02.05.1984
Neðri deild: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5131 í B-deild Alþingistíðinda. (4500)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég vil segja það fyrst að mér finnst nokkuð undarlegt að heyra það þrásinnis af vörum hv. 2. landsk. þm. að ekki sé nægilega vel séð fyrir fjármögnun Byggingarsjóðs ríkisins eftir því frv. sem hér liggur fyrir. Þessi hv. þm. hefur sjálfur gert brtt. við þá fjármögnun og í þeim brtt. er miðað við að framlag ríkissjóðs verði hið sama og gert er ráð fyrir skv. frv. (JS: Það var meira á þessu ári en gert er ráð fyrir á fjárlögunum.) Fjárlög fyrir þetta ár eru ekki til umr. En hitt má vel vera að þessi hv. þm. sé að hreykja sér vegna þeirrar forsögu sem flokksbróðir hans Magnús H. Magnússon átti sem ráðherra húsnæðismála. Ég man ekki betur en hann hafi á árinu 1979 lagt fram frv. um fjáröflun til húsnæðismála, en á því sama ári voru skatttekjur Byggingarsjóðs ríkisins skertar skv. heimildum í lánsfjárlögum sem munaði því að framlag ríkissjóðs sem hlutfall af ráðstöfunarfé sjóðsins lækkaði úr 49% 1978 í 39% á árinu 1979 vegna skerðingarákvæða í lánsfjárlögum sem ráðh. þessa hv. þm. beitti sér fyrir á árinu 1979. Ég get því vel skilið að hv. þm. þurfi að æsa sig upp þegar það var hans eigin ráðh. sem steig fyrstu skrefin í því að grafa undan fjárhagslegu sjálfstæði sjóðsins.

Ég vil enn fremur minna á að það var stefna Alþfl., og Alþfl. fylgdi þeirri stefnu fram með slíkri hörku og þrautseigju á árinu 1979 að hann sprengdi ríkisstj. á því, að krefjast raunvaxta af fjárskuldbindingum, en gleymdi þó þeim opinberu sjóðum sem voru í hans vörslu. Það er ekki leyndarmál og vita allir sem hér eru inni, að fjárhagur Byggingarsjóðs ríkisins, Byggingarsjóðs verkamanna og Lánasjóðs ísl. námsmanna, svo að þrjú dæmi séu tekin, var drepinn niður vegna raunvaxtastefnunnar og vegna þess að lánskjörin voru ekki löguð hjá þessum sjóðum nógu snemma. Við vitum líka, ef við förum enn lengra aftur í tímann, svo sem 15 ár, til áranna 1970/1971, að þá var það eitt aðalkosningamál Alþfl. að öll lán úr Byggingarsjóði ríkisins ættu að vera óverðtryggð. Það var breyting frá því sem þá hafði verið. Á þeim tíma þótti það vond latína þegar Sjálfstfl. héli því fram að tryggja yrði fjárhagslegt sjálfstæði Byggingarsjóðs ríkisins. Ég veit að hv. þm. minnist þessarar umr. þegar hún fór fram.

Hitt er svo annað mál, að þegar Sjálfstfl. komst til áhrifa í ríkisstj. 1974-1978 beitti hann sér fyrir því að auka á ný eigið fé Byggingarsjóðs ríkisins og á árinu 1978 var framlag ríkissjóðs sem hlutfall af ráðstöfunarfé 49%, eins og ég sagði áðan, og var um 50% á árunum 1976–1978. Þetta er sannleikurinn í því máli.

Hitt er svo alveg ný lagaskýring að halda því fram að þessi ríkisstj. hafi brotið lög vegna þess að hún við gerð fjárlaga þessa árs batt sig ekki við frv. sem Alþingi hafði ekki fjallað um. (JS: Hvenær eiga lögin að taka gildi?) Þau áttu ekki að taka gildi í tengslum við þau fjárlög sem gilda fyrir þetta ár. Lögin eiga að taka gildi skv. brtt. 1. júlí, og að sjálfsögðu verður eftir þeim farið við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár. Þannig hefur það jafnan verið, að ef Alþingi samþykkir lög sem skuldbinda ríkissjóð er tekið tillit til þess á næstu fjárlögum sem samþykkt eru á Alþingi. Það er ekki hægt að taka í fjárlögum fyrir fram tillit til frumvarpa sem Alþingi á eftir að fjalla um og hefur aldrei verið gert, er hreinn útúrsnúningur og til hróplegrar skammar að þrástagast á þessu æ ofan í æ, sérstaklega þegar þess er gætt að hv. þm. hefur sömu hugmyndir og meiri hl. um hversu mikið framlag úr ríkissjóði þurfi til að koma til að byggja upp fjárhag Byggingarsjóðs ríkisins nægilega fljótt. Skal ég svo ekki hafa um það fleiri orð, en vísa til álits 1. minni hl. um það hversu ör uppbygging Byggingarsjóðs ríkisins verður vegna þess ákvæðis sem gert er ráð fyrir í 11. gr.

