02.05.1984
Neðri deild: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5145 í B-deild Alþingistíðinda. (4507)

327. mál, Iðnaðarbanki Íslands

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni stórt hugsjónamál núv. ríkisstj. og ekki síst hæstv. iðnrh. sem hér hefur mælt fyrir frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að selja hlutabréf ríkissjóðs í Iðnaðarbanka Íslands. Eins og fram hefur komið eru yfir 30 ár liðin síðan Iðnaðarbankinn var stofnsettur á grundvelli laga sem samþykkt voru í lok árs 1951. Við stofnun lagði ríkið þessum nýja banka ákveðinn hlut, heimildin í lögunum var um allt að 3 millj. kr. sem ríkið lagði fram til bankans. Allt frá þessum tíma hafa lögin um bankann verið óbreytt að ég best veit, ríkið verið þarna minnihlutaaðili í samstarfi við aðra hluthafa og mér er ekki kunnugt um annað en þetta samstarf hafi tekist vel og verið báðum aðilum, hluthöfum að bankanum öðrum en ríkinu svo og ríkinu og iðnrn. til styrktar í margri grein.

Þegar ég fór með málefni bankans sem ráðh. iðnaðarmála varð ég aldrei var við kvartanir af hálfu aðstandenda bankans annarra en ríkisins á þeirri skipan sem ríkt hefur í þessum málum frá stofnun bankans. Þvert á móti virtist vera mjög góður friður um þessa skipan mála sem er vissulega einstæð hérlendis, að ríkið sé þannig minnihlutaaðili að banka. En af hálfu ríkisins og iðnrn. hefur á liðinni tíð verið leitast við að veita bankanum þann stuðning sem á færi rn. var en í staðinn fékk ríkið, rn., ýmsar upplýsingar frá bankanum, m. a. um stöðu lánamála iðnaðarins.

Ríkið hefur ekki á liðinni tíð það ég veit blandað sér í innri mál bankans og ekki haft neina ástæðu til þess. Mér finnst að það vanti nokkuð skýrari rök fyrir því en hér hafa heyrst frá hæstv. ráðh. hvaða nauður reki menn til þess að fara að selja hlut ríkisins í þessu arðbæra fyrirtæki sem Iðnaðarbankinn er, annað en það þá að fullnægja hugmyndum manna með rökstuðningi í Milton Friedman, Hayek og jafnvel Margréti Thatcher í sambandi við hlut ríkisins að fyrirtækjum. Ég hef lesið það í Morgunblaðinu að á þeim bæ er mikil áhersla lögð á að þessar hugsjónir nái að rætast. Farið var að reka á eftir þessu frv. í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins áður en frv. kom hér fram á hv. Alþingi og komu fram aðfinnslur um það að seint gengi Alþingi að taka afstöðu til þessa þarflega máls að mati Morgunblaðsins.

Ég sé, herra forseti, ástæður til þess aðeins að vitna í þennan leiðara Morgunblaðsins frá 18. apríl s. l. til þess að varpa ljósi á þá áherslu sem þaðan kemur í sambandi við þetta mál, en þar segir m. a.:

„Enginn vafi er á því að hugmyndir og tillögur einstakra ráðh. um að losa ríkið út úr atvinnustarfsemi sem einkaaðilar geta stundað eins vel eða betur mælast almennt vel fyrir. Þess vegna vekur það furðu hve hægt miðar í þessum málum, ekki síst hjá sjálfum fjmrh., en Albert Guðmundsson ræddi þessi mál manna mest á sínum tíma,“ segir Morgunblaðið í þessum leiðara 18. apríl s. l. og ekki í fyrsta sinn upp á síðkastið sem hæstv. fjmrh. fær orð í eyra í því blaði. (Gripið fram í.) Ekki hef ég nú vegið það og metið, hæstv. iðnrh. En þar segir áfram í Morgunblaðinu:

„Þá er undarlegt að Alþingi skuli ekki nú þegar vera búið að taka afstöðu til sölu hlutabréfa ríkisins í Iðnaðarbankanum jafnvel og að öllum málatilbúnaði hefur verið staðið af iðnrh.“

Ég hygg að þetta frv. hafi verið lagt hér fram á hv. Alþingi 26. apríl s. l. en þetta er birt 18. apríl af ritstjórn Morgunblaðsins.

