13.10.1983
Sameinað þing: 3. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

Umræður utan dagskrár

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Til þessarar umr. var stofnað til að ræða samskipti framkvæmdavalds og þings. Það var tilefnið. Menn geta haft sínar skoðanir á því hvort umræðan hafi þjónað einhverjum tilgangi. Eitt hefur þó verið upplýst og það er það, að hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir að ekki skuli að hans undirlagi hætt störfum stjórnarskrárnefndar. Hann hefur lýst því yfir að hann muni tilnefna fyrir sitt leyti nýjan formann þeirrar nefndar þannig að endurskoðun stjórnarskrárinnar verði haldið áfram. Það er alla vega nokkur árangur og ég fagna því út af fyrir sig vegna þess að þar er verki ólokið.

Annað atriði. Þegar gagnrýnt hefur verið, þrátt fyrir öll fordæmi allt aftur til ársins 1874, að ríkisstj. sniðgangi Alþingi og hafi gert það áður, að ríkisstj., jafnvel einn þingflokkur, beiti valdi sínu til þess að hindra Alþingi í því að koma saman og það leiðir síðan af sér að þingnefndir eru ólögmætar og taka jafnvel þá upp á því að taka sér þann valdastarfa að forsetar þings starfa áfram án umboðs, sem getur jafnvel leitt til hinna fráleitustu fordæma um að menn sem jafnvel sitja ekki á þingi starfi enn með einhverjum hætti í umboði þings, þá eru svörin öll á sömu lund. Þau eru að gluggað er í skræður og sagt er: Ja, það er nú hægt að finna fordæmi fyrir þessu. Það er hægt að finna ýmis dæmi fyrir þessu. Og það er einmitt kjarni málsins.

Hæstv. iðnrh. sagði að hann gæti nefnt mörg dæmi þess að vegið hefði verið með óhæfilegum hætti að þingræðinu, kannske ekki hvað síst í tíð síðustu ríkisstj., og ef þessi umr. er forsmekkur að því uppgjöri sem ólokið er milli annars vegar hinna fornu fóstbræðraflokka, tvíburaflokka Framsóknar- og verðbólguáratugarins, þ.e. Framsfl. og Alþb., þá eigum við vissulega væntanlega von á að heyra ýmislegt fróðlegt í vetur.

En fordæmin afsaka ekki neitt, ekki nokkurn skapaðan hlut, allra síst þegar málum er á þann veg farið að á undanförnum árum hefur farið fram mikil umræða í stjórnarskrárnefnd og hér á Alþingi um veilur í þessu stjórnarkerfi og flokkar hafa jafnvel náð samkomulagi um tillögugerð í frv. að nýrri stjórnarskrá, sem hér hefur verið lagt fram, þar sem menn viðurkenna hreinskilnislega, fulltrúar allra flokka, að þessi fordæmi afsaki ekki neitt. Þau eru víti til að varast. Það liggja fyrir till. um að breyta þessu til bóta, m.a. á þann veg að Alþingi verði kvatt saman þegar kosningum er lokið. Mér þykir vænt um að þeir sjálfstæðismenn standa enn við þá skoðun sína þótt þeir verði að játa að þeir hafa orðið að beygja sig fyrir ofríki Framsfl. í því máli, eins og fram kom bæði í máli hæstv. iðnrh. og í máli formanns þingflokks sjálfstæðismanna, Ólafs G. Einarssonar.

Ég vil ekki hafa um þetta fleiri orð, en þarf þó að leiðrétta það sem fram kom í máli forsrh. Hann eignaði okkur Alþfl.-mönnum þá skoðun að við vildum að Alþingi sæti allt árið. Það er misskilningur. Við höfum lagt fram till. um að starfstími Alþingis verði samfelldur, þannig að þingnefndir, sem við teljum að séu mikilvægur þáttur í starfi þingsins, og þeirra hlut eigi að efla verulega, að þingnefndir t.d. starfi jafnvel þótt Alþingi ekki sitji. Samkv. þessari skoðun er það hægur vandinn fyrir meiri hl. Alþingis að samþykkja með sínu meirihlutavaldi þinghlé, en formlega verði þannig litið á að Alþingi starfi allt árið þó þingið sitji ekki á fundum lon og don allan ársins hring.

Fyrir mitt leyti vil ég líka leiðrétta það, því að mér var eignuð sú skoðun, að ég teldi það æskilega skipan að á Alþingi sitji eingöngu þeir menn sem stunda þann starfa allan ársins hring, atvinnustjórnmálamenn sem ekki hafi önnur störf með höndum úti í þjóðlífinu. Þarna var vitnað til ræðu Eysteins Jónssonar og andsvara Bjarna heitins Benediktssonar í því máli. Ég er alls ekki þeirrar skoðunar. Ég hallast fremur að skoðun fyrrv. forsrh. Bjarna Benediktssonar í því máli. En það er engin þversögn í þessu. Þótt Alþingi hafi samkv. lögum sinn samfellda starfstíma og þingnefndir geti starfað allan tímann, þing eigi að kveðja saman t.d. eftir kosningar, þegar ríkisstj. er mynduð o.s.frv., þá þarf það ekki að sitja allan ársins hring. Guð forði oss reyndar frá því.

Að lokum aðeins eitt. Hv. formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins vildi með einhverjum hætti ætla að ég hefði verið að veitast að formanni í mínum flokki þar sem ég gagnrýndi þá afleiðingu af þingleysi að það er verið að kalla saman nefndir sem ekki hafa formlegt umboð til starfa. Ég tel þetta ósmekklega athugasemd t.d. vegna þess að hann veit að formaður þingflokks Alþfl., eins og allir þingflokkar stjórnarandstöðunnar, krafðist þess ítrekað að þing kæmi saman. Ef þeir sem höfðu vald á því hefðu orðið við þeirri kröfu var hægt að endurkjósa embættismenn þingsins og kjósa í nefndir með eðlilegum hætti. Það var ekki formaður Alþfl. sem kom í veg fyrir það, þvert á móti. Formaður Alþfl. óskaði eftir því að Alþingi yrði kvatt saman og hægt yrði að koma þingnefndum á laggirnar með lögmætum hætti. Það er ekki mín skoðun og felst ekki í þessu máli að það sé verið að banna stjórnarliðum og stjórnarandstæðingum að tala saman. Ekki er ég að amast við því þótt áhugamenn um flugstöð komi saman. En það er ekki utanrmn., eins og þessum vinnubrögðum hefur verið háttað, og formaður Alþfl. hefur væntanlega aldrei haldið því fram, enda sagði viðkomandi formaður þingflokks að þetta hefði verið starfshópur. Það kemur þessari umr. þá væntanlega ekkert við.

(Forseti: Hv. 3. þm. Reykv. hefur þegar talað tvisvar. Þess vegna gerir hann nú aðeins stutta athugasemd.) (SvH: Eins og ég sagði.)