02.05.1984
Neðri deild: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5084 í B-deild Alþingistíðinda. (4492)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. 2. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég minni á í upphafi máls míns að á þessum vetri hafa farið fram umræður um húsnæðismál oftar og ítarlegri en nokkru sinni fyrr á Alþingi á einum og sama vetrinum. Mjög ítarlegar umr. fóru fram um þessi mál: 2. des. s. l. og í framhaldi af því þegar fyrri umr. fór fram um frv. það sem hér er á dagskrá. Sömuleiðis var rætt mjög ítarlega um fjármögnunarþátt húsnæðislánakerfisins í tengslum við fjárfestingar- og lánsfjáráætlunina. Ég ætla þess vegna ekki á þessu stigi málsins að fara út í fjármögnunarhlið húsnæðismálanna eins og þau standa í dag í löngu máli vegna þess að þeim málum hafa nýlega verið gerð skil í grg. minni hl. fjh.- og viðskn. Nd. þegar fjallað var um lánsfjárlögin í vetur, þar sem sýnt var fram á að húsnæðislánakerfið mundi á þessu ári búa við skort á fjármunum upp á mörg hundruð milljónir króna. Ég komst að þeirri niðurstöðu að þar væri um að ræða óvissu upp á a. m. k. 700 milljónir kr.

Hæstv. félmrh. hafnaði þessum skoðunum mínum og hefur hins vegar núna eftir að lánsfjárlög voru samþykkt orðið að beygja sig fyrir reynslunni. Hann hefur tekið um það ákvörðun, að mér er tjáð, að aflað verði erlends lánsfjár í húsnæðislánakerfið í fyrsta sinn í sögunni upp á mörg hundruð millj. kr. Hæstv. félmrh. talar yfirleitt ekki skýrt um þessa hluti en það er engu líkara en komið hafi til tals að taka jafnvel 500 millj. kr. inn í húsnæðislánakerfið með erlendum lántökum, aðrir segja að hér sé um að ræða upphæð upp á um 200 millj. kr.

Auk þess að viðurkenna þannig skipbrot stefnu sinnar í húsnæðismálum hefur hæstv. félmrh. og ríkisstj. ákveðið að skera niður útlánaáform Byggingarsjóðs ríkisins mjög verulega frá því sem verið hefur, draga mikið úr lánveitingum, m. a. með því að seinka lánum yfir á árið 1985.

Hv. talsmaður meiri hl. sem talaði hér fyrr í dag viðurkenndi að uppi væru áform um að seinka lánum til þeirra sem áður hafa byggt yfir á árið 1985 og veita þannig færri frumlán á árinu 1984 en nokkru sinni fyrr um margra ára skeið. Talaði þó hv. talsmaður meiri hl. fyrir þann flokk sem harðast gagnrýndi fráfarandi ríkisstj. fyrir húsnæðislánakerfið og sérstaklega flutti talsmaður meiri hl., hv. þm. Halldór Blöndal, ítrekaðar árásarræður á húsnæðislánakerfið í tíð fyrri ríkisstj. með yfirlýsingum um að hún hefði stolið fjármunum og annað af því taginu. Þegar aftur sú ríkisstj. tekur við sem hann styður er niðurstaðan sú að veitt eru færri lán en nokkru sinni fyrr.

Og af hverju ætli það sé? Hver er ástæðan til þess að veitt eru færri lán en nokkru sinni fyrr nema sú að búið er að skera svo niður kaupgetu almennings að maður með meðallaun, meðalkauptaxta, er tveimur til þremur árum lengur núna að vinna fyrir venjulegri íbúð en var á fyrri hluta ársins 1983. Fólk getur m. ö. o. ekki byggt lengur. Þessar staðreyndir liggja fyrir og hæstv. félmrh. hefur orðið að beygja sig í duftið fyrir veruleikanum eins og oft hendir menn. Ég ætla ekki að fara um það mörgum fleiri orðum hvernig staðreyndirnar hafa í rauninni sveigt hjá ráðh. á undanförnum mánuðum.

En ég ætla aðeins að minna á það út af ummælum hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, sem kom hér áðan með mjög ítarlega og góða ræðu um húsnæðismál, að í frv. því, sem Alþfl.-menn gjarnan tala um og kenna sig við og Magnús H. Magnússon, var ekki gert ráð fyrir neinum föstum tekjustofnum í verkamannabústaðakerfið. Það var sá grundvallarmunur sem var á þeirri stefnu sem fylgt var á síðustu árum og þeirri sem áður var fylgt að verkamannabústaðakerfið var tekið fram yfir almenna húsnæðislánakerfið. Það var gert algerlega vitandi vits og 1% launaskattur var tekinn inn í Byggingarsjóð verkamanna í þessu skyni.

Þetta kerfi hefur skilað árangri. Þetta kerfi Byggingarsjóðs verkamanna og félagslegra íbúða hefur skilað árangri þannig að nú standa fullbúnar í landinu 740 íbúðir sem reistar hafa verið skv. lögunum frá 1980. Það munar um þetta átak til lausnar á þeim húsnæðisvanda sem hér er við að glíma.

Ég ætla, herra forseti, þessu næst að víkja nokkuð að brtt. sem við flytjum þrír þm. Alþb., ég ásamt hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni og Steingrími J. Sigfússyni. Við flytjum á þskj. 691 einar 22 brtt. og á þskj. 690 er ítarleg grg. frá 2. minni hl. félmn. sem ég skipaði, en ég tók þátt í starfi n. fyrir hönd Alþb.

Fyrsta brtt. Alþb. við frv. um húsnæðismál fjallar um markmið laganna en þar er gert ráð fyrir því að breytt verði um áherslur að verulegu leyti. Þar segir að markmið laganna verði að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála og húsbygginga að landsmenn geti búið við öryggi í húsnæðismálum. Í öðru lagi að stuðla að jafnrétti í húsnæðismálum þannig að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að tryggja fólki öruggt húsnæði. Og í þriðja lagi að leggja áherslu á félagslegar aðgerðir í þessu skyni, m. a. með byggingu leiguhúsnæðis sem er þannig tekið inn í markmiðsgrein laganna ef þetta yrði samþykkt, verkamannabústöðum, húsnæðissamvinnufélögum, sem þar með yrðu tekin á blað í fyrsta sinn í íslenskri húsnæðismálalöggjöf, byggingarsamvinnufélögum, sem eru tekin hér inn undir hina félagslegu flokkun, og öðrum aðgerðum eftir því sem fjárráð Húsnæðisstofnunar og annarra lánaaðila leyfa hverju sinni.

Hér er, eins og þeir sjá sem til þekkja, um að ræða talsverðan mun frá því sem er í gildandi lögum þar sem veruleg og svo að segja einhliða áhersla hefur verið lögð á það að einkaeignarréttarform íbúða væri í raun og veru eina eða a. m. k. aðalviðfangsefni Húsnæðisstofnunar ríkisins.

Önnur brtt. Alþb. gengur út á það að undirstrika enn þá þýðingu sem við teljum að húsnæðissamvinnufélögin hafi. Talað er um að lögin skiptist í sjö meginþætti og þar er talað um húsnæðissamvinnufélögin sérstaklega, byggingarsamvinnufélög. Í fimmta lagi er gert ráð fyrir því að inn í þetta verði felldur sérstakur nýr kafli um íbúðalán utan Húsnæðisstofnunar. Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að það sé í rauninni útilokað fyrir hvaða félmrh. sem er og hvaða ríkisstj. sem er að ráða við þennan málaflokk svo að nokkur mynd sé á nema að menn kalli til lögbundins samstarfs bæði bankakerfið og lífeyrissjóðina. Ég held að ef menn ætla sér að einblína á Húsnæðisstofnunina eina komist menn aldrei nægilega langt. Þess vegna tel ég að leggja beri áherslu á samfellt samræmt húsnæðislánakerfi og það eigi að vera meginviðfangsefni þingsins.

Ég er ósammála því að hægt sé að gera ráð fyrir að menn leysi lánavandann í gegnum Húsnæðisstofnunina upp á 80–90% af verði íbúða og á sama tíma sé gert ráð fyrir því að bankarnir veiti stórfelld lán til íbúða og lífeyrissjóðirnir líka. Ég held að ef menn ætla sér af einhverri alvöru að reyna að ná utan um þessi húsnæðismál sé útilokað annað en að menn taki þetta allt í senn undir. Menn eiga af fullri hreinskilni að gera sér grein fyrir því sem ég hef sagt hér úr þessum stól aftur og aftur á undanförnum árum, að opinbera húsnæðislánakerfið er aðeins einn þátturinn af mörgum í húsnæðislánakerfinu á Íslandi, en að vísu mjög gildur þáttur. Ef menn ætla sér að breyta hér verulega til verður að eiga sér stað algjör kerfisbreyting frá því sem nú er.

Ég teldi það í rauninni eitt brýnasta verkefni íslenskra stjórnmálamanna að reyna að finna leið til þess að ná saman um þetta, algjöra kerfisbreytingu á húsnæðislánakerfinu. Ég held að það breyti í rauninni tiltölulega litlu hversu langar skammarræður við höldum hér hvert yfir öðru ef við erum eingöngu að tala um þetta kerfi sem hér er á þessum blöðum. Ég held að menn þurfi að líta miklu víðar í þessum efnum. Þetta segi ég í tilefni af ákvæðinu um íbúðalán utan Húsnæðisstofnunar sem ég kem að síðar í ræðu minni.

