuvega sem eiga að afla sjálfir tekna og bera hagnað eða tap á eigin ábyrgð. Þessir styrkir eru 300 millj. kr. Þar má nefna forfalla- og afleysingaþjónustu í sveitum, Stofnlánadeild landbúnaðarins og framlög til jarðræktar svo dæmi sé tekið.

Alls er hér um að ræða, í þeim liðum sem ég hef lýst, framlög á fjárlögum að upphæð rúmlega 2.6 milljarðar. Hluta af þessum fjárveitingum telur Alþfl. betur varið til að byggja upp fjárhag húsnæðislánakerfisins. Tillögur Alþfl. eru um að ca. 1/5 þessa fjár sé varið til húsnæðislána á árinu 1984, eins og ég hef áður getið. Alþfl. lýsir sig reiðubúinn til viðræðna og samkomulags við aðra flokka um þessar tillögur. Með þeim brtt. sem fram koma á þskj. 689 og ég hef hér lýst getur Alþfl. staðið að samþykkt þessa frv.

Herra forseti. Ég get farið að ljúka máli mínu. Fyrir liggja einnig brtt. frá 2. minni hl. svo og meiri hl. og tillögur frá þm. BJ. Ýmsar af þeim brtt., sem þar koma fram, tel ég að séu til bóta og mun styðja þær, en ég tel ekki ástæðu til þess að fara nánar út í það hér. Það mun auðvitað koma fram við atkvgr. um frv. afstaða Alþfl. til einstakra brtt. sem liggja fyrir frá meiri hl., 2. minni hl. og BJ.

Ég vil sérstaklega nefna till. þá sem kemur fram hjá meiri hl. á þskj. 693. Það er 17. brtt. á því þskj., um að heimilt sé félagsmönnum í byggingarfélögum verkamanna, sem annast sameiginlegt viðhald á íbúðum félagsmanna, að stofna húsfélög í samræmi við ákvæði laga nr. 59/1976, um fjölbýlishús, þannig að húsfélögin taki sameiginlegt viðhald í sínar hendur. — A. m. k. tvær till. voru lagðar fram í félmn. af stjórnarandstöðunni um þetta efni. Það var mikill vilji fyrir því í n. að ná samstöðu um þetta mál og að breyta því fyrirkomulagi að byggingarfélög verkamanna annist viðhaldið, en að opnað væri fyrir það að íbúðaeigendur gætu stofnað sitt eigið húsfélag sem annaðist viðhald ef þeir svo kysu. Ég tel þessa till. til mikilla bóta og fagna því að samstaða náðist um hana í n.

Ég tel þó að ýmsar af þeim till. sem fram hafa verið lagðar við þetta frv. séu óraunhæfar, sérstaklega að því er varðar þá till., sem fram kemur hjá 2. minni hl., að verja skuli 30% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna til byggingarsjóðanna og þar eigi Byggingarsjóður verkamanna að hafa forgang og Byggingarsjóður ríkisins að fá í sinn hlut það sem eftir er þegar tryggt er að Byggingarsjóður verkamanna hafi tryggt fjármagn til að byggja þriðjung íbúða í verkamannabústaðakerfinu. Þessi till. er út í hött vegna þess að til þess að byggja þriðjung íbúða í verkamannabústaðakerfinu þarf 1300 millj. kr. á ári. Ef gert er ráð fyrir að 40% af því komi sem framlag frá ríkissjóði standa eftir 880 millj. Í yfirliti frá Þjóðhagsstofnun, eins og ég hef áður greint frá, hefur komið fram að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna sé 2.5 milljarðar. Ef 30% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna eiga að renna til byggingarsjóðanna er það 750 millj. kr. Skv. till. hv. þm. Svavars Gestssonar standa því eftir 130 millj. til að fjármagna þriðjung íbúða í verkamannabústaðakerfinu, jafnvel þó að Byggingarsjóður verkamanna fengi allt ráðstöfunarfé sem gert er ráð fyrir í brtt. hv. þm. eða 30% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna. Eftir stendur þá einnig að Byggingarsjóður ríkisins mun ekkert fá í sinn hlut af ráðstöfunarfé lífeyrisjóðanna. Einnig er ljóst að 880 millj. í lántöku til Byggingarsjóðs verkamanna með 0.5% vöxtum, þegar vextir af lífeyrissjóðslánum eru yfir 5%, eru allt of miklar lántökur. Till. hv. þm. Svavars Gestssonar munu því stefna Byggingarsjóði verkamanna í gjaldþrot mun fyrr en till. stjórnarliða mundi gera. Ég tel þessa fjármögnun því mjög óraunsæja og þær till. sem bornar eru fram af 2. minni hl. í þessu efni.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa mál mitt lengra að sinni nema tilefni gefist til síðar á þessum fundi. Ég ítreka að lokum þær spurningar sem ég hef lagt fyrir félmrh. Ég sé ekki ástæðu til að tefja tímann með að endurtaka þær, en vonast til þess að fá skýr svör við þeim.