„Sala á ríkisfyrirtækjum og hlutabréfum ríkisins í einkafyrirtækjum er í samræmi við þau viðhorf að ríkið eigi aðeins í undantekningartilvikum að stunda atvinnurekstur í samkeppni við einkaaðila eða leggja fyrirtækjum til fé í formi hlutafjár. Þessi viðhorf setja svip sinn á stefnu ríkisstjórna í þeim löndum þar sem mönnum hefur með skjótustum hætti tekist að fóta sig á heilbrigðum grundvelli fyrir rekstur fyrirtækja eftir að milliliðaafskipti ríkis og stjórnmálamanna höfðu ruglað myndina með þeim hætti að í óefni var komið. Skýrasta dæmið um þetta er sú breyting sem orðið hefur í Bretlandi frá því að ríkisstjórn Margaret Thatcher komst til valda. Og eitt gleggsta dæmið um öfugþróun vegna of mikilla ríkisafskipta er um þessar mundir að finna í Frakklandi þar sem vinstri stjórn sósíalista og kommúnista hefur fest vaxtarbrodd atvinnulífsins í opinberar viðjar og stendur nú frammi fyrir stöðnun og mótmælagöngum.“

Þetta segir m. a. í ritstjórnargrein Morgunblaðsins og það er ástæða til þess að bæta þar ögn við: „Ríkissjóður stendur nú frammi fyrir geigvænlegum vanda og ætlar m. a. að reyna að láta enda ná saman með því að ná stærri hluta af sparifé landsmanna til sín en oft áður og býður í því efni kjör sem standast eiga samkeppni við banka. Óvíst er hvernig þeirri rimmu lýkur. En ríkissjóður á ýmis tromp svo sem eins og það að afla sér tekna með sölu á eignum sínum. Sverrir Hermannsson iðnrh. hefur riðið á vaðið í þessum efnum með sölu á Siglósíld og nú með því að bjóða hlutabréfin í Iðnaðarbankanum.“

Ekki minnist ég þess að hafa séð að mikið ætti að renna í ríkissjóð á næstunni vegna sölu á Siglósíld sem hér er vitnað til. En sennilega er Iðnaðarbankinn betur staddur að þessu leyti. Ég vek athygli á því að þetta fjármagn verður ekki oft notað til að fylla upp í göt á ríkissjóði sem fæst með því að selja eignir ríkisins með þeim hætti sem hér er gerð tillaga um. Menn bjarga sé ekki nema einu sinni með þeim hætti sem hér um ræðir.

Vegna þess að sérstaklega er vitnað til Bretlands af málgagni Sjálfstfl. og Margrétar Thatcher sem þar ræður ríkjum er vert að minna á til hvers efnahagsstefna hennar hefur leitt í sambandi við atvinnumál í því landi, hvernig atvinnuleysi hefur þar magnast og aukist þannig að óvíða er staðan jafn alvarleg í atvinnumálum. Kraumar þar nú og sýður á vinnumarkaði sem kunnugt er vegna efnahagsstefnu hinnar svokölluðu járnfrúar. En ljóst er að hæstv. iðnrh. vill leitast við að feta í fótspor hennar, studdur af Morgunblaðinu, og ekki verður annað séð en að Framsfl. ætli að ganga undir þetta jarðarmen eins og önnur fleiri sem Sjálfstfl. hefur reist honum. Hér eru nú engir talsmenn þess flokks í þingsal til þess að upplýsa það hvort það er gert með glöðu geði og uppréttu höfði eða með ólund og hnípnum huga, en e. t. v. er hægt að fá það nánar upplýst þegar málið kemur til n.

Ástæða er til þess að líta á það sem hæstv. ráðh. gerði hér að umtalsefni, þ. e. söluverð bréfanna. Ég ætla ekki að fjölyrða um það hér en ég vil lýsa yfir andstöðu við þessa sölu hlutabréfa í Iðnaðarbankanum. Ég ítreka fsp. mína til hæstv. ráðh. um það, hvaða rök önnur en þau að uppfylla hugsjónir frjálshyggjumanna liggja fyrir þeirri sölu hlutabréfa í Iðnaðarbankanum sem gerð er till. um með þessu frv, sem hér hefur verið mælt fyrir.

Ég sé raunar að hér er kominn hv. 6. þm. Norðurl. e. Ég var að inna eftir því, hvert væri viðhorf Framsfl. til sölu hlutabréfa í þessu fyrirtæki. Það væri ágætt ef hv. þm. gæti upplýst okkur um sinn hug til þess máls.

En hæstv. ráðh. spurði ég um, hvort það væru einhver rök sem fram hefðu komið hjá talsmönnum bankans og aðstandendum öðrum en ríkinu þar sem knúið væri á um breytta skipan mála með þessum hætti sem frv. gerir ráð fyrir.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til að fjölyrða um hitt frv., 327. mál. Ég sé út af fyrir sig ekki að sú breyting sem þar er lögð til skipti miklu. Það er breyting sem tengist hinu frv. að mér sýnist, en málið fer til n. og fær sína meðferð þar.