02.05.1984
Neðri deild: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5135 í B-deild Alþingistíðinda. (4501)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Reiðilestur hv. þm. var um margt skemmtilegur og hefur valdið því að þessi umr. hefur nú ekki lognast út af. Þessi reiðilestur var um Búseta. Hér var að tala hv. frsm. meiri hl. félmn. Það er stundum svo í stórveldastyrjöldum að þegar Rússar meina Kínverja þá segja þeir Albanía. Þessari ræðu var greinilega beint til hæstv. félmrh. Hér er lögð fram spurning eftir spurningu sem engum ber eins skylda til að svara eins og þeim manni sem í fyrri umr. lýsti því yfir: Hið nýja form samvinnufélagsskapar í húsnæðismálum, það er flokksstefna Framsfl., það er málið sem ég hef viljað beita mér fyrir, ég vil opna þessa leið, ég tel að þarna sé um að ræða leiðina til þess að ná settu markmiði um þriðjung árlegra íbúðabygginga í félagslegu kerfi.

Reiðilesturinn var greinilega, þó honum væri beint til Alþfl., ætlaður hæstv. félmrh. Það er greinilega talsverð glóð í þessari deilu um það hvor hefur meira til síns máls eða hvor er ráðandi innan stjórnarinnar, hæstv. félmrh., sem í orði kveðnu er einn helsti talsmaður Búseta, eða hv. frsm. meiri hl. félmn. sem hefur allt á hornum sér um þetta félagskerfi. Nú fer ég virkilega að efast um það að hæstv. ráðh. geti náð sáttum eða samkomulagi innan ríkisstj. um það að hans skilningur verði ráðandi í þessu máli. Nú fer að verða mjög brýnt að hv. þm. Stefán Guðmundsson komi í stólinn og taki af tvímæli um það hvoru megin hann stendur, hvort hann er með manninum með reiðilesturinn eða hvort hann er enn í Framsfl. og fylgir ráðh. (Gripið fram í: Framsfl.) Það er einmitt það. En það væri æskilegra að þetta væri ekki aðeins tíst utan úr sal, heldur kæmi upplitsdjarfur maður hér upp í stólinn og tæki af tvímæli um það hvar í flokki hann stendur.

Um reiðilesturinn efnislega er það að segja að fyrst var hv. þm. svo óheppinn að víkja að Alþfl. og segja: Alþfl., flokkurinn sem drap niður fjárhag þeirra sjóða. Hann nefndi þrjá sjóði, Byggingarsjóð ríkisins í fyrsta lagi, í öðru lagi Lánasjóð ísl. námsmanna og hver var þriðji sjóðurinn, hv. frsm.? Hann man það kannske ekki sjálfur. Hvað var það sem hefur stefnt fjárhag þessara sjóða í tvísýnu? Hvað var það sem hins vegar er stærsta aðgerðin og reyndar, eins og ég hef stundum orðað áður, eina vitiborna hagstjórnaraðgerðin sem þó komst í framkvæmd á s. l. árum, hver var það sem kom verðtryggingunni á? Það hlýtur að hafa verið mismæli í reiðilestrinum að halda því fram að verðtrygging fjárskuldbindinga hafi orðið til að eyðileggja fjárhag þessara sjóða, það er þó alla vega öfugmælið stærsta í öllum þessum umr. Það er akkúrat þvert á móti.

Öllum ætti að vera kunnugt um það að hafi tilgangurinn með félagslegu lánakerfi í húsnæðismálum verið sá að tryggja einhvers konar tekjutilfærslu frá hinum efnameiri til hinna efnaminni í þjóðfélaginu þá gerðist því miður þveröfugt á þeim árum þegar lánin voru ekki verðtryggð, þegar lánin voru raunverulega styrkir. Það fer ekkert milli mála að þá var um að ræða tekjutilfærslu t. d. frá leigjendum sem enga aðild áttu að þessu kerfi — en greiddu þó væntanlega sína skatta og skyldur og sín lífeyrissjóðsiðgjöld — og nutu þar af leiðandi einskis í eignaaukningu, nutu einskis verðbólgugróða en tóku vissulega þátt í því að skapa eignaaukningu oft á tíðum hinna betur settu í þjóðfélaginu. Að því er varðar byggingarsjóðina, og sama máli gegnir um Lánasjóð ísl. námsmanna, var verðtryggingin forsendan fyrir því að hægt væri að byggja upp fjárhag þessara sjóða.