Þriðja brtt. Alþb. er lítils háttar orðalagsbreyting á 3. gr. laganna um Húsnæðisstofnun ríkisins í sambandi við deild fyrir félagslegar íbúðabyggingar þar sem fjallað er um húsnæðissamvinnufélög og málefni Byggingarsjóðs verkamanna. Með þessu móti erum við í raun og veru að gera tillögur um að húsnæðissamvinnufélögin verði inni í félagslega íbúðabyggingakerfinu og það verði tekið alveg af skarið um það að húsnæðissamvinnufélögin séu hluti af hinu félagslega íbúðabyggingakerfi með þeim hætti sem ég geri síðan till. um síðar í þessu plaggi.

Fjórða brtt. okkar snertir Byggingarsjóð ríkisins. Þar er um að ræða mjög veigamikil nýmæli. Fyrsta tillagan er í raun og veru brtt. við till. ríkisstj. Ríkisstj. gerir ráð fyrir því að ríkisframlag til Byggingarsjóðs ríkisins verði 40% af útlánaáætlun sjóðsins á hverju ári. Ég held að mjög óeðlilegt sé að fela Húsnæðismálastjórn þannig hluta fjárveitingavaldsins og þess vegna sé óhjákvæmilegt að setja hér inn ákvæði þar sem segir skýrum stöfum: „Alþingi ákveður heildarútlán Húsnæðisstofnunar með afgreiðslu fjárlaga hverju sinni.“ Með þessu móti værum við í raun og veru að tryggja það að Alþingi bæri ábyrgð á öllum fjárreiðum og útlánum Húsnæðisstofnunarinnar og það væri tekin ákvörðun um þetta við afgreiðslu fjárlaga á svipaðan hátt og gert er t. d. í sambandið við Tryggingastofnun ríkisins og margar aðrar slíkar ríkisstofnanir. Ég held að í rauninni sé ekkert vit í öðru en að ganga svona frá málum.

Meiri hl. flytur till. í þessu efni sem er í raun og veru einskis virði en má þó segja að sé kannske betri en ekki neitt. Þar stendur að þessi áætlun Húsnæðisstofnunarinnar eigi að samþykkjast af félmrh. og fjmrh. Þannig hefur þetta alltaf verið, a. m. k. þau ár sem ég þekki til. Ekki var gengið frá útlánaáætlun Húsnæðisstofnunarinnar öðruvísi en að félmrh. og fjmrh. væru búnir að koma sér saman um það. Það kann að vera að einhver annar máti tíðkist í núverandi ríkisstj. í þeim efnum og að félmrh. og fjmrh. nái ekki saman um þessar áætlanir og þá afgreiði félmrh. þetta bara á borðshorninu hjá sér. Ég hef þó ekki trú á því að svo sé. Ég held að þeir hljóti að ræða um þessi mál og ég sé ekki að þessi brtt. meiri hl. breyti í raun og veru nokkrum sköpuðum hlut. Þetta er kattarþvottur, en segja má að þetta sé betra en ekki neitt, þetta er vísir að skilningi og ber að veita meiri hl. viðurkenningu fyrir viðleitni í þessu sambandi.

Önnur brtt. Alþb. í sambandi við fjármuni Byggingarsjóðs ríkisins gengur út á það að ríkissjóður tryggi lánsfé Atvinnuleysistryggingasjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins ef greiðslugeta Atvinnuleysistryggingasjóðs brestur. Á síðasta ári þegar Atvinnuleysistryggingasjóður gat ekki staðið við skuldbindingar sínar kom hæstv. félmrh. á fund í félmn. eða fjh.- og viðskn., reyndar

Nd., og greindi okkur frá því að hann liti svo á að ríkissjóður bæri ábyrgð á þessum skuldbindingum Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég er algjörlega sammála hæstv. félmrh. í þessu efni. Ég tel að svo sé, að ríkissjóður beri þessa ábyrgð eftir að lögunum um Atvinnuleysistryggingasjóð var breytt þannig að ríkissjóður ber ábyrgð á öllum skuldbindingum Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég hefði hins vegar talið að það hefði styrkt félmrh. verulega ef hann hefði fengið hér inn lagaákvæði um þetta efni til þess að staðfesta í lögum þann skilning sem hann sjálfur hefur á þessu máli. Þess vegna verð ég að segja það að ég hlýt að vænta stuðnings hæstv. félmrh. við þessa brtt. Alþb.

Fjórða brtt. sem við flytjum hér snertir mjög stórt mál sem valdið hefur deilum á liðnum árum. Ljóst er að gert hefur verið samkomulag við lífeyrissjóðina um að þeir fjármagni húsnæðislánakerfið með ákveðnum hætti. Það samkomulag var gert 1974. Í þessari brtt. Alþb. er gert ráð fyrir því að setja inn í húsnæðislögin afdráttarlaust ákvæði um að lífeyrissjóðirnir kaupi skuldabréf af Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna sem nemi 30% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna hvert ár. Hér er sem sagt gert ráð fyrir að báðir sjóðirnir geti fengið á árinu 1984, svo dæmi sé tekið, u. þ. b. 800 millj. kr. og það sé algjörlega lögbundið. Auðvitað er hugsanlegt að ná meiru fé af lífeyrissjóðunum til húsnæðislánakerfisins með sérstöku samkomulagi. Það mætti vel hugsa sér að þar yrði um hærri upphæðir að ræða en hér er gert ráð fyrir. En hérna væri um að ræða eins konar lágmarkstryggingu fyrir húsnæðislánakerfið og ég held að óhjákvæmilegt sé að reyna að setja í lög einhverja slíka lágmarkstryggingu.

Í þessari grein er gert ráð fyrir því að fyrst verði tryggt að Byggingarsjóður verkamanna hafi fjármagn til að byggja þriðjung íbúða í verkamannabústaðakerfinu sbr. 34. gr. laganna. Hérna er verið að leggja á það áherslu að lífeyrissjóðirnir tryggi fyrst félagslega íbúðabyggingakerfið. Ég tel að það sé í raun og veru mjög eðlilegt að byrja á því. Þegar það liggur fyrir hvað það þarf í sinn hlut miðað við áætlanir eins og þær eru á hverjum tíma er tekin ákvörðun um það hvernig staðið verður að annarri lánsfjáröflun og tekjuöflun til Byggingarsjóðs ríkisins.

Ég tel því miður að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hafi misskilið þessar hugmyndir sem hér eru uppi. Ég heyrði að vísu ekki vel hvað hún sagði en ég tel að komið hafi fram ákveðinn misskilningur í þessum hluta hennar annars ágætu ræðu um húsnæðismál áðan. Ég er sannfærður um að við getum greitt úr þessum misskilningi ef við ræðum málið aðeins betur.

Ég held að það sé réttlætanlegt og eðlilegt að taka ákvæði um lífeyrissjóðina og bindingu þeirra beint inn í húsnæðislögin. Við skulum ekkert vera að fara í grafgötur með það að lífeyrissjóðirnir eru misjafnlega ánægðir með að hlýða lögbindingu. En ég held að eina leiðin til þess að jafna byrðunum á lífeyrissjóðina sé lögbinding og ég held að það að taka þetta inn í húsnæðislögin væri verulegt spor fram á við frá því sem verið hefur.

Á þessu ári er gert ráð fyrir því í lánsfjáráætlun að Byggingarsjóður ríkisins fái ef ég man rétt 525 millj. kr. frá lífeyrissjóðunum. Ég verð að segja eins og er að ég mundi ekki vera viss um að það fé skilaði sér. Það er um 100% aukning milli áranna 1983 og 1984 meðan hækkunin á ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna er ekki nema 6.7% .

En ég held að slík lögbinding á lífeyrissjóðina, eins og hér er gerð till. um, mundi ekki mæta mikilli andspyrnu lífeyrissjóðanna í landinu eða þeirra sem að lífeyrissjóðunum standa. Ég hef enga trú á því. Ég hef þvert á móti trú á því að lögbinding af því tagi sem hér er gerð tillaga um væri miklum mun betur séð af verkalýðshreyfingunni og forráðamönnum lífeyrissjóðanna en sú tegund lögbindingar sem nú er um að ræða af lífeyrissjóðunum í landinu.

Næst, herra forseti, ætla ég að víkja að fimmtu brtt. Alþb. Þar er gert ráð fyrir því að afgreiðsla lána úr Byggingarsjóði ríkisins og innheimta fari fram í almennum lánastofnunum. Er lánastofnunum skylt að annast alla milligöngu um húsnæðislánin fyrir þóknun sem ákveðin er af ríkisstj.

Það hefur verið í lögum frá 1980 að þessi afgreiðsla gæti farið fram í almennum lánastofnunum. Það hefur ekki tekist samkomulag við þessar stofnanir. Þær hafa verið með múður og röfl og viljað fá stóraukið fé fyrir þessa þjónustu og ríkisstj. hefur ekki getað knúið fram samkomulag við þessa aðila. Þeir hafa farið undan í flæmingi.

