02.05.1984
Neðri deild: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5144 í B-deild Alþingistíðinda. (4506)

327. mál, Iðnaðarbanki Íslands

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ef hæstv. forseti gerir ekki aths. við mun ég mæla fyrir tveimur frv. samtímis, sem eiga samleið, þ. e. frv. á þskj. 6'l9, þessu sem hæstv. forseti kynnti, og síðan frv. á þskj. 680, um heimild fyrir ríkisstj. til að selja hlutabréf ríkissjóðs í Iðnaðarbanka Íslands hf.

Rétt er í upphafi að gera nokkra grein fyrir aðild ríkisins að Iðnaðarbankanum.

Iðnaðarbankinn er fyrsti hlutafélagabankinn sem stofnaður er hér á landi, ef Íslandsbankinn sálugi er undanskilinn. Fram að þeim tíma sem Iðnaðarbankinn hóf starfrækslu, árið 1953, voru hér eingöngu starfandi ríkisbankar. Það þótti því eðlilegt og ýmsir alþm. töldu það skilyrði fyrir samþykkt sinni á lagasetningu um bankann að ríkið væri stór hluthafi í Iðnaðarbankanum. Þessi viðhorf hafa breyst á liðnum árum. Síðan Iðnaðarbankinn var stofnaður hefur Alþingi samþykkt lög um stofnun þriggja banka, þ. e. Verslunarbankans, Samvinnubankans og Alþýðubankans. Ríkið var og er ekki hluthafi í þessum bönkum.

Í lögum um Iðnaðarbankann er kveðið á um að hlutafé bankans skyldi nema allt að 6.5 millj. kr. og þar af skyldi ríkissjóður leggja fram 3 millj. kr. eða um 46% hlutafjárins. Hlutafé bankans hefur verið aukið nokkrum sinnum. Tvisvar hefur ríkið afsalað sér rétti til hlutfallslegrar aukningar hlutafjáreignar og hefur því hlutdeild ríkisins í bankanum minnkað í 27% af heildarhlutafé hans. Hluthafar í bankanum eru nú 1441 og var nafnverð hlutafjárins hinn 31. des. 1983 samtals 38 492 154 kr. Nafnverð hlutafjár ríkissjóðs í bankanum á sama tíma var 10 391 100 kr. Ákveðið hefur verið að bjóða núverandi hluthöfum í bankanum hlutabréf ríkissjóðs til kaups á samtals 32 millj. kr. sala þessi á hlutabréfunum er háð samþykki Alþingis á því frv. er hér liggur frammi.

Með bréfi dags. 16. apríl sendi iðnrn. öllum hluthöfum bréf varðandi þessi kaup. Varðandi skilmálana um greiðslu á söluverði vísast til aths., en við það er miðað að útborgun sé um 50% af söluverði, en 50% má greiða með vísitölubundnu skuldabréfi til þriggja ára. Iðnaðarbankinn mun sjá um framkvæmd sölunnar á þessum hlutabréfum. Þau hlutabréf sem ekki seljast til núverandi hluthafa mun Iðnaðarbankinn kaupa upp að því marki sem honum er heimilt lögum skv. og bjóða síðan bréfin til sölu á almennum markaði.

Ég vil þá víkja að söluvirði bréfanna, en margir hafa eflaust mestan áhuga á að fá upplýst hvernig það er til orðið.

Í upphafi leitaði iðnrn. til ríkisskattstjóra og óskaði eftir mati hans á verðgildi hlutabréfanna. Ríkiskattstjóri synjaði þeirri beiðni og taldi slíkt ekki í sínum verkahring. Leitað var til Fjárfestingafélags Íslands og það beðið um mat á bréfunum. Enn fremur var kannað verðgildi þeirra hlutabréfa í bankanum sem gengið hafa kaupum og sölum undanfarin ár. Við mat á verðgildi hlutabréfanna var fyrst og fremst tekið mið af verðmæti hreinnar eignar Iðnaðarbankans 31. des. 1983 og áætlaðrar arðgreiðslu af hlutabréfunum. Verðlagning á hlutabréfunum er engan veginn einhlít þar sem hér á landi er nánast enginn verðbréfamarkaður. Hvað er rétt verð á hlutabréfum ríkissjóðs í bankanum er því erfitt að ákveða með nákvæmni.

Eigið fé bankans var hinn 31. des. 1983 143 millj. kr. Þar af var varasjóður og skattalegur varasjóður um 14 millj. Ef litið er á stærsta hluta eiginfjár bankans sem eign hluthafanna, sem það í raun og veru er, má þrefalda nafnverð hlutabréfa ríkissjóðs í bankanum. Það er einmitt það sem gert hefur verið og rúmlega það reyndar. Ég vil ekki heldur vera sakaður um að selja eigur ríkisins á lægra verði en hugsanlegt er að fá fyrir þær. Því hefur verið lýst yfir að verðlagning á bréfunum sé of há, en ég kvíði því engu að þessi hlutabréf muni ekki seljast og af viðræðum mínum við hluthafa á aðalfundi Iðnaðarbankans þann 26. apríl s. l. er ég þess fullviss að sala á hlutabréfunum á þessu verði muni ganga bærilega.

Rekstur Iðnaðarbankans gekk vel á árinu 1983 og hefur reyndar gert það mörg undanfarin ár. Heildarinnlán frá bankanum jukust um 88.4%, en innlánsaukning allra viðskiptabankanna var að meðaltali 80.3%. Hlutdeild Iðnaðarbankans í heildarinnlánum bankanna jókst úr 7% árið 1982 í 7.3% árið 1983. Hagnaður bankans árið 1983 var 12.5 millj. kr. og er þá búið að taka tillit til áætlaðrar greiðslu á tekju- og eignarskatti upp á 14.7 millj. kr.

Ég tel að ekki þurfi að fara fleiri orðum um þessi frv. Eins og áður segir er annað frv. um heimild til sölu hlutabréfa ríkissjóðs í Iðnaðarbankanum, en hitt frv. gerir ráð fyrir nauðsynlegum breytingum á lögum um Iðnaðarbanka Íslands hf. er leiðir af sölu ríkissjóðs á hlutabréfum í bankanum. Breytingarnar eru einungis tvær: sérstaða ríkissjóðs á hluthafafundum er afnumin og hin breytingin er um kosningu bankaráðs, sem verði með hlutfallskosningu á árlegum aðalfundi.

Ég legg mikla áherslu á að mál þessi verði afgreidd á þessu þingi. Ég leyfi mér og það snertir auðvitað það mál sem er á dagskrá, 13. dagskrármálið, að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og iðnn.