Sem betur fer eru þær raddir núna að mestu leyti þagnaðar, raddir eins og hv. frsm., sem vilja hverfa til baka til þess ástands sem ríkti fyrir verðtryggingu. Ég minnist þess t. d. og það vakti sérstaka ánægju mína að í þeim hópi sem kennir sig við Sigtún og gerði uppreisn í húsnæðismálum á s. l. sumri heyrðist ekki ein einasta rödd sem gerði kröfu um það að verðtryggingin yrði afnumin. Og að því er varðar Búseta hefur ekki ein einasta rödd heyrst um það að afnema bæri verðtryggingu lána, ekki ein einasta. (Gripið fram í: Hver hafði það kosningamál 1971?) Að afnema verðtryggingu? (Gripið fram í: Já.) Nú skiptir ekki máli, hv. þm., að fara aftur í kosningarnar 1971. Það sem skiptir máli í þessu efni er hverjir það voru sem beittu sér fyrir, börðust fyrir verðtryggingu fjárskuldbindinga. Hverjir eru það sem hafa fengið allar skammirnar fyrir að hafa komið henni á? Hverjir börðust harkalegast fyrir því, hverjir tóku á sig alla gagnrýnina og óvinsældirnar fyrir að gera það þó að allir menn séu sammála nú um að það var rétt? Það er meginmálið.

Að því er varðar fjárhag Byggingarsjóðs ríkisins og hlutdeild Alþfl. að því. Ég er hér með frv. til laga um Húsnæðisstofnun ríkisins sem var lagt fram af félmrh. Alþfl. í ríkisstjórninni 1978–1979. Frv. er lagt fram seint í þessari stjórnartíð, það var samþykkt af öllum þessum samstarfsflokkum, Alþfl., Framsfl. og Alþb., en því miður náði það aldrei að verða að lögum. Þetta frv. byggði náttúrlega í fyrsta lagi á þeirri forsendu að útlán byggingarsjóðanna, hvort heldur er Byggingarsjóðs ríkisins eða verkamanna, skyldu verða verðtryggð. Í öðru lagi var það eitt sem var aðalsmerki þessa frv., þeirrar leiðar í húsnæðismálum sem það markaði. Það aðalsmerki var að sú nefnd sem undirbjó þetta mál lét sér ekki nægja eins og nefnd hv. frsm. að setja á blað loforð og fyrirheit um að það ætti að stefna að hærra lánshlutfalli sem hlutfalli af byggingarkostnaði eða lægri greiðslubyrði í hlutfalli af tekjum. Sú nefnd sem undirbjó þetta frv. reiknaði það dæmi til enda hvað þyrfti til, til þess að ná þessum markmiðum í áföngum á tilleknum árafjölda.

Það hefur aldrei verið vefengt að sú leið var ákjósanleg sem þarna var farin. Hún var sú að auka óafturkræf framlög ríkissjóðs til byggingarsjóðanna, að byggja upp traustan eigin fjárhag þessara sjóða, draga úr því hversu háðir þeir væru óvissu, takmörkuðu og dýru aðfengnu lánsfé. M. ö. o., ríkisframlögin voru aukin, þörfin fyrir lánsfé var minnkuð. Sérstaklega var þetta gert þannig að því er varðaði Byggingarsjóð ríkisins að honum voru fengnir í þessu tilviki alveg ótvírætt ákveðnir óafturkræfir tekjustofnar.

Þar segir t. d. um þetta sama mál, sem við erum nú að deila um, að Byggingarsjóð ríkisins átti að fjármagna með árlegum framlögum úr ríkissjóði af launaskatti, byggingarsjóðsgjöldum, af tekju- og eignarskatti og af aðflutningsgjöldum. Síðan eru í grg. settar fram dæmaraðir, sem aldrei hafa verið vefengdar, um það að með þessari fjármögnun var tryggt að hægt var að hækka húsnæðislánin til lántakenda sem hlutfall af byggingarkostnaði um 5% á ári. Þannig t. d. væru lán núna, á árinu 1984, ef þetta frv. hefði verið látið í friði, almenn húsnæðismálastjórnarlán úr Byggingarsjóði ríkisins 50% af byggingarkostnaði í stað þess að vera nú aðeins 29%.