Með þessari brtt. okkar Alþb.-manna erum við að taka upp eina af brtt. Vinnuveitendasambandsins. Það er ekki algengt að við gerum það. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að hérna er í rauninni verið að skylda innlánsstofnanir til þess að veita þessa þjónustu. Þær eiga að geta gert það, eru í rauninni ekki of góðar til þess. Ríkisstj. eða félmrh. getur svo ákveðið hæfilega þóknun fyrir þau störf. Ég skora á hæstv. félmrh. að horfa á þessa till. með fullri velvild. Ég held að þetta sé ágæt till. og menn þurfi ekki að vera að fara í einhverjar pólitískar skotgrafir út af henni.

Sjötta brtt. okkar er í raun og veru um áhersluatriði þannig að lán til byggingarsamvinnufélaga og viðurkenndra framkvæmdaaðila í byggingariðnaði verði talin upp í 11. gr. laganna sem sérstakra framkvæmdaaðila og þeim þannig sýndur sá lágmarkssómi sem þau vissulega eiga skilið.

Í sjöundu brtt. sem við flytjum er um að ræða nokkuð mikilvægt nýmæli að mínu mati. Þar stendur: „Umsókn um lán til byggingar leiguíbúða, dagvistarstofnana eða dvalarheimila skv. niðurstöðum slíkrar könnunar“ — þ. e. um þörf fyrir elliheimill — „skal fylgja umsögn heilbrrn. Heilbrrn. og félmrn. skulu eftir því sem kostur er beita sér fyrir samstarfi Framkvæmdasjóðs aldraðra, sbr. lög nr. 49/1981, og Húsnæðisstofnunar um lánveitingar og framkvæmdaáætlanir.“

Nú vill svo til að ég þekkti um skeið nokkuð til hjá þessum aðilum báðum. Ég tel að samstarfið á milli Húsnæðisstofnunar og Framkvæmdasjóðs aldraðra hafi ekki verið nærri nógu gott. Heilbrrn. fékk hugmyndir um byggingar íbúða fyrir aldraða til umsagnar og heilbrrn. sendi svar sem yfirleitt var einhvern veginn á þessa leið: „Heilbrrn. hafa borist áætlanir yðar dags. þennan og þennan dag. Rn. hefur ekkert við þær áætlanir að athuga.“ Í rauninni tók heilbrrn. og menntmrn. enga afstöðu til þessara mála í sambandi við dagheimill barna. Ég held þó að mjög nauðsynlegt sé að fagráðuneytin, þ. e. heilbrrn. sem fer með málefni aldraðra og menntmrn. sem fer með dagvistarmál, taki afstöðu til þess hvort þurfi að byggja þetta elliheimili, hvort þurfi að byggja þetta dagheimili fyrir börn. Þess vegna er þessi sjöunda brtt. Alþb. flutt.

Áttunda brtt. snertir orkusparnaðaraðgerðir í sambandi við húsnæði. Þar segir:

„Fjárhæð láns má nema allt að 80% endurbótakostnaðar, enda tryggi ríkisstj. fjármagn fyrir a. m. k. helmingi kostnaðar við þennan lánaflokk með sérstökum aðgerðum til orkusparnaðar.“

Ég er hérna að leggja til að það fé, sem ríkisstjórnin kann að afla á hverjum tíma til orkusparnaðaraðgerða eða niðurgreiðslu á orku, verði að einhverju leyti látið renna til Húsnæðisstofnunarinnar. Mín reynsla er sú, og ég hygg að margir fleiri geti sagt frá því, að húsnæðismálastjórn sé ekkert mjög viljug að snúast í kringum þennan málaflokk og lánaflokk. Ég hygg að það mundi efla mjög áhuga Húsnæðisstofnunarinnar á þessum lánafokki ef þarna kæmu til nokkrir viðbótarfjármunir frá því sem verið hefur. Hérna er um að ræða mjög mikilvægt verkefni sem hefur stóra þjóðhagslega þýðingu og miklu skynsamlegra er að stuðla að orkusparnaðarbreytingum á húsnæði í verulegum mæli en að vera að greiða niður orkugjafann í miklu stærri stíl en þegar hefur verið stefnt á.

Níunda brtt. snertir vexti Byggingarsjóðs ríkisins. Þar erum við með tillögu um að ríkisstjórnin ákveði vextina að fenginni umsögn Seðlabanka Íslands. Það er samhljóða tillögu ríkisstjórnarinnar. Ég held að við verðum að horfast í augu við það að Byggingarsjóður ríkisins er núna um þessar mundir að taka rándýrt fjármagn. Hann er núna að taka lán hjá lífeyrissjóðunum upp á 5.08% vexti og hann er að endurlána þetta fjármagn með 21/2% vöxtum. Þetta gengur ekki. En sjóðurinn getur ekki fengið ódýrara lánsfé en þetta. Þess vegna verður með einhverjum hætti að skapa möguleika á því að vaxtaákvarðanir Byggingarsjóðs ríkisins séu í einhverju samræmi við þau lánakjör sem sjóðurinn verður sjálfur að sæta úti í þjóðfélaginu. Ég held því að ekki sé annað að gera en horfast í augu við þann veruleika sem þessi till. ríkisstj. birtir. Þó er ég hér með brtt. um tvær undantekningar þannig að lán til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis og sérstök lán til einstaklinga með sérþarfir, sem eru aðallega fatlaðir, verði verðtryggð en vaxtalaus.

Fyrrverandi ríkisstjórn flutti svipaða till. á síðasta löggjafarþingi og það má segja að þessi till. Alþb. nr. 9 sé í samræmi við þá afstöðu sem við þá tókum. Ég hef hins vegar sérstaka till. fram að færa varðandi vexti af lánum Byggingarsjóðs verkamanna og mun ég gera grein fyrir henni hér. 10. brtt. okkar fjallar um greiðsluáætlanir ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins. Það mundi styrkja Húsnæðisstofnunina verulega ef skýr lagaákvæði væru um greiðsluáætlanir og vinnubrögð við gerð þeirra. Slík lagaákvæði mundu m. a. koma í veg fyrir það að menn þyrftu að koma að lokuðum dyrum í veðdeildinni þar sem stendur: „Lokað í dag af því það eru ekki til peningar,“ eins og gerst hefur tvisvar sinnum á þessu ári. Þau vinnubrögð sem hér er gerð till. um mundu hafa í för með sér mun farsælli stýringu þessara mála en nú er um að ræða. Það segir sig sjálft að slíkt mundi bæta mjög aðstöðu félmrh. til þess að stýra þessum málaflokki.

4. mgr. þessarar brtt. snertir annað efnisatriði og er nýmæli í þessari umræðu. Hér er gert ráð fyrir því að þeir, sem hafa eignast sína fyrstu íbúð og fengið lán tvisvar eða oftar, geti orðið að sæta því að lán til þeirra lækki. Eða eins og það er orðað, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt er þó húsnæðismálastjórn, að fengnu samþykki félagsmálaráðherra, að ákveða hærra hlutfall og lengri lánstíma handa þeim sem eru að eignast fyrstu íbúð sína.“

Það er sem sagt gert ráð fyrir því að þeir, sem ekki hafa eignast íbúð áður, geti fengið hærra lánshlutfall og lengri lánstíma en aðrir en aftur þeir, sem hafa fengið lán tvisvar eða oftar, geti orðið að sæta lánalækkun. Það er óskynsamlegt af ríkisstjórninni að opna ekki fyrir slíkan möguleika fyrir húsnæðismálastjórn. Ákvörðun, sem fælist í því að samþykkja þessar brtt., gæti skilað verulegum fjármunum fyrir Byggingarsjóð ríkisins, kannski ekki á þessu, en strax á næsta ári. Það næmi einhverjum tugum milljóna króna. Það er óskynsamlegt að opna ekki fyrir slíka möguleika í húsnæðislögum.

11. og 12. brtt. okkar fjallar sérstaklega um húsnæðissamvinnufélögin. Og þar er gert ráð fyrir því að við 33. gr., aftan við e-lið, bætist ný málsgrein á þessa leið:

„Húsnæðissamvinnufélög geta fengið lán skv. þessum kafla laganna, enda sé tryggt handa þeim sérstakt fjármagn á fjárlögum í útlánaáætlun Byggingarsjóðs verkamanna.“

Það er sem sagt gert ráð fyrir því að við meðferð fjárlaganna verði einnig fjallað um útlánaáætlun Byggingarsjóðs verkamanna á sama hátt og um útlánaáætlun Byggingarsjóðs ríkisins sem áður var gerð grein fyrir.

12. brtt. fjallar síðan um fjármögnun Byggingarsjóðs verkamanna. Þar er um að ræða þrjár till. sem eru nýmæli. sú fyrsta er þessi:

„Gera skal ráð fyrir því að lífeyrissjóðirnir kaupi skuldabréf af báðum byggingarsjóðunum fyrir 30% af ráðstöfunarfé sínu. Byggingarsjóður verkamanna fái þann hluta af þessu fjármagni að nægi til þess að fjármagna þriðjung af árlegri íbúðaþörf landsmanna skv. stafliðum a og b í 33. grein.“

Það er m. ö. o. verið að segja það hér að til þess að ná þessum þriðjungi sé fyrst og fremst verið að fjalla um stafliði a og b í 33. grein. Það sé ekki verið að fjalla þar sérstaklega um staflið c, enda kæmi það félagslega átak sem hann gerir ráð fyrir til viðbótar við þann þriðjung sem samið var um 1974 og lagaákvæðin um Byggingarsjóð verkamanna gera ráð fyrir.