Ég vil í öðru lagi segja að það vekur mikla athygli hversu eindregna áherslu stjórnarandstæðingar leggja á að í hinu félagslega kerfi verði leiguíbúðir látnar sitja fyrir verkamannabústöðum, að ríkið eigi nú að skipta um með þeim hætti að fólk eigi ekki að eiga þess kost lengur, sem nýtur hinna fétagslegu kjara, að eignast íbúðir sínar eins og verið hefur aðall verkamannabústaðakerfisins frá upphafi. Eins og hugmyndir um Búseta eru, eins og sjálfir forustumenn Búseta lýsa þeim kjörum sem þeim er ætlað að bjóða upp á, er við því að búast að leigutakar í húsum þeirra eigi að greiða jafnmikið í eftirgjald fyrir íbúðina og hinir sem í verkamannabústöðum búa, en eignast þó ekki íbúðina með sama hætti og í verkamannabústöðunum. Þetta er kjarni málsins. Á ég að skilja það svo að það sé stefna Alþfl. og Alþb., ef tveir menn njóta hins félagslega lánakerfis, byggja hjá tveim mismunandi aðilum, annar hjá verkamannabústöðum hinn hjá Búseta, þeir greiða jafnmikið fyrir jafndýra íbúð, greiðslubyrðin á mánuði er jafnmikil hjá báðum, að þá skuli annar aðilinn sifja við lakara borð og ekki eignast hlut í íbúðinni eins og hinn? Er það hugmynd þessara manna að mismuna svo með opinberum lánveitingum þegnum þessa lands í skjóli þess að það sé félagslegt, og er það það sem Kvennalistinn kallar öryggi, að búa við öryggi? Það væri kannske fróðlegt að gera skoðanakönnun hjá því fólki sem býr í verkamannabústöðum og spyrja það að því hvort það vilji ekki skipta. — Þið hefðuð borgað sömu krónurnar, en í staðinn fyrir að eiga 50–60–70% af ykkar íbúð, eigið þið bara einhvern óskilgreindan búseturétt sem svarar kannske 10% af kostnaðarverði íbúðarinnar. Hverjir ætli vilji skipta? Hversu má það vera að þessir tveir verkalýðsflokkar, Alþfl. og Alþb., eru svo heillum horfnir í baráttu sinni fyrir þeim sem verst eru settir að þeir grípa hvert hálmstrá til að slá um sig, hlaupa á eftir hverri tískusveiflu sem kemur og hafa ekki kjark né dug til að standa við það merki sem Héðinn Valdimarsson reisti á sínum tíma? Það væri gaman að fá skýr svör við því. Er það skoðun Svavars Gestssonar, að ef tveggja kosta er völ eigi fremur að setja féð í leiguíbúðir en í verkamannabústað, ef greiðslubyrði þess sem býr í íbúðinni er hin sama? Er það skoðun talsmanna Alþfl. að byggja með þessum hætti upp kerfi sem þvingar verkafólk til að vera ánauðugir þrælar einhvers byggingarsamvinnufélags og geta ekki skipt um íbúð eins og annað fólk í þessu landi, stækka við sig ef börnum fjölgar og þar fram eftir götunum?

Og hvað hafa svo allir þessir ræðumenn sagt um búseturéttinn? Hvernig hafa allir þessir þm. skilgreint og hvernig hafa þeir skýrt hver eigi að vera ábyrgð búseturéttarfélagsins, ef það skyldi ofkeyra sig og fara á höfuðið? Hvað þá? Hver á að vera ábyrgur fyrir því? Hvernig vilja þessir hv. þm. tryggja þá menn sem búa í slíkum íbúðum og hafa keypt einhvern svokallaðan búseturétt? Af hverju er ekki komið fram með það? Hvernig stendur á því að þessir menn, sem hér eru inni, skuli ekki svara því eftir hvaða röð og hvernig eigi að haga inngöngu manna í þessi félög? Hvernig stendur á því, ef við erum að hugsa um þá sem verst eru settir, einstæðar mæður, ungt fólk sem er að byggja yfir sig og annað þvílíkt, að ekki kemur inn í umr. að félag eins og Byggung megi gera kaupleigusamning um þessar íbúðir og fá 80% eða 90% af byggingarkostnaði? Getur þá ekki hvaða maður sem er, hver hópur sem er stofnað sitt byggingarsamvinnufélag, síðan lokað því einfaldlega með því að stofna ekki fleiri byggingarflokka, sett ákvæði um það í stofnskrá að þegar lán eru að fullu greidd skuli félagið gert upp og viðkomandi menn geti skipt á milli sín reytum félagsins? Hvernig hugsa þessir menn sér að fara með þær tekjur sem búseturéttarfélagið hefur, þá eignaaukningu sem verður í þessu byggingarsamvinnufélagi á hverju ári? Er sú eignaaukning tekjuskattsskyld? Ber húseigandanum, þessum leigutaka, til viðbótar við að borga allt það sem íbúinn í verkamannabústaðnum greiðir, líka að borga tekjuskatt til ríkisins vegna þeirrar eignaraukningar sem verður í búseturéttarfélaginu — eða er það hugmynd þessara ágætu þm. að þetta búseturéttarfélag verði undanþegið sköttum? Það væri fróðlegt að fá svör við þessu.

