03.05.1984
Sameinað þing: 85. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5152 í B-deild Alþingistíðinda. (4526)

75. mál, flugbraut á Egilsstöðum

Frsm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Atvmn. Sþ. hefur fjallað um till. til þál. um nýja flugbraut á Egilsstöðum og leitað umsagna ýmissa aðila um þessa till.

Með bréfi, dags. 6. febr. s. l., skipaði samgrh. nefnd til að vinna að tillögugerð um framkvæmdir í flugmálum. Skv. erindisbréfi nefndarinnar skal hún semja áætlun um almenna flugvelli sem taki til framkvæmda við flugbrautir, öryggistæki, tækjageymslur, flugskýli og flugstöðvar.

Í þessu bréfi segir m. a.:

„Við samningu þessarar áætlunar verði lögð áhersla á flugvöll á Egilsstöðum og flutning flugbrautar þar.“ Það er því ljóst að hæstv. samgrh. leggur mikla áherslu á að flugvöllur á Egilsstöðum verði forgangsframkvæmd. Hins vegar er ljóst að framkvæmdir hljóta að vera háðar samþykki Alþingis, m. a. með ákvörðun í tengslum við fjárlög.

Atvmn. Sþ. varð sammála um að leggja til að þessari till. yrði vísað til ríkisstj.