Í staflið e í þessari brtt. er gert ráð fyrir því að þegar á þessu ári verði varið 200 milli. kr. sem gangi til lánveitinga á vegum húsnæðissamvinnufélaga. Þetta eru 200 milljónir miðað við byggingarvísitölu eins og hún er í apríl 1984. Ég vil í þessu sambandi minna á það að á þinginu 1982 var flutt stjórnarfrumvarp um skyldusparnað á hátekjur og fyrirtæki. Ef til þess kæmi að ríkisstjórnin vildi fallast á þessar tillögur um húsnæðissamvinnufélögin sem hér eru á blaði þá eru nógir möguleikar til að benda á tekjustofna til þess að fjármagna þetta sem hér er gerð till. um. Í þeim efnum vil ég t. d. minna á að Seðlabanki Íslands skilaði á síðasta ári 400–500 millj. kr. í hagnað áður en hann fór að fela hann eins og komið hefur fram í fréttum dagblaðanna. Vissulega væri eðlilegt að taka eitthvað af því fjármagni sem seðlabankinn þarna hefur á milli handanna til þess að leggja til húsnæðissamvinnufélaga.

Í f-lið þessarar brtt. er svo gert ráð fyrir því að Byggingarsjóður verkamanna geti fengið fjármuni með öðrum lántökum og sölu spariskírteina til þeirra sem sérstaklega vilja beita sparnaði sínum til þess að efla húsnæðissamvinnufélögin. Hér er m. ö. o. gert ráð fyrir því að gefin yrðu út sérstök spariskírteini, sérstakar sparnaðarviðurkenningar, sem væru tengdar húsnæðissamvinnufélögunum. Ekki væri um að ræða spariskírteini sem í rauninni skiluðu peningum frá þeim þráðbeint inn í ríkissjóð sjálfan heldur spariskírteini sem væru sérmerkt húsnæðissamvinnufélögunum. Með því móti að taka húsnæðissamvinnufélögin inn á þessum mörgu stöðum sem ég hef hér rakið tel ég að komið sé til móts við þá miklu hreyfingu sem þau hafa skapað á undanförnum mánuðum og varð að nokkru leyti til vegna ítrekaðra loforða og yfirlýsinga hæstv. núverandi félmrh. eins og ég mun koma að síðar í máli mínu.

13. brtt. Alþb. er við 39. grein og fjallar um lán í verkamannabústöðunum þegar um er að ræða bílskúr eða bílskýli við verkamannabústaði. Hér tek ég upp tillögu stjórnar verkamannabústaðanna í Reykjavík um að miðað verði við að framvegis verði fylgt sama fyrirkomulagi og ákveðið var hjá verkamannabústöðunum í Kópavogi og í Ártúnsholti í Reykjavík.

14. brtt. Alþb. er ein sú mikilvægasta. Þar er gert ráð fyrir því að lán verkamannabústaðanna verði áfram 90% af kostnaðarverði staðalíbúðar en ekki 80% eins og frv. ríkisstj. gerir ráð fyrir. Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því að með því að hækka kostnaðarhlutfall, framlag þeirra sem fara inn í verkamannabústaðina, upp í 20% erum við að loka verkamannabústaðakerfinu fyrir fjölda fólks sem nú eygir möguleika á því að koma yfir sig mannsæmandi húsnæði.

Þessi vinnubrögð ríkisstjórnarinnar, að ráðast þannig á verkamannabústaðakerfið, eru ekkert annað en svik við þau fyrirheit sem verkalýðshreyfingunni voru gefin við húsnæðis- og kjarasamninga árið 1974. Ég held að í rauninni sparist mjög lítið við þetta fyrir Byggingarsjóð verkamanna, nema ef það væri þá vegna þess að eftirspurn eftir lánum dragist stórkostlega saman. Ef þetta verður samþykkt eins og ríkisstj. gerir till. um mun það hafa þau áhrif að verkamannabústaðakerfið dragist mjög verulega saman frá því sem nú er og nái aldrei þeim þriðjungi sem lofað hafði verið.

Kannski er það ætlun ríkisstjórnarinnar að eyðileggja verkamannabústaðakerfið. Ég spyr hæstv. félmrh.: Er það stefna ríkisstj. að eyðileggja verkamannabústaðakerfið? Ég spyr af marggefnu tilefni. Ekki bara þessu, með lækkun úr 90% í 80%, heldur líka af því að núna er búið að skera niður framlög í verkamannabústaðakerfið þannig að verið er að fresta framkvæmdum við íbúðir sem unnið er við að úthluta til fólks núna þessa dagana. Þess vegna er þessi spurning rökstudd. Er það stefna ríkisstjórnarinnar að eyðileggja verkamannabústaðakerfið?

Það kemur engum á óvart að Framsfl. hafi lítinn skilning á verkamannabústaðakerfinu. Og þegar framsókn og íhaldið leggja saman í þessu efni er ekki á góðu von vegna þess að þessir flokkar hafa aldrei beitt sér fyrir því að efla hið félagslega íbúðabyggingakerfi verkamannabústaðanna í landinu. Það hefur komið í hlut alþýðusamtakanna og annarra stjórnmálaflokka. Framsfl. samþykkti till. verkalýðshreyfingarinnar og Alþb. í húsnæðismálum vegna þess að um það var gerður stjórnarsáttmáli á sínum tíma. Þá drattaðist Framsfl. með að lokum, það er rétt. (Félmrh.: Verkamannakerfið var löngu til áður fyrir atbeina Framsfl.) Verkamannakerfið, fyrir atbeina Framsfl. sem það varð til, það er ansi fróðlegt. Staðreyndirnar um sögu verkamannabústaðanna liggja fyrir í þessum efnum. Staðreyndin er sú að þetta kerfi hefur alltaf verið í hættu þegar þessir tveir flokkar fyrirtækjanna hafa náð saman. (Félmrh.: Þetta er röfl.) Þetta er ekki röfl, hæstv. ráðherra.

Í 17., 18. og 19. brtt. Alþb. er gert ráð fyrir verulegum breytingum á endursölukerfi verkamannabústaðanna. Ríkisstj. leggur til að breyta því kerfi í grundvallaratriðum, að snúa því alveg við. Ég fullyrði að hæstv. félmrh. getur ekki gert grein fyrir því hér og nú hvernig það kerfi, sem hann er að gera till. um, kemur út fyrir eigendur verkamannabústaða í landinu. Eða hvernig vill hæstv. ráðh. í örstuttu máli skýra fyrir þingheimi þessa setningu:

„Seljandi íbúðar skal fá endurgreidda þá fjárhæð, sem hann greiddi af kaupverði íbúðarinnar þegar hann festi kaup á íbúðinni, með 1% vöxtum og verðbótum. Að auki skal hann fá greiddan eftir því sem við á 1/26, 1/33 eða 1/42 hluta upphaflegra lána fyrir hvert ár sem hann hefur átt íbúðina einnig með vöxtum og verðbótum.“

Það væri fróðlegt að fá nákvæma skýringu á þessu atriði. Ekki er annað sæmandi af hæstvirtum ráðherra en að gera grein fyrir því máli hér úr þessum ræðustól því það hefur hann aldrei gert þó málið hafi verið lengi til meðferðar í þinginu.

Ríkisstj. er á villigötum í sambandi við þá gjörbreytingu á endursölukerfinu sem hún gerir till. um. Þess vegna flyt ég þær till. sem fram koma í tölulið 17, 18, 19 og 20 í mínum till. Í rauninni er ég þarna að taka undir þau sjónarmið sem komu samhljóða frá stjórn verkamannabústaðanna í Reykjavík og voru þar studd af fulltrúum allra þeirra stjórnmálaflokka sem þar eiga fulltrúa.

Í 21. brtt. Alþb. er komið að mikilvægustu till. að mínu mati. Þar er gert ráð fyrir hinu samræmda húsnæðislánakerfi sem ég var að tala um áðan. Þar er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því að sá, sem á rétt á láni til þess að byggja eða kaupa í fyrsta sinn skv. 11. grein, á jafnframt rétt á láni hjá sínum viðskiptabanka. Lánið nemur 50% af láni Húsnæðisstofnunar eins og það er á hverjum tíma og sætir sömu kjörum og lán Húsnæðisstofnunar að öllu leyti. Húsnæðisstofnun getur afgreitt lánið til lántakandans og haft milligöngu um lántökuna að öðru leyti, t. d. ef viðskiptabankinn sér sér ekki fært eða neitar að tryggja rétt lántakandans skv. þessari grein.

Hér væri í fyrsta lagi verið að auka verulega rétt þeirra sem byggja og kaupa í fyrsta sinn. En hitt er mikilvægara að með þessu ákvæði, ef samþykkt yrði, værum við að stíga skref inn í það að fella bankana að hinu almenna húsnæðislánakerfi. Ég held að nauðsynlegt sé að við gerum okkur grein fyrir því að við getum aldrei náð utan um þetta kerfi svo skaplegt sé öðruvísi en að bankarnir skili sér inn í þetta kerfi. Ég veit og þekki það af nokkurri reynslu, að það er erfitt að fá bankana til þess að taka þátt í þessu kerfi með skaplegum hætti. Ég held hins vegar að óhjákvæmilegt sé að taka á því verkefni alveg sérstaklega og þess vegna er þessi till. Alþb. flutt.