M. ö. o., þetta frv., sama hversu flm. segja að það sé stórkostleg framför frá því ástandi sem ríkti í tíð fyrrv. ríkisstj., það nær ekki lengra þrátt fyrir allt, þrátt fyrir allar milljónirnar sem hæstv. félmrh. var að tíunda að núv. ríkisstj. hefði orðið að setja í húsnæðismálakerfið strax á s. l. sumri nær það ekki lengra en svo að boðið er upp á lán sem er tæplega 30%, en ef þetta frv. hér, sem hv. frsm. var með reiðilestur yfir, hefði fengið að standa, þá værum við nú þegar komin með 50% lánshlutfall. Hvað mundi það þýða? Það mundi þýða það að í staðinn fyrir lán á bilinu 5–600 þús. kr. værum við með lán sem væru nú komin vel yfir 1 milljón. Hvað mundi það þýða ef saman væri tekið húsnæðismálastjórnarlán af þessari stærðargráðu og lífeyrissjóðslán? Hvað mundi það hins vegar þýða svo í greiðslubyrði venjulegs húsbyggjanda?

Í þeim gögnum sem lögð eru hér fram af Húsnæðisstofnun er sýnt fram á það, að miðað við 29% lán sem þetta frv. gerir ráð fyrir þarf venjulegur lántakandi að treysta á bæði lífeyrissjóðslán og mjög veruleg bankalán að auki, reyndar af stærðargráðunni 7–800 þús. kr. með þeim afleiðingum að greiðslubyrði fyrstu fimm árin fer yfir 20 þús. kr. á mánuði, sem þýðir auðvitað að slík greiðslubyrði er óviðráðanleg fyrir allan þorra fólks. Með þessu ástandi er munurinn á lánakjörunum sem hinn almenni húsbyggjandi nýtur úr Byggingarsjóði ríkisins og svo hins vegar þeim kjörum sem boðið er upp á í Byggingarsjóði verkamanna orðinn allt of mikill, með þeim afleiðingum að ásóknin í hið félagslega kerfi verður nánast óviðráðanleg, vegna þess að efnaminnsti hlutinn af launþegum er raunverulega og hefur verið á undanförnum árum útilokaður, gersamlega útilokaður frá því að geta ráðið við þau lánskjör sem Byggingarsjóður ríkisins býður upp á. Hann var því í mesta máta óheppilegur þessi reiðilestur í meginatriðum málsins. Í fyrsta lagi árásin á Alþfl. fyrir að hafa grafið undan eiginfjárhag þessara sjóða með verðtryggingarpólitíkinni. Það eru stærstu öfugmælin í allri þessari umr. Verðtryggingin er forsenda fyrir því að við getum yfirleitt haldið uppi sjóðakerfi, hvort heldur er til húsnæðismála eða námsmanna, alger forsenda fyrir því. Það sem hafði gerst áður var einmitt það að þessir sjóðir fuðruðu upp á báli verðbólgunnar.

Í annan stað er síðan forsendan fyrir því að hægt væri að standa við þessi fyrirheit, sem allir taka undir að nafninu til, sú að hætta að vísa byggingarsjóðunum, húsnæðislánakerfinu, í svona stórum mæli á lántökur. Í staðinn er það óhjákvæmilegt verkefni að byggja þá upp með miklu hærri framlögum á fjárlögum beint. Það er forsendan fyrir því að þetta kerfi geti gegnt hlutverki sínu.

