02.05.1984
Neðri deild: 78. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5149 í B-deild Alþingistíðinda. (4511)

328. mál, sala hlutabréfa ríkissjóðs í Iðnaðarbanka Íslands

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég veit ekki hvort hv. 6. þm. Norðurl. e., sem hér lýsti skoðun sinni áður, er kunnugt um það að þegar lög voru sett um Iðnaðarbanka Íslands á sínum tíma þá var það Framsfl. og þm. hans sem voru andvígir því að leggja bankanum til hlutafé og yfirleitt að stuðla að því að Iðnaðarbanki Íslands kæmist á fót. Ég er ekki þar með að segja að sá þurfi að vera hugur þm. Framsfl. til þessa banka nú, en ég tel ástæðu til að nefna það, því að miklar umr. urðu hér á Alþingi fyrir 33 árum þegar lög voru sett um þennan banka og það voru fyrst og fremst þm. úr röðum Framsfl. sem snerust þá gegn málinu og töfðu fyrir þessari lagasetningu um nokkurn tíma. En málið var borið fram af þm. í iðnn. þingsins og í samráði við hagsmunasamtök iðnaðarins á þeim tíma.

Varðandi afstöðu hæstv. iðnrh. hér, sem hann greindi frá og ítrekaði, þá vil ég minna á að það er ýmislegt sem mælir með því að ríkið eigi aðild að þessum banka, sem ætlað er öðru fremur að sinna málefnum iðnaðarins og lána til iðnaðarverkefna. Hér fyrir hv. Alþingi liggur nú frv. til l. frá hæstv. iðnrh. um breytingu á lögum um Iðnlánasjóð, lagabreyting sem snertir Iðnrekstrarsjóð, sem lagt er til að verði lagður niður og verði starfræktur sem deild í Iðnlánasjóði, en Iðnaðarbankinn sjái um fjárreiður sjóðsins. Hér er um að ræða sjóð sem á að fjalla um stefnumarkandi mál í sambandi við iðnþróun og lána til áhættuverkefna á því sviði. Ég vakti athygli á því þegar þetta mál var hér til 1. umr., en það er nú í n. til meðferðar, að það væri nokkuð tvísýnt að ætla einkabanka þetta vörsluhlutverk sjóðsins vegna þess að þarna væri að verða breyting á að því er heyrst hafði með því að afsala ríkinu hlut í Iðnaðarbankanum. Þetta vildi ég nefna hér, því að það tengist öðru máli sem er til meðferðar í þinginu.