Í staflið b í brtt. 21 er enn hert á í þessu efni þar sem lífeyrissjóðirnir eru líka teknir inn hér sem lánveitendur, en þar segir:

„Nú á lántakandi, sem byggir eða kaupir íbúð í fyrsta sinn, ekki rétt á láni í lífeyrissjóði þótt hann hafi eigi áður fengið lán og skal hann þá eiga rétt á sérstöku viðbótarláni í Byggingarsjóði ríkisins. Viðbótarlánið verður þá að öllu leyti veitt með sömu kjörum og almennt gildir um lán lífeyrissjóðanna til félagsmanna sinna að því er varðar lánstíma og lánakjör. Þó skulu lán skv. 11. gr., 84. gr. og þessari gr. aldrei nema hærra hlutfalli en 80% af kostnaðarverði íbúðar skv. nánari fyrirmælum í reglugerð.“

Hér er um að ræða mjög þýðingarmikinn og stefnumarkandi þátt. M. a. vegna þess að Alþb. hefur um nokkurra ára bil farið með húsnæðismál í samsteypustjórn taldi ég nauðsynlegt að marka okkar till. alveg sérstaklega og flytja þær með þeim hætti sem ég hef hér gert grein fyrir. Undirstöðuþátturinn í þeirri tillögugerð eru þessir þættir varðandi samræmt húsnæðislánakerfi. Hér er komin fram sú afstaða sem aftur og aftur kom fram af hálfu Alþb. á liðnum árum en náði þá ekki fram að ganga af ýmsum ástæðum. Skal þar engum um kennt fremur en öðrum, það náðist einfaldlega ekki samkomulag um þá leið sem þarna er gerð till. um og kom þar margt til. En hér er komin sú till. sem við vildum fyrst og fremst beita við lausn á þessum vandamálum. Þó mun ég koma að því síðar, herra forseti, að til þess að ná utan um þetta dugir í raun og veru ekki að taka bankana, lífeyrissjóðina og húsnæðislánakerfið inn í, það verður líka að athuga með hvaða hætti er hægt að setja lögbundnar reglur um greiðslukjör á fasteignamarkaði hér á landi, sem eru mun óhagstæðari og verri en tíðkast í grannlöndum okkar, eins og ég kem að síðar í máli mínu.

Ég hef nú, herra forseti, lokið við að fara yfir þær till. sem Alþb. leggur fram við 123. mál þingsins, frv. til laga um Húsnæðisstofnun ríkisins.

Ég ætla í næsta hluta ræðu minnar að gera lauslega grein fyrir því nál. sem ég hef skilað frá öðrum minni hluta félmn. og er dagsett 26. apríl 1984 og birtist á þskj. 690. Í því þskj. eru dregnar saman mjög mikilvægar upplýsingar um húsnæðislánakerfið. Ég tel að þessar upplýsingar ásamt nál. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur skapi mjög glögga mynd af húsnæðislánakerfinu hér á landi og skynsamlegt sé að raða þannig saman í þingskjöl þeim upplýsingum sem fáanlegar eru og mikilvægastar eru um húsnæðiskerfið eða þau mál sem eru á dagskrá þingsins á hverjum tíma.

Fyrsta fskj. með nál. 2. minni hluta félagsmálanefndar er umsögn frá Alþýðusambandi Íslands. 16. febr. s. l. samþykkti miðstjórn Alþýðusambands Íslands umsögn um þetta frumvarp. Það var fimm dögum áður en kjarasamningarnir voru gerðir milli ASÍ og VSÍ, þeir voru undirritaðir 21. febr. eins og kunnugt er. Hvað hefur Alþýðusambandið um þessi plögg að segja sem ríkisstj. er hér að reka í gegnum þingið? M. a. segir um lækkun á lánum verkamannabústaðanna:

„Enginn vafi er á að þetta ákvæði veldur því að mjög stór hópur lágtekjufólks ræður alls ekki við að eignast nýja íbúð í verkamannabústöðum og tapar þannig eina hugsanlega möguleikanum á að eignast viðunandi húsnæði.“

Hvernig vill hæstv. félmrh. svara þessum rökum? Vill hann svara þessum rökum Alþýðusambandsins með einhverjum hætti? Hefur hann einhver gagnrök eða er hann þeirrar skoðunar að stór hópur lágtekjufólks muni ekki ráða við að eignast nýja íbúð í verkamannabústöðum með þeim till. sem hann er að flytja? Hvernig svarar hæstv. félmrh. svona athugasemd frá stærstu stéttarsamtökum í landinu? Ég óska eftir því að hann geri grein fyrir því með rökum í máli sínu hér á eftir þegar hann svarar þeim spurningum og athugasemdum sem fram hafa komið hér í kvöld.

Önnur athugasemd sem ég ætla að nefna frá Alþýðusambandinu snertir breytingar á endursölukerfinu. Aðalathugasemdina tel ég vera þá sem ég nefndi varðandi lækkun á lánum úr 90% í 80% í félagslega íbúðabyggingakerfinu.

Í fskj. II með nál. 2. minni hl. félmn. eru birtar till. til úrbóta í húsnæðismálum frá Alþb. í Reykjavík. Mér fannst rétt að draga þessar till. hér fram, þær eru ítarlegar og vel unnar og voru lagðar fram til sérstakrar umr. á landsfundi Alþb. s. l. haust. Í þessum till. eru dregin saman 10 áhersluatriði og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Húsnæðishópur Alþb. í Reykjavík telur að við stefnumörkun flokksins í húsnæðismálum beri einkum að leggja áherslu á neðangreind atriði:

1. Húsnæði er félagslegt réttindamál á borð við t. d. menntun og heilbrigðisþjónustu. Höfuðatriði félagslegrar húsnæðisstefnu er að skipting húsnæðis milli þegna landsins miðist sem mest við þarfir þeirra en fari ekki eingöngu eftir kaupmætti.

2. Markmið húsnæðislánakerfisins skal vera að ná sem mestum jöfnuði milli landsmanna varðandi húsrými og húsnæðiskostnað en hvoru tveggja er nú mjög misskipt milli þjóðfélagshópa og kynslóða. Val skal vera um eignarhaldsform, þannig að allir geti komist í öruggt húsnæði.“

Hér er minnt á það einkenni sem kannske er mest sláandi á íslenska þjóðfélaginu í dag. Það er sú gífurlega gjá sem myndast hefur, annars vegar á milli þeirra kynslóða sem fengu óverðtryggðu verðbólguniðurgreiddu lánin og hins vegar þeirrar kynslóðar sem nú er að basla við að koma yfir sig húsnæði. Í kjölfar raunvaxtastefnunnar, sem var knúin fram af miklu offorsi fyrir nokkrum árum, hefur í rauninni misvægi og misrétti í húsnæðismálum orðið meira en það hefur áður verið hér á landi. Við skulum gera okkur grein fyrir því að verðbólgulánin, sem menn voru að taka óverðtryggð hér áður, hjálpuðu hinum einstaka launamanni við að eignast örlítinn hlut í þeim ávinningi sem verðbólgan skilaði sumum í þjóðfélaginu Þarna varð á afgerandi breyting með raunvaxtastefnunni sem skapaði vanda fyrir þær kynslóðir sem nú eru að koma yfir sig húsnæði.

Nú verður auðvitað ekki horfið frá verðtryggingarstefnunni, það væri rangt að gera það við þessar aðstæður. En það þýðir þá að við verðum að koma til móts við þetta fólk vegna þess að misvægið og ójöfnuðurinn milli kynslóða í þessum efnum er meiri en á flestum öðrum sviðum og hrópar í himininn.

Þriðja áhersluatriðið í till. Alþb. er þetta:

„3. Stefna ber að því að húsbyggingar miðist mest við þarfir þegnanna, en nú og á næstu árum mun þörfin verða mest fyrir litlar íbúðir. Skipulag íbúðahverfa taki mið af þörfum ólíkra þjóðfélags- og aldurshópa, þannig að ekki komi til einangrunar hópa í mismunandi hverfum eins og nú stefnir í.

4. Leggja ber áherslu á félagsleg íbúðarform. Þar má nefna verkamannabústaði, byggingu leiguíbúða á almennum markaði, á vegum sveitarfélaga, félagasamtaka eða sjálfseignarstofnana, námsmannaíbúðir, byggingarsamvinnufélög, húsnæðissamvinnufélög, íbúðir fyrir aldraða og fatlaða.

5. Húsnæðislánamarkaðurinn verður samræmdur þannig að fjármagn til húsnæðis verði betur nýtt en nú er. Húsnæðislánin þurfa að stórhækka.

6. Efla skal sparnað í þágu húsnæðislánakerfisins. Í stað núv. skyldusparnaðar ungmenna 16–26 ára komi 8% sparnaður 18–24 ára ungmenna og felldar niður allar undanþágur. Einnig verði komið á fót almennum og tímabundnum sparnaði vegna fjármögnunar íbúðakerfisins.“

Hér ætla ég að gera örlítið hlé á þessum lestri og snúa mér aðeins að umr. um skyldusparnaðarkerfið. Það kom ein brtt. frá ríkisstj. í sambandi við skyldusparnaðinn. Hún var sú að skólakrakkar fái skyldusparnaðinn ekki endurgreiddan á því ári, sem skyldusparnaðurinn verður til. Með þessu móti nælir húsnæðislánakerfið sér í 100 millj. kr. á þessu ári frá skólakrökkunum eins og hv. talsmaður n. gerði hér grein fyrir í dag. Segja má að allt er hey í harðindum. Ég tel að þetta sé ekki óskynsamleg till. miðað við allar aðstæður og ég mun fyrir mitt leyti greiða þessari till. atkv. eins og hún liggur fyrir frá stjórnarmeirihlutanum.