Í þriðja lagi má minna á það, að ég man það ákaflega vel að við afgreiðslu fjárlaga í tíð fyrrv. ríkisstj. var hv. 5. þm. Norðurl. e. flm.till. um að hverfa nú aftur að þeirri leið sem Alþfl. hafði markað í frv. 1979. M. ö. o., hann flutti sjálfur till. um það að taka upp markaða tekjustofna fyrir Byggingarsjóð ríkisins í formi launaskatts. Það er till. sem ýmsir sjálfstæðismenn, þeir sem hafa verið talsmenn Sjálfstfl. í húsnæðismálum, hafa flutt á undanförnum árum, bæði hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson og hinn reiði prédikari sjálfur, hv. þm. Halldór Blöndal. Og ég minnist þess að við Alþfl.menn studdum að sjálfsögðu brtt. hans á þeim tíma. Færi betur að hann hefði minnst þessarar till. sinnar þegar hann sat á nefndarfundum við undirbúning þessa frv. s. l. sumar. En það var nú gleymt. Í staðinn er svo komið að það er ekki aðeins verið að vísa byggingarlánasjóðunum á óvissan lánamarkað hér innanlands heldur, þegar þeir standa frammi fyrir því að þessir lánamöguleikar hafa brugðist og ekki stendur steinn yfir steini í upphaflegri lánsfjáröflunaráætlun, þá er gripið til þess ráðs, þess neyðarúrræðis, þess makalausa og óaðgengilega neyðarúrræðis að ætla að fjármagna það sem á vantar með erlendum lánum, gengistryggðum erlendum lánum.

Að því er varðar samanburðinn á verkamannabústöðum og byggingarsamvinnufélögum af því tagi sem Búseti er mundi ég vilja ráðleggja hv. þm. að kynna sér það mál ögn betur en ég hef ástæðu til að ætla af ræðu hans að hann hafi gert. Það er ástæða til að minna á að þetta er ekkert nýstárlegt form. Upplýsingar hafa verið lagðar fram um það að byggingarsamvinnufélög af þessu tagi eru einhverjir öflugustu verktakar og öflugustu aðilar í húsbyggingum í flestum nágrannalandanna. Það er mikil reynsla komin á þetta húsnæðiskerfi og að fenginni þeirri reynslu er alveg ljóst að þetta kerfi hefur annars staðar á Norðurlöndum, í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, að verulegu leyti komið í staðinn fyrir það merki sem Héðinn Valdimarsson hóf hér 1929–1930, þ. e. byggingu sérstakra verkamannabústaða. Fyrir því eru mörg rök. Hagkvæmni þessa kerfis er að mörgu leyti meiri. Ég vek athygli á því að í verkamannabústaðakerfinu er við mjög alvarlegan vanda að fást sem er endurfjármögnun í þessu kerfi sem bindur mjög mikið fé og veldur mörgum vandkvæðum. Þegar um er að ræða hins vegar að menn kaupi sér búseturétt þá nýtist það fjármagn, svona í þjóðhagslegum skilningi, mun betur en í verkamannabústaðakerfinu. Það má nefna dæmi um þetta.

Tökum dæmi af ungum hjónum sem byggja sjálf eigið einbýlishús. Þau fá lánuð 80% af byggingarkostnaði staðalíbúðar, samtals um 2 millj. kr. Auk þess leggja þau fram talsvert eigið fé, þannig að heildarbyggingarkostnaður hússins er um 3 millj. Að tveimur árum liðnum skipta síðan þessi hjón um hús og kaupa sér nýtt einbýlishús. Nýir eigendur fá þá að láni 2 millj. kr. Gerum svo ráð fyrir því að húsið skipti næstu 10 ár um eiganda annað hvert ár, þannig að á þessu tímabili þurfi alls að lána kannske um 10 millj. kr. til þessa eina húss.

Tökum svo dæmi af húsnæðissamvinnufélagi sem byggði 50 raðhús og fengi lánað sem svarar 1.8 millj. kr. til hvers einstaks húss. Ef eitt slíkt einstakt raðhús, byggt af húsnæðissamvinnufélagi, er athugað þá blasir það við að til þessa húss þarf aðeins að veita opinbert lán í eitt einasta skipti. Þegar skipti verða á íbúðum í húsinu verða engin eigendaskipti samhliða því og þjóðfélagið þarf ekki að leggja fram ný og ný húsnæðislán.