Það er ekki verið að tala um efnisatriði málsins á þennan hátt eða með einhverjum hætti að reyna að hjálpa því fólki sem hefur glapist, segi ég, á Búsetahugmyndinni, að skilja hvað þarna liggur á bak við, heldur er þessu þyrlað upp í moldviðri til að reyna að búa til þá ímynd að þessi ríkisstj. hafi staðið sig verr en hin síðasta í húsnæðismálum og liggur þó fyrir að á s. l. hausti og fram yfir áramót létu ríkisstj. og hæstv. félmrh. sig ekki muna um að borga 50% uppbót á öll þau smánarlega litlu lán sem hæstv. fyrrv. félmrh. veitti á árunum 1982 og 1983 og gat ekki einu sinni staðið við verðgildi þeirra meira en svo að þau fuðruðu upp í 130% verðbólgu.

Svo segir hv. 2. landsk. þm. að litið sé að gert þegar öllum þeim sem eru að byggja íbúð í fyrsta skipti og eiga ekki íbúð fyrir er tryggður sá réttur á þessu ári að fá helming lánsins greiddan mánuði eftir fokheldisstig og síðari hlutann sex mánuðum síðar. Þetta er alger nýjung. Það er algerlega rangt og óverðugt ef verið er að reyna að gefa það í skyn hér í þingsölum að við þetta verði ekki staðið. Um það eru engar hugmyndir, hvorki innan húsnæðismálastjórnar né annars staðar svo langt ég veit, og hafði ég þó samband við menn í þessari stofnun síðast í dag. En þeir sem hafa slakan og lakan málstað geta auðvitað gert lítið úr því, og ég tala nú ekki um þegar hv. þm. hefur um það mörg orð að allir húsnæðislánasjóðirnir séu gjaldþrota, fé skorti til að rétta þá við þó einungis verði staðið við þær skuldbindingar sem verið hefur, en er samt reiðubúinn að taka upp nýja flokka, lána fleiri og fleiri 80% til þess að hinir, sem eftir sitja, lækki úr sínum 29% niður í 25, niður í 20 og tala þó um að greiðslubyrði á slíkum lánum, sem það fólk verður að sæta, er um 20 þús. kr. á mánuði og er þá miðað við 29%. Ætli það væri ekki nær að alþm. hjálpuðust að við að hækka húsnæðislánin hjá öllum, í hvaða félagi sem þeir eru, öllu því unga fólki sem er að vaxa upp, minnugir þess sem hv. 3. þm. Reykv. sagði áðan, að í valdatíð hans var sá reginmunur á að þeir sem áður höfðu eignast hús fengu það gefins að stórum hluta, en þeir sem þá fóru að byggja eru nú að sligast undan húsnæðislánum? Ætli það veiti af að koma öllum til nokkurrar hjálpar og hætta einhverju snikksnakki um óskilgreinda hluti sem menn vilja svo ekki sjálfir standa við þegar að er spurt?

Ég ítreka það sem ég sagði: Ég skora á þm. að standa upp, koma í þennan ræðustól og segja að þeir vilji heldur ráðstafa fjármagni til leiguíbúða með sömu kjörum og nú eru í verkamannabústöðum en að láta fjármagnið beint inn í verkamannabústaðakerfið og gefa fólkinu þannig kost á að eignast íbúðirnar smátt og smátt. Halda menn kannske að það fólk sem horfir til leiguíbúða geti ekki allt eins hugsað sér að eignast sínar íbúðir í verkamannabústöðum ef það þarf ekki að borga meira fyrir það? Er einhver svo glámskyggn að halda að þetta fólk vilji endilega vera háð búseturéttinum? Er einhver hér sem heldur það? Það get ég ekki ímyndað mér. Mér þætti gaman að fá slíka yfirlýsingu. Og ekki vildi ég vera í sporum þess stjórnmálamanns sem tæki þá ákvörðun að segja: Þú skalt annaðhvort ekki njóta hins félagslega kerfis eða taka við búseturéttinum og leiguíbúðinni. — Ég vil segja það fyrir hönd míns flokks að það er ekki hugmynd okkar að skipta á verkamannabústöðum og leiguíbúðum. Þeir sem vilja lyfta því flaggi mega gera það eins ótt og títt og oft og þeim sýnist.