En þrátt fyrir ítrekuð tilboð mín til stjórnarmeirihlutans, bæði hér úr þessum stól og í félmn.. Nd., um lagtæringar á skyldusparnaðarkerfinu hefur ríkisstj. ekki treyst sér til þess að fara út í það verk. Ég satt að segja harma það mjög að það skuli ekki hafa verið gert.

Skyldusparnaðarkerfið er í raun og veru orðið þannig að það skilar engum notum, engu gagni fyrir húsnæðislánakerfið. Þess vegna mundi sú aðgerð sem þessi till. Alþb. gerir ráð fyrir, að taka upp óundanþægan 8% sparnað á fólki á aldrinum 18–24 ára þannig að árin 2 upp að 18 árum ég eftir 24 verði felld niður, bæta þetta kerfi mjög verulega.

Auðvitað er það rétt, sem væntanlega hæstv. ráðh. mundu segja í þessu efni, að þetta mundi þýða mikinn tekjumissi í fyrstu umferð fyrir Byggingarsjóðinn. En skyldusparnaðarkerfið er komið að fótum fram, það er búið að reyna á undanförnum árum, m. a. í minni tíð, aftur og aftur að reyna að lappa upp á það og það gengur greinilega ekki miðað við ríkjandi viðhorf í landinu. Þess vegna er þessi till. Alþb. af hinu góða. Ég mundi fagna því mjög ef hæstv. félmrh. sæi sér kleift að setja í gang sérstaka athugun á skyldusparnaðarkerfinu með það í huga að lækka þessi hlutföll en binda þá þeim mun fastar það sem á annað borð sparast og enn fastar en nú er gert.

Sjöunda till. er orðuð á þessa leið, herra forseti: „Fasteignamarkaðurinn verði tekinn til endurskoðunar með það fyrir augum að hann verði betur fær um að sinna hlutverki sínu en nú er. Ákveðnari reglur verði settar um starfsemi fasteignasala sem auki skyldur þeirra og geri þær ábyrgari.“ Að þessu atriði mun ég koma aðeins nánar síðar.

Áttunda till. er þessi:

„Útborgun í eldri íbúðum verði lækkuð í 30–40% og eftirstöðvar lána greiddar á löngum tíma. Réttlætanlegt er að grípa til þvingandi opinberra aðgerða í þessum tilgangi, svo sem með heftum reglum útlána úr Byggingarsjóði ríkisins þannig að lán verði ekki veitt nema útborgun íbúðar sé sannanlega 30–40% af heildarverði. Benda má á að vegna hinnar háu útborgunar og skamma lánstíma, sem hér gildir nú, er þörf kaupenda fyrir opinbert lánsfjármagn miklu meiri en eðlilegt er. Á yfirstandandi ári“ — þ. e. á árinu 1983, ég bið menn að taka eftir þessu — „mundi t. d. lækkun útborgunar úr 75% á gömlum íbúðum í 50% jafngilda 800 millj. kr. opinberu láni til kaupenda.“

Þetta atriði er tekið til sérstakrar meðferðar í nál. 2. minni hl. sem prentað er sem fskj. IX en ég fór fram á það við Fasteignamat ríkisins að það léti mér í té sérstaka grg. um venjur á fasteignamarkaði og þýðingu hans í húsnæðismálum landsmanna. Þessi grg. er mjög vel unnin, í rauninni fyrirmyndarplagg miðað við margt það sem maður á að venjast í þeim efnum. Mjög margt fróðlegt kemur fram í þessu plaggi, m. a. það að heildarvelta fasteignamarkaðarins á Íslandi í fyrra var 6–7 milljarðar kr. Útborgun í þessum íbúðum varð 4.5–5.2 milljarðar kr.

Með þessu móti sjá menn hvað opinbera kerfið er í rauninni lítill partur af þessu dæmi sem við erum að tala hér um. Allt opinbera kerfið er kannske upp á 1–11/2 milljarð. En hér er talað um að velta hins almenna húsnæðismarkaðar hafi verið í fyrra 6–7 milljarðar kr. Þess vegna endurtek ég það að ef menn ekki ná utan um þennan þátt, þ. e. hin almennu greiðslukjör á fasteignamarkaðinum, þá eru menn bara að moka sand í botnlausa fötu vegna þess að það dugir ekki að taka bara á hinum opinberu lánum eins og þau eru.

Níunda till. Alþb. var á þessa leið:

„Tekin verði upp ráðgjöf í fjármálum er tengjast húsnæðiskaupum t. d. á vegum Húsnæðisstofnunar og bankanna.“

Þetta held ég að sé mjög stórt atriði, að fólk sé aðstoðað með ráðgjöf þegar það er að festa kaup á húsnæði. Hér er um að ræða skuldbindingu sem hangir oft á tíðum um háls fólks í mörg ár eða jafnvel áratugi. Þá skiptir ákaflega miklu máli að hvert skref sé vandað sem menn ákveða að stíga í sambandi við þessa þungu fjárfestingu sem er baggi á flestöllum venjulegum heimilum launafólks í landinu.

Tíunda till. snertir svo sérstaklega vanda fólks í dreifbýli.

Mér fannst rétt að vekja athygli á þessu, herra forseti, að með þessum till. til úrbóta í húsnæðismálum hefur Alþb. í Reykjavík unnið upp ítarlegar till. sem mega verða til nokkurrar leiðbeiningar varðandi þann vanda sem við er að glíma í þessu efni. Ég minnti á það hér fyrr að Alþb. hefði á síðustu árum verið aðili að samsteypustjórnum og því ekki komið fram sem skyldi með sínar till. í húsnæðismálum eða ýmsum öðrum slíkum málaflokkum. Þess vegna væri till. um samræmt húsnæðislánakerfi að okkar mati nauðsynleg og sérstaklega nauðsynlegt að koma fram með hana einmitt nú.

Þegar umr. fóru fram í ríkisstj. Gunnars Thoroddsen um efnahagsmál sumarið 1982 lagði Alþb. fram þrjár till. um fjármögnun húsnæðislánakerfisins sem gátu þýtt stórfellda eflingu þess frá því sem var. Að lokum samþykkti ríkisstj. að tvöfalda framlag ríkisins til Byggingarsjóðs ríkisins á árinu 1982. Í fskj. III birti ég þessar till. Alþb. til glöggvunar þannig að menn megi sjá hvaða till. það eru sem við höfum gert varðandi fjármögnun á húsnæðislánakerfinu.

Ég vil vekja sérstaka athygli á því, herra forseti, að yfirskrift fskj. er ekki nógu skýr. Þar stendur: „Úr frv. til l. um ráðstafanir í efnahagsmálum, lagt fram í ríkisstj. sumarið 1982.“ Hér er sem sagt um að ræða frv. sem Alþb. þá lagði fram í þeirri ríkisstj.

Í fskj. IV birti ég dæmi úr umsögnum sem bárust frá fjöldamörgum aðilum. Það var merkilegt að sjá þann mikla fjölda umsagna sem kom um þetta frv. Ég hygg að fá frv. hafi fengið eins rækilega meðhöndlun hjá fjölda félagasamtaka í landinu og þetta frv. Það var greinilegt að fólk fann að hér var verið að fjalla um svo mikilvægt mál að samtökum þess væri skylt að sýna því ýtrustu athygli. Ég birti í þessu nál. aðeins nokkur dæmi, ein þrettán dæmi úr þessum umsögnum.

Því miður verður að segja eins og er að ég hygg að n. hafi ekki farið nægilega rækilega í sameiningu yfir þær umsagnir sem hér er um að ræða. Það má líka heita eðlilegt vegna þess að hér var um að ræða óvenjumikið magn umsagna. Þetta má gjarnan verða okkur til nokkurrar umhugsunar um það hvernig við tökum á móti umsögnum samtaka og stofnana hér í n. þingsins. Hvernig förum við yfir þær? Hvernig tryggjum við það að efni umsagnanna skili sér? Það eru kannske ekki alveg nægilega traust vinnubrögð sem þingið hefur í þessu efni. Ég er út af fyrir sig ekki að taka þetta frv. hér sérstaklega út úr, því fer fjarri, heldur minni ég á þetta vegna þess að það voru óvenju margar og mjög vandaðar umsagnir sem komu frá mörgum aðilum um þetta frv.

Í fskj. V geri ég grein fyrir því með því að birta bréf til formanns félmn. hvað umsóknum um lán úr Byggingarsjóði ríkisins hefur fjölgað stórum frá því sem gert hafði verið ráð fyrir við lánsfjáráætlun. Þar er um að ræða mjög verulegar breytingar frá því sem þá var talað um þannig að vandi Byggingarsjóðs ríkisins er miklu stærri en við töldum, stjórnarandstæðingar, þegar við vorum að ræða um málin við afgreiðslu lánsfjárlaga á sínum tíma.