Þetta er einn meginkostur kerfisins. Búseturéttaríbúðir þarf aðeins að fjármagna í eitt einasta skipti og ekkert af þeim peningum fer í það að fjármagna hagnað fyrri eigenda né þóknun milliliða. Það er talið að árlega verði eigendaskipti á um 4 þús. íbúðum hér á landi. 80% fjármögnun við öll þessi eigendaskipti væri óframkvæmanleg, jafnvel þótt þess sé gætt að þeir sem eiga íbúð fyrir þurfi ekki á fullu 80% láni að halda. Þetta er bara eitt dæmi um þessa kosti.

Það hefur enginn haldið því fram hér í þessum umr. að leggja eigi af verkamannabústaðakerfið. Það sem um er að ræða er þetta: Vilja menn standa við þau markmið sem sett eru á blað um það að byggja um þriðjung af árlegri íbúðaþörf landsmanna á félagslegum grundvelli? Við getum litið aftur til baka til reynslunnar af verkamannabústaðakerfinu og við sjáum að á grundvelli þess hefur aldrei verið unnt að standa við það markmið. Við höfum ekki náð því. Þegar best hefur látið hefur það kannske nálgast 10% á ári. Ég efast þó um það.

Þess vegna viljum við hleypidómalaust meta aðrar leiðir í hinu félagslega kerfi sem bjóða þeim sem þátt taka í því mjög svo álitlega kosti í samanburði við verkamannabústaðakerfið. Hér er vissulega um að ræða leiguíbúðir, en þær eru gjörólíkar leiguíbúðum eins og við þekkjum þær á almennum markaði. Sá sem er í slíku samvinnufélagi nýtur að langflestu leyti sömu réttinda og um eign væri að ræða, þ. e. hann kaupir sér þennan rétt með sama hætti og um væri að ræða verkamannabústaði. Með aðild sinni að þessum félagsskap leggur hann fram sinn hlut til félagsins, en félagið er hins vegar hinn sameiginlegi eigandi. Þetta byggingarform, sem hefur skilað miklum árangri og reynst vel í nágrannalöndum okkar, hefur alveg ótvíræða kosti. Það er enginn að leggja það til að það útrými verkamannabústöðum, eins og ég sagði, en ég held að það liggi nokkurn veginn ljóst fyrir að við munum aldrei ná markmiðinu um 1/3 árlegrar íbúðaþarfar byggðrar á einhverjum félagslegum grundvelli innan ramma verkamannabústaðakerfisins eins. Það eru full rök fyrir því að það kerfi sem reynst hefur vel að þessu leyti annars staðar á Norðurlöndum muni henta hér vel líka. Aðstæður hér eru að verulegu leyti breyttar með þeim hætti að það er ástæða til þess að þetta form komi upp núna sem álitlegur kostur. Það breytist í fyrsta lagi við það að búið er að taka upp verðtryggingu, og um leið, þegar ekki er betur staðið að fjármögnun á vegum Byggingarsjóðs ríkisins en raun ber vitni, þá er þörfin orðin mjög brýn að leita nýrra leiða.

Þessi umr., sem er nú kannske útúrdúr frá meginumræðunni hér í kvöld, kemur aftur að sömu niðurstöðunni. Það er ekki von á góðu um framkvæmd hugmyndarinnar um búseturéttaríbúðir ef hugarfarið, sem ríkjandi er í stjórnarherbúðunum, er eitthvað í líkingu við reiðilesturinn sem hv. þm. Halldór Blöndal flutti hér áðan. Þess vegna fer það að verða æ brýnna að ítreka áskoranir á hv. þm. Stefán Guðmundsson um að lýsa því nú skýrt og skorinort yfir hver afstaða hans er. Fer hv. þm. Halldór Blöndal með rétt mál þegar hann kveður upp sinn úrskurð í nafni meiri hl. félmn.? Talar hv. þm. Halldór Blöndal í nafni meiri hl.? Er fullkomin eining á milli sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í nefndinni um þennan skilning? Eða er ekki kominn tími til fyrir hv. þm. Stefán Guðmundsson, ef það er rétt sem mér heyrðist í frammíkallinu hér áðan, að Halldór Blöndal færi þarna ekki með rétt mál, að hann taki af tvímæli um það hér úr ræðustóli áður en þessari umr. lýkur?