Á bls. 17 í nál. 2. minni hluta er birt yfirlit yfir lánveitingar á liðnum þremur árum. Þar kemur fram að frumlán, þ. e. a. s. F-lán, hafa verið frá 1072 upp í 1182 á þessum þremur árum. Á næstu árum þar á undan voru þetta miklu fleiri lán. Mjög veruleg fækkun varð á þessum lánum þann tíma sem fráfarandi ríkisstj. sat og ég var í félmrn. Ástæðan var fyrst og fremst þær breytingar á lánakjörum sem urðu á almennum lánamarkaði á þeim tíma.

Ég vek athygli á því að nú er verið að tala um að þessi tala hækki ekki eins og Sjálfstfl. lofaði fyrir síðustu kosningar heldur lækki hún þannig að ekki verði veitt 1000 eða 1100 af 1200 frumlánum heldur séu menn að tala um að því er mér skilst um 750 frumlán á þessu ári. Ég vil spyrja talsmann félmn. meiri hl., hv. 5. þm. Norðurl. e.: Hvenær voru síðast veitt aðeins 750 frumlán hjá Húsnæðisstofnun ríkisins? Hann getur vafalaust fengið um þetta upplýsingar hjá starfsmönnum Húsnæðisstofnunarinnar hvað langt er síðan að starfsemi stofnunarinnar var keyrð svona hrottalega niður eins og núverandi ríkisstj. er að gera.

Í fskj. VI er mjög ítarlega farið yfir skyldusparnaðarmálin sem ég ræddi aðeins um áðan og þar eru birt gögn um það efni frá Húsnæðisstofnuninni. Þar kemur fram að ásókn í endurgreiðslu skyldusparnaðarins er stöðugt þyngri. Hún er því þyngri sem kjörin eru verri almennt í landinu. Það má sjá beina fylgni á milli niðurskurðar kaupmáttar annars vegar og ásóknar í endurgreiðslur skyldusparnaðar hins vegar ef menn fara yfir þessar tölur og aðrar tölur frá Húsnæðisstofnun ríkisins.

Í fskj. VII eru enn birtar upplýsingar um Byggingarsjóð ríkisins og lán á árunum 1976–1983. Í því fskj. sést að aldrei hefur verið hægt að koma lánum niður í 750 á ári eins og gert er ráð fyrir að verði á árinu 1984. Þá eru birtar upplýsingar um innstreymi Byggingarsjóðs ríkisins 1971–1983, greiðsluyfirlit 1977–1983, nýbyggingar á liðnum árum, upplýsingar um staðalíbúðir.

Loks er hér birt fskj. VIII sem ég hefði haft hug á að ræða við hæstv. félmrh. Skyldi hann vera farinn af fundi, herra forseti? (Forseti: Við skulum athuga það.) Að hann hafi sofnað, hafi lagt sig kannske? (Forseti: Hæstv. ráðh. gengur í salinn). Ég þakka hæstv. forseta.

Á fskj. VIII í nál. 2. minni hl. félmn. er birt plagg, þ. e. a. s. mynd af forsíðu í ritinu Búseta. Ég vænti þess að hæstv. félmrh. hafi séð þessa mynd en þetta er mynd af honum sjálfum ásamt nokkrum af forustumönnum félagsins Búseta. Hæstv. ráðh. hefur plaggið undir höndum. Þetta plagg er birt hér í myndriti sem fskj. VIII vegna þess að það er í rauninni sönnun á því að ráðh. hefur með orðum sínum á undanförnum mánuðum ýtt undir þá hreyfingu sem hefur skapast um stofnun húsnæðissamvinnufélaga og í rauninni talið fólki trú um að ríkisstj. mundi þjónusta þetta fólk alveg sérstaklega núna á næstu mánuðum. Yfirlýsingar ráðh. í þessu efni hafa gefið til kynna að fólk mætti búast við einhverjum stuðningi við húsnæðissamvinnufélögin.

Í þessu viðtali á forsíðu Búseta, málgagni húsnæðissamvinnufélaga, segir hæstv. félmrh.:

„Ég hef lagt áherslu á að opna leið inn í kerfið fyrir þetta form.“ Nú hef ég setið í félmn. á fundum og fjallað um þetta mál. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Hvar hefur ráðh. verið að reyna að opna leið inn í kerfið fyrir þetta form? Ekki man ég eftir því að hv. þm. Stefán Guðmundsson, sem var sérstakur fulltrúi Framsfl. í húsnæðismálum í n., hafi verið mikið að reyna að nudda okkur, mér og fulltrúum Sjálfstfl., til þess að finna leið fyrir þetta form. En hæstv. ráðh. sagði þetta við það fólk sem var hundruðum saman að hópast inn í húsnæðissamvinnufélögin í trausti þess að eitthvað væri að marka það sem ráðh. segir. Og hann bætti um betur því í þessu sama blaði segir ráðh:

„Þótt það hafi ekki verið útvegað fjármagn á fjárlögum 1984 til húsnæðissamvinnufélaga á það ekki að hindra að þessu formi á uppbyggingu leiguhúsnæðis sé fundinn staður í húsnæðislánalöggjöfinni. Ég tel síður en svo útilokað að hægt sé að ná samkomulagi um túlkun á félagslegu húsnæði þannig að það hugtak nái til húsnæðis á vegum Búseta.“

Þetta skilja auðvitað allir þannig að hæstv. ráðh. ætli að beita sér fyrir því að húsnæðissamvinnufélögin fari inn í félagslega húsnæðislánakerfið. Það er bara útúrsnúningur hjá ráðh. og ekkert annað þegar hann er að halda því fram að þetta sé einhver misskilningur, hann hafi aldrei meint þetta og aldrei sagt þetta. Ef hann ekki meinti það sem menn skildu af orðum hans þá átti hann að senda út leiðréttingar og gefa aðvaranir til fólks, en það gerði hann ekki. (Félmrh.: Hef ég mótmælt þessu?) Ráðh. hefur ekki mótmælt þessu. (Gripið fram í.) Ráðh. hefur akkúrat ekki mótmælt þessu. En hér kemur svo hv. þm. Halldór Blöndal, undirleiðtogi ríkisstj. í húsnæðismálum, og segir hér í dag: „Húsnæðissamvinnufélögin eru ekki inni í Byggingarsjóði verkamanna, 33. gr. c-lið.“ Það var alveg skýrt. Hv. formaður félmn., Þorsteinn Pálsson, hafði hreinskilni til þess að taka þetta fram á einum af fyrstu fundum n. Þannig hafa formaður félmn. og talsmaður hennar í þessum umr. í dag lýst yfir: „Húsnæðissamvinnufélögin eru ekki hér með.“ Þess vegna er það rangt sem ráðh. sagði í þessu blaði.

Svo er mér sagt að hæstv. ráðh. hafi enn þá einu sinni verið að reyna að þvo sér í sjónvarpinu í kvöld. Og með hverju? Með því að segja: Ja, ef þetta er ekki þarna inni og ef skilningur n. er nú svona og svona og svona þá mun ég flytja frv. um málið. Ég segi við hæstv. ráðh.: Það er lítið skjól að hafa í frv. fyrir þeim næðingi sem stundum er á Íslandi. Það er vont að byggja hús úr pappír jafnvel þótt að það séu frv. sem eru prentuð á þann pappír. Er ágreiningur milli hv. þm. Halldórs Blöndal og hæstv. félmrh. í þessum efnum? Er hv. þm. Halldór Blöndal að fara með fleipur? Er það kannske rangt hjá honum að húsnæðissamvinnufélögin séu ekki inni í c-lið 33. gr. frv.? Ég krefst þess að hæstv. ráðh. geri þegar í stað og áður en umr. heldur mikið lengur áfram, vegna þess að hún á eftir að halda lengi áfram enn, grein fyrir því hvor þeirra hefur rétt fyrir sér í þessu efni.

Ef það er svo að húsnæðissamvinnufélögin komast undir c-lið 33. gr. eins og ráðh. hélt fram — mér er sagt að hann hafi í rauninni lýst því yfir að hann vildi að húsnæðissamvinnufélögin væru inn í þessu kerfi — á hann að setja ofan í við þennan aðstoðarmann sinn, Halldór Blöndal, hv. 5. þm. Norðurl. e. Hann á að skamma hann fyrir að fara með fleipur og blaður og hann á að gera grein fyrir málunum hér á eftir.

En það sem maður óttast er að hæstv. ráðh. sé í bögglingi með málið og viti ekkert hvernig hann eigi að koma því frá sér. Hann sé búinn að segja svo mikið en hafi svo litla peninga að hann sé í ýtrustu vandræðum með að flækja sér í gegnum þetta mál. Sé að róla sér á milli setninga af mikilli fimi oft á tíðum þannig að það minnir stundum á Steingrím Hermannsson, hæstv. forsrh.

Herra forseti. Þær yfirlýsingar, sem núv. félmrh. hefur gefið í sambandi við húsnæðissamvinnufélögin, eru í raun og veru þannig að honum ber siðferðileg skylda til þess að standa við þær. Ég segi: Ráðh. getur fengið stuðning stjórnarandstöðunnar í því efni hér og nú. Ef hann er í vandræðum með þá Halldór Blöndal og Þorstein Pálsson, hv. þm., þá skal stjórnarandstaðan hlaupa þar undir bagga. Þá getur hæstv. félmrh., eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir benti á áðan, samþykkt þær brtt. sem stjórnarandstaðan er hér með. Ráðh. verður hér á eftir að gera grein fyrir þessum málum með miklu gleggri hætti en hann hefur gert. Það er ekki hægt að ljúka þessari umr. án þess að það komi skýrt fram hvoru megin hryggjar húsnæðissamvinnufélögin eru. Er það Halldór Blöndal sem fer með rétt mál eða er það hæstv. félmrh.? Það skal verða skýrt áður en þessari umr. lýkur þó að það þurfi að taka langan tíma. (HBl: Menn verða þá að komast að.) Bíddu rólegur, nóg er nóttin.

Í fskj. IX frá 2. minni hl. félmn., um venjur á fasteignamarkaði og þýðingu hans í húsnæðismálum landsmanna, er birt grg. frá Fasteignamati ríkisins um þessi efni. Grg. er dags. í apríl 1984. Þessi grg. er til fyrirmyndar vegna þess að hún er stutt, glögg og skýr og sýnir okkur í hnotskurn hvaða vandi er hér uppi í sambandi við hinn almenna húsnæðismarkað. Útilokað er að halda áfram umr. um þessi húsnæðismál á þetta breiðum grundvelli öðruvísi en að taka hinn almenna húsnæðismarkað til nokkurrar umr. líka. Því miður er ekki kostur á því að fara mjög rækilega yfir þessa grg. svo góð sem hún er, og ég bið hv. þm. um að kynna sér hana. Ég ætla aðeins að fara yfir niðurstöður þessarar grg. en í henni segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

Helstu niðurstöður þessarar skýrslu eru dregnar saman hér á eftir í samanþjöppuðu formi. Heildarvelta fasteignamarkaðarins var 6–7 milljarðar í fyrra. Útborgun var 4.5–5.2 milljarðar. Fjárþörf áætlast 2.5–3.0 milljarðar.

Sala íbúða er mjög ör á Íslandi. 5–6% af öllum íbúðum eru seldar á ári hverju. Í öðrum löndum er hlutfallið 2–3% .

Greiðslukjör eru mjög óhagstæð fyrir kaupendur. Útborgun er 75% hér en 10–30% er algengt erlendis. Óhagstæð greiðslukjör hafa mikil áhrif á lánsfjárþörf markaðarins í heild. Ef útborgun lækkar úr 75% í 50% jafngildir það 830 millj. kr. til kaupenda. Það er 50% aukning á opinbera húsnæðislánakerfinu.

Vöntun á litlum íbúðum er áberandi, segir Fasteignamat ríkisins. Verð þeirra er hátt og ekki eru teikn á lofti um meira framboð.

Hætta á offramboði er fyrir hendi á vissum flokkum íbúða ef sú þróun sem verið hefur í húsbyggingum heldur áfram. Við fjárfestum árlega hátt í 1.5 milljarði í það eitt að stækka húsnæði á hvert mannsbarn. Þegar höfum við 38 fermetra á mann.

Miklar sveiflur eru á verði íbúða. Frá 1982 til 1983 lækkaði raunverð íbúða á Íslandi um 25%. Fasteignamiðlun er laus í böndum. Margir smáir aðilar fást við fasteignasölu. Samræmingu og festu vantar — og það er Fasteignamat ríkisins, opinber stofnun, sem hér er að tala.

Breyttar forsendur á fasteignamarkaði undanfarin ár gera félitlu fólki mun erfiðara að kaupa en áður. Útborgun — takið eftir — er nú 50% hærri en hún var síðast þegar verðbólgan í þjóðfélaginu var af sömu stærðargráðu og nú.

Erfiðleikar ungs fólks eru miklir og fara vaxandi. Há útborgun er mesti þröskuldurinn eins og er. Þegar frá liður mun verðtrygging og jákvæðir raunvextir þó hafa meiri áhrif, segir hér.

Þess er ekki kostur, herra forseti, að fara mikið ítarlegar yfir þessa góðu greinargerð frá Fasteignamati ríkisins. En í framhaldi af henni mættu menn gjarnan velta því fyrir sér í fullri alvöru hvað er hægt að gera til þess að hafa áhrif á hinn atmenna fasteignamarkað þannig að hann verði ekki eins dyr og þungur fyrir almenning og nú er um að ræða. Ég held að eitt það þarfasta sem hægt væri að gera í húsnæðismálum núna væri að reyna að finna leið að því marki að bæta greiðslukjör á fasteignamarkaði hérlendis. Hvert 1% í þeim efnum er dýrmætara en nokkrar millj., jafnvel 100 millj. í hina opinberu byggingarsjóði. Þetta er í rauninni miklu stærra mál en menn hafa gert sér grein fyrir á liðnum árum. Við borgum hér miklu hærri útborganir í íbúðum en er t. d. í grannlöndum okkar og það gerir þennan markað miklu dýrari og erfiðari fyrir hinn almenna launamann en er í grannlöndum okkar.

Ég ætla ekki, herra forseti, að fara miklu ítarlegar yfir þetta mál að sinni. Ég ætla aðeins að vekja athygli á því sem ég tel að séu megingallarnir á þessu máli eins og er:

Það er í fyrsta lagi að ég sé ekki betur en það sé rétt sem hér kom fram áðan að ríkisstj. ætli ekki á þessu ári að veita 40% af útlánaáætluninni úr ríkissjóði þegar í ár. Ég hef a. m. k. engar tillögur séð um það eða hugmyndir frá ríkisstj. að hún ætli að hækka framlög úr ríkissjóði í Byggingarsjóð ríkisins strax, ef þessi lög verða samþykkt, um 230 eða 240 millj. kr. Þess vegna óttast ég að það sé rétt að þetta 40% markmið sem talað er um verði svikið þegar á fyrsta ári þeirra laga sem menn eru hér að reyna að setja.

Í öðru lagi tel ég það eitt alvarlegasta atriðið við þetta frv. og alla þessa málsmeðferð hvernig yfirlýsingar og loforð félmrh. hafa leikið það fólk sem hefur gengið í húsnæðissamvinnufélögin. Ég sé ekki betur en að ríkisstj. sé að koma í bakið á þessu fólki einmitt í dag. Yfirlýsingar ráðh. í þeim efnum hafa ekki haldið ef þær yfirlýsingar eru réttar, sem fram komu frá hv. þm. Halldóri Blöndal, talsmanni félmn., hér fyrr í kvöld. Það er ákaflega alvarlegt ef ráðh. ætlar að ganga á bak orða sinna með þeim hætti sem margt bendir til að standi til í sambandi við húsnæðissamvinnufélögin.

Þriðja atriðið, herra forseti, sem ég tel mjög alvarlegt í þessu efni er aðförin að verkamannabústöðunum og félagslega íbúðabyggingakerfinu eins og ég hef nú rakið, bæði í þessari ræðu minni og svo áður. Auk þessa eru svo ýmsir tæknilegir gallar á máli þessu eins og í sambandi við endursölukerfi verkamannabústaðanna. Ekki er snert við vandamálum skyldusparnaðarins og fleira mætti til tína í þeim efnum. En fátt er svo með öllu illt að ekki geti eitthvað jákvætt fylgt því og margt er í þessu frv. jákvætt til tæknilegra lagfæringa á lögunum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Þau atriði munum við í Alþb. fyrir okkar leyti að sjálfsögðu styðja.

Ég vil áður en ég fer úr ræðustól leggja fyrir hæstv. ráðh. tvær spurningar. Í fyrsta lagi: Hvaða vextir eru ráðgerðir af lánum Byggingarsjóðs ríkisins eftir að losað hefði verið um þá í lögum eins og hér er gerð till. um? Er ráðh. reiðubúinn til að svara því hverjir verða vextirnir á húsnæðislánum eftir að þetta frv. hefði verið samþykkt sem lög? Og í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðh. að gefnu tilefni vegna yfirlýsinga frá Halldóri Blöndal, hv. þm., hér í dag. Hv. þm. Halldór Blöndal talaði um að samþykkt hefði verið áætlun hjá húsnæðismálastjórn. Ég vil spyrja hæstv. félmrh.: Liggur fyrir ný útlánaáætlun fyrir Húsnæðisstofnun ríkisins á árinu 1984? Og ef svo er hvernig skiptast upphæðir þar á lánaflokka?

Ég hef, herra forseti, í nokkru máli gert grein fyrir þeim atriðum sem við teljum í Alþb. að mestu skipti í sambandi við þessi húsnæðismál og umr. um þau eins og hún stendur varðandi þetta frv. Mörgu hefur þó verið sleppt af því sem snertir þennan mikilvæga málaflokk. En ég vil enda á því að undirstrika það sem ég tel vera aðalatriðið. Það er að lausn á þessum vanda, fjármögnun húsnæðislánakerfisins á Íslandi, fæst aldrei öðruvísi en að okkur takist að tengja þetta saman sem við höfum verið að ræða um hér í dag. Í fyrsta lagi opinbera kerfið, í öðru lagi bankana, í þriðja lagi lífeyrissjóðina og í fjórða lagi að okkur takist að koma á með lögum eða öðrum hætti kerfisbundinni lækkun útborgana þannig að greiðslukjör á fasteignamarkaði verði bætt stórum frá því sem nú er og verði sambærileg við það sem er í grannlöndum okkar. Þetta tel ég að skipti höfuðmáli og vil undirstrika að lokum. Ég vænti þess að hæstv. ráðh. sjái sér sem fyrst fært að svara þeim fsp. sem ég hef lagt fyrir hann hér